23.03.1982
Sameinað þing: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3209 í B-deild Alþingistíðinda. (2820)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þessar umr. snúast í rauninni um það atriði, hvort Orkustofnun eigi með starfsliði sínu og tækjum að framkvæma þær rannsóknir og boranir, sem til stendur og þarf að gera nú á næstunni, eða hvort erlendur aðili fái það verk í hendur. Það er vitað, að hjá varnarliðinu hefur verið og er nokkur tilhneiging til þess, að undirbúningur og hönnun ýmissa mannvirkja sé á vegum þess. Hæstv. utanrrh. hefur í þessu sambandi lagt sig fram um að rannsóknir, undirbúningur og hönnun séu í eins ríkum mæli og unnt er á höndum Íslendinga sjálfra. Nú liggur fyrir að Orkustofnun er með samþykki iðnrh. tilbúin að taka að sér þessar boranir og rannsóknir og telur sig geta lokið þeim á þeim tíma sem til er skilinn í samningum.

Vegna þess að spurt var um viðhorf mín og skoðun er auðvitað von mín að þetta verk verði unnið af íslenskri stofnun með íslensku starfsliði og tækjum þeirrar stofnunar. Hvort það má verða úr því sem komið er get ég ekkert um sagt en ég tel mjög æskilegt að það geti orðið og um það held ég að allir hv. alþm. hljóti að vera sammála.