25.03.1982
Neðri deild: 58. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3255 í B-deild Alþingistíðinda. (2869)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Í 47. gr. þingskapa segir:

„Atkvgr. fer fram á þann hátt, að hver þm. réttir upp hægri hönd sína, hvort sem hann greiðir atkv. með eða móti máli. Skrifarar telja atkvæðin, en forseti skýrir frá úrslitum atkvgr., eftir að atkvæða hefur verið leitað með og móti.“

Nú var það svo, að hv. 1. þm. Vesturl. rétti upp hægri hönd sína með brtt. hv. 1. þm. Vestf. Hlaut ég því að telja hann í hópi þeirra sem voru með till. Get ég ekki skilið hvernig varaforseti deildarinnar finnur það út, að þarna hafi skrifara skotist, og óska eftir að þetta komi fram, að ég hlýt að telja atkv. eins og þau falla, en ekki eftir hugarburði þingmanna.