23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3188 í B-deild Alþingistíðinda. (2797)

360. mál, fjáröflun fyrir Bjargráðasjóð

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Gunnarsson og Steinþór Gestsson hafa gert að umtalsefni stöðu Bjargráðasjóðs og spurst fyrir um það, hvort ekki væri í ráði að taka þau mál til endurskoðunar.

Ríkisstj. hefur þegar skipað nefnd til þess að endurskoða hlutverk og tekjustofna Bjargráðasjóðs. Ég veit að hv. þm. muna eftir því, að sú nefnd starfar á vegum félmrn. vegna þess að Bjargráðasjóður heyrir undir það ráðuneyti. Þess vegna hefur það ekki getað verið hlutverk landbrn. að setja nefnd í þetta verk. Ég hef hins vegar hvatt mjög til þess, að það væri gert, og það raunar um langan tíma.

Ég veit ekki betur en að nefndin hafi þegar verið skipuð, a.m.k. er frá því gengið fyrir nokkru. Mjög er nauðsynlegt að í þetta verk verði ráðist, og ég tel að það sé hvergi ofsagt sem hér var rætt um af hv. þm. Árna Gunnarssyni, að það gengur ekki að byggja starfsemi sjóðsins á lántökum í sífellu. Það er hins vegar misskilningur hjá hv. þm. að sjóðurinn hafi byggt starfsemi sína á erlendum lánum. Hann hefur til þessa tekið innlend lán og sú fjáröflun, sem nú hefur farið fram til að mæta þeim vanda sem nú er við að fást, er innlend fjáröflun.

Einhvers staðar hef ég sagt frá því í sambandi við fjáröflun til Bjargráðasjóðs annars vegar og fjáröflun til Viðlagatryggingar hins vegar, að einn bóndi í minni sveit greiðir meira til Viðlagatryggingar en sveitarfélagið í heild auk Bjargráðasjóðs. Þetta eru ekki jöfn skipti, þetta er ekki eðlileg fjáröflun til tveggja sjóða af þessu tagi. Það er útilokað annað en að breyta lögum um Bjargráðasjóð þannig að hann hafi tryggari tekjustofna og geti verið þess megnugur að standa á eigin fótum til að sinna því hlutverki sem honum ber.

Annar þáttur þessa máls, sem fram kom í máli hv. þm. Árna Gunnarssonar, var að skattalög eru svo haganlega úr garði gerð, ef maður orðar það svo, að lánveitingar úr Bjargráðasjóði, sem allajafna bera nokkru lægri vexti en lán á almennum lánamarkaði, verða til þess að þeir, sem þau taka, fá verulega tekjufærslu. Þessi lán geta þess vegna orðið skattstofn til ríkisins. Þetta er auðvitað einn þáttur í þeim ákvæðum skattalaganna sem hér um ræðir og er eða getur a.m.k. orðið ósanngjarn.

Ég vil ekkert um það segja, hvort þessum ákvæðum skattalaga verður breytt nú. En ég tel að skattalögin séu að þessu leyti þannig að það þurfi a.m.k. að gæta vel að því, að þau leiði ekki til þess, að þeir, sem verða fyrir sérstökum óhöppum og hljóta aðstoð til að mæta þeim óhöppum af hálfu opinberra aðila, verði kollsigldir af skattlagningu. Þetta er út af fyrir sig verulega alvarlegt mál og við höfum auðvitað haft þetta fyrir augum frá því að skattalögin voru færð yfir í þetta form fyrir nokkrum árum, að ég hygg á árinu 1978. Ég held að þegar menn sjá reynsluna af þessum ákvæðum skattalaganna muni ýmsir sannfærast um að þar sé breytinga þörf.

Hv. þm. Árni Gunnarsson ræddi um till. um kalrannsóknir. Ég hef ekki mikið fylgst með þeirri till. hér í þinginu, en veit þó af henni. Auðvitað hefur mikið verið unnið að kalrannsóknum í áratugi hér á landi. En það er rétt, að einn af starfsmönnum tilraunastöðvarinnar á Möðruvöllum hefur aflað sér sérstakrar þekkingar í þeim efnum. Ég beitti mér fyrir því, að útvegað væri fjármagn til að geta nýtt kunnáttu þessa manns við kalrannsóknir á síðasta ári, og ég hygg að það hafi orðið til þess, að þekking hans gæti nýst betur. Vissulega er þörf á að sú vísindaþekking, sem okkar færustu menn ráða yfir í þessu skyni, nýtist bændum og þar með þjóðinni allri og geti orðið til þess að draga úr áföllum af kali svo sem hér hafa orðið og við erum nú að ræða afleiðingarnar af.