03.11.1981
Sameinað þing: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

1. mál, fjárlög 1982

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það kemur æ betur í ljós, eftir því sem núverandi ríkisstj. situr lengur að völdum, hversu Alþb. tókst að tryggja áhrif sín þegar við myndun ríkisstj. Það er sama hvar skyggnst er um í þjóðfélaginu. Þrengt hefur verið að einstaklingum, þrengt hefur verið að atvinnulífinu. Alls staðar blasa við erfiðleikar og ekkert það aðhafst af hálfu stjórnvalda sem styrkt getur og eflt atvinnulífið í landinu, nema síður sé, samfelldar bráðabirgðaráðstafanir í efnahagsmálum og opinber feluleikur á sviði ríkisfjármála og peningamála til þess eins að staðan sýnist betri en hún raunverulega er, dæmigerð vinnubrögð Alþb.-manna. Þegar svo fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun 1982 eru lögð fyrir Alþingi er öllum markmiðum sleppt en falleg reikningstala notuð. Því er ljóst að fjárlagafrv. eins og það liggur nú fyrir sýnist marklaust. Fjmrh. Alþb. telur sér það hagkvæmara til þess að hann geti notað ríkissjóð eins og honum og Alþb. sýnist.

Núverandi valdhafar vilja láta líta svo út að staða efnahagsmála sé um þessar mundir í góðu jafnvægi, ríkisstj. hafi tekist að ná settum markmiðum, tekist hafi að sigla fram hjá skerjum erfiðleika stóráfallalaust, meira að segja sé betra jafnvægi hér á landi á flestum sviðum efnahagsmála en hjá grannþjóðum okkar. Er þá ekki full ástæða til þess fyrir landsmenn alla að vera þakklátir ríkisstj. fyrir góð störf hennar og árangur á sviði efnahagsmála, sem hún segist hafa náð eftir erfiða baráttu við verðbólgudrauginn og fylgifiska hans? Getur þjóðin þá ekki litið björtum augum til framtíðarinnar? Eru nú ekki skilyrði fyrir blómlegu atvinnulífi landsmanna og grundvöllur fyrir bættum kjörum heimilanna í landinu?

Sá bjarmi af árangursríku starfi sínu, sem hæstv. forsrh. virðist sjá þegar hann gægist út um glugga stjórnarráðsins, er samt sem áður ekki í neinu samræmi við þau vandamál sem að steðja, vandamál sem launþegarnir í landi þessu hafa við að glíma til þess að endar nái saman h já þeim, ekki heldur í neinu samræmi við þau vandamál sem við er að glíma við rekstur atvinnuveganna í landinu, ekki heldur í neinu samræmi þegar samanburður er gerður á stöðu efnahagsmála hér á landi og í nágrannalöndum okkar.

En hvaða atriði eru það svo sem stjórnvöld eru að guma af og vilja telja landsmönnum trú um að skilað hafi svo góðum árangri á því hálfa öðru ári sem núv. ríkisstj. hefur setið að völdum? Í fyrsta lagi segjast stjórnarherrarnir hafa tryggt öllum landsmönnum fulla atvinnu. Full atvinna hefur verið hér á landi síðasta áratug sem betur fer. Því getur núv. ríkisstj. ekki þakkað sér neinn árangur á þessu sviði. En hvaða blikur eru hins vegar á lofti um þessar mundir í atvinnumálum landsmanna? Er tryggt að allar íslenskar hendur í þessu landi hafi vinnu næstu mánuði? Er nokkuð að óttast? Meginforsendur þess, að nóg atvinna sé í landinu, er að atvinnureksturinn geti starfað og honum séu búin eðlileg vaxtarskilyrði. Er staða atvinnurekstrar þannig í dag, að menn þurfi ekki að óttast að til stöðvunar geti komið? Hafa stjórnvöld búið atvinnuvegunum þau skilyrði sem nauðsynleg eru til blómlegs atvinnulífs?

Ef litið er á þær upplýsingar, sem fyrir liggja um stöðu atvinnuveganna, kemur í ljós allt annað en það sem ríkisstj. hefur viljað vera láta. Samkeppnisiðnaðurinn er rekinn með verulegum halla, fiskveiðar eru reknar eftir síðustu fiskverðsákvörðun með 2–10% halla, hraðfrystiiðnaðurinn er rekinn með allt að 6–7% halla. Þannig er staða þessara mála og hafa sjómenn þó ekki fengið nema helming þeirrar launahækkunar sem aðrir launþegar í landinu fengu nú síðast. Þetta hörmungarástand í sjávarútvegi landsmanna blasir við á sama tíma og markaðsverð og aflabrögð eru í hámarki og verðgildi Bandaríkjadollars hefur verið hagstæðara en nokkru sinni fyrr.

Í öðru lagi segir ríkisstj. að henni hafi tekist að draga úr verðbólgunni frá því sem hún hefur verið síðustu tvö árin, eða úr 60% í 40% talið frá upphafi þessa árs til loka. En hæstv. forsrh. er þekktur fyrir að fá sjálfan sig og ýmsa aðra til þess að setja á svið sjónarspil sem þeir ætlast til að almenningur leggi trúnað á. Hér hefur það verið gert. Staðreyndir málsins eru því miður allt aðrar en stjórnvöld vilja vera láta. Hækkun verðbólgunnar frá árinu 1980 til 1981 verður um 50%, eins og fram hefur komið hjá Þjóðhagsstofnun, enda þótt með talnaleik verði vísitalan frá upphafi árs til loka ekki talin nema 40%. Hækkun á almennu verðlagi, þrátt fyrir ranga gengisskráningu, hefur orðið miklu meiri en sú útreikningsaðferð, sem notuð er, gefur til kynna, enda spilað á þá útreikningsaðferð á þriggja mánaða fresti, nú síðast rétt fyrir seinustu mánaðamót með auknum niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum til þess að fá vísitöluútreikninginn 1. des. til að passa inn í dæmið. Hækkun verðlags vegna sjálfrar myntbreytingarinnar hefur orðið umtalsverð. Því miður virðist myntbreytingin hafa haft þveröfug áhrif við það sem að var stefnt. Það er ekki hægt að merkja að meira traust sé borið til gjaldmiðils okkar nú en áður, því miður, enda hafa stjórnvöld ekkert gert til þess að svo gæti orðið, heldur þvert á móti. Ríkisstj. hefur gengið á undan með lagasetningu og notar ekki smæstu einingar gjaldmiðils síns í sambandi við útgreiðslu gjalda ríkissjóðs.

Eitt gleggsta dæmið um það, hvað verðbólguútreikningar ríkisstj. gefa í raun ranga mynd af hinni raunverulegu þróun verðlagsins í landinu, er sá þáttur í útgjöldum þjóðarbúsins sem ríkisstj. sjálf fer með, ríkisútgjöldin. Hækkun þeirra hefur ekki verið í neinu samræmi við þá hækkun sem stjórnvöld segja að hafi orðið í landinu. Fyrstu níu mánuði þessa árs eru ríkisútgjöldin um 60% hærri en á sama tíma í fyrra þegar verðlagshækkanir í landinu eru sagðar vera 30%. Því miður hefur ríkisstj. ekki tekist að draga úr verðbólgunni svo að nokkru nemi, þrátt fyrir að gengislækkun dollarans hafi dregið úr verðhækkun, sem talið er að nemi 10–15%, og þrátt fyrir að ríkisstj. skerti laun með lögum um 7% 1. mars s. l.

Í þriðja lagi segist ríkisstj. hafa tryggt kaupátt launa. Þjóhagsstofnunin segir að kaupmáttur ráðstöfunartekna verði svipaður á mann í ár og á síðasta ári, hins vegar verði kaupmáttur kauptaxta 2% minni í ár en í fyrra. Hvað segja verkalýðsforingjarnir sjálfir um kaupmátt launþega um þessar mundir þegar gengið er til kjarasamninga? Þeir segja að kaupmátturinn þurfi að aukast um allt að 11% til þess að ná kaupmætti kjarasamninganna 1977. Þá sögðu menn: samningana í gildi, en hafa nú lítið látið í sér heyra. Og þetta er útkoman sem þeir sjálfir segja frá. Þetta eru ekki reikningar sem aðrir menn hafa gert. Þetta eru reikningar frá þeim mönnum sem stóðu á árinu 1978 og hrópuðu, eins og ég sagði áðan: samningana í gildi. Því miður hefur ríkisstj. ekki á þessum vettvangi fremur en öðrum sviðum efnahagslífs náð árangri.

Í fjórða lagi segist ríkisstj. hafa náð betri árangri en nágrannaþjóðir okkar í efnahagsmálum og getað siglt áfram fram hjá skerjum áfallalítið. Ekki sýnist ástæða til að guma mjög af því meðan verðbólgan hér á landi er 4–5 sinnum meiri en hjá næstu nágrönnum okkar og nálgast ekkert það mark sem ríkisstj. setti sér í stjórnarsáttmálanum, að um áramótin 1981–1982 yrði hún svipuð og hjá okkar næstu nágrönnum. Það er hins vegar rétt, að við höfum ekki þurft að horfast í augu við atvinnuleysi eins og hefur verið í kringum okkur. Það var ekkert nýtt, en því miður virðast allar horfur á að ekki sé þar bjart fram undan.

Það, sem núv. ríkisstj. gumar hvað mest af þegar hún tíundar afrek sín, er að tekist hafi á árinu 1980 að ná jöfnuði í ríkifjármálum og skuld ríkissjóðs við Seðlabankann hafi lækkað. Þegar þessi skrautfjöður ríkisstjórnar herranna er skoðuð kemur í ljós að skuld ríkissjóðs hefur í krónum talið hækkað og rekstrarhalli var hjá ríkissjóði á greiðslugrunni. En hvaða ráðum hefur ríkisstj. beitt til þess að reyna að ná þeim jöfnuði í ríkisfjármálum sem hún gumar nú mög af? Hafa rekstrargjöld ríkissjóðs verið dregin saman til þess að spara? Hafa ríkisumsvifin verið minnkuð? Svarið er nei. Ríkisstj. hefur hins vegar viðhaldið öllum vinstristjórnarsköttunum, sem munu hafa numið um 700 millj. kr. á árinu 1980, erlendar lántökur hafa verið auknar verulega og tilfærslur gerðar í fjárlögum.

En hvað er það svo sem líta ber á þegar meta skal hvernig ríkisstj. hefur tekist framkvæmd þeirra heimilda sem felast í fjárlögum ársins 1980? Í októberhefti af Hagtölum mánaðarins, sem Seðlabanki Íslands gefur út, er fjallað sérstaklega um ríkisfjármálin. Það vekur athygli þeirra sem þessa grein lesa, hvernig stangast á upphaf þeirrar greinar og þær töflur sem þar eru birtar. Þar er gerður samanburður fjárlaga og útkomu ríkisfjármála á greiðslugrunni. Slíkur samanburður er tvímælalaust hinn rétti, ef meta skal hvernig ríkisstj. hefur framkvæmt þær heimildir sem Alþingi veitir í fjárlögum. Fjárlög ársins 1980 gerðu ráð fyrir að innheimtar tekjur umfram greidd gjöld yrðu að fjárhæð 29 millj. kr. Útkoman varð hins vegar halli að fjárhæð 85 millj. kr. Gert var ráð fyrir á fjárlögum að skuldir á viðskiptamannareikningum lækkuðu um 8 millj. Hins vegar varð skuldaaukning á viðskiptamannareikningnum um 75 millj. kr. Greiðslujöfnuður átti því að verða 96 millj., þar af 81 millj. kr. við Seðlabankann. Greiðslujöfnuðurinn varð 62 millj. og við Seðlabankann 45 millj., sem er tæpur helmingur þess sem að var stefnt. Miðað við þessar tölur verður tæplega sagt að menn hafi náð settum markmiðum.

En þessari grein í Hagtölum mánaðarins og þeirri fréttatilkynningu, sem fjmrh. eða fjmrn. gaf út þegar fjárlagafrv. var lagt hér fram, er ætlað að gera grein fyrir að ríkissjóður hafi skilað greiðsluafgangi á síðustu tveimur árum og náð að grynna talsvert á skuldum sínum í Seðlabankanum. Nú er staðreyndin sú, eins og ég sagði áðan, að tölulega hefur skuld ríkissjóðs við Seðlabankann hækkað á árinu 1980. En í fréttatilkynningu fjmrn. er bent á að hlutfallslega af vergri þjóðarframleiðslu hafi skuldirnar lækkað. Þetta er vitaskuld alveg rétt. Kannske er það hugsun hæstv. fjmrh. að hafa verðbólguna nógu mikla, þá lækki skuldirnar við Seðlabankann hlutfallslega af þjóðarframleiðslu og þannig sé hægt að fá út hagstæða tölu. Málið er ekki svona einfalt. Í útvarpsumr. um daginn vék hv. 1. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, að því, að þegar rætt væri um skuldir ríkissjóðs við eina lánastofnun án þess að taka til meðferðar skuldir ríkissjóðs við aðrar lánastofnanir kæmi að sjálfsögðu ekki út hin rétta mynd. Í þessu hefti af Hagtölum mánaðarins má sjá hver þróunin hefur verið frá árinu 1977, síðasta heilu ári sem ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar var við völd. Borið saman við árið 1980 kemur í ljós hver skuldaaukning ríkissjóðs raunverulega er.

Árið 1977 er skuld ríkissjóðs við Seðlabankann 149 millj. kr. Í lok þess árs eru erlendar skuldir ríkissjóðs samkv. þessu hefti 794 millj., samtals 943 millj. kr. Ef við tökum hlutfallið af þjóðarframleiðslu er hér um að ræða 24.7%. Árið 1980 er skuldin við Seðlabankann 315 millj. kr., erlendar skuldir 3459, samtals 3774 millj. kr. eða 28.4% af þjóðarframleiðslu. Frá árinu 1977 til 1980 er því um að ræða aukningu á skuldum ríkissjóðs um 3.7% af þjóðarframleiðslunni, og ef við reiknum það út af þjóðarframleiðslu þessa árs erum að ræða aukningu skulda upp á 492 mill j. kr. Það er þessi blekking, sem hér er verið að beita, sem menn eru ekki reiðubúnir að fallast á þegar verið er að tala um ríkisfjármálin og það jafnvægi sem náðst hefur á árinu 1980. Skuldaaukningin hefur orðið mikil. Hún hefur hins vegar orðið í krónum talið í erlendum skuldum. Meira að segja, eins og ég vék að áðan, hefur aukning orðið á skuldum ríkissjóðs við Seðlabankann. En sem hlutfall af þjóðarframleiðslu í sameiginlegum skuldum ríkissjóðs við Seðlabanka og erlendis er um að ræða hvorki meira né minna en tæpar 500 millj. kr.

Þegar forsendur fjárlagafrv. svo og lánsfjáráætlunarinnar eru skoðaðar verður mönnum ljóst hversu óraunhæft frv. til fjárlaga hefur verið lagt fram á hinu háa Alþingi svo og lánsfjáráætlun. Hins vegar er skylt að vekja athygli á því að lánsfjáráætlun hefur nú verið lögð fram fyrr en áður og er því til umr. um leið og 1. umr. fjárlagafrv. fer fram. Hér væri um framför að ræða ef það, sem liggur til grundvallar þessum skjölum, væru raunhæfar tölur. Í aths. við frv. vekja höfundar þess sérstaka athygli á því, að frv. sem slíkt sé nánast marklaust plagg. Með því viðurkennir sjálf ríkisstj. algert skipbrot sitt við að horfast í augu við staðreyndir í fjármálum þjóðarinnar og viðurkennir jafnframt dugleysi sitt til að nýta ríkisfjármálin til stefnumörkunar og beita ríkisfjármálunum gegn verðbólgunni. Við gátum hlustað í upphafi ræðu fjmrh. á ýmsar afsakanir hans í sambandi við þetta, en engar þeirra eru með þeim hætti að hægt sé að taka á þeim mark.

Í aths. við frv. segir berum orðum að svonefnd reiknitala fjárlagafrv. sé ekki hugsuð sem spá verðlagsþróunar fyrir komandi ár og að líklegt sé að reiknitalan sé lægri en ætla megi að verðhækkanirnar muni verða á næstu árum. Það efast enginn um að rétt sé til getið hér miðað við reynsluna á þessu ári. Reiknitala fjárlagafrv, fyrir árið 1981 var 42%, en niðurstaðan um þróun mála á milli áranna 1980 og 1981 mun verða 50%.

Þar sem ljóst er að framlagt frv. til fjárlaga er langt frá raunveruleikanum sýnist mér koma til greina að ríkisstj. verði að gera Alþingi grein fyrir umframgreiðslum, þegar líða tekur á árið, og leita heimildar Alþingis til greiðslu umframgjalda á komandi fjárlögum áður en Alþingi er slitið. Slík regla er viðhöfð viða þar sem menn treysta sér ekki til að gera áætlanir fram í tímann. Þá kemur ríkisstj. á miðju ári eða fyrir mitt ár með endurskoðun og leitar heimildar til umframgjalda eins og dæmið sýnist þá vera.

Í þessu frv. er ljóst að núv. ríkisstj. fyrirhugar að halda áfram á braut vinstri stjórnar í skattheimtu. Ætla má að á árinu 1982 nemi vinstristjórnarskattarnir samkv. fjárlagafrv., sem lagðir verða á landsmenn, einum milljarði kr. Þá kemur fram í lánsfjáráætluninni fyrir 1982 að enn er ætlunin að auka erlendar lántökur. Nú skulu þær meira en tvöfaldaðar frá því í fyrra. Sé miðað við erlendar lántökur frá 1977 hafa þær tífaldast í krónutölu frá 1977 til 1982. Þær voru 69 millj. kr. 1977 en gert er ráð fyrir 696 millj. kr. á næsta ári.

Vinstristjórnarálögurnar viljum við sjálfstæðismenn afnema og mæta þeirri tekjuskerðingu ríkissjóðs með því að draga úr þátttöku ríkissjóðs í verðmyndunarkerfinu, að frekari samdráttur verði í framlögum til stofnlánasjóða, beitt hagræðingu og þjónustufyrirtæki flutt frá ríkinu sem eru betur komin hjá einstaklingum og samtökum þeirra.

Í aths. við tekjuhlið frv. er greint frá hækkun eignarskatta á árinu 1981. Eignarskattur einstaklinga hafði hækkað milli áranna 1980 og 1981 um 74%. Þá er enn fremur getið um að tekjuskattar einstaklinga hækki um rúmlega 61% frá frumálagningu 1980, og það er ætlað að halda þessari hækkun áfram í fjárlagafrv. 1982. Má ætla að hækkun þessara tveggja skattstofna umfram tekjuhækkun milli ára sé um 70 millj. kr., eða um 1000 kr. á hverja þriggja manna fjölskyldu í landinu. Hér er enn ein leið sem núv. ríkisstj. notar til þess að auka skattheimtuna á landsmenn.

Þá er sú skattheimtuaðferð, sem núv. ríkisstj. hefur notað í ríkum mæli til þess að jafna í ríkisfjármálunum og kemur til með að leggjast með miklum þunga á alla landsmenn á komandi árum, en það er sú mikla erlenda lántaka sem ríkissjóður er látinn standa fyrir. Nema erlendar lántökur um 6.5% af heildarútgjöldum A- og B-hluta fjárlagafrv, fyrir árið 1982. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1977 námu erlendar lántökur mældar á sama hátt um 3.5%. Greiðslubyrði erlendra lána af útflutningstekjum fer stöðugt hækkandi. Á árinu 1977 nam hlutfallið 13.7%, í ár er ætlað að greiðslubyrðin nemi milli 16 og 17% og á næsta ári er gert ráð fyrir hækkun, eins og hæstv. fjmrh. gat um áðan, þannig að greiðslubyrði ársins 1982 mun nema 17–18% af útflutningstekjum. Heildarskuldir þjóðarinnar vegna erlendrar lántöku sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu var í árslok 1977 31.6%, en er ætlað að verði 37% í árslok 1982.

Af þessum tölum, sem ég hef vikið að, má sjá hver þróunin hefur verið á síðustu árum. Mig furðar þegar menn koma fram og guma af góðri stjórn þegar þessar staðreyndir blasa við.

Eitt þeirra meginstefnumiða, sem sjálfstæðismenn hafa barist fyrir, er að halda ríkisumsvifum í lágmarki, gæta þess að sjálfsákvörðunarréttur einstaklinga um sjálfsaflafé sé sem allra minnst skertur. Umsvif ríkisins mæld sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu hafa aukist á vinstristjórnarárunum. Á árinu 1977 námu ríkisumsvifin 27%, árið 1978 28.6%, 1979 29.5% og 1980 er hlutfallið talið vera 28.6%, 1981 28.2% og síðan er sagt að á árinu 1982 verði hlutfallið rúmlega 28%. Ef sama hlutfall hefði verið á ríkisútgjöldum 1980 og það var 1977 hefðu þau orðið um 200 millj. kr. lægri eða um 2700 kr. á hverja þriggja manna fjölskyldu í landinu. Þegar hér er talað um ríkisumsvif er miðað við fjárlög. Þessar tölur eru í raun og veru alls ekki sambærilegar með tilliti til þeirra erlendu lána sem tekin hafa verið í miklum mæli á s. l. þremur árum. Ef þær tölur eru lagðar við geta menn gert sér grein fyrir því, að hlutfall ríkisumsvifa af þjóðarframleiðslu er miklu hærra en hér hefur verið bent á.

Við þm. Sjálfstfl., sem erum í stjórnarandstöðu, hefðum ekki trúað því fyrr en á reyndi að hæstv. forsrh. stæði fyrir slíkri skattheimtu. Það eru allir minnugir málflutnings hans fyrir kosningarnar 1979, að ég minnist ekki á skrif hans um fjármál ríkisins, með hvaða hætti hann teldi að fara ætti að. Ef það er borið saman við efndirnar hefur hann farið í gersamlega öfuga átt, miðað við allt það sem hann sagði 1979.

En það, sem er verst við þessa auknu skattheimtu, er að hún gengur ekki til uppbyggingar í landinu, heldur fyrst og fremst til þess að mæta auknum rekstrarútgjöldum ríkissjóðs.

Samkv. frv. til fjárlaga fyrir árið 1982 eru hlutföll fjárfestinga um 6%, en voru á árinu 1977 um 8%. Hér er um mikinn samdrátt að ræða. Í þessu frv. er tekin sú ákvörðun að flytja fjármagnsútgjöld vegna Kröfluvirkjunar úr A-hluta fjárlaga í B-hluta. Nema þessi útgjöld á árinu 1982 71.5 millj. kr., sem er um 1% af heildarútgjöldum A-hluta. Að sjálfsögðu er hér um eitt sjónarspilið enn að ræða til að fá út tölur sem að dómi ráðherranna sýna betri mynd en efni standa til. En það er hollt fyrir ráðh. að minnast þess og gera sér grein fyrir því, að það eru skattborgarar þessa lands sem ekki munu komast hjá því að greiða þessi gjöld, hvort sem þau eru færð í A-hluta eða B-hluta, hvort sem reiknimeistarar ríkisstj. geta með slíkri tilfærslu fært hlutdeild ríkisumsvifanna í lægri prósentu en ætti að vera.

Sú stefna, sem ríkisstj. fylgir í gjaldskrármálum opinberra stofnana, er með slíkum eindæmum að furðu sætir. Það er auðvitað enn ein leiðin til að reyna að sýna betri mynd af öllu saman. Það er auðvitað einn þátturinn í hinum opinbera feluleik í peningamálum sem ríkisstj. hefur beitt. Auðvitað ber að gæta fyllsta aðhalds og hófs í hækkunum gjaldskrár opinberrar þjónustu. En menn verða að hafa í huga að ekki má þrengja svo að þessum aðilum að ekki sé hægt að viðhalda þar eðlilegri starfsemi. Gjaldskrárákvarðanir mega ekki vera á þann veg, að stjórnendur þessara opinberu fyrirtækja hætti í reynd að stjórna þeim vegna óraunhæfrar verðlagningar — nema ríkisstj. ætlist til þess, að áfram verði haldið að fjármagna rekstur þeirra með erlendum lántökum.

Vegna þessarar stefnu ríkisstj. er nauðsynlegt að í fjárlögum verði ákvarðaðar gjaldskrár þessara B-hluta stofnana, sem fjármagna tekjur sínar með þjónustugjaldi, og heimildin þar með fengin. Að öðrum kosti verður áfram haldið þeirri óraunhæfu ákvarðanatöku sem átt hefur sér stað hjá vinstri stjórnum varðandi þessi mál aðeins til þess að útkoman í reikningsdæminu verði þeim hagstæðari.

Í ræðu sinni áðan vék hæstv. fjmrh. að því, að einhverjir hefðu orðað að bókhaldið væri falsað. Ég held að það hafi engin haldið því fram að bókhaldið væri falsað. Það liggur hins vegar ljóst fyrir, að um tölufölsun er að ræða þegar dæmin eru sett fram eins og gert hefur verið. Það liggur ljóst fyrir, að þegar ríkissjóður er keyrður svo hart í auknum útgjöldum sem raun ber vitni og ekki er hægt að skattpína meira eða menn treysta sér a. m. k. ekki til þess að gera það í bili, þá er hlaupið til og erlendar lántökur auknar til þess eins að koma út með jöfnuði, að menn segja, í ríkisfjármálunum. Hér er um opinberan feluleik í ríkisfjármálum að ræða. Hér er um að ræða feluleik sem ekki á að liða og landsmenn verða að gera sér grein fyrir að getur ekki gengið. Það er sama hvort um er að ræða lántöku frá Seðlabanka eða erlendis frá, það eru skattborgararnir sem verða að greiða. Það eru ekki ráðherrarnir sem slíkir.

Ég hef hér vakið athygli á atriðum í þessu frv. sem sýna mér a. m. k. að þetta frv. er marklaust. Ef stjórnarliðar hyggjast afgreiða fjárlög fyrir komandi ár án þess að gera verulegar breytingar á þessu frv. til þess að það verði miklu raunhæfara er verið að stíga stórt skref aftur á bak varðandi sjálfstæði Alþingis um ákvörðun útgjalda ríkissjóðs.