23.03.1982
Sameinað þing: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3200 í B-deild Alþingistíðinda. (2812)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég átti satt að segja ekki von á að Morgunblaðinu bættist sá liðsmaður sem hér kom fram í málflutningi hæstv. utanrrh. áðan. Ég get a.m.k. ekki óskað ríkisstj. til hamingju með það. Ég ætla ekki að fara að standa í deilum við hæstv. utanrrh. á þessum vettvangi, þó að hann hafi borið mig hér býsna þungum sökum og haft uppi orð sem ég hafði ekki gert ráð fyrir að fram kæmu frá honum hér á hv. Alþingi. Hann gengur nefnilega í þá sömu gryfju og hv. 4. þm. Vestf. að gefa sér það, sem lesa mátti í Morgunblaðinu laugardaginn 12. mars líklega, að ég hafi gefið fyrirmæli um að rifta samningum. Það eru fyrirmæli sem ég hef ekki gefið og hef aldrei gefið í þessu samhengi. Ég kom á framfæri leiðréttingu við þá fullyrðingu í Morgunblaðinu degi síðar. Það eina, sem ég óskaði eftir við orkumálastjóra í þessu máli, var að dokað væri við meðan athugað væri lögmæti þessa samnings sem Orkustofnun hafði gert við Almennu verkfræðistofuna. Ástæðan fyrir því, að beðið var um að doka við þarna, var sú, að um var að ræða aðgerðir sem snertu viðkvæma deilu og spurningu um valdsvið og verksvið milli ráðuneyta. Ég taldi skylt að athuga hvort Orkustofnun væri með óeðlilegum eða ólögmætum hætti að hætta sér út á svæði sem gæti komið henni í koll. Sem yfirmaður þeirrar stofnunar taldi ég rétt að þetta væri gert, og ég lét aldrei koma fram þá daga sem þessi athugun stóð yfir annað en henni mundi ljúka með eðlilegum hætti. Það hefur verið gert með greinargerð sem iðnrn. sendi frá sér í bréfi til Orkustofnunar. Þar var vitnað til þess sem hér var til umr., m.a. í sambandi við þessa verksamninga, þar sem segir varðandi samningana um jarðboranir og jarðfræðirannsóknir að „samkv. samningnum varðandi jarðboranir er gert ráð fyrir að greiðslur fari fram í Bandaríkjadollurum. Rn. getur ekki á þetta fallist. Orkustofnun skal hlutast til um að ákvæðum samningsins er varða greiðslur verði breytt þannig að allar greiðslur samkv. samningnum verði miðaðar við og fari fram í íslenskum krónum og með því virtar gjaldeyrisreglur og ákvæði b-liðs 4. tölul. 1. mgr. 39. gr., sbr. 35. gr. laga nr. 13/1979, um verðlagsmál o. fl.“ Þetta er það sem þarna er vitnað til.

Ég ætla í sambandi við þetta mál að öðru leyti aðeins að bæta því við, að ég tel að það væri þörf á að athuga ýmsa þætti í sambandi við afskipti utanrrn. í sambandi við þetta mál á sama tíma og deilur hafa verið uppi um verksvið og valdsvið milli ráðuneyta. Þar á ég m.a. við það, að af hálfu utanrrn. skuli hafa verið gengið inn í málið og verið að koma á framfæri í fjölmiðlum sjónarmiðum sem rakin eru til verkkaupa, þ.e. bandaríska sjóhersins, í þessu efni, eins og gert var s.l. fimmtudag. Ég átta mig ekki á hvaða hagsmuni er verið að verja af hálfu varnarmáladeildar utanrrn. eins og gert var með því að fara að koma því í fjölmiðla að þar væru komnir upp eindagar. Ég hafði ekki frétt af því máli fyrr en það kom fram í fjölmiðlum um það leyti sem mitt rn. var að ljúka afgreiðslu á þessu máli.

Ég ætla, hæstv. forseti, ekki að orðlengja þetta frekar. Ég hef svarað hv. fyrirspyrjanda, sem vakti máls á þessu hér, því sem ég tel ástæðu til að komi fram hér á Alþingi. Ég tel ekki rétt að atriði, sem varða viðkvæma deilu innan ríkisstj., séu að öðru leyti hér til umr. af minni hálfu.