03.11.1981
Sameinað þing: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

1. mál, fjárlög 1982

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Sú ríkisstj., sem nú situr, hefur eins og aðrar ríkisstjórnir ákveðnar lagaskyldur gagnvart Alþingi. Meðal þeirra lagaskyldna, sem hver og ein ríkisstj. hefur, er að leggja fyrir Alþingi frv. til fjárlaga ásamt þjóðhagsáætlun og fjárfestingar-og lánsfjáráætlun sem eiga að fylgja frv. til fjárl. lögum samkvæmt. Sú hæstv. ríkisstj., sem nú situr, hefur þrisvar sinnum gert tilraun til að fullnægja þessari lagaskyldu sem á henni hvílir. Það er í fyrsta skipti nú sem hæstv. ríkisstj. hefur tekist að ganga frá þessari lagaskyldu sinni á þeim tíma sem henni er ætlað að gera það.

Vissulega hafði hæstv. ríkisstj. afsökun í fyrsta skipti sem hún átti að leggja fram frv. til fjárl., þá afsökun að hún tók ekki við störfum fyrr en í febrúarmánuði og átti því ekki hægt um vik að gegna þeirri lagaskyldu sinni að leggja fyrir Alþingi frv. til fjárlaga ásamt fskj. þegar í upphafi þings. Hins vegar hafði hæstv. ríkisstj. enga afsökun á s. l. hausti, þegar henni bar að leggja fram frv. til fjárlaga ásamt fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og þjóðhagsáætlun, aðra en þá, að þegar henni bar að leggja þessi gögn sín fram á s. l. hausti hefði hæstv. ríkisstj. enn ekki orðið sammála um hvað hún ætlaði að leggja fyrir þingið. Hún gat aðeins komið frá sér fjárlagafrv. ófullburða, en fjárfestingar- og lánsfjáráætlun gat ríkisstj. ekki látið frá sér fara fyrr en eftir áramótin. En allt er þegar þrennt er. Nú hefur hæstv. ríkisstj. loksins gegnt þeirri lagaskyldu sinni að leggja fram frv. til fjárl. ásamt þjóðhagsáætlun og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun á þeim tíma sem henni ber lagaskylda til að leggja þessi gögn fyrir Alþingi. Er út af fyrir sig ánægjuefni til þess að vita, að í þriðju tilrauninni tókst hæstv. ríkisstj. að gegna skyldum sínum við Alþingi.

Hitt er svo aftur á móti önnur saga, hvort sú tillögugerð, sem felst í frv. til fjárlaga og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, sé í alvöru gerð. Því miður er hæpið að svo sé. Á s. l. ári gat hæstv. ríkisstj. ekki komið neinni stefnumótun frá sér vegna þess að hún var ekki sammála um hver sú stefnumótun ætti að verða. Nú hefur hæstv. ríkisstj. hins vegar orðið sammála um að leggja fyrir Alþingi fjárlagafrv. og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem ekki fela neina stefnumótun í sér. Ég veit því ekki hvort ástæða er til að óska hæstv. ríkisstj. til hamingju með að geta lagt slík plögg fyrir þingið. Hún hefur m. ö. o. ekki einu sinni reynt það, sem hún reyndi þó í fyrra, að gera ráð fyrir einhverri stefnumörkun í þessum tillöguflutningi sínum.

Áður en ég kem að forsendum þeim sem eiga að vera fyrir þessu fjárlagafrv., en ríkisstj. hefur ekki mótað, vil ég fara örfáum orðum um þá meginstefnu sem hæstv. ríkisstj. segist hafa haft við gerð þessa fjárlagafrv.

Í aths. við frv. á bls. 169 segir að eitt af meginmarkmiðum ríkisstj. sé að halda uppi viðunandi kaupmætti almennra launa. Miðað við kaupmáttarstigið 100 1977 er kaupmáttur kauptaxta verkamanna nú í okt. 106.8 stig samkv. upplýsingum Kjararannsóknarnefndar. Þegar ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar var felld í júnímánuði árið 1978 var kaupmáttur kauptaxta verkafólks á sama mælikvarða 118.8 stig og í septembermánuði það ár, þegar ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar tók við völdum, var kaupmáttur kauptaxta verkafólks 118.9 stig, hafði ívið aukist frá því að ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar var felld. Nú í okt. er kaupmáttur kauptaxta verkafólks, eins og ég sagði áðan, 106.8 stig eða 12 stigum lægri en kaupmátturinn var á því heita vori þegar íhaldsstjórn Geirs Hallgrímssonar var felld. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. fjmrh.: Telur hann að þetta sé viðunandi kaupmáttur sem þarna lýsir sér? Er flokkur hans ánægður með það og telur hann það vera viðunandi kaupmátt kauptaxta verkafólks í landinu. að hann skuli vera 12 stigum neðar en hann var, þegar ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar var felld, og rösklega 12 stigum neðar en hann var þegar Alþb. komst fyrst til valda á þessu landi á því valdaskeiði sem enn er ekki lokið? Ég mundi ekki telja slíkan kaupmátt viðunandi, en hæstv. fjmrh. lýsir yfir í aths. með lagafrv. sínu að svo sé.

Hvað segir þá hæstv. fjmrh. um þá launastefnu sem í frv. er fólgin? Hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir að sett sé sérstök fjárhæð til hliðar í frv. til fjárl. til að greiða launafólki í þjónustu ríkisins verðlagsbætur á laun á næsta ári. Í þeim áætlunum er ekki gert ráð fyrir að neinar grunnkaupshækkanir verði á árinu 1982, m. ö. o. að það kaupmáttarstig, sem nú er, 106.8 stig, haldist óbreytt allt árið 1982 vegna þess hversu viðunandi það sé. Ef marka má þessar forsendur fjárlagafrv. gerir hæstv. fjmrh. einnig ráð fyrir því varðandi þessa áætlun sína um vísitölubætur á laun á næsta ári, að launþegar fái ekki fullar vísitölubætur á fyrsta vísitölutímabili nýs árs, því að öðruvísi gengur þessi áætlun ekki upp. Hæstv. fjmrh. og ríkisstj. gera sem sé ráð fyrir því í forsendum fjárlagafrv., að kaupmátturinn rýrni enn á næsta ári frá því sem hann er, en leyfðu sér samt að fullyrða í aths. við lagafrv. að ein meginviðmiðun ríkisstj. sé að halda viðunandi kaupmætti almennra launa. M. ö. o.: það, sem hæstv. fjmrh. telur vera viðunandi kaupmátt á árinu 1982, er samkv. forsendum fjárlagafrv. minni kaupmáttur en sá sem íslenskir launþegar búa nú við.

Annað meginstefnuatriði hæstv. ríkisstj. segir hæstv. fjmrh. vera að tryggja viðunandi afkomu atvinnuvega og fulla atvinnu. Finnst hæstv. fjmrh. líklegt að svo sé? Telur hann afkomu atvinnuveganna vera viðunandi? Telur hann afkomu iðnaðarins t. d. vera viðunandi? Hvað segja forustumenn Framsfl. um það? Það er ekki langur vegur frá þeim til þeirra forráðamanna sem Samband ísl. samvinnufélaga hefur valið til að stýra iðnfyrirtækjum sínum. Er það álit þessara forráðamanna að afkoma iðnrekstrarins í landinu sé viðunandi um þessar mundir?

Hvernig er afkoman hjá útgerðinni? Er hún viðunandi? Þeir nýju skuttogarar, sem nú eru að streyma til landsins eftir leyfum frá hæstv. sjútvrh. Steingrími Hermannssyni, þurfa að afla meira en 16 500 tonn á ári til þess að rekstur þeirra sé í jafnvægi. Mestu aflaskipstjórar geta gert sér vonir um ca. helming af þeim afla. Afgangurinn kemur út sem hreint tap. Er það viðunandi afkoma þessa aðalatvinnuvegar landsmanna?

Hvað um afkomuna í loðnuveiðunum? Hún er tryggð með erlendri lántöku. Hvað um síldveiðarnar? Þær hafa verið stundaðar á grundvelli erlendra lána. Hvað um orkuiðnaðinn sem Íslendingar segjast á hátíðum og tyllidögum byggja framtíðarafkomuvonir sínar á? Einnig sá iðnaður er rekinn með erlendum lántökum. Og það er meira að segja gert ráð fyrir því í þessu fjárlagafrv., að þessar stofnanir, bæði verksmiðjur ríkisins og orkufyrirtæki ríkisins, standi undir almennum rekstrarkostnaði á næsta ári með erlendum lántökum. Er það viðunandi afkoma í atvinnuvegunum?

Hvað um hina fullu atvinnu sem hæstv. ríkisstj. er að tala um? Um þessar undir eru 150 manns á atvinnuleysisskrá í Keflavík. Er það viðunandi atvinnuástand? Alla vetrarmánuðina á s. l. vetri voru stöðugt á atvinnuleysisskrá norður á Akureyri milli 100 og 200 manns, og ekkert hefur verið gert til að tryggja að þetta fólk fái atvinnu við sitt hæfi í vetur þegar þrengja fer að byggingariðnaðinum á Akureyri og allar líkur eru á að þetta fólk fari aftur á atvinnuleysisskrá. Er þetta viðunandi atvinnuástand? Ég þekki dæmi þess úr mínu eigin kjördæmi, af tveimur stöðum þar, Bíldudal og Patreksfirði, að fólk hefur þungar áhyggjur af atvinnuástandi á þeim stöðum og má engu muna að þar verði um mjög alvarlegt ástand að ræða. Telur hæstv. ríkisstj. að þetta sé viðunandi atvinnuástand? Í hvaða veröld lífa þessir menn? Það mætti ætla stundum af ræðum hæstv. forsrh. að hann lesi ekki einu sinni blöðin. En hvað um hina ráðh.? Hvað um þá menn sem eiga að bera ábyrgð á því að leggja grundvöllinn að fjárhagslegri afkomu íslenska ríkisins á næsta ári? Lesa þeir ekki heldur blöð? Hlusta þeir ekki heldur á útvarp? Horfa þeir ekki heldur á fréttir í íslenska sjónvarpinu?

Herra forseti. Þegar fjárlagafrv. er gert er það ein meginspurningin, sem ríkisstj. verður að taka afstöðu til, ein meginforsendan, sem ríkisstj. verður að reisa fjárlagagerð sína á, að hún verður að gera upp við sig hvaða stefnu hún ætli að reyna að hafa í verðlags- og launamálum á því ári sem hún gerir fjárlagafrv. fyrir. Fjárlagafrv., sem ekki tekur mið af slíkri stefnu, er út í hött vegna þess að það væri alveg eins hægt að skila auðum síðum og að prenta einhverjar tölur í tillögum að fjárlögum þar sem engin viðleitni til stefnumótunar væri mörkuð af hálfu ríkisstj. um a. m. k. að hverju hún vildi stefna í sambandi við verðlags- og launamál á því ári sem í hönd fer. Það er líka alkunna, að það er einmitt um þessar meginforsendur fjárlagagerðar sem átökin hafa hvað oftast orðið hörðust á milli flokka í samsteypuríkisstjórnum og þá ekki síst við Alþb., því að Alþb. hefur jafnan átt mjög erfitt með að gera upp við sig að hverju Alþb. vildi stefna í launa- og verðlagsmálum. Þetta var m. a. ástæðan fyrir því, að hæstv. ríkisstj. kom sér aldrei niður á tillögugerð í efnahagsmálum allt s. l. haust. Hún gat aldrei komið sér saman um að hvaða verðlags- og launaforsendum hún fyrir sitt leyti ætlaði að reyna að stefna. Auðvitað liggur ljóst fyrir að ríkisstj. ræður slíku ekki ein. Ríkisstj. ræður ekki verðlagi á erlendum mörkuðum. Ríkisstj. getur ekkert við það ráðið þó að olíuverð taki t. d. snögga og óvænta verðsveiflu upp á við. Ríkisstj. getur heldur ekkert við það ráðið hvaða launasamningar kunna að verða gerðir á vinnumarkaðinum. En ríkisstj. á Íslandi verður sjálf að hafa einhvern vilja í þessum efnum. Hún verður sjálf að hafa eitthvað til að stefna að, eitthvað til að berjast fyrir, eitthvað til að ræða um við þá aðila sem hún þarf að semja við um verðlags- og launamál. Ríkisstj., sem ekki hefur neina slíka stefnu, er auðvitað hreint rekald því að hún hefur ekkert markmið að stefna að. Það hefur ávallt verið erfitt í öllum ríkisstjórnum, sem Alþb. hefur átt sæti í, að fá Alþb. til að taka einhverja afstöðu í þessum málum, taka einhverja afstöðu í verðlagsmálum, taka einhverja afstöðu í launamálum.

Hvað gerir ríkisstj. í þessu fjárlagafrv. sínu þegar hún leggur það fram á Alþingi? Hún tilkynnir Alþingi að fjárlagafrv. sé lagt fram án þess að þessi stefna sé mótuð. Alþingi fær ekkert að vita um hver sé stefna ríkisstj. í verðlagsmálum á næsta ári, hvaða verðlagsmálapólitík hæstv. ríkisstj. ætli að reyna að keppa að né heldur hver sé vilji hæstv. ríkisstj. í launamálum á næsta ári, sem hún óhjákvæmilega hlýtur að verða spurð um alveg á næstunni. Þess í stað finnur hæstv. fjmrh. upp aðferð sem er einsdæmi í allri þingsögunni og hefur aldrei fyrr sést við fjárlagagerð. Í staðinn fyrir að leggja fram einhverja forsendu í launa- og verðlagsmálum á næsta ári býr hann til nýyrðið „reiknitala“. Hann segir: Ríkisstj. hefur enga stefnu í verðlagsmálum til þess að miða fjárlagagerð sína við. — Hins vegar eru fjárlögin búin þannig til að það er notuð einhver reiknitala sem er 33%. Af hverju 33%. Af hverju ekki eins 25% eða 40% eða 100% ? Það fæst ekkert svar við því. Í vali reiknitölunnar er engin stefna mótuð, það er tekið skýrt og skorinort fram í grg. frv. að svo sé ekki. Og þá spyr ég: Hvaðan er þessi reiknitala fengin? Hver hefur valið hana? Hvernig var hún fundin og hvað þýðir hún? Þýðir hún það, að ríkisstj. hafi e. t. v. allt aðra stefnu í verðlags- og launamálum en kemur fram í frv.? Ef svo er, hvaða stefna er það þá og hvenær skyldi hún eiga fram að koma ef ekki við fjárlagagerð? Eða þýðir þetta nýyrði: „reiknitala“, að ríkisstj. hafi enga stefnu í því máli, ekkert markmið í verðlags- og launamálum? Hvers virði eru þá tillögur að fjárlagagerð sem settar eru fram án þess að hæstv. ríkisstj. a. m. k. reyni að marka sér einhverja stefnu í þessum málaflokki?

Það er óneitanlega gaman að sjá hvernig ríkisstj. veltir þessum vanda fyrir sér eins og heitri kartöflu á milli handanna. Fjárlagafrv. kom fram á Alþingi fyrst af þessum þremur þskj.: fjárlagafrv., þjóðhagsáætlun og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Á bls. 169 segir um þessa dularfullu reiknitölu:

„Það skal tekið fram, að reiknitala fjárlagafrv. er ekki hugsuð sem verðbólguspá fyrir komandi ár?“

Hvernig er hún hugsuð þá, ef hún er ekki hugsuð sem verðbólguspá fyrir komandi ár? Hvað er þá þessi reiknitala? Hvaðan er hún fengin? Er þetta kannske talan sem Sölvi Helgason notaði til að reikna kálf í kú? Einhver ástæða hlýtur að vera fyrir því, að hæstv. ríkisstj. velur töluna 33 frekar en 35, 34, 32, 29, 50 eða 100. En hæstv. ríkisstj. tekur strengilega fram að það megi alls ekki líta svo á að þessi reiknitala, sem ég veit ekki hvað er, sé hugsuð sem verðbólguspá fyrir komandi ár því að svo sé alls ekki. Síðan heldur hæstv. fjmrh. áfram í aths. sínum og segir:

„Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1982 verða settar fram horfur um verðbólgu á komandi ári.“

Þar á stefnan að koma. Þjóðhagsáætlun var ekki komin þegar fjárlagafrv. var lagt fram, en kom nokkrum dögum seinna. Og hvað skyldi nú segja um verðbólguhorfurnar og stefnu ríkisstj. í þessum málum í því ágæta þskj. sem boðað var í aths. með fjárlagafrv. að mundi flytja þingi og þjóð stefnu í þessum málum. Þar segir ekki neitt. Þar hefur hæstv. ríkisstj. ekkert að segja um þetta og engar tillögur að gera. Þvert á móti segir hæstv. ríkisstj. í þjóðhagsáætlun sinni, á bls. 20, ef ég man rétt, að margt af þessu sé mjög óráðið. Það lá að: margt af því væri óráðið og því erfitt að setja fram spá um þessa þróun. M. ö. o: hæstv. ríkisstj. býr til fjárlagafrv. án þess að hafa markað sér nokkra stefnu í verðlags- og launamálum, sem er grundvallaratriði allrar fjárlagagerðar. Þess í stað finnur hún einhvers staðar úti í himinblámann einhverja tölu, sem vill svo til að er talan 33, og setur hana inn í tölvurnar og segir við tölvumeistarana: Nú skuluð þið reikna út frá þessari tölu, en það má enginn taka hana alvarlega. Þetta er bara reiknitala. En í Alþingi segir hæstv. ríkisstj.: Bíðið bara andartak, því að þegar þjóðhagsáætlun kemur fram skulum við setja fram stefnuna. Síðan kemur þjóðhagsáætlunin fram. Hvað segir ríkisstj. þá? Nei, því miður, þetta er gersamlega ómögulegt að gera, segir hæstv. ríkisstj. Ætli hæstv. fjmrh. tilkynni þá ekki í svarræðu sinni hér á eftir að þess sé að vænta, að þessarar stefnu, sem ekki var hægt að marka við gerð fjárlagafrv., ekki var hægt að marka við gerð þjóðhagsáætlunar, hennar sé að vænta við 2. umr. fjárlaga eða kannske í ræðu hæstv. forsrh. í sjónvarpinu á gamlárskvöld. Þar kom stefnan loksins fram á s. l. hausti og skyldi það nú ekki vera, að hún kæmi líka fram í gamlársboðskapnum núna?

Það eru einkum og sér í lagi tvö atriði, sem hæstv. ríkisstj. hrósar sér af í aths. sínum með þessu fjárlagafrv. Það er í fyrsta lagi hinn stóraukni sparnaður, frjálsi sparnaður, sem orðið hefur í landinu og skapaði ríkisstj. mikla möguleika, ef hún hefði kært sig um, til þess að snúa frá erlendum lántökum yfir í hóflegar lántökur á innanlandsmarkaði. Það er annað atriðið, sem hæstv. ríkisstj. hrósar sér fyrir. Hitt er verðbólguþróunin, sem hæstv. ríkisstj. segir að stefni í það að verða 40% frá upphafi til loka ársins.

Hvernig skyldi nú standa á því, að þær gleðilegu fréttir hafa gerst, að sparnaður í landinu hefur farið ört vaxandi? Skyldu ekki allir vera sammála um það, að skýringin á því sé verðtryggingarstefnan sem blessunarlega hefur nú fengið að vera nokkurn veginn í friði í landinu í rösk þrjú ár? Skyldu það ekki vera meginskýringin? Jú, ég efast um að nokkur mótmæli því. Hver var það sem fékk þá verðtryggingarstefnu samþykkta, barðist fyrir henni og fékk hana samþykkta í harðri andstöðu m. a. við flokk hæstv. fjmrh.? Það var ekki Gunnar Thoroddsen. Það var ekki Framsfl. Nei það var Alþfl. Og mikið fengum við Alþfl.-menn að finna fyrir því hjá Alþb. og formanni Framsfl., að við skyldum hafa neytt þá til fylgis við þessa þjóðhættulegu stefnu. Hvað sagði ekki formaður Framsfl. í sjónvarpi fyrir nokkrum mánuðum, þegar hann var að tala um að hann hefði látið glepjast til fylgis við verðtryggingarstefnu Alþfl. sem aldrei skyldi verið hafa? Nú er þetta orðin ein helsta rós ríkisstj. Hún hrósar sér af að geta nú uppskorið það sem Alþfl. sáði til þegar hann fékk verðtryggingarstefnuna samþykkta. Hæstv. ríkisstj. þakkar sér það, að sparnaðurinn skuli hafa farið í vöxt, eins og gerst hefur, að menn skuli hættir að stela af sparifé gamla fólksins og unglinganna. Hæstv. ríkisstj. telur það sér til tekna. En það var ekki henni til tekna, vegna þess að það liðu varla svo vísitölutímabil á Alþingi í fyrra og hittiðfyrra að ráðh. í hæstv. ríkisstj. kæmu ekki hér upp í ræðustólinn hver á fætur öðrum til að lýsa yfir hvílík þjóðarnauðsyn væri að afnema þessa verðtryggingarstefnu sem Alþfl. hefði –eins og þeir sögðu þá — illu heilli borið ábyrgð á að leiða í lög í þessu landi.

Hins vegar hefur hæstv. ríkisstj. gjörsamlega vanrækt annað atriði, sem var meginatriði í till. okkar Alþfl. manna um verðtryggingarmálin, og það er að breyta útlánakjörunum þannig að létta greiðslubyrði af því fólki, t. d. því sem stendur í húsbyggingum, sem á erfitt um vik vegna þessarar stefnu. Það hefur ríkisstj. algerlega vanrækt að gera. Hún vill gjarnan halda þannig á málunum, hæstv. ríkisstj., að þakka sér árangurinn af verðtryggingarstefnunni sem hefur lýst sér í stórauknum sparnaði, en kenna okkur um dekkri hliðarnar sem felast m. a. í mikilli greiðslubyrði þeirra sem skulda, en mætavel ætti að vera hægt að laga með því einfaldlega að dreifa greiðslubyrðinni yfir lengra tímabil en gert hefur verið.

Svo er það verðbólguþróunin sem hæstv. ríkisstj. segir að fari ekki fram úr 40% frá upphafi til loka árs. Með einni símhringingu upp í Þjóðhagsstofnun er hægt að ganga úr skugga um hvernig verðhækkunarferillinn hefur raunverulega verið á 12 mánaða tímabili, allt s. l. ár, frá jan. 1980 til jan. 1981, frá febr. 1980 til febr. 1981 o. s. frv. Hvernig skyldi sá verðhækkunarferill hafa verið? Hann er þannig að verðhækkanir á 12 mánaða tímabili allt þetta ár hafa verið um og yfir 50%. Og verðhækkanir á 12 mánaða tímabili, nóv. 1980 til nóv. 1981, verða líka um 50%. Síðan gerist það, þegar kemur að síðasta mánuði ársins og menn flytja sig frá viðmiðuninni nóv. 1980 til nóv. 1981 yfir í des. 1980 til des. 1981, að þá snarfellur þessi vog verðhækkana niður í um það bil 40%, ef ríkisstj. tekst að halda hjólunum gangandi fram til ársloka án þess að grípa til aðgerða sem munu óhjákvæmilega hraða snúningi verðbólguhjólsins á ný. Hvers vegna kemur þetta út? Hvers vegna verður sú mikla breyting á svo til einni nóttu, frá viðmiðuninni nóv. 1980 til nóv. 1981 yfir í desemberviðmiðun, des. 1980 til des. 1981, að verðhækkunarvogin snarlækkar úr yfir 50 niður í um það bil 40? Skýringin á því er mjög einföld. Eins og menn muna eftir tók ríkisstj. þá ákvörðun í desembermánuði s. l. — og tilkynnti það frammi fyrir þjóðinni í sjónvarpsræðu forsrh. að kvöldi gamlársdags — að ausa út í þeim mánuði gríðarlegum verðhækkunum þannig að verðhækkanir á árinu 1980 tóku stórkostlegt stökk frá nóv. til des. sama ár. Þá var ausið út verðhækkunum á einni nóttu svo að miklu munaði. Einfaldlega þess vegna gerist það, að þegar verðbólguviðmiðunin er flutt yfir mánaðamótin nóv.-des. virðist eins og verðbólguhraðinn snarminnki. En það er ekki í raun. Hraðinn á verðbólgunni er nú sá sami og hann hefur oftast verið, einhvers staðar á bilinu 9–11% á þriggja mánaða tímabili. Vel að merkja því aðeins að ríkisstj. takist að halda hjólum atvinnulífsins í gangi fram til áramóta án þess að þurfa að grípa til ráðstafana sem mundu mjög hvata verðbólguhjólinu, svo sem gengisbreytingar eða einhverra slíkra ráðstafana sem sumir telja að óhjákvæmilegar kunni að reynast á næstu vikum þó að ríkisstj. sjálf hafi gefið yfirlýsingar um að svo verði ekki.

Herra forseti. Það hefur komið fram hér hjá hæstv. fjmrh. að hann er óskaplega hörundssár yfir því, að menn hafa leyft sér að benda á að til þess að sýna hagkvæma útkomu úr rekstri ríkissjóðs á pappírnum hafi hann gripið til millifærslna á milli A- og B-hluta fjárlaga sem ekki eigi sér fordæmi, t. d. við síðustu fjárlagagerð. Ég skal fúslega nefna nokkur dæmi um það og fara yfir þau með hæstv. fjmrh. til að sýna honum þetta. En áður en ég geri það ætla ég aðeins að benda á örfá atriði til viðbótar um þann veika grunn sem fjárlagafrv. hvílir á.

Það er gömul kenning, að ekki skipti máli þó svo að tekjur og gjöld í fjárlagafrv. séu vanáætluð vegna þess að það sé þumalfingursregla, sem megi nokkurn veginn fylgja, að ef verðbólga reynist meiri en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., þá standist það nokkurn veginn á endum að tekjur og gjöld vaxi álíka mikið þannig að ekki komi til hallabúskapar hjá ríkissjóði. Til að þessi þumalfingursregla standist verður tvennt að vera alveg öruggt: 1. Öll framkvæmdalög verða að vera bundin við þá krónutölu sem fram er tekin í frv. Þau mega ekki hækka með verðþróun. 2. Allir viðhaldsliðir fjárlaga verða að vera fastir í krónutölu. Ef frá þessu er vikið, ef framkvæmdalögin eru hækkuð frá áætlun fjárlaga, standast ekki fjárlagaforsendur við verðlagsþróun og ef viðhaldsliðir eru hækkaðir til samræmis, þá fer allt úr böndunum. Og nú langar mig til þess að spyrja: Ef þessi svokallaða reiknitala, 33% verðlagsþróun á næsta ári, mun við betri athugun ekki reynast stefna ríkisstj., heldur að verðlagsþróunin muni verða öllu líkari því sem hún er í dag, eitthvað í kringum 50%, telja menn þá líklegt að hægt sé að halda framkvæmdalögum í óbreyttum fjárhæðum, miðað við 33% verðbólguvöxt, ef verðbólgan yrði í rauninni 50%? Ég er hræddur um að hæstv. fjmrh. muni reynast það ekki bara erfitt, heldur ókleift. Hvernig yrði því þá mætt? Því yrði ekki mætt með öðrum hætti en annaðhvort aukinni erlendri lántöku ellegar aukinni skattheimtu. Með sama hætti er gersamlega útilokað að takist að halda viðhaldsliðum óbreyttum í krónutölu ef spá fjárlagafrv. stenst ekki, þessi lága verðlagsspá, en verðhækkanirnar yrðu eitthvað svipaðar og þær eru í dag. Aðeins þetta eina atriði sýnir hversu veikur grundvöllurinn er undir fjárlagafrv.

En látum þetta nú lönd og leið. Tökum annað dæmi. Það hefur eitt gerst til viðbótar þessu sem hefur breytt þeirri gömlu þumalfingursreglu, að ekki skipti máli, þótt áætlanir um verðþróun í fjárlagafrv. standist ekki, vegna þess að það komi í sama stað niður fyrir tekjur og gjöld. Það sem hefur breytt þessu er verðtryggingarþátturinn í lánum ríkissjóðs, þ. e. hve vaxtagreiðslur af lánum ríkisins eru orðnar gríðarlega mikill þáttur í útgjöldum ríkissjóðs. Reynsla síðustu 2–3 ára bendir til þess, að ef verðlagsforsendur fjárlaga standast ekki og reynast eitthvað hærri en fjárlagafrv. er reist á, þá fara vaxtagjöldin öll úr böndunum og útgjöld ríkisins vaxa af þeim sökum miklu meira en tekjurnar. M. ö. o.: ef þessi spá, 33% reiknitalan, reynist röng munu vaxtaútgjöldin, sem af þeirri verðþróun stafa, setja ríkissjóð yfir um eins og frá málum er gengið í þessu fjárlagafrv.

Þá langar mig í þriðja lagi að benda á það, sem einnig sýnir fram á á hve veikum grunni þetta fjárlagafrv. er reist, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar sér að standa að lánsfjáröflun á hinum innlenda lánamarkaði. Það er gert ráð fyrir að auka skyldukaup lífeyrissjóðanna á skuldabréfum ríkisins, Byggingarsjóðs og annarra opinberra sjóða, úr 40% í 45%. Hæstv. fjmrh. sagðist vonast til að þeirri málaleitan yrði tekið vel af lífeyrissjóðunum. Þar er ekki um neina málaleitan að ræða. Fjárlagafrv. er þannig frá gengið að búið er að ráðstafa þeim peningum. Peningunum er ráðstafað í frv. M. ö. o.: verði málaleituninni ekki sinnt verður lögþvingunin, sem ríkisstj. beitir lífeyrissjóðina í dag, aukin. En hver er reynslan? Reynsla Byggingarsjóðs ríkisins er sú, að mér er tjáð, að það hafi aldrei verið erfiðara að fá lífeyrissjóði til að kaupa skuldabréf þar heldur en í ár. Hvernig er fjárhagsstaða lífeyrissjóðanna í landinu? Hæstv. fjmrh. ætti að fara nærri um það, vegna þess að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur, eins og hæstv. ráðh. veit, kippt að sér höndum um lánveitingar vegna þess að fjárhagsstaða hans er slík að hann getur ekki staðið við þau fyrirheit um lánveitingar til félagsmanna sinna sem hann hafði gefið. Finnst mönnum líklegt að þetta séu rök fyrir því, að hægt verði að auka skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna af ríkissjóði og opinberum sjóðum eins og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir?

Í annan stað gerir hæstv. ríkisstj. ráð fyrir því, að á sama tíma og hún skyldar banka og sparisjóði til að kaupa skuldabréf af ríkissjóði og leggja þannig fram fé til rekstrar ríkissjóðs geti hún, eins og segir í aths. með fjárlagafrv., gengið þannig frá málum, að öllum framkvæmdaaðilum, sem áður hafa fengið framkvæmdalán til húsbygginga hjá Byggingarsjóði ríkisins, verði þar synjað um lán, en þeir leiti á náðir viðskiptabanka og sparisjóða. Hæstv. ríkisstj. bókstaflega tekur fram í grg. með frv. þessu að gert sé ráð fyrir að Byggingarsjóður ríkisins hætti að veita framkvæmdaaðilum, sveitarfélögum og öðrum þeim aðilum, sem standa í húsbyggingum, framkvæmdalán úr Byggingarsjóði ríkisins, eins og þessir aðilar hafa áður haft, en þeim verði þess í stað vísað á bankana.

Í þriðja lagi verður ekki betur séð af orðum hæstv. ríkisstj. en hún ætlist einnig til þess, að þessir sömu bankar og sparisjóðir taki fé sitt og verji því í millifærslu til sjávarútvegsins til þess að hægt sé að halda útgerðinni gangandi fram að áramótum.

Það á sem sé að ráðstafa þessu sama fjármagni til þriggja aðila. Í fyrsta lagi eiga bankarnir að ráðstafa þessu eigin fé sínu til þess að kaupa skuldabréf af ríkissjóði og skaffa ríkissjóði þannig fé. Í öðru lagi eiga þeir að taka við þeim aðilum frá Byggingarsjóði ríkisins, sem þar hafa hingað til fengið framkvæmdalán, og sinna skyldum Byggingarsjóðs ríkisins við þá. Og í þriðja lagi eiga þeir af þessum sömu peningum að ráðstafa hundruðum millj. í millifærslur yfir til sjávarútvegsins. Verður ekki annað sagt en þarna sé a. m. k. tvínotuð hver króna. Þetta er enn eitt dæmið um á hve veikum grunni þetta fjárlagafrv. er byggt.

En ég ætlaði mér til gamans að fara með hæstv. fjmrh. yfir nokkur atriði í þessu fjárlagafrv. sem sýna hvílíkum bellibrögðum er nú beitt við frágang á rekstrarreikningi og greiðsluyfirliti ríkissjóðs, til þess að styðja frekar þau ummæli sem áður hafa komið fram, — ekki um það, að fjárlagafrv. sé með einhverjum hætti falsað, síður en svo. Hér er ekki um neinar falsanir að ræða eða bókhaldssvik, heldur bellibrögð af því tagi, að fjárveitingum úr ríkissjóði er breytt yfir í erlendar lántökur og fluttar úr A- hluta yfir í B-hluta til þess að á pappírnum sé hægt að sýna hagkvæmari niðurstöðu úr rekstrarreikningi ríkissjóðs er rétt er.

Við skulum taka þrjú dæmi, láta það nægja í bili. Ef við flettum upp á töfluverkefni hæstv. fjmrh. á bls. 182 í fjárlagafrv. þessu, þá sjáum við í B-hluta fjárlagafrv., sem nær yfir stofnanir ríkisins sem hafa sjálfstæðan og sérskilinn fjárhag, að þar kemur tala um Kröfluvirkjun þar sem gert er ráð fyrir að framkvæmdir vegna Kröfluvirkjunar séu 63 millj. kr. og fjármagnsútgjöld 71 millj. kr. eða samanlagt 134.5 millj. kr., eitthvað þar um bil. Í grg. með frv. er sagt að tilgangurinn sé að taka allar þessar fjárhæðir að láni, bæði fjármagnsútgjöldin og framkvæmdirnar. Ekkert af þessu er nýtt. En í fjárlagafrv. liðins árs og liðinna ára hjá hæstv. fjmrh. var þessum lánveitingum skipt á A- og B-hluta þannig að fjármagnsútgjöldin voru færð á A-hluta en aðeins framkvæmdaútgjöldin á B-hluta. Nú hefur þessu bókhaldi verið breytt. Hvaða áhrif hefur það? Við skulum að gamni okkar setja þetta fjárlagafrv. að þessu leytinu til upp eins og fjárlagafrv. var sett upp á s. l. ári og fjárlagafrv. áranna þar á undan voru einnig sett upp: Þá hefði staðið á bls. 1: Greiðsluyfirlit ríkissjóðs, rekstrarreikningur, fært undir útgjöld, gjaldahlið: Fjármagnsútgjöld vegna Kröfluvirkjunar að upphæð 71 millj. kr. Það hefði hækkað gjöld á rekstrarreikningi um 71 millj. kr. og lækkað rekstrarafgang ríkissjóðs um næstum því hálfa þá upphæð sem þar er færð. Á móti hefði komið inn, undir tekin lán í A-hluta, sama upphæð í lánahreyfingum. Tekin lán hefðu þá hækkað úr 318 millj. kr. í 399.6 millj. kr. M. ö. o.: í staðinn fyrir það, eins og reynt er að sýna fram á hér hjá hæstv. fjmrh., að greidd lán ríkissjóðs séu hærri en tekin lán ríkissjóðs, hefði dæmið snúist við. Dæmið hefði snúist við. Hæstv. fjmrh. hefði tekið meiri erlend lán en hann hefði greitt. Tekin lán umfram greidd lán hefðu orðið 79 millj. kr. Allur greiðsluafgangurinn, sem hæstv. fjmrh. hrósar sér fyrir, á greiðsluyfirliti ríkissjóðs, hefði verið fenginn með erlendum lántökum. Þetta hefðu sem sé verið dæmigerð Matthíasar Á. Mathiesen fjárlög, þar sem greiðsluafgangur væri fenginn með meiri lántöku en nemur afborgunum af lánum.

Í staðinn fyrir að færa fjármagnsútgjöld Kröflu með sama hætti og þau voru færð í fjárlögum og fjárlagafrv. í fyrra og árið þar áður, hefur hæstv. fjmrh. breytt bókhaldsaðferðum sínum og fært öll fjármagnsútgjöld Kröfluvirkjunar út úr A-hluta fjárlaga, út úr hinu takmarkaða ríkisbókhaldi og yfir í B-hlutann. Þetta breytir í sjálfu sér ekki miklu. Þetta breytir engu um lántökuna í heild. Þetta breytir því einu, að hæstv. ráðh. getur sýnt fram á rekstrarjöfnuð upp á 151 millj. kr. á greiðsluyfirliti ríkissjóðs, sem hefði verið rekstrarjöfnuður um nákvæmlega helmingi minni fjárhæð ef hann hefði haldið óbreyttri bókhaldsreglu frá því í fyrra. Eins og greiðsluyfirlitið er sett upp er hæstv. fjmrh. auðsjáanlega að reyna með einhverjum hætti að burðast við að geta sýnt einhverja tölu um það, að hann borgi meiri erlend lán en hann tekur. En það er ekki aldeilis svo, því að ef hann hefði ekki gert þessa bókhaldsbreytingu, ef hann hefði haldið sig við sömu færslur og gerðar voru í fyrra, hittiðfyrra og árið þar áður, þá hefði dæmið verið alveg þveröfugt. Þá hefði hæstv. ráðh. tekið meiri lán en hann greiðir, tekið tæplega 80 millj. kr. meiri lán en hann greiðir, og allur greiðsluafgangur ríkissjóðs væri fenginn með erlendum lántökum. Ég sé að þetta kemur hæstv. fjmrh. ekkert á óvart. Honum er alveg ljóst hvað hér er verið að gera.

En skyldi þetta nú vera eina dæmið? Nei, þetta er ekki eina dæmið. Við skulum fletta hér saman upp á bls. 235. Ég sé að hæstv. fjmrh. þarf ekki að fletta, hann veit hvað þetta er. Hvað skyldi nú standa á bls. 235? Ég kann það ekki utan að þó að hæstv. fjmrh. geri það, svo að ég verð að fletta upp á því. Þar stendur: Um Orkusjóð, við 371, 5. línu að ofan:

„Framlag til lánagreiðslna lækkar um 4.5 millj. kr. og verður 17 millj. kr. Skýring þess, að framlagið lækkar, er sú, að lánagreiðslur vegna virkjunarrannsókna falla nú niður sem sérstök fjárveiting. Þess í stað er gert ráð fyrir að virkjunarrannsóknir annist sjálfar fjárútvegun til að standa undir greiðslu vaxta og afborgana.“

Hvernig skyldi það vera gert? Jú, það er gert með erlendum lántökum.

Í fyrra var framlag úr ríkissjóði í þessu sambandi 21.5 millj. Sú tala var færð á rekstrarreikning sem útgjöld ríkissjóðs og lækkaði rekstrarafkomu ríkissjóðs. Hvað gerir ráðh. nú til þess að reyna að sýna fram á hagstæða tölu? Jú, jú, hann lækkar framlagið úr ríkissjóði í þessu sambandi og lækkar þar með útgjöldin á rekstrarreikningnum, en tekur bara lán fyrir mismuninum og færir þau yfir á B-hlutann, þannig að fram kemur í færslunum, eins og þær eru gerðar hjá hæstv. fjmrh. á greiðsluyfirlitinu, að framlögin hafi verið lækkuð til lánagreiðslnanna, vegna þess að hluta af þeim hefur verið breytt yfir í lántöku samkv. B-hluta og er ein af skýringunum á því, að lántökur til B-hluta aukast um meira en 90%. Það er enginn vandi að leika sér svona með tölur til þess einfaldlega að sýna á pappírnum einhverja hagstæðari rekstrarútkomu ríkissjóðs heldur en hún raunverulega er, með því einfaldlega að breyta framlögum úr ríkissjóði, eins og hæstv. fjmrh. gerir, yfir í lántökur, þannig að þær færist ekki lengur sem rekstrarútgjöld ríkissjóðs, heldur sem lántökur í B-hluta.

Á þessari sömu bls. er annað dæmi, þriðja dæmið sem er enn þá meira lýsandi um hvað hæstv. ráðh. er að gera. Það er þarna neðst á síðunni. Þar stendur:

„Fjárveiting til sveitarafvæðingar lækkar um 2.3 millj. kr. og verður framlagið 2.7 millj. kr. En auk þess er gert ráð fyrir lántöku í B-hluta Orkusjóðs að fjárhæð 4.5 millj. kr. þannig að ráðstöfunarfé til rafvæðingar í sveitum nemur samtals 7.2 millj. kr.“

Þetta er nákvæmlega sama sem hér er gert. Hér er lækkuð fjárveiting úr ríkissjóði frá því í fyrra í beinum krónum til sveitarafvæðingar. Tilgangurinn er ekki að draga úr sveitarafvæðingunni. Nei, tilgangurinn er að geta fært hluta af útgjöldunum, sem voru færð á rekstrarreikning ríkissjóðs í fyrra, yfir í lántöku í B-hluta svo að þau komi ekki í ljós sem útgjöld hins takmarkaða ríkissjóðs eins og hann er færður í A-hluta fjárlagafrv. Og hvers vegna er þetta skollaleikur? Það skal ég skýra með mjög einföldu dæmi.

Segja má að það sé út af fyrir sig í lagi að breyta framlagi til lánagreiðslna í Orkusjóði úr ríkisframlagi í lán, m. a. vegna virkjunarrannsókna, sem þýðir einfaldlega það, að verið er að taka þá ákvörðun varðandi virkjunarrannsóknirnar að láta væntanlegar virkjanir greiða þær upp. Má segja að það sé út af fyrir sig verjandi að flytja þetta frá fjárveitingu úr ríkissjóði yfir í skuldasöfnun á virkjunarrannsóknir í B-hluta, vegna þess að til þess sé ætlast einhvern tíma í framtíðinni, að þegar þessar virkjunarrannsóknir hafi skilað árangri og virkjanirnar eru risnar, þá taki virkjanirnar við þessum lánum og borgi þau upp. En hver á að borga sveitarafvæðinguna? Hver á að borga lánin sem Orkusjóður hefur milligöngu um að afla fyrir sveitarafvæðingu? Ég veit ekki til þess, að þeir, sem sveitarafvæðingarinnar njóta, bændur í sveitum landsins sem eru að fá styrkt dreifikerfi til sín, greiði svo mikið sem eina krónu af þessu. (Gripið fram í: Heimtaugagjöldin.) Aðeins heimtaugagjöld, já. Ég veit ekki til þess, að nokkur aðili geti greitt þetta lán vegna sveitarafvæðingar annar en ríkissjóður. Hvað á það þá að þýða að vera að færa þetta yfir í B-hluta stofnun, lántöku sem allir vita að er lántaka ríkissjóðs og ríkissjóður mun greiða í framtíðinni? Þetta er ekkert annað en bellibrögð til þess að sýna fram á hagstæðari rekstarafkomu ríkissjóðs en hún raunverulega verður. Það er engin vörn hjá hæstv. fjmrh. að ætla sér að færa lántöku vegna sveitarafvæðingar yfir í B-hluta fyrirtæki á fjárlögum vegna þess að sveitarafvæðingin verður aldrei greidd af öðrum en ríkissjóði sjálfum. Það er enginn aðili, sem hæstv. fjmrh. getur bent á, sem ætti að taka að sér að greiða þetta lán. Fyrrv. formaður orkuráðs, Þorv. Garðar Kristjánsson, kinkar ákaft kolli, honum er þetta jafnljóst og mér.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi, herra forseti, um hvernig hæstv. fjmrh. falsar ekki ríkisbókhaldið, hins vegar leikur þann leik til þess að geta sýnt hagstæðari afkomu ríkissjóðs í A-hluta að breyta ákveðnum framlögum úr ríkissjóði í lántökur, sem koma fram í B-hlutanum, og stendur svo uppi og sýnir Alþingi hagstæða afkomu sem í raun og veru er alveg þveröfug mynd ef allt væri fært upp eins og í fjárlagafrv. í fyrra. Ef gengið væri frá þessu fjárlagafrv. eins og fjárlagafrv. í fyrra mundi vera rekstrarhalli á ríkissjóði og allur greiðsluafgangurinn skýrðist einfaldlega af erlendum lántökum. — Það eru fleiri sem brosa í kampinn en fyrrv. formaður orkuráðs. Ég sé að fyrrv. fjmrh. glottir líka.

Þar var ýmislegt fleira en þetta, sem ég hefði áhuga á að spyrja hæstv. fjmrh. um. Ég býst ekki við að hann svari þessi neinu. Þeir gleðilegu atburðir hafa gerst, að þó svo ekki hafi gefist tími til að marka neina stefnu um forsendur fjárlagafrv. á milli þess að frv. var lagt fram og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun var lögð fram, þá hefur hæstv. ríkisstj. að því er virðist tekið ýmsar ákvarðanir sem væri gaman að fá að vita hvað stæði á bak við, vegna þess að fjárlagafrv. og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun stemma ekki saman. Það er allverulegur munur á tölum þeim, sem okkur eru tilkynntar í fjárlagafrv. og hins vegar því, sem tilkynnt er í fjárlaga- og lánsfjáráætlun, þó aðeins nokkrir dagar hafi liðið á milli þess að þessi tvö skjöl komu út.

Ef við flettum enn blöðum í þessari skemmtilegu bók hæstv. ráðh., á bls. 182, þá er þar tafla mikil um lánsfjárþörf ríkissjóðs samkv. frv. til fjárlaga fyrir árið 1982, eins og gert er ráð fyrir að þessi fjáröflun sé í fjárlagafrv. Á bls. 25 í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun er sama tafla en nú bara stemmir ekki saman. Það hefur eitthvað gerst í millitíðinni, hæstv. fjmrh., sem væri gaman að fá að vita hvaða ástæður lægju á bak við. (Gripið fram í.) Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðh. viti það, ég geri ráð fyrir að þetta séu ekki prentvillur. Hér stendur t. d. í fjárlagafrv. að lánsfjárþörf ríkissjóðs vegna þjóðarbókhlöðu sé 5.5 millj., en í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun að þessi lánsfjárþörf sé 7.5 millj. Það hefur eitthvað hækkað þarna um 2 millj. í millitíðinni og ég hefði ánægju af að fá að vita hver ástæðan er. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. svari því.

Í annan stað hefur sá gleðilegi atburður einnig gerst, að ákvörðun hefur væntanlega verið tekin — ég býst við því að svo sé — um talsverðar framkvæmdir í byggðalínum, vegna þess að fjármagnsútgjöld vegna byggðalína hafa hækkað á þeim fáu dögum, sem eru á milli þess að fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun kom fyrir auglit okkar þm., úr 40 millj. 493 þús. í fjárlagafrv. í 100 millj. 493 þús. í lánsfjáráætlun. Það er engin smáprentvilla ef prentvilla skyldi vera. (Gripið fram í: Á Suðurlínuna.) Væntanlega er þetta til Suðurlínu og verður þá sú skýring gefin á.

Á bls. 14 í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun birtist önnur mjög athyglisverð staðreynd. Þar stendur: „Þá er þess að geta, að fyrirhugað er að leggja sérstakt gjald á raforkusölu eftir stofnlínum, alls 40 millj. kr.“ Hvað þýðir þetta, hæstv. fjmrh.? Þýðir þetta að til standi að hækka raforkuverð í landinu um 40 millj. kr.? Hvenær skyldi það eiga að gerast og hvaða áhrif hefur það á reiknitöluna hjá hæstv. ráðh.? Skyldi vera að reiknitalan þyrfti kannske að vera 33.5 eða 331/4, eða skiptir það kannske ekki nokkru máli? Ég vildi gjarnan að þessu gefna tilefni spyrjast fyrir um fyrirætlanir ríkisstj. um þessi efni, því hér er gert ráð fyrir að raforkunotendur í landinu borgi og þá væntanlega þeir raforkunotendur sem fá rafmagn sitt af byggðalínum. Hverjir eru þeir? Það eru raforkunotendur á Austfjörðum, á Norðurlandi og Vestfjörðum. Eiga þeir að fara að borga leigugjald fyrir línurnar, 40 millj. kr. á næsta ári? (Fjmrh.: Þú verður látinn borga líka.) Sjálfsagt verð ég látinn gera það, hæstv. fjmrh., enda hefur ekki staðið á því hjá hæstv. ríkisstj. að láta menn borga. Hins vegar hef ég forvitni á að fá að vita, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar sér að framkvæma þetta, og ekki síður hitt, að hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir því í tekjuöflunarspá sinni á bls. 7 í fjárlagafrv., að lagt verði á og innheimt gjald til Framkvæmdasjóðs aldraðra að upphæð 13.5 millj. sem enginn veit hvernig á að afla. Það eina, sem ég get séð af þessari uppsetningu í frv., er að ráð sé gert fyrir að leggja á 1% tekjuskattsviðauka. Þetta er sambærileg tala, sem þarna er um að ræða, við það að tekjuskattur yrði hækkaður um 1 prósentustig eða að sjúkratryggingagjaldið gamla yrði innleitt á ný. Það stendur ekkert í fjárlagafrv. um hvernig á að afla þessara tekna, en það er búið að ráðstafa þeim í frv. Ég spyr: Er þarna verið að innleiða á ný gamla sjúkratryggingagjaldið, sem afnumið var í fyrra, undir öðru heiti? Er hér um að ræða 1% hækkun á tekjuskatti? Er hér um að ræða ígildi gamla sjúkratryggingagjaldsins? Ekkert kemur fram um það í fjárlagafrv.

Ég vildi gjarnan að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur því að ég hef ákveðnar spurningar að beina til hans. — Þá er einnig mjög mikið misræmi í lánsfjárþörf ríkissjóðs samkv. margumræddri töflu á bls. 182 í fjárlagafrv. og sömu töflu í lánsfjáráætlun hvað varðar Sementsverksmiðju ríkisins. Lánsfjárþörfin til Sementsverksmiðjunnar hefur vaxið á þessum fáu sólarhringum, sem liðu frá því að fjárlagafrv. var prentað þangað til lánsfjáráætlunin var prentuð, úr 10 millj. kr. í 18 millj. kr. Ég spyr: Hvernig stendur á því, að lánsfjárþörfin vegna Sementsverksmiðjunnar hefur vaxið svo gífurlega á þessum fáu sólarhringum? Og ég bæti við spurningu mína: Er ástæðan sú, að hæstv. ráðh. ætli Sementsverksmiðju ríkisins að taka erlend lán til þess að standa undir rekstrarhalla? Ég spyr að því gefna tilefni, að í lánsfjáráætluninni kemur fram að gert sé ráð fyrir að lánið sé tekið til stofnkostnaðar og rekstrar. Á nú þessi ríkisverksmiðja, til viðbótar við öll önnur opinberu og hálfopinberu fyrirtækin sem þeim örlögum hafa mátt sæta, líka að bætast í röð þeirra fyrirtækja sem greiða rekstrarhalla sinn með því að stofna til erlendrar lánatöku sem börnin okkar eiga síðan að borga.

Í þriðja lagi kemur allt í einu fram í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni lánsfjárþörf til nýs verkefnis hjá ríkinu sem ekki er einu sinni getið um í fjárlagafrv. og virðist hafa uppgötvast á þessum fáu sólarhringum. Hvað er það? Jú, það er vegna flugumferðarstjórnar á Keflavíkurflugvelli sem ekki var gert ráð fyrir að þyrfti neinar lántökur til í fjárlagafrv., en þarf 800 þús. í lánsfjáráætlun. Ég spyr: Hvað er um að ræða? Mér finnst satt að segja ekki gott að svona breytingar skuli gerðar áður en hæstv. ráðh. flytur framsöguræðu sína og hann skuli ekki skýra þingheimi frá ástæðum þeirra betur en gert hefur verið.

Ég leyfi mér enn að spyrja. Í greiðsluyfirliti ríkissjóðs, lánahreyfingum út, kemur fram að gert sé ráð fyrir að taka lán til þess að greiða hlutafjárframlög ríkissjóðs að upphæð 43 millj. 680 þús. til einhverra ótiltekinna aðila. Hvaða hlutafjárframlög eru þetta? Eru þetta væntanleg hlutafjárframlög til saltverksmiðju? Er þarna um að ræða hugsanleg hlutafjárframlög til annars jarðefnaiðnaðar? Hvað stendur þarna á bak við? Það eru engin svör gefin við því í grg. frv. Ég ítreka spurningu mína: Hvaða hlutafjárframlög eru það sem hæstv. ráðh. er hér að tala um?

Þá er mjög athyglisvert að gera sér grein fyrir því, og sýnir eitt dæmið enn um þann veika grunn sem þetta fjárlagafrv. er byggt á, að gert er ráð fyrir að verðhækkanir í erlendum gjaldmiðli á næsta ári verði 7%. Miðað við að vísitala erlendra verðbreytinga á næsta ári verði 107, eins og gert er ráð fyrir í frv. á móti 100 í ár, og fjárlagavísitalan eða hækkun fjárlaga verði 33%, þá má gengisbreyting, til þess að fjárlagafrv. standist, ekki fara yfir 24% á næsta ári. Fari gengisbreyting á íslensku krónunni fram úr 24% á næsta ári er fjárlagafrv. hrunið. Hver hefur gengisbreytingin verið á s. l. 12 mánuðum? Að sögn Þjóðhagsstofnunar hefur meðalhækkun erlends gjaldmiðils á tímabilinu jan.-sept. í ár orðið 43% miðað við sama tíma í fyrra. Og hæstv. ríkisstj. gefur út fjárlagafrv. þar sem gert er ráð fyrir því, til þess að frv. standist, að gengisbreytingar á næsta ári megi ekki vera meiri en um það bil helmingur þess sem var á þessu ári. Finnst mönnum að það séu líklegar horfur? Og enn frekar er e. t. v. gaman að huga að því, að til þess að þetta fari ekki allt um koll hjá hæstv. ríkisstj. má ekki hreyfa vind í verðlagsmálum á næsta ári svo að vaxtagjöld hæstv. ríkisstj. hrynji ekki.

Mig langar að vekja athygli manna á því, að á öftustu síðu grg. hæstv. ráðh. með fjárlagafrv. er sundurliðuð áætlun yfir vaxtagjöld ríkissjóðs. Þar vil ég biðja menn að taka sérstaklega eftir því, að ekki er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði í vexti af yfirdrætti á hlaupareikningi sínum við Seðlabanka Íslands á næsta ári meira en 7.5 millj. Tilsvarandi áætlun fyrir árið í ár er 6.1 millj., og eftir því sem mér er tjáð stenst rétt á endum að það dugi. Hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir að vaxtagjöldin vegna yfirdráttarskuldarinnar á hlaupareikningnum við Seðlabanka Íslands hækki aðeins um 23% á næsta ári eða 10% undir reiknitölunni. Hvaða heilvita maður getur látið sér detta það í hug, að vaxtagjöld á hlaupareikningi ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands nái ekki reiknitölu fjárlagafrv.? Ef ráðh. bara fylgdi reiknitölunni á milli ára ætti þessi fjárhæð að vera a. m. k. 6 millj. hærri en hún er, og þá færi lítið að standa eftir af rekstrarafganginum hjá hæstv. fjmrh., þegar búið er að taka tillit til þessa. Vita menn hvað mundi gerast í vaxtamálum ríkissjóðs ef verðbólgan yrði 50%, en ekki 33% Þá mundu vaxtagjöld ríkissjóðs aukast um yfir 100 millj. kr. Hvað stæði þá eftir af þessum ímyndaða rekstrarafgangi hæstv. fjmrh. sem raunar enginn er?

Þá er athyglisvert að virða fyrir sér áætlun hæstv. ríkisstj. um skattbyrði beinna skatta sem kemur fram á bls. 177. Þar er talað mikið um að nú sé ætlast til að skattbyrðin verði ekki meiri á næsta ári en hún varð í ár. Það er ekki aldeilis rétt. Í fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir að launatekjur heimilanna hækki nema um 33% frá árinu í ár til næsta árs. En á bls. 177 kemur fram hvað hæstv. ríkisstj. ætlar sér að taka í tekjuskatt af þessum sömu heimilum. Hún ætlar að hækka brúttóálagninguna úr 975 millj. í ár í 1482 millj. á næsta ári. Hún ætlar að draga frá þessum tölum barnabætur og persónuafslátt sem nam 297 millj. í ár og á að nema 452 millj. á næsta ári. Þetta þýðir 52% hækkun á tekjusköttum heimilanna á sama tíma og tekjurnar eiga bara að aukast um 33%. Hvernig leyfa menn sér að halda því fram, að þetta sé ekki aukning á skattbyrðinni? Hvernig leyfa menn sér að halda því fram? Það þarf enga reiknikúnst til að sjá þetta. Á bls. 177 í töflunni kemur fram hvað frv. gerir ráð fyrir að taka í tekjuskatt af íslenskum heimilum á næsta ári og hvað gert var ráð fyrir að taka í ár. Það er gert ráð fyrir að taka í tekjuskatt á næsta ári 52% meira fé en tekið var í ár á sama tíma og laun eiga samkv. áætlun sömu ríkisstj. aðeins að hækka um 33%. Hvernig geta menn kallað það óbreytta skattbyrði ef tekjuskattar af launþegafjölskyldum hækka um 52% en tekjurnar hjá þessum sömu fjölskyldum aðeins um 33%?

Það er víðar sem hæstv. ríkisstj. ætlar sér að taka skerfinn sinn af fólkinu í landinu. Á bls. 180 í fjárlagafrv. koma einnig fram áform ríkisstj. um aðra skattheimtu af fólkinu í landinu. Frv. gerir ráð fyrir að tekjur þessa fólks á næsta ári aukist ekki meira en um 33%. Eignarskattarnir eiga að hækka um 48.5%. Er það óbreytt skattbyrði? Innflutningsgjöldin eiga að hækka um 35.7% þegar tekjurnar hækka um 33. Er það óbreytt skattbyrði? Skattar af framleiðslu eiga að hækka um 36.5% þegar tekjurnar hækka um 33. Er það óbreytt skattbyrði? Skattar af seldri vöru og þjónustu eiga að hækka um 37% þegar tekjurnar hækka um 33. Er það óbreytt skattbyrði? Aðrir óbeinir skattar eiga að hækka um 36.5% þegar tekjurnar hækka um 33. Er það óbreytt skattbyrði? Ýmsar tekjur ríkissjóðs eiga að hækka um 45.9% þegar tekjur fólksins í landinu hækka um 33%. Er það ekki aukin skattbyrði? Þannig stangast hvað á annað í fyrirætlunum hæstv. ríkisstj. Það, sem er sagt á bls. 5, er tekið aftur á bls. 10 og snúið í andhverfu sína á bls. 15.

Herra forseti. Ég tel að ég sé búinn að fjalla í meira en nógu löngu máli um almenna stefnu hæstv. ríkisstj. og fjmrh. í þessu frv. til fjárlaga. En ég vildi aðeins í lokin minnast á örfá atriði í tillögugerð frv. sjálfs.

Ég vil fyrst leyfa mér að vekja athygli manna á því, að á bls. 171 í grg. fjárlagafrv. stendur orðrétt: „Sölugjald ásamt orkujöfnunargjaldi er orðið langstærsti tekjustofn ríkissjóðs.“ Hæstv. ríkisstj. segir hér með að orkujöfnunargjaldið, sem lagt var á með allsherjarsamþykki allra þm. á Alþingi til þess að leysa ákveðinn vanda sem fólk átti við að búa vegna mjög misjafnrar aðstöðu í húshitunarmálum, þetta orkujöfnunargjald sé búið að taka og gera að almennum tekjustofni fyrir ríkissjóð. Og það stemmir líka við áform ríkisstj. um tekjuöflun og ráðstöfun þess gjalds, vegna þess að hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir að hafa 190 millj. kr. í tekjur af orkujöfnunargjaldinu en nota aðeins 30 millj. kr. af þeim tekjum til þess að jafna orkuverðið í landinu. Afgangurinn, 160 millj. kr., á að renna í ríkishítina. M. ö. o.: það er verið að leika hér sama leikinn og í Vestmannaeyjagosinu á sinni tíð. Þá var samþykkt hér á Alþingi með atkv. allra þm. að leggja á sérstakt viðbótarsöluskattsstig til að liðsinna fólkinu í Vestmannaeyjum sem orðið hafði fyrir búsifjum. En það var ekki liðinn langur tími þar til þáv. fjmrh. hirti allt þetta gjald í ríkissjóð. Sama ljóta leikinn er nú verið að leika gagnvart því fólki sem á um sárt að binda vegna mikils kostnaðar við upphitun á húsum sínum og orkunotkun umfram aðra landsmenn. Fullt samkomulag náðist um það hér á þingi meðal allra þingflokka að afla fjár með sérstökum hætti til þess að styðja þetta fólk. Nú er búið að taka þann tekjustofn og hæstv. ríkisstj. hrósar sér af því, að hann ásamt sölugjaldinu sé orðinn langstærsti almenni tekjustofn ríkissjóðs.

Það er líka vert að veita því athygli, á sama tíma og hæstv. ríkisstj. skammtar ýmsum fyrirtækjum ríkisins og ýmsum sjóðum ríkisins úr hnefa það fé sem þau eiga að framfleyta sér á, hvernig hæstv. ríkisstj. afgreiðir sjálfa sig. Hvernig afgreiða ráðherrar í ríkisstj. Gunnars Thoroddsens sjálfa sig? Skyldu þeir afgreiða sjálfa sig með svipuðum hætti og þeir afgreiða aðra. Við skulum aðeins líta á það.

Framlag til ríkisstj. sjálfrar vex frá árinu í ár um 97%. Það þætti ekki ónýt hækkun ef það væri Byggingarsjóður ríkisins eða Sementsverksmiðjan. Þar er ekki verið að taka erlendu lánin. Framlagið til ríkisstj. sjálfrar er hækkað um 97% á milli ára. Hvaða skýring er gefin? Jú, sú skýring er gefin, að þetta sé vegna allra aðstoðarráðherranna, það sé búið að flytja þá frá aðalskrifstofu viðkomandi ráðuneyta og yfir í æðstu stjórn ríkisins, yfir á ríkisstj. sjálfa. Skyldu þá ekki fjárveitingarnar til ráðherraskrifstofanna lækka að sama skapi, fyrst búið er að taka alla aðstoðarráðherrana þar út og flytja þá í umsjá æðstu stjórnar ríkisins, ríkisstj. sjálfrar? Við skulum gá hvað fjárlögin segja okkur um það.

Forsrn., yfirstjórn, útgjöldin þar vaxa um 90%. Ekki sér á að mikið hafi sparast þar þó að Jón Ormur Halldórsson hafi verið fluttur til í bókhaldi ríkissjóðs. Hvað með menntmrn.? Útgjöldin til skrifstofu menntmrh. vaxa um 42.7% á sama tíma og aðrir í ríkiskerfinu verða að sætta sig við 20–33%. Hver er ástæðan? Í fyrsta lagi aukið starfslið og í öðru lagi sú, að almenn rekstrarútgjöld menntmrh. vaxa um 44.9% á sama tíma og almenna línan hjá hæstv. ráðh. er 33%. Og hver er skýringin á því, að útgjöldin á skrifstofu menntmrh. jukust svo mjög? Jú, skýringin er sú, eins og segir í fskj. með fjárlagafrv., að farið hafi verið eftir niðurstöðum ríkisreiknings, hinni raunhæfu tölu, en ekki einhverjum áætluðum tölum. En þegar er komið að öðrum en ráðh. er ekki farið eftir niðurstöðum ríkisreiknings. Það var ekki gert um löggæsluna. Það var ekki gert um sjóðina. Það var ekki gert um stofnanir ríkisins. Nei, það var bara gert á aðalskrifstofum ráðh. Og menntmrh. var síður en svo einn þarna ásamt forsrh.

Útgjöldin á skrifstofu landbrh. næstum því tvöfaldast á milli ára. Þar er líka stofnuð ný staða og þar eru önnur rekstrarútgjöld líka hækkuð langt umfram almenna verðhækkun í fjárlögum vegna þess að tekið er tillit til óska landbrh. um að menn noti nú ríkisreikninginn frá því í fyrra sem viðmiðun, en ekki fjárlögin eins og þau þá voru afgreidd. Þá eru komnir þrír.

Hvað með sjútvrh.? Jú, þar er ráðinn nýr fulltrúi og þar eru önnur rekstrarútgjöld aukin langt umfram almennar rekstrarútgjaldahækkanir í fjárlagafrv. af sömu ástæðum. Beiðni sjútvrh. um, að menn notuðu nú ríkisreikninginn, en ekki fjárlögin síðan í fyrra, sem viðmiðun, var einnig tekin til greina.

Þá er komið að félmrh. Útgjöldin vegna aðalskrifstofu félmrh. vaxa um 50.9%. Af hverju? Jú, fjölgun starfsliðs og það er farið eftir ríkisreikningnum í fyrra um önnur rekstrargjöld, rekstrargjöld skrifstofu ráðh. aukin langt umfram það sem gengur og gerist hjá öðrum stofnunum ríkisins. Sami ráðh., hæstv. félmrh., hefur einnig skrifstofu í heilbr.- og trmrn. Þar er einnig ráðinn nýr starfsmaður og þar verður tæplega 50% launakostnaðarútgjaldaaukning.

Hæstv. fjmrh. réð sér nýjan fulltrúa og er sjálfsagt ekkert við því að segja. Gert er ráð fyrir tilsvarandi launahækkun til hans. En hann lætur við það sitja að hafa sömu tölu um almenn rekstrarútgjöld og aukningu þeirra á sinni skrifstofu og hann gerir öðrum ríkisstofnunum að sæta. Hann lætur a. m. k. ekki stjórnast af því sjálfur sem hann samþykkir fyrir hina ráðh., að áætla gjöld vegna aðalskrifstofu þeirra eftir niðurstöðum ríkisreiknings, en ekki fjárlaga. Ber vissulega að meta það við hæstv. fjmrh.

En hæstv. samgrh. kemur í kjölfarið og ræður sér tvo nýja starfsmenn.

Og iðnrh. getur að sjálfsögðu ekki verið minni maður og ræður sér líka tvo, enda þarf heldur betur að halda á penna í því rn. að því er manni skilst.

Hæstv. viðskrh. fær óvenjulega hækkun, 60% á almennum útgjöldum á sinni aðalskrifstofu og launakostnaðarhækkun um 65.2%, þó svo að stofnanir þær, sem undir hæstv. ráðh. heyra, verði að sætta sig við aðeins helminginn af því.

Það er mjög athyglisvert að sjá hvernig ráðh. hafa tekið höndum saman um að láta aðrar reglur gilda um mannaráðningar og rekstrarútgjöld á eigin skrifstofum heldur en gilda um alla aðra aðila í ríkiskerfinu. Og fyrst hann er nú kominn hér í allri sinni dýrð, hæstv. dómsmrh., þá þætti mér gaman að spyrja þann hæstv. ráðh. hvernig standi á því, að hann skuli ekki hafa — eins og með aðalskrifstofuna sína — óskað eftir að varðandi liðinn dómsmál og lögreglumál styddust menn við niðurstöðu ríkisreiknings eins og gagnvart aðalskrifstofunni hjá hæstv. ráðh.

Ríkisreikningur fyrir árið 1980 sýnir að kostnaður við dómsmál og lögreglumál það ár, árið 1980, nam 205 millj. kr. miðað við myntbreytinguna sem gerð var um síðustu áramót. Fjárlög ársins á eftir, ársins 1981, gerðu ráð fyrir útgjöldum í þessu skyni upp á 204 millj. kr., eða einni millj. kr. minna en ríkisreikningurinn hafði leitt í ljós fyrir árið áður, og var þó verðbólga í landinu yfir 60%. (Gripið fram í.) Þetta er víst rétt. Og fjárlagafrv. fyrir árið 1982 gerir ráð fyrir, að útgjöld til liðarins dómsmál og löggæslumál verði aðeins 284 millj. kr. Þegar ríkisreikningurinn sýndi 205 millj. kr. fyrir tveimur árum. Þetta er hækkun um 39% frá raunhæfum tölum til áætlunartalna á tveimur árum. Ég spyr hæstv. dómsmrh.: Hvernig treystir hann sér til þess að reka dómsmál og löggæslumál í landinu fyrir 39% minna fé á árinu 1982 heldur en ríkisreikningurinn fyrir árið 1980 sýndi, þegar hæstv. ráðh. treystir sér ekki einu sinni til þess að reka aðalskrifstofu sína á milli ára öðruvísi en tekið sé tillit til raunverulegs ríkisreiknings og niðurstöðu hans á liðnu ári? Ætlar hæstv. dómsmrh. að reka liðinn dómsmál og löggæslumál með þessu fé? Ætlar hann að standa við það sem fjárlögin skammta honum í þessu sambandi? Hvað ætlar hann að segja mörgum lögreglumönnum upp til þess að svo megi verða? Eða er ekkert að marka það sem þarna stendur — ekki neitt?

Þá er líka einkar athyglisvert að sjá hvernig hæstv. fjmrh., sem telur sig vera mikinn félagshyggjumann, skammtar úr hnefa þegar þarf að stýfa af ríkisframlögum til hinna ýmsu sjóða. Ég vek athygli manna á því, að hæstv. fjmrh. gefur engar upplýsingar um það núna — og er það í fyrsta sinn sem svo er gert — hvað hann ætli að skera hin lögbundnu framlög til sjóðanna mikið niður. Það hefur hingað til ávallt verið sett eitthvert mark, 10 eða 15%. Nú gerir hann það ekki. Nú tekur hann aðeins fram hvað hækkunin á milli ára megi vera mikil.

Ég spyr hæstv. ráðh.: Hvað þýðir þetta með sömu viðmiðun og í fyrra, hvað þýðir þetta mikinn niðurskurð á lögbundnum framlögum til fjárfestingarlánasjóðanna? Og hvernig skammtar hann þetta? Jú, hann gerir ráð fyrir að framlög ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs og Stofnlánadeildar landbúnaðarins, þar sem vandinn er m. a. offramleiðsla á landbúnaðarvörum, hækki um 40%, en til Framkvæmdasjóðs öryrkja og til Byggingarsjóðs ríkisins verði hækkunin bara 33%. 40% skal Stofnlánadeild landbúnaðarins fá, þó að bændur stynji undir birgðum offramleiðslu og þarna sé um að ræða einhverja óarðbærustu fjárfestingu sem um getur, en öryrkjarnir eiga að sætta sig við 33% hækkun á milli ára. Það er fyrrv. formaður hins mikla félagshyggjuflokks, Alþb., sem þarna talar. Og það er einnig athyglisvert að sjá hvaða hlutskipti hæstv. ráðh. ætlar almennum húsbyggjendum í landinu, ekki síst miðað við þær fjálglegu ræður sem hann og formaður flokks hans hafa oft flutt um vandamál þeirra.

Gert er ráð fyrir því að Byggingarsjóður ríkisins hafi 373 millj. kr. á næsta ári til að moða úr. Þar af er honum aðeins ætlað í framlögum úr ríkissjóði 57.2 millj. kr. Afganginn á Byggingarsjóður ríkisins að taka til láns, ýmist með skyldusparnaði eða hjá lífeyrissjóðunum. Hann á að taka þessa fjármuni til láns með 2% hærri vöxtum en lántakendur Byggingarsjóðs ríkisins greiða til hans. Byggingarsjóði ríkisins er ætlað að taka 246 millj. kr. að láni á næsta ári með 2% hærri vöxtum en nemur þeim vöxtum sem hann fær greidda frá þeim aðilum sem lán taka hjá honum. Þetta veldur Byggingarsjóði ríkisins vaxtatapi upp á 50 millj. kr. Hver á að bera það? Hversu margir húsbyggjendur skyldu þurfa að bíða mánuð eftir mánuð án þess að fá lán vegna þess að Byggingarsjóður ríkisins þarf að taka af sínu takmarkaða fé til að borga þetta vaxtatap? Hæstv. ríkisstj. segir í þjóðhagsáætlun sinni að á þessu ári muni byggingarkostnaður hækka um 50%. En hún gerir ekki ráð fyrir að útlánageta Byggingarsjóðs ríkisins vaxi um nema 24%. Þegar kostnaðarhækkanir í húsbyggingarstarfsemi verða 50% á að mæta því með lánveitingum sem aukast um 24%. Hvað þýðir það fyrir hinn almenna húsbyggjanda í landinu sem ekki hefur aðgang að lánveitingum Byggingarsjóðs verkamanna? Og hvað þýðir það fyrir byggingariðnaðinn, m. a. hér á höfuðborgarsvæðinu, sem á nú í vök að verjast?

Þá er eitt atriði sem mig langaði til þess að vekja sérstaka athygli á. Það er mál sem ég hef oft gert að umræðuefni úr þessum ræðustól. Gert er ráð fyrir því í fjárlagafrv., að ríkissjóður greiði í uppbætur með útfluttum landbúnaðarafurðum 160 millj. kr. 16 gamla milljarða þurfa íslenskir skattborgarar að snara út með kindakjöti ofan í norska og færeyska neytendur. Síðan segir í fjárlagafrv.: „Þar með er náð að fullu 10% markinu, sem þessar útflutningsbætur mest mega vera.“ En það er ekki satt. Ætlast er til að lagt sé meira í þessu sambandi á íslenska skattborgara heldur en lög leyfa.

Árið 1978 vantaði 300 millj. kr. umfram það sem lög leyfðu í útflutningsbætur. Það var greitt með sérstakri fjárveitingu úr ríkissjóði. Árið 1979 vantaði 1000 millj. meira en lög leyfðu. Það var greitt með fjárveitingu úr ríkissjóði. Árið 1980 vantaði 3000 millj. kr. meira í útflutningsbætur en lög leyfðu. Hvað var þá gert? Þá var þetta fé tekið að láni í erlendum gjaldeyri og Framkvæmdasjóður látinn hafa milligöngu um lánsfjárútvegunina, en Framleiðsluráð landbúnaðarins skrifaður lántaki. Árið 1981 voru með sama hætti teknar 1700 millj. kr. í erlendu láni í þessu skyni, Framkvæmdasjóður látinn útvega erlenda lánið og Framleiðsluráð landbúnaðarins skrifað fyrir því.

Nú er komið að skuldadögunum. Hver borgar þetta lán? Er það Framleiðsluráð landbúnaðarins? Nei, það borgar ekki lánið þó að það sé skrifað fyrir því. Það hefur enga peninga til að borga þetta lán með og hefur aldrei haft. Því hefur aldrei verið ætlað að borga þetta. Hver borgar það þá? Breiðu bökin í þjóðfélaginu. Verkafólkið, sem nú er með 12% minni kaupmátt fyrir kauptaxta sína heldur en það hafði þegar Geir Hallgrímsson og ríkisstj. hans voru felld, það er látið borga afborganirnar og vextina af þessum lánum sem tekin voru og skrifuð á Framleiðsluráð landbúnaðarins í fyrra og hittiðfyrra og eru nú að gjaldfalla. Hvað nemur þessi fjárhæð miklu núna samkv. fjárlagafrv. til viðbótar við þá 16 milljarða gkr. sem á að taka af þessu fólki í ár til að borga með kindakjöti ofan í Norðmenn og Færeyinga? Hún nemur um 2 milljörðum gkr. í viðbót, afborgunin af þessum lánum sem Framleiðsluráð landbúnaðarins var skrifað fyrir í fyrra og hittiðfyrra vegna þess að lög leyfðu ekki að íslenskir skattborgarar legðu meira fram en þá milljarða sem þá voru lagðir fram.

Nú er komið að skuldadögunum og reikningurinn er sendur beint heim á íslensku heimilin. Það er ekki Framleiðsluráð, sem greiðir þetta. Þess vegna eru það ekki aðeins 16 milljarðar, sem verkafólk og aðrir launþegar á Íslandi þurfa í dag að greiða með kindakjöti ofan í færeyska og norska neytendur. Þeir þurfa að greiða auk þess vexti og afborganir af erlendum lánum, sem tekin voru í þessu skyni í fyrra og hittiðfyrra og nema 2 milljörðum gkr. í viðbót. Og enn er sagan ekki sögð, vegna þess að í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. er gert ráð fyrir að taka enn á þessu ári 2 milljarða gkr. í viðbót að láni erlendis í þessu skyni.

Við erum að fara á vit Norðmanna, Færeyinga og erlendra þjóða og láta lána okkur í beinhörðum gjaldeyri peninga til þess að greiða með íslenskum matvælum ofan í þetta sama fólk, vegna þess að íslensk lög leyfa ekki að íslenskir skattborgarar greiði meira á þessu ári í þessu skyni en 16 milljarða kr. Og þá er snúið sér til sömu þjóða sem fá þessa matvöru gefins frá okkur og þær beðnar um að lána okkur fé til þess að greiða niður matvöruna ofan í þegna þessara þjóða. Og hverjir eiga að borga þetta? Börn okkar og barnabörn. Börn okkar og barnabörn eiga að borga þær fjárhæðir í afborgunum og vöxtum af þessum erlendu lánum sem gjaldfalla ekki á okkar tíð. Er þetta nokkurt vit lengur? Er nokkurt vit að í ár skulum við borga 20 milljarða gkr., 4 milljörðum gkr. meira en íslensk lög leyfa mest, ofan í færeyska og norska neytendur sem eru svo vinsamlegir að þeim þóknast að láta gefa sér íslenskar framleiðsluvörur? Og hvaða vit er í því að fjmrh. leyfi sér að láta skrifa aðila úti í bæ eins og Framleiðsluráð landbúnaðarins fyrir slíkri lántöku, — aðila sem ekki er, ekki hefur verið og mun aldrei verða borgunarmaður fyrir þessu fé? Hvað á það að þýða að leyfa sér að sniðganga þannig íslensk lög svo að hægt sé að leggja á bök íslensks launafólks meiri fjárhæðir en íslensk lög leyfa til þess að greiða með íslenskum offramleiddum matvælum ofan í erlenda neytendur? Og hvernig getur hæstv. fjmrh. sem fyrrv. formaður Alþb. leyft sér að leggja þessar byrðar á herðar íslenskra launþega á sama tíma og láglaunafólkið í landinu getur varla litið upp úr vinnu til þess eins að hafa í sig og á? Hvernig getur Alþb. réttlætt það fyrir lágtekjufólki á Íslandi, sem ber milli 5 og 6 þús. kr. úr býtum á mánuði og þarf að vinna ekki aðeins alla yfirvinnu sem býðst á vinnustað, heldur ganga í skúringar úti í bæ til þess að hafa í sig og á, fólki sem varla hefur getað farið í bíó, á skemmtun, keypt sér blað, átt bíl né haft almenn útgjöld eins og okkur alþm. þykir vera sjálfsögð mannréttindi fyrir okkar, — hvernig getur Alþb. leyft sér að sniðganga með þessum hætti íslensk lög, leggja á einu ári 20 milljarða kr. á bak þessa fólks og annarra launþega með offramleiddum íslenskum matvælum ofan í Færeyinga og Norðmenn?

Það væri í lagi ef hæstv. fjmrh. hefði við læknasamningana sem hæstv. ráðh. gerði svo frægt varð í sumar og skilaði læknum 19–40% launahækkun, samið við þá um að þeir tækju á sig að greiða afborganirnar af þessum erlendu lánum sem notuð eru til þess að niðurgreiða ofan í útlendinga íslensk matvæli sem íslenskt verkafólk hefur varla efni á því að kaupa nema til hátíðarbrigða. Það væri í lagi ef ráðh. hefði samið um það við íslenska lækna, að þeir tækju þetta að sér. En hvernig leyfir hæstv. ráðh. sér að sniðganga íslensk lög til þess að geta komið þeirri byrði á bak fátækasta fólksins í landinu meðal annarra?

Svo er það ein spurning til hæstv. ráðh. að lokum. Á bls. 210 segir um Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal, hæstv. ráðh. ræddi um hér áðan, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Viðhald hækkar um 2 millj. 735 þús. kr. og verður 2 millj. 990 þús. kr., sem áætlað er að verja þannig, að 2.5 millj. fara til að endurgreiða viðhaldskostnað sem stofnað var til á árinu 1981.“

Hvar er leyfi hæstv. fjmrh. fyrir því að stofna til þessarar skuldar? Hver hefur stofnað til þessara framkvæmda í leyfisleysi? Er það hæstv. landbrh. eða eru það einhverjir aðrir aðilar? Og hvar eru leyfi þeirra til að stofna til slíkrar skuldar sem nú er ætlunin að endurgreiða með því að hækka viðhaldsfé Bændaskólans á Hólum um 2.7 millj. upp í 2.9 millj. kr. Getur það viðgengist, að einstakir aðilar og einstakar stofnanir í ríkiskerfinu geti leyft sér án heimildar fjárveitingarvaldsins að stofna til útgjalda og skuldbindinga á hendur Alþingi og ríkisstj. til framkvæmda sem Alþingi og ríkisstj. hafa ekki samþykkt? Ég óska eftir því að lokum, herra forseti, að hæstv. fjmrh. svari þessari spurningu minni: Hvar var heimildin til þess að skuldbinda ríkissjóð fyrir þessari fjárhæð?