23.03.1982
Sameinað þing: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3204 í B-deild Alþingistíðinda. (2816)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður, ekki fjalla um efnisatriði málsins, enda var stofnað til þessara utandagskrárumræðna fyrst og fremst um formsatriði og kemur í ljós í umr. að ekki eru allir á eitt sáttir í þessu máli. Það er reyndar synd að vera að trufla þennan opna fund í hæstv. ríkisstjórn Íslands um þessar mundir, á því kærleiksheimili sem menn keppast um að mála glansmyndir af í fínum ræðum og í blaðaskrifum. En vegna þess að líkast til er Sjálfstfl. eini hlutlausi flokkurinn gagnvart Ólafslögum, því að Sjálfstfl. var utan stjórnar þegar þau voru samþykkt á Alþingi og þá voru í hæstv. ríkisstj. báðir þeir ráðherrar sem nú deila hart, tel ég vera rétt að einhver og þá kannske helst úr okkar hópi komi hér upp og lesi þessa lagagrein sem er eina atriðið sem hæstv. iðnrh. hengir hatt sinn á. Það er það einasta sem eftir er af hans málflutningi, það ateina sem hann telur nú til stuðnings því sem hann hefur gert í þessu máli.

Hann vitnaði að sjálfsögðu rangt til laganna, kallaði þau verðlagslög o.fl., en númerin voru rétt. Þetta eru lög nr. 13 frá 10. apríl 1979, kaflinn um verðtryggingar. Hann vitnaði til 39. gr. laganna, en þar segir orðrétt, með leyfi forseta: „Það eru skilyrði verðtryggingar samkv. lögum þessum“ — og síðan er talið upp í fjórum töluliðum og í 4. tölul. segir, það var sá tölul. sem hæstv.ráðh. vitnaði til, „að grundvöllur verðtryggingar sé sem hér segir“ — og síðan kemur a- og þá b-liður og í þann lið vitnaði hæstv. ráðh. og þar segir: „miðað sé við gengi erlends gjaldeyris þar sem slíkt er heimilt samkv. lögum eða reglugerð.“

Hér er augljóslega átt við hvernig fara eigi með verðtryggingar þegar um er að ræða lög, þar sem miða skal við gengi erlends gjaldeyris, eða reglugerðir, eins og t.d. var gert af núv. ríkisstj. í sambandi við svokölluð afurðalán. Við það er átt með þessum lögum og ekkert annað því að auðvitað hafa íslenskir aðilar heimild til að taka við greiðstu í erlendum gjaldeyri, svo framarlega sem þeir standa skil á þeim greiðslum í bönkum og snúa þeim yfir til íslenskra fjármuna.

Ég ætla ekki að leggja dóm á ummæli hæstv. utanrrh., jafnglögg og þau voru, um hve mikil skynsemi það er fyrir fyrirtæki á borð við Orkustofnun að versla við aðila í erlendum gjaldeyri. Sá dómur er kannske stærsti dómurinn sem fallið hefur í þessari umr. um þá stefnu sem núv. hæstv. ríkisstj. fylgir og leiðir til þess, að einn af hæstv. ráðh. ríkisstj. segir að það séu bestu samningar sem hægt sé að gera að sjá til þess, að ekki sé verslað í íslenskum krónum. Þetta er álit hæstv. ríkisstj. á þeim gjaldmiðli sem hún ber ábyrgð á.

Herra forseti. Þar sem enginn hafði bent á þetta lagaatriði, en það er miðpunktur þessara umr. því að það er eina atriðið sem hæstv. iðnrh. hefur hengt hatt sinn á, vildi ég að þetta kæmi fram. Þetta eru lög sem hann ásamt hæstv. utanrrh. ber ábyrgð á, enda eru lögin stundum nefnd í höfuðið á hæstv utanrrh., nefnd Ólafslög. Það er sem sé algerlega augljóst mál, að sá, sem samið hefur fréttatilkynningu iðnrn., hefur gersamlega farið villur vegar varðandi túlkun þessara laga og það ætti auðvitað hæstv. ráðh., sem á sínum tíma átti sæti í þeirri ríkisstj. sem setti þessi lög, að vita manna best.