23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3189 í B-deild Alþingistíðinda. (2798)

360. mál, fjáröflun fyrir Bjargráðasjóð

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að loksins skuli komið að því, að út rætist hjá þeim bændum sem hafa orðið fyrir þungum skakkaföllum á s.l. hausti. Á hinn bóginn get ég ekki skilið þau orð hæstv. ráðh., að tómlæti sveitarfélaganna hafi valdið þeim drætti sem orðið hefur á því að kartöflubændur við Eyjafjörð fengju úrlausn, sem er sérstakt mál og öðru óviðkomandi í þessum efnum.

Ég verð líka að segja það með fullri virðingu fyrir hæstv. fjmrh., sem ekki er hér staddur, að stundum hefur hann notað vafasamari lánsfjárheimildir til að afla lánsfjár bæði hér og erlendis en þá heimild sem samkomulag varð um við afgreiðslu fjárlaga. Auðvitað er í fjárlögunum fullnægjandi heimild til þess að taka lán handa Bjargráðasjóði til að endurlána bændum vegna afurðatjóns af völdum kals og uppskerubrests. Hitt er ekkert annað en fyrirsláttur til þess að reyna að slá striki yfir vanrækslusyndir ríkisstj. í þessu máli. Ég get vel skilið að hæstv. landbrh. skuli taka það fram, að það sé í höndum hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. að sjá um fjármagnið, lántökurnar til Bjargráðasjóðs. Ég trúi því að hann segi það satt, að þangað megi rekja þennan slóðaskap. Samt sem áður verður hann að sætta sig við það, að hann getur ekki með öllu firrt sig ábyrgð af þessu tómlæti.

Bændur hafa auðvitað orðið fyrir verulegu tjóni vegna þessa dráttar. Aðstoð Bjargráðasjóðs kemur ekki að sömu notum og hún hefði gert ef ríkisstj. hefði verið fyrr á ferðinni og þetta fjármagn hefði borist fyrr. Auðvitað kemur fjármagnið ekki að jafnmiklum notum nú og þá hefði verið.

En sem sagt, málið er loksins að komast í höfn og er ástæða til að fagna því. En ég vil um leið taka undir þau orð hv. 6. þm. Norðurl. e., að það ríkir náttúrlega óskaplegt tómlæti um mörg af helstu málefnum bænda. Ég tala nú ekki um þegar hugurinn beinist að kalrannsóknunum og því, hversu illa er staðið að uppbyggingu tilraunastöðvarinnar á Möðruvöllum fyrir norðan. Ég veit satt að segja ekki hvernig á að lýsa því, en þar er búið að kasta miklu fé á glæ með því að reisa hús hálfvegis, festa fjármunina svo að þeir komi engum að notum og halda uppi hallærisbúskap á jörð sem á að vera til fyrirmyndar. En það var auðvitað ekki við öðru að búast. Um leið og eyfirskir bændur slepptu hendinni af tilraunabúinu og afhentu það ríkinu hlutu þeir að finna að húsbóndinn var orðinn annar. Það var ekki við því að búast, að myndarlega yrði staðið að þessum rekstri eftir að ríkið tók við honum. Þetta er það sem maður reynir oft þar sem hin dauða hönd ríkisins kemur nálægt.