24.03.1982
Neðri deild: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3232 í B-deild Alþingistíðinda. (2842)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að nota langan tíma til að ræða það mál sem hér er á dagskrá, þótt vissulega sé það mjög mikilvægt, eitt allra mikilvægasta mál hins háa Alþingis. Ástæðan er sú, að fulltrúar Alþfl. í hv. Ed. gerðu rækilega grein fyrir afstöðu flokksins til málsins, og vísa ég til málflutnings þeirra þar. Þó get ég ekki látið hjá líða að benda enn einu sinni á að áætlaðar lántökur vaxa mjög úr hófi fram og það þótt framkvæmdir á sviði stóriðju og stórvirkjana minnki um nær helming frá s.l. ári, framkvæmdir í hitaveitu minnki um þriðjung, fjárfestingar atvinnuveganna dragist saman um liðlega 9% og samdráttur verði í íbúðabyggingum fimmta árið í röð. Þær framkvæmdir hafa nú dregist saman um 15% að magni til frá árinu 1978. Á þessu ári er áætlað að frumlán til nýrra íbúða á vegum einstaklinga verði 1100, en voru 1900 árið 1978. Allir hljóta að sjá að í algert óefni stefnir í þessum málum ef ekki verður spyrnt við fótum. Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir þennan mikla samdrátt á þessum mikilvægu sviðum öllum, stórvaxa lántökur, aðallega erlendar lántökur. Við tökum erlend lán til að halda uppi hærra fiskverði en fyrir afurðirnar fæst á erlendum mörkuðum. Við tökum erlend lán til að mæta hallarekstri fyrirtækja, ekki síst opinberra þjónustustofnana. Við tökum erlend lán til að kaupa íslensk skip frá einum firði til annars. Og við tökum erlend lán til að greiða niður verð landbúnaðarvara ofan í útlendinga. Við greiðum okkur sjálfum hærra kaup en við í reynd vinnum fyrir með hærra fiskverði en markaðir standa undir, og við greiðum minna fyrir vörur og þjónustu, sem við notum, en hún í reynd kostar. Við tökum.erlend lán til að mæta mismuninum. Við erum m.ö.o. að leggja þungar byrðar á börn okkar og barnabörn til að geta lifað hærra í dag en við höfum í reynd efni á. Áður stálum við sparifé gamla fólksins, nú stelum við af börnum okkar.

Áður fyrr var talið eðlilegt að taka erlend lán til útlenda hluta þeirra framkvæmda sem beint eða óbeint öfluðu erlends gjaldeyris til að greiða lánin til baka. Nú er áætlað að taka 52% meiri lán en sem nemur öllum framkvæmdum við stórvirkjanir, stóriðju- og hitaveituframkvæmdir, og er þá innlendi hluti framkvæmdakostnaðarins meðtalinn. Nettóaukning erlendra lána á árinu verður 1340 millj. kr., en framkvæmdakostnaður við stórvirkjanir, stóriðju og hitaveitur samtals 824 millj. kr. Það þarf að nota andvirði þriðja hvers fisks, sem úr sjó er dreginn, til að standa undir greiðslum af erlendum lánum. Við stóraukum lántökurnar þótt verulega hafi dregið úr öllum meiri háttar framkvæmdum.

Um brtt. minni hl. fjh.- og viðskn. er fátt að segja og vísa ég til nái. meiri hl. n. þar um. Ég bendi þó á að enn er verið að draga úr fjárframlögum ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, og er þá ótt og títt höggvið í sama knérunn þegar framlög til þessara sjóða eru lækkuð mörgum sinnum á ári hverju mörg ár í röð. Það er engu líkara en núv. hæstv. ríkisstj. sé staðráðin í að ganga af hinu opinbera húsnæðislánakerfi dauðu. Vegna vaxtamismunar á teknum og veittum lánum byggingarlánasjóðanna er stutt í að allt framlag ríkissjóðs fari í það eitt að greiða vaxtamismun, að maður tali nú ekki um þegar framlagið minnkar eins ört og verið hefur. Og ekki nóg með það, heldur verður þá búið að binda framlag ríkissjóðs til þeirra hluta áratugi fram í tímann. Hver verður staða húsbyggjenda þá? Mér finnst oft að hæstv. ríkisstj. sé alls ekki sjálfrátt í þessum málum.

Ein er þó sú brtt. minni hl. fjh.- og viðskn. sem ég vil lýsa stuðningi við. Það er 21. brtt., síðasta brtt., um stuðning við nokkra raðsmíði meðalstórra fiskibáta, en þar er endurnýjunar vissulega þörf. Við megum ekki heldur ganga af íslenskum skipasmíðaiðnaði dauðum þótt misvitur ríkisstj. hafi nú um tveggja ára skeið gert sitt besta til þess með hömlulausum innflutningi niðurgreiddra fiskiskipa erlendis frá og innflutningi gamalla ryðkláfa. Með því hefur hæstv. ríkisstj. ekki aðeins gert sitt til að ganga af íslenskum skipasmíðaiðnaði dauðum, heldur er með þessu markvisst unnið að því að stórskerða lífskjör sjómanna og þjóðarinnar allrar. Við Alþfl.-menn styðjum 21. brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn., en leggjum jafnframt þunga áherslu á að hæstv. ríkisstj. taki upp skynsamlegri vinnubrögð í þessum efnum, fari til tilbreytingar að hugsa um þjóðarhag og hætti að stunda atkvæðakaup frá degi til dags.

Við Alþfl.-menn höfum oft skýrt afstöðu okkar til óhóflegrar fjárfestingar í landbúnaði og til mikillar offramleiðslu landbúnaðarvara, og hef ég engu þar við að bæta nú. Okkur finnst ótækt með öllu að Framleiðsluráð landbúnaðarins og reyndar hvaða aðili utan Alþingis sem er geti tekið lán í stórum stíl á sínu nafni og velt þeim síðan öllum yfir á ríkissjóð til greiðslu. Ríkissjóður á að greiða allar afborganir, alla vexti og allan kostnað af lánum sem Framleiðsluráðið tekur. Það er vandséð hvers vegna Framleiðsluráði er yfir höfuð blandað í þessi mál, nema þá til að fela staðreyndir. Annar getur tilgangurinn ekki verið. Því hefur hv. 3. þm. Vestf. lagt fram brtt. á þskj. 518 við 9. gr. þessa frv. sem gengur út á það, að síðasti málsl. greinarinnar falli niður, en hann er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán Framleiðsluráðsins og tekur. ábyrgðin jafnt til greiðslu afborgana, vaxta og annars kostnaðar.“

Það er lagt til að þessi málsl. falli niður.

Herra forseti. Um afstöðu Alþfl. til þess frv., sem hér er til umr., vísa ég að öðru leyti til umsagnar talsmannaflokksins í hv. Ed. og til nái. meiri hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar á þskj. 513.