23.03.1982
Sameinað þing: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3192 í B-deild Alþingistíðinda. (2809)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár að gefnu tilefni, er varðar mál sem er í senn mikilvægt og þolir ekki bið.

Svo sem alkunna er urðu þau tíðindi 12. mars s.l., að iðnrh. gaf orkumálastjóra fyrirmæli sem jafngiltu riftingu á skriflegum samningi sem Orkustofnun hafði gert við Almennu verkfræðistofuna vegna jarðvegsrannsókna í Helguvík, þar sem ætlunin er að reisa hina nýju eldsneytisgeyma fyrir varnarliðið. Menn hafa verið furðu lostnir yfir þessu framferði hæstv. iðnrh. Virðist svo vera hvort sem um er að ræða stjórnarsinna eða stjórnarandstæðinga. A.m.k. telur hæstv. utanrrh. þetta framferði einstætt í sinni röð og bregður samráðh. sínum, hæstv. iðnrh., um valdníðslu.

En þessi stjórnsýsluathöfn hæstv. iðnrh. vekur fleiri spurningar. Hvað um heimild hæstv. iðnrh. til þeirrar ákvarðanatöku sem hér er um að ræða? Þetta er spurning um hvort æðra sett stjórnvald gengur inn á svið lægra setts stjórnvalds með ólögmætum hætti. Þetta er spurning um hvort hæstv. iðnrh. hafi haft heimild til ákvörðunar sinnar eða hvort um valdþurrð gæti verið að ræða.

Ástæðan fyrir því, að ég vek athygli á þessu, er sú, að Orkustofnun hefur sérstaka stjórn og ekkert hefur komið fram um aðild stjórnar Orkustofnunar að því sem gerst hefur. Það hefur ekkert komið fram um að stjórn Orkustofnunar hafi tekið ákvörðun um að rifta samningnum við Almennu verkfræðistofuna að hafi mælt fyrir um það eða raunar hafi nokkuð vitað um það.

En hvað er þá um skipun og hlutverk stjórnar Orkustofnunar — þessarar stjórnar sem svo litlar sögur fara af, jafnvel þegar svo stór mál eru ráðin á vegum Orkustofnunar sem nú er raun á með riftun samningsins við Almennu verkfræðistofuna?

Með bréfi iðnrn., dags. 1. ágúst 1980, var skipuð nefnd til að gera tillögur um endurbætur á innra skipulagi og stjórnsýslu Orkustofnunar. Hinn 15. des. 1980 skilaði nefndin áfangatillögum ásamt greinargerð og var þar m.a. lagt til að skipuð yrði stjórn Orkustofnunar. Í samræmi við þessar tillögur ákvað iðnrh. að skipa þriggja manna stjórn Orkustofnunar. Stjórnin skyldi hafa með höndum yfirstjórn stofnunarinnar, fjalla um stefnu hennar, skipulag og starfshætti og fara ásamt orkumálastjóra með tengsl við iðnrn. Í samræmi við þetta skipaði hæstv. iðnrh. með bréfi, dags. 24. febr. 1981, þriggja manna stjórn fyrir Orkustofnun. Fram til þessa hafði Orkustofnun ekki haft sérstaka stjórn, heldur heyrt beint undir iðnrh.

Þessi skipulagsbreyting á Orkustofnun þótti umtalsverð og gerði hæstv. iðnrh. grein fyrir henni í umr. hér á hv. Alþingi í aprílmánuði s.l. Vitnaði hæstv. iðnrh. þá til greinargerðar þeirrar nefndar sem vann að tillögugerð um endurbætur á innra skipulagi og stjórnsýslu Orkustofnunar. Ráðh. sagði þá að markmiðið með skipulagsbreytingunum væri að bæta almenna stjórnun og stjórnsýslu á Orkustofnun og skapa þannig grundvöll fyrir árangursríkari rekstri. Orkustofnun hefði stækkað verulega á s.l. áratug, bæði hvað varðar starfslið, fjármagn til ráðstöfunar og fjölda einstakra verkefna. Skipulag stofnunarinnar hefði hins vegar ekki að sama skapi þróast til aðlögunar breyttum aðstæðum. Ætti þetta sérstaklega við um yfirstjórn stofnunarinnar. Megininntakið í áfangatillögum nefndarinnar væri breikkun efsta stigs stjórnar á Orkustofnun, eins og það var orðað, aukin áhrif almennra starfsmanna á stjórnun og starfshætti og efling stjórnsýslu og fjármálastjórnunar á stofnuninni. Auk þess væri hér um að ræða ráðstafanir til að efla tengsl stofnunarinnar við iðnrh. og til að skapa möguleika á betri samhæfingu við hina ýmsu orkumálaaðila landsins.

Í þessum umr. tók hæstv. iðnrh. enn fremur fram með tilvitnun í tillögur endurskoðunarnefndarinnar, að stjórn Orkustofnunar skuli hafa með höndum yfirstjórn stofnunarinnar, marka henni stefnu, fjalla um skipulag og starfshætti og fara ásamt orkumálastjóra með tengsl stofnunarinnar við iðnrh. Tekið var fram að í verkahring stjórnarinnar yrðu allir þættir stjórnunar, almennrar starfsemi og starfsmannahalds á stofnuninni, þ. á m. stefnumótun, samþykkt verkefna og fjárhagsáætlana og stefnumörkun í samskiptum við aðila utan stofnunarinnar. Enn fremur tók hæstv. iðnrh. fram að hann teldi að með því að setja Orkustofnun stjórn væri stigið skref sem að bestu manna yfirsýn hefði verið rétt að stiga og yrði stofnuninni til framdráttar.

Það er ekki að ófyrirsynju að mönnum komi í hug stjórn Orkustofnunar þegar slíkir atburðir verða sem riftun samnings Orkustofnunar við Almennu verkfræðistofuna, og óneitanlega gegnir það nokkurri furðu, að ekkert skuli hafa heyrst til stjórnar Orkustofnunar þegar slíkir atburðir hafa gerst viðvíkjandi Orkustofnun sem raun ber nú vitni um. Mér virðist bresta mjög á að hv. Alþingi og raunar almenningur í landinu fái þær upplýsingar sem hann á rétt á um hlut stjórnar Orkustofnunar í því sem nú hefur gerst.

Það verður ekki lengur þagað þunnu hljóði um þetta mál og því hef ég núna hreyft þessu máli utan dagskrár. Hér er um mál að ræða sem er í senn mikilvægt og þolir ekki bið, eins og ég áður sagði.

Ég leyfi mér að óska eftir að hæstv. iðnrh. gefi hv. Alþingi upplýsingar um hver eru afskipti stjórnar Orkustofnunar af samningi stofnunarinnar við Almennu verkfræðistofuna? Var samningurinn gerður með vilja og vitund stjórnarinnar? Hefur ráh. haft samráð við stjórnina um aðgerðir sínar vegna samningsins? Hver er afstaða stjórnarinnar til samningsins og aðgerða ráðh.?

Það, sem hér er spurt um, varðar formhlið þessa mál. Það er spurningin um valdþurrð. Þar að auki er efnishlið málsins. Það er valdníðsla hæstv. iðnrh., eins og hæstv. utanrrh. hefur orðað það.

Það var í gær sem iðnrn. gaf út fréttatilkynningu um samning Orkustofnunar og Almennu verkfræðistofunnar um jarðfræðilegar rannsóknir í Helguvík. Í fréttatilkynningunni segir að iðnrn. hafi lokið hinn 18. þ.m. við athugun á samningum Almennu verkfræðistofunnar og Orkustofnunar. Niðurstöður rn. hafi verið þær, að samningarnir séu haldnir annmörkum, eins og það er orðað. Helsti annmarkinn, sem tilgreindur er, varðar sjálf Ólafslög, lög nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. Fer nú gamanið að kárna þegar hæstv. iðnrh. ber svo fyrir brjósti stolt hæstv. utanrrh., hin svokölluðu Ólafslög, að hann sést ekki fyrir í þeim efnum og beitir valdníðslu að dómi hæstv. utanrrh. til varnar Ólafslögum. Þá var því aldrei spáð, að til þess gæti komið að Jarðboranir ríkisins veittu byggingarleyfi eða boranir jafngiltu slíkum stjórnvaldsráðstöfunum, en fréttatilkynning iðnrn. virðist gera ráð fyrir slíku, og er það þó ekki meira bull en annað sem þar segir.

Í fréttatilkynningunni segir að iðnrn. hafi lokið 18. þ. m. athugunum á samningum milli Almennu verkfræðistofnunnar og Orkustofnunar, en niðurstöður voru fyrst birtar í gær. Flest er nú dapurt við málsmeðferð hæstv. iðnrh. þegar slíkur háttur er á hafður, þó að erfðaskrá sé að vísu ekki birt fyrr en andlátið ber að.

Hæstv. iðnrh. ber nú skylda til að skýra fyrir alþm. aðgerðir sínar og framferði allt vegna jarðfræðirannsóknanna í Helguvík. Hæstv. ráðh. ber að svara ásökunum hæstv. utanrrh. um valdníðslu. Hæstv. ráðh. ber að gefa skýringu á því, hvers vegna stjórn Orkustofnunar hefur ekki komið við sögu í þessu máli. Hlutur hæstv. iðnrh. er ekki góður, hvort heldur framferði hans heyrir undir valdníðslu eða valdþurrð.

Í fréttatilkynningu iðnrn. frá í gær segir að athugun og breytingar á samningum Orkustofnunar og Almennu verkfræðistofunnar sýni að slíkrar athugunar hafi verið full þörf. Í þessari fullyrðingu felst vantraust og ásökun á hendur stjórn Orkustofnunar. Það er stjórn Orkustofnunar sem á að vera ábyrgð á þeim samningum sem stofnunin gerir. Hæstv. iðnrh. lýsir ábyrgð á hendur stjórn Orkustofnunar og þá fyrst og fremst á hendur formanni stjórnarinnar, borgarstjóranum í Reykjavík. Ef stjórn Orkustofnunar ber ábyrgð á svo stórfelldum mistökum við samningsgerðina við Almennu verkfræðistofuna sem hæstv. iðnrh. vill vera lát ber honum að gera ráðstafanir til að slíkt endurtaki sig ekki, veita stjórninni áminningu eða jafnvel víkja henni frá. Ef hins vegar hið sanna er að stjórn Orkustofnunar hafi hvergi komið nærri þessum samningum ber að upplýsa það og leysa stjórnina undan tilefnislausu ámæli. Eftir því sem við veltum þessu meir fyrir okkur verður augljósari nauðsyn þess, að hæstv. iðnrh. svari refjalaust þeim fsp. sem ég hef lagt hér fyrir hann.

Að sjálfsögðu má ekki farast fyrir að hæstv. iðnrh. tjái sig um það efni sem nú er brennandi spurning. Það er spurningin um hvort samningum Orkustofnunar og Almennu verkfræðistofunnar hefur verið rift eða ekki. Um þetta er ágreiningur svo sem kunnugt er. Annars vegar heldur hæstv. utanrrh. því fram, að samningunum hafi verið rift. Hins vegar segir hæstv. iðnrh. að samningunum hafi ekki verið rift. Óneitanlega varðar miklu hvor þeirra félaga, hæstv. utanrrh. eða hæstv. iðnrh., hefur á réttu að standa. Ég vænti þess, að þeir tjái sig báðir um þetta efni í þessum umr. Ef þeim kemur ekki saman um hver staðreyndin er í þessu efni, óska ég eftir að hæstv. forsrh. skýri í þessari umr. frá því, hver skoðun hans og ríkisstj. í heild er á þessu máli. Undan því verður ekki skorast. Það er það minnsta að hæstv. forsrh. geri hv. Alþingi grein fyrir skoðun ríkisstj. í svo mikilvægu máli sem hér um ræðir.