23.03.1982
Sameinað þing: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3207 í B-deild Alþingistíðinda. (2819)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég get stytt mál mitt, en vil rifja það upp, að hæstv. iðnrh. lét að því liggja í fyrsta svari sínu hér í dag að hann hefði beðið um að fá að athuga samning Orkustofnunar við Almennu verkfræðistofuna þegar sá samningur var á döfinni. Ég spurði hann úr sæti mínu hvort samningurinn hefði þá verið frágenginn eða einungis á döfinni. Hann svaraði ekki endurtekinni spurningu minni þar að lútandi, en í ljós hefur komið að samningurinn var þá undirritaður og frágenginn af hálfu Orkustofnunar. Hver var þá ástæða iðnrh. til að grípa inn í verksvið Orkustofnunar sem hann auðvitað hafði í raun og veru ekki vald til, sbr. röksemdir hv. 4. þm. Vestf. um valdþurrð? Jú, auðvitað var það að áeggjan hæstv. félmrh. sem ætlaði að beita hæstv. iðnrh. fyrir sig í deilum þeirra hæstv. félmrh. og hæstv. utanrrh.

Nú er leiga Orkustofnunar á bor einkaréttarlegs eðlis og hefur engar opinberar afleiðingar í sjálfu sér. Það eru út af fyrir sig mjög varhugavert fordæmi, þau skilyrði sem hæstv. iðnrh. setur Orkustofnun í bréfi sínu til hennar sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Það er vafasamt fordæmi, ef Orkustofnun lætur t.d. verktaka eða byggingaraðila í té bor, að gefa skyn, eins og hæstv. iðrnh. gerir, að í því felist ekkert fyrirheit um byggingarleyfi. Auðvitað felst ekkert fyrirheit um byggingarleyfi í því, að Orkustofnun leigi tæki eins og jarðbor til annars aðila, né heldur felst í því ástæða til ágreinings um skipulag á einhverjum þeim svæðum sem þarna er um að ræða. Síst af öllu er það á ábyrgð Orkustofnunar að afla leyfa til umferðar um rannsóknarsvæðin fyrir borun. Það er auðvitað á ábyrgð leigutaka. Þetta eru allt saman látalæti hæstv. iðnrh., — látalæti sem hæstv. iðnrh. verður að hafa í frammi samkv. fyrirskipun hæstv. félmrh., flokksbróður síns, að ég tali nú ekki um skilyrðin um greiðslu í íslenskum krónum sem hæstv. utanrrh. hefur svarað bæði sem höfundur þeirra laga, sem vitnað er til, og sem ráðh. í núv. ríkisstj. og þar með fellt dóm um gildi íslensks gjaldmiðils miðað við dollar.

Ég held að bréf hæstv. iðnrh. til Orkustofnunar í dag feli í sér út af fyrir sig mjög alvarleg fordæmi. Ég vara við þeim skilningi sem hæstv. iðnrh. leggur í leigu Orkustofnunar á tækjum sínum til annarra aðila, ef þeir skyldu á seinni stigum málsins og síðar vitna til þessa bréfs iðnrh. og skírskota til þess, að með leigu tækis frá Orkustofnun hafi þeir öðlast byggingarleyfi, umferðarrétt og hvað eina sem opinber yfirvöld eiga að láta í té og meta sjálfstætt hverju sinni án tillits til þess, hver leigir hverjum ákveðið tæki.

Það er ljóst, að hér hafa fallið harðir dómar ráðh. hvers um annan. Hæstv. félmrh. kom hér og sagði eitthvað á þá leið fullur vandlætingar, að hæstv. utanrrh. hefði talað um valdníðslu og stjórnarandstaðan um valdþurrð. En ég spyr nú hæstv. félmrh.: Hver talaði um valdarán? Hæstv. félmrh. talaði um aðgerðir hæstv. utanrrh. sem valdarán og lögbrot, og má ekki á milli sjá. En það kostulegasta í málflutningi hæstv. félmrh. var að hann kastaði sér eftir björgunarbelti og björgunarbeltið var bandaríski sjóherinn. Það lá mikið við úr því að hæstv. félmrh. gat notað bandaríska sjóherinn sem björgunarbelti til að haldast áfram á floti sem ráðh. örlitið lengur. En það var einmitt þegar hann vildi meina að bandaríski sjóherinn hefði í hótunum. Því hafa reyndar verið gerð skil hér áður. Þetta er einkaréttarsamningur. Það er ekki sagt að menn hafi í hótunum þótt aðili að einkaréttarsamkomulagi beri fyrir sig að vanefndir hafi átt sér stað. Því er þetta veikburða flotholt sem hæstv. félmrh. ætlar að halda sér uppi á í núv. ríkisstj. Sannleikurinn er sá, og það kom fram í utandagskrárumr. fyrir viku og aftur nú í dag, að hæstv. félmrh. og hæstv. iðnrh., sem þá var ekki eins kominn til sögunnar, eru á flótta. Þeir mega varla mæla hér í ræðustól um þetta mál. Þeir bera fyrir sig, eins og hæstv. félmrh., fjarstaddan embættismann, en þora ekki að beina skeytum sínum að hæstv. utanrrh. eða svara honum eða draga hann til ábyrgðar fyrir það sem átti að draga viðkomandi embættismann til ábyrgðar fyrir.

Eins er það með hæstv. iðnrh. Hann segir að hæstv. utanrrh. hefði gerst liðsmaður Morgunblaðsins, en ég sé ekki betur en hæstv. iðnrh. hafi með bréfi sínu í dag, ekki síst vegna þeirra fyrirvara sem hann greinir þar frá, lýst yfir að hann væri í raun og veru búinn að afsala sér öllum fyrirvörum um gerð samnings Orkustofnunar og Almennu verkfræðistofunnar um leigu á viðkomandi bor, og þá hefur hann aldeilis gerst liðsmaður Morgunblaðsins. Ég bið Morgunblaðið að gæta sín á slíkum liðsmanni.

En hér hefur einni spurningu ekki verið svarað, umfram það sem hæstv. iðnrh. vanrækti að svara eins og honum bar, fyrirspurnum hv. 4. þm. Vestf. Hv. 4. þm. Vestf. beindi þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hver skoðun hæstv. forsrh. væri á valdsviði hæstv. utanrrh. og hæstv. iðnrh. í framhaldi af þeirri fsp. sem þingflokkur Alþfl. gerði fyrir viku um valdsvið hæstv. utanrrh. og hæstv. félmrh. Þá fékkst ekki svar við fsp. þingflokks Alþfl. þótt menn drægju ákveðnar ályktanir eftir þær umr., og skal það ekki rifjað upp. En með því að hér hafa gagnkvæmar ásakanir heyrst úr þessum ræðustól, annars vegar frá hæstv. utanrrh. og hins vegar frá hæstv. félmrh. og hæstv. iðnrh., og með því að hæstv. forsrh. hefur verið spurður um hvor þessara aðila hafi á réttu að standa, en hann ekki svarað enn sem komið er, þá er ástæða til að ítreka þá fyrirspurn sem hv. 4. þm. Vestf. bar fram í upphafi þessara umr. utan dagskrár. Við þá fyrirspurn skal bætt að það hafa nú látlaust gengið gagnkvæmar ásakanir ráðh. í hálfan mánuð, að því er ég hygg, eða þar um bil, og þess vegna er tími til kominn að hæstv. forsrh. komi í veg fyrir fleiri uppákomur ráðh. í ríkisstjórn Íslands og taki af skarið um hvert valdsvið þeirra er og réttmæti gerða þeirra.