25.03.1982
Neðri deild: 58. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3259 í B-deild Alþingistíðinda. (2888)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Formaður fjh.- og viðskn. Nd., sem yfirleitt er glöggur maður, er farinn að draga dám af hæstv. fjmrh. varðandi það að einblína á smáatriðin og aukaatriðin. Við erum einfaldlega á móti því, sem þarna er lagt til að leggja fyrir lífeyrissjóðina, burt séð frá dagsetningum. Þess vegna erum við á móti þessu. ákvæði. Ef við greiddum atkv. með þessu væri ákvæðið þannig ákveðið, hitt mundi ekki koma til atkv. Þetta er svo einfalt.

Á hinn bóginn vil ég svo aðeins benda á það, að í þessari grein er gert ráð fyrir að samkv. lögum skuli hver lífeyrissjóður skila fjmrn. áætlun um ráðstöfunarfé sitt á árinu og af hvaða aðilum hann hyggist kaupa skuldabréf samkv. 1. mgr., hvort tveggja sundurliðað eftir mánuðum. Þessi lögboðna skuldbinding er færð á lífeyrissjóðina í plaggi sem mætti vel bera fyrirsögnina: Hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að komast hjá því að standa við skuldbindingar sem ákveðnar hafa verið í lögum. — Um það er þetta frv., að standa ekki við lögboðnar skuldbindingar, heldur reyna að komast hjá því. Það er það sem hæstv. ríkisstj. og þm. hennar eru nú önnum kafnir við að rétta upp höndina fyrir, og ég segi nei.