23.03.1982
Sameinað þing: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3205 í B-deild Alþingistíðinda. (2817)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þegar litið er yfir þetta mál hlýtur að vakna sú spurning, hvort hæstv. iðnrh. hafi lent í þessu máli af barnalegri yfirsjón og fljótfærni eða hvort hér sé um hreinan valdhroka að ræða. Það kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. að hann teldi að með valdboði hefði iðnrh. rift þegar gerðum samningum. Hæstv. iðnrh. talaði hins vegar um að hann hefði haft hug á að bið ja Orkustofnun að doka við. Hann talaði um að þetta hefði verið gert undir því yfirskini að hér hefði verið spurning um valdsvið ráðuneyta. En þegar litið er yfir málið sýnist mér að það hafi ekki verið áhyggjur hæstv. iðnrh. yfir hugsanlegum lagabrotum Orkustofnunar eða umhyggja fyrir henni sem réð því fyrst og fremst að hann greip hér til aðgerða. Ég held að tilgangurinn hafi augljóslega verið að reyna að stöðva þetta mál eða tefla framgang þess. En í þessum hita sást iðnrh. annaðhvort ekki fyrir um eigin valdsvið ellegar þá að hann hirti ekki um hvernig valdsviði sínu væri háttað. Ég hugsa að flestum hafi verið þetta ljóst, þessi megintilgangur aðgerða iðnrh., þegar í upphafi, en eftir að svar iðnrn. barst í gær held ég að það ætti öllum mönnum að vera fullljóst að svona var í pottinn búið.

Eins og komið hefur fram í þessum umr. eru þar til greindar tylliástæður einar fyrir þessum drætti og þessari rannsókn iðnrn. Ég hlýt að taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram um að ekki einungis hafi skort lagagrundvöll til þessara tilþrifa af hálfu hæstv. iðnrh., heldur hafi þær líka brotið í bága við almenna skynsemi, fyrir atferli af þessu tagi sjáist ekki fordæmi, en hins vegar felist hættulegt fordæmi í þessum aðgerðum.

Ef hér er um einberan valdhroka að ræða er það auðvitað mjög alvarlegt mál. En ég verð reyndar að vekja athygli á því, að það er eilítið ljós punktur í þeirri umr. sem hér hefur farið fram. Mér sýnist nefnilega hæstv. iðnrh. vera á hálfgerðum hlaupum allan tímann frá þeim aðgerðum sem hann hefur gripið til. Það bendir auðvitað til þess, að hann sé ekki sérlega ánægður með þær. Hann hefur tekið til baka, a.m.k. til hálfs, þær aðgerðir sem hann greip til í upphafi, og í þessum umr. hefur hann í rauninni beðist undan því að þurfa að verja gerðir sínar.

Þetta mál er auðvitað hættulegt stjórnarfarslega séð. En það er líka á því önnur hlið. Framferði af þessu tagi gerir íslensk stjórnvöld hláleg, og það er ekki heldur gott. Ég undrast að hæstv. forsrh. skuli ekki hafa gripið inn í þetta mál til að fá í því niðurstöðu og sjá til þess, að farið væri að lögum, að ég nú ekki tali um að farið yrði að heilbrigðri skynsemi.