24.03.1982
Neðri deild: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3250 í B-deild Alþingistíðinda. (2850)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð sem ég vil bæta við vegna orða hv. þm. Karvels Pálmasonar. Hann taldi að í lánsfjáráætlun — raunar sagði hann að það væri í fjárlögum — væri vikið að skatti á byggðalínu. Ég vil upplýsa hann um það, að hvergi er minnst á skatt á byggðalínu í fjárlögunum. (KP: Í frv. ráðherrans.) Í frv. ráðh., sem hann nefnir svo, þ.e. í frv. til lánsfjárlaga, er einungis talað um sérstaka fjáröflun vegna byggðalína. Þess er hins vegar ekki getið, hvort um verði að ræða skatttöku eða fjáröflun með öðrum hætti og um það hafa ekki verið teknar ákvarðanir. Það er t.d. vel hugsanlegt að nýrri landsvirkjun yrði heimilað að afla þessa fjár í gegnum raforkuverðið án þess að nokkur sérstök skattheimta þyrfti að koma þar til. Þetta er hins vegar ekki frágengið mál.

Hv. þm. reyndi að gera mér upp einhver ósannindi í seinustu ræðu minni út af málefnum Skipaútgerðar ríkisins. Staðreyndin er auðvitað sú, að hann spurði mig ekkert hvort samningur hefði verið gerður um kaup á þessum skipum. Hann spurði alls ekki um það. Hann spurði um hitt, hvort heimildir væru til að gera slíkan samning, og ég upplýsti fjvn.-manninn Karvel Pálmason um að heimildir væru í fjárlögum. Hann var ekki betur að sér í fjárlögunum en þetta. Hvort hins vegar samningurinn hefur verið gerður eða ekki, það er mál sem ég hef ekki fylgst með og get ekki svarað neinu til um. En aðalatriðið er hitt, að heimildin er fyrir hendi.

Hv. þm. reyndi að snúa út úr orðum mínum þegar ég ræddi áðan um samband sem verið hefði við stuðningsmenn stjórnarinnar um lækkun ríkisútgjalda upp á 120 millj. Ég sagði það áðan og stend við það, að samráð var haft við stuðningsmenn ríkisstj. í fjvn. og raunar við alla stuðningsmenn stjórnarinnar, en síðan tók ríkisstj. lokaákvörðun. (Gripið fram í.) Hv. þm. Eggert Haukdal mun vafalaust ekki mótmæla því, að haft hafi verið samráð við hann. Hitt er svo allt annað mál, eins og kom raunar fram hjá honum áðan, að vera má að hann hafi ekki að öllu leyti verið sáttur við þá ákvörðun sem tekin var. En það er allt annað mál. Hvort meiri hluti er hér í þinginu fyrir því að lækka ríkisútgjöldin verður að sjálfsögðu að koma í ljós þegar atkv. eru greidd um það. Ég efast ekki um að svo sé.