24.03.1982
Neðri deild: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3213 í B-deild Alþingistíðinda. (2835)

144. mál, almannatryggingar

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég skal fúslega gera tilraun til að svara þessari spurningu hv. þm. Ég verð að segja það af fullri hreinskilni, að ég er ekki búinn að setja mig í þær stellingar, eins og hann orðaði það, að undirbúa næsta fjárlagafrv. Það er ekki hafinn undirbúningur að gerð fjárlagafrv. fyrr en á vordögum. En sá skattur, sem hér um ræðir, er úr því erfðagóssi sem ríkisstj. fékk frá fyrri stjórnum og mun eiga uppruna sinn hjá fjmrh. Sjálfstfl., Matthíasi Á. Mathiesen, en hann lagði á þennan skatt á árinu 1975.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. bendir á, að vel gæti komið til greina að fella þennan skatt saman við tekjuskattinn. Það hefur hins vegar fremur orðið að ráði að lækka þennan skatt verulega. Eins og menn vita hefur hann verið afnuminn af lægri tekjum og er ekki nema svipur hjá sjón.

Ég tek undir það með hv. þm., að það væri með vissum hætti hreingerning í íslenskri löggjöf að losa sig við þennan skatt og fella hann að tekjuskattslögum, enda er þetta, eins og kunnugt er, skattur sem fyrst og fremst er lagður á hærri tekjur en ekki lægri tekjur. En sem sagt, það hafa engar ákvarðanir verið teknar um þetta efni og ég get því ekki svarað spurningu hv. þm. að öðru leyti.