25.03.1982
Sameinað þing: 69. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3263 í B-deild Alþingistíðinda. (2906)

201. mál, málefni El Salvador

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Sú till. til þál., sem ég mæli hér fyrir fyrir hönd Alþfl., er tvíþætt. Í fyrsta lagi er þeim vilja Alþingis beint til hæstv. utanrrh., að hann beiti sér fyrir því hvarvetna þar sem þess er kostur að fundin verði pólitísk lausn á deilumálum í EI Salvador. Í öðru lagi er því beint sérstaklega til hæstv. utanrrh., að hann beiti sér eftir megni fyrir því, að Bandaríkjastjórn láti af hernaðarstuðningi við þá ríkisstjórn sem situr í landinu í skjóli hervalds.

Í samþykkt þessarar till. felst stefnuyfirlýsing Íslendinga í,þeim málum sem nú eru efst á baugi í EI Salvador. Í henni felst líka samúð Íslendinga með þjóðinni þar í þeim hörmungum ógnarstjórnar, ofbeldis og kúgunar sem hún má þola, á sama hátt og Alþingi lýsti samúð sinni á sínum tíma gagnvart sams konar ástandi í Póllandi. Þessi stefnuyfirlýsing er byggð á þeirri grundvallarforsendu, að ríkjandi hernaðarástandi verði að linna. Hún er byggð á því, að stuðningur Bandaríkjastjórnar Ronalds Reagans við stjórnvöld í EI Salvador sé forkastanlegur og að sá stuðningur auki á hörmungar og kúgun og loks að einungis pólitísk lausn en ekki hernaðarleg sé til á þeim deilum sem í landinu geisa.

Svo til daglega berast nú fréttir af manndrápum, pyntingum og mannréttindabrotum í El Salvador. Samkv. heimildum frá fulltrúum kirkju- og mannréttindasamtaka hafa tugþúsundir manna verið myrtar á kerfisbundinn hátt í landinu á síðustu tveimur árum. Það er talið að um hálf milljón þjóðarinnar eða 10. hver landsmaður sé á flótta. Það er talið að tugir manna séu pyntaðir og drepnir á degi hverjum eins og sakir standa, þar á meðal fjöldi barna. Allar lýsingar mannréttindasamtaka upp á síðkastið staðfesta það, sem áður hefur komið fram, að mannréttindabrotum hefur fjölgað í EI Salvador á undanförnum mánuðum frekar en hitt, hvað sem öllum yfirlýsingum líður.

Nýútkomin skýrsla Amnesty International ber einmitt vott um þetta. Þar er lýst hræðilegum voðaverkum stjórnarherranna gagnvart óbreyttum borgurum og flóttamönnum. Skýrslur mannréttindasamtaka, sem starfa í landinu, ber allar að sama brunni. Í þeim kemur fram, að stjórnvöld í El Salvador stefni markvisst að því að koma stjórnarandstæðingum fyrir kattarnef. Frásagnir af fjöldamorðum við Suppur-fljótið og Lempafljótið gefa til kynna hverjar hörmungar hér eru á ferðinni. Það er talið að a.m.k. 600 manns hafi verið drepnir við Rio Suppur, þar á meðal konur og börn. Þessum voðaverkum er tæpast hægt að lýsa.

Sænskur mannréttindafrömuður, Hans Jörgen Frank, sem var í EI Salvador í janúar s.l., heyrði á fjögur vitni sem hefðu komist undan við fjöldamorðin í bökkum fljótsins Lempa, sem er á landamærum EI Salvador og Hondúras. Vitnin lýstu því, hvernig a.m.k. 40 manns að þeim ásjáandi, konur og börn þar á meðal, voru myrtir á hinn hörmulegasta hátt. Karlmennirnir voru skotnir, börnunum var drekkt. Allt þetta fólk var flóttafólk gersamlega óvopnað. Þessar frásagnir hafa verið staðfestar í skýrslu Amnesty International. Fjöldamargir slíkir atburðir eru nú á skrá mannréttindasamtaka.

Þessir atburðir eru sífellt að gerast. Samfara sókn stjórnarhersins síðustu vikur hafa hrikaleg ógnarverk verið framin á óbreyttum borgurum. Það er talað um að um þúsund manns hafi verið myrtir í desembermánuði einum svo að dæmi sé tekið. Stjórnarhermenn hafa nú hafið nýja sókn, — sókn sem beinist m.a. að óbreyttum borgurum. Samkv. áreiðanlegum heimildum tóku stjórnarhermenn t.d. af lífi 124 smábændur í San Vicente Nýverið og önnur fjöldamorð hafa nýlega átt sér stað í El Campissino. Ég þarf ekki að rekja þetta lengur fyrir hv. deild. Hér hefur aðeins verið stiklað á fáeinum atriðum til að varpa ljósi á þau hrikalegu mannréttindabrot, þá kúgun og þá ógn sem gengur yfir landið. Í sumum tilvikum hópar hægri gamanna, en það hefur verið sýnt fram á tengsl milli herforingjastjórnarinnar og þessara öfgahópa.

Þeir eru til sem leggja að jöfnu baráttu vinstri- og miðjumanna í EI Salvador fyrir bættu þjóðfélagi annars vegar og hins vegar ógnarverk hersins og dauðasveitanna. Þessari skoðun hefur brugðið fyrir á síðum dagblaðanna, t.d. í Morgunblaðinu, en ekki síður í Dagblaðinu og Vísi. Hið gagnstæða er auðsætt hverjum manni sem kynnir sér sögu síðustu tveggja ára í El Salvador. Þá sést hverjir það eru sem eru kúgaðir í landinu, hverjir það eru, sem eru hundeltir af her, lögreglu og dauðasveitum, og hverjir þeir eru, sem hafa á hinn bóginn kerfisbundið staðið að voðaverkum. Bandaríska tímaritið Time fullyrðir t.d. hinn 22. febr. s.l., að í landinu hafi fjöldi manna verið myrtur með köldu blóði, og bætir við: „Að mestu leyti hafa dauðasveitir hægri manna staðið að þessum morðum ásamt öryggissveitum landsins.“

Allar þessar upplýsingar sýna og sanna að með engu móti verður því haldið fram, eins og ríkisstjórn Ronalds Reagans hefur gert, að framfarir hafi átt sér stað í mannréttindamálum í EI Salvador. Allt bendir til hins gagnstæða, nefnilega að herforingjaklíkan og stjórnvöldin ætli með öllum ráðum að kveða niður öll önnur stjórnmálaöfl í landinu. Þessir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, stjórnarsinnarnir, halda ótrauðir áfram að ganga milli bols og höfuðs á öllum stjórnarandstæðingum og jafnvel fjölskyldum þeirra. Þeir, sem eru herforingjunum þóknanlegir, geta hins vegar leyft sér næstum hvað sem er. Það er athyglisvert að skoða hverjir

það eru sem geta verið þóknanlegir með þessum hætti. Dæmi um það er Roberto d`Aubnisson sem er í framboði fyrir einn flokka hægri manna. Roberto þessi er stofnandi eins af hryðjuverkahópum hægri öfgamanna og hann er reyndar undir grun um að hafa lagt á ráðin um morðið á Romero erkibiskupi og hefur jafnvel gefið það í skyn sjálfur.

Það fer ekki milli mála, að ríkisstjórnin í El Salvador ber ábyrgð á einhverjum mestu fjöldamorðum síðustu ára, og það sem verra er: það má fullyrða að núverandi ríkisstjórn í landinu sé við völd vegna stuðnings ríkisstjórnar Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta. Landið hlaut ótaldar milljónir dollara á síðasta ári í efnahags- og hernaðarstuðning og alltaf er þessi stuðningur að aukast. Það er engin tilviljun að samlíkingin við Víetnam heyrist nú æ oftar nefnd í sambandi við þessa atburði. Fjöldi ábyrgra ríkisstjórna víða um heim hefur reynt að hafa áhrif á stjórnvöld í Bandaríkjunum og fá þau til að breyta stefnu sinni í þessum heimshluta. Alþjóðasamband jafnaðarmanna hefur ítrekað vakið athygli á þessu ástandi og ályktað um það. Það er líka rétt að benda sérstaklega á yfirlýsingu utanrrh. Mexíkó og Frakklands frá 28. ágúst 1981, þar sem fram kemur ótvíræður stuðningur við frelsisöflin í El Salvador. Afstaða fjölmargra ríkja hefur einmitt tekið mið af þessari yfirlýsingu. Ég vil því leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna í meginefni hennar, en þar segir m.a.:

„Það er alfarið á valdi alþýðumanna í El Salvador að finna réttláta og varanlega lausn á þeim miklu hörmungum sem yfir landslýð hafa dunið. Ríkisstjórnir Frakklands og Mexíkó viðurkenna að bandalag stjórnarandstöðunnar FMLN og FDR er fulltrúi stjórnmálaafla sem reiðubúin eru til þess að axla ábyrgð og taka á sig þau réttindi sem eru því samfara. Það er því lágmark að bandalagið fái að taka þátt í undirbúningi samningaviðræðna sem hljóta að vera forsenda pólitískrar lausnar.“

Hér lýkur tilvitnun minni í þessa yfirlýsingu. Í henni er það grundvallaratriði, að fólkið fái að ráða framtíð sinni sjálft án utanaðkomandi íhlutunar, og undir það vil ég sterklega taka. Í yfirlýsingunni er í annan stað stuðningur við stjórnarandstöðu landsins, FMLN og FDR, — stuðningur við hana sem stjórnmálaafl sem hafi fullan rétt til að hafa áhrif á gang mála. Undir þetta vil ég einnig taka. Skoðun okkar Alþfl.-manna er að stjórnarandstaðan eigi fullan og óskoraðan rétt á að njóta viðurkenningar og rétt á að taka þátt í undirbúningi samningaviðræðna sem séu forsenda pólitískrar lausnar. Við krefjumst þess, að Bandaríkjastjórn láti af hernaðarstuðningi við ógnarstjórnina í El Salvador. Í því felst vitaskuld jafnframt krafa um að stjórnarandstaðan, FDR, verði viðurkennd og fái að móta framtíðarskipan mála.

Við Alþfl.-menn höfum lagt ríka áherslu á að engin hernaðarlausn sé til í þessu máli. Stjórnin í El Salvador getur vitaskuld haldið áfram að fangelsa og deyða vinstrisinna og miðjumenn og fjölskyldur þeirra, en reynslan ætti að kenna ríkisstjórn Ronalds Reagans að aðrir munu koma í þeirra stað. Það mun ekkert vinnast til framtíðar með þessum aðgerðum. Það verður einungis frekar spillt fyrir. Þess vegna væri líka skynsamlegt af ríkisstjórn Ronalds Reagans að sjá til þess, að stjórnarandstaðan fengi rétt til áhrifa.

Ef litið er á þann stuðning, sem yfirlýsing utanrrh. Frakklands og Mexíkó hefur hlotið, er ekki um að villast hvaða stefna það er sem flestar hinna frjálsu þjóða heims aðhyllast. Þetta sést einnig berlega á undirtektum við boði Bandaríkjastjórnar um að aðrar þjóðir sendi fulltrúa til að fylgjast með kosningum í EI Salvador sem fyrirhugaðar eru um næstkomandi helgi. Alþjóðasamband jafnaðarmanna hefur, eins og kunnugt er, tekið undir yfirlýsingu utanrrh. Mexíkó og Frakklands, en mánuði eftir að sú yfirlýsing var undirrituð lýsti ríkisstjórn Hollands yfir stuðningi við FDR sem eitt af stjórnmálaöflunum í landinu, og í yfirlýsingu utanrrh. Hollands, Max van der Stoel, kemur fram eindreginn vilji fyrir því að FMLN og FDR fái að taka þátt í samningum um lausn deilunnar. Ríkisstjórnir Norðurlanda og jafnaðarmannaflokkarnir á Norðurlöndum hafa ítrekað sett fram margþætta gagnrýni sína á stefnu Bandaríkjastjórnar í málefnum Mið-Ameríku. Í því sambandi nægir að minna á ummæli Ankers Jörgensens forsrh. Danmerkur, sem gagnrýndi Bandaríkjastjórn harðlega fyrir afskipti hennar af málefnum EI Salvador. Í annan stað má minna á það, að fyrrv. varnarmálaráðherra Noregs, Stoltenberg, sagði nýlega að stefna Bandaríkjanna í þessum heimshluta væri að grafa undan varnarsamstarfi Atlantshafsbandalagsins. Í sama streng hafa tekið fjölmargir virtir stjórnmálaleiðtogar í Evrópu og víðar, m.a. Dennis Healy talsmaður verkamannaflokksins breska í utanríkismálum, en hann sagði í Lundúnum s.l. haust að stefna Bandaríkjanna í þessum heimshluta væri ekki aðeins megn ástæða mannlegra hörmunga í landinu, heldur væri hún alvarleg ógnun við einingu Vesturlanda.

Aðeins fáeinar ríkisstjórnir hafa þegið boð ríkisstjórnar Bandaríkjanna um að senda fulltrúa til að fylgjast með kosningunum sem fyrirhugaðar eru um næstkomandi helgi. Það sýnir vel hvern hug þessar ríkisstjórnir bera til stefnunnar í málefnum EI Salvador og hvaða trú þær hafa á þeim kosningum sem fram undan eru. Það munu hafa verið um 60 ríkisstjórnir, sem fengu boð um að senda fulltrúa, en aðeins fáeinar hafa þegið boðið og einkum þá þekktar einræðisstjórnir, sem kunnar eru af sambandi sínu við herforingjastjórnina í EI Salvador. Af þessu ætti að vera ljóst að ríkisstjórn Ronalds Reagans hefur smám saman verið að einangrast í þessu máli.

En það hafa líka orðið fleiri til að álykta um þessi mál. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna lýsti nýlega yfir miklum áhyggjum sínum vegna stöðugt versnandi ástands í El Salvador og skoraði á deiluaðila að ná samkomulagi með samningaviðræðum og á alla aðila, sem sent hafa hergögn til El Salvador, að hætta því nú þegar.

Evrópuþingið fordæmdi líka nýlega stefnu ríkisstjórnar Ronalds Reagans í EI Salvador og lýsti yfir stuðningi sínum við friðarviðræður samkv. þeim hugmyndum sem forseti Mexíkó hefur lagt til að komið yrði á fót. Evrópuþingið lýsti einnig yfir áhyggjum sínum vegna þeirra kosninga sem fram eiga að fara um næstu helgi. Í ályktun Evrópuráðsins segir að ekki verði hægt að líta á kosningar þessar sem frjálsar kosningar þar sem ekkert stjórnmálalegt frelsi hafi verið tryggt í landinu og frambjóðendur stjórnarandstöðunnar eigi morðtilræði yfir höfði sér hafi þeir sig á annað borð í frammi.

Í sambandi við þessar kosningar verður ekki komist hjá því að svara fáeinum grundvallarspurningum. Hvernig er unnt að halda frjálsar kosningar þegar hernaðarástand ríkir í landinu? Hvernig er unnt að ætlast til þess, að stjórnarandstæðingar taki þátt í þessum kosningum, þó ekki nema vegna þess að þeir verða að vera í felum fyrir öfgahópum sem njóta stuðnings ríkisstjórnarinnar og verndar? Hvernig er unnt að tala um frjálsar kosningar þegar engir vinstri eða miðflokkar eru í framboði og geta það augljóslega ekki af ofangreindum ástæðum. Að nefna þetta frjálsar kosningar er auðvitað öfugmæli.

Ekki verður heldur hjá því komist að svara þeirri spurningu, hvað mundi breytast að þessum kosningum gengnum, ef þær verða haldnar. Napoleon Duarte getur með kosningaúrslitum talið sig hafa fengið eins konar umboð til að stjórna áfram. Telja menn að í því felist einhver lausn mála? Ríkisstjórn hans hefur einmitt skapað það ofbeldisástand sem nú ríkir í landinu. Ekki mun það breytast þó kosið hafi verið. Annar kostur er sá, að niðurstaðan verði sigur einhverra af þeim hægri og fasistaflokkum sem bjóða fram við hlið Duartes. Hafa menn trú á að það þýði betri tíð? Ég hef ekki trú að því. Ofbeldisöflunum mun verða beitt gegn landsmönnum af ekki minni hörku en fyrr. Ég held að það sé ljóst og því verði ekki móti mælt, að í besta falli sé ríkisstjórn Ronalds Reagans ekki enn að fullu ljóst hvert stefnir, hún geri sér ekki grein fyrir þeirri blindgötu sem hún hefur komið málum í í þessu landi.

Því hefur verið haldið fram af ríkisstjórn Ronalds Reagans að Kúbumenn og Sovétmenn og Nicaraguamenn standi að baki skæruliða í EI Salvador. Þetta hefur ekki verið sannað. Nýlega komu fréttir af hermanni sem hafði verið fluttur til Washington til að bera vitni um þetta. Þegar hann kom á leiðarenda upplýsti hann að hann hefði verið pyntaður til að gangast undir að gefa slíka yfirlýsingu, þetta væri fals eitt og ekki satt.

Sannleikurinn í þessu máli verður sjálfsagt vandfundinn, en hitt er það, að ríkisstjórn Ronalds Reagans stimplar alla stjórnarandstæðinga sem vinstri öfgamenn og kommúnista. Gott dæmi um þetta er jafnaðarmaðurinn Manuel Ungo, sem er í forsvari fyrir stjórnarandstæðingum í El Salvador. Hann er formaður FDR. Ég átti þess kost í októbermánuði s.l. að kynnast þessum hógværa manni lítillega. Ég verð að segja að af samtölum mínum við hann fannst mér reyndar mikið til um einlægni hans og lýðræðisást. Þar var ekki gífuryrðunum fyrir að fara, en þunginn í málflutningi var mikill. Það þarf enginn að efast um að Manuel Ungo sé lýðræðissinni, þessi fyrrum ráðh. sem sagði af sér þegar ríkisstjórn, sem hann tók sæti í, fékkst ekki til að koma á þeim umbótum sem lofað hafði verið.

Þetta er maður, sem settist í sæti félaga síns, sem hafði verið í forustu fyrir FDR, en var myrtur á blaðamannafundi. Það var athyglisvert að heyra þennan mann lýsa því, hvers vegna ekki væri mögulegt að taka þátt í kosningunum, sem þá voru fyrirhugaðar — og eru það reyndar enn, hinn 28. þessa mánaðar. Hann sá nauðsyn þess, að heiðarlegar kosningar færu fram í landinu, og vill einbeita sér að því, að það verði gert. En hann benti á og hann hefur sífelldlega bent á að fáir geti tekið þátt í kosningum þar sem útkoman er fangelsi og ofsóknir, ótti og svik. Skoðun hans er sú, að fyrst verði að koma á vopnahléi og viðræðum milli deiluaðila og breiðri stjórn sem geti tryggt lýðræði í landinu. Þessi maður, Manuel Ungo, vildi ekki beita vopnaðri baráttu þar til fyrir tiltölulega skömmu, þegar hann sannfærðist um að lýðræðissinnar í EI Salvador, vinstrimenn og miðjumenn, ættu ekki annars úrkosta.

Spurningin er þessi: Á að útiloka stóran hluta þjóðarinnar frá stjórnmálaafskiptum eða á fólkið í landinu og þá öll stjórnmálasamtök að fá ákvörðunarrétt um framtíð landsins? Með því að beita sér fyrir kosningum í landinu við núverandi aðstæður, þar sem aðeins hægri öflin og fasistar bjóða fram, eru menn að leggja blessun sína yfir tvennt: Í fyrsta lagi eru menn að horfa fram hjá þeim fjöldamorðum, sem ríkisstjórn Duartes ber ábyrgð á, og í öðru lagi er verið að leggja blessun yfir gerspillt þjóðfélagskerfi sem er í sjálfu sér rótin að vandamálunum í landinu og reyndar í allri Mið-Ameríku. Þessi tvö sjónarmið takast á í þessu máli um þessar mundir. Ég er ekki í neinum vafa um hvoru sjónarmiðinu Íslendingar vilja fylgja. Því er haldið fram, einkum af talsmönnum ríkisstjórnar Ronalds Reagans, að átökin í EI Salvador séu um leið átök milli austurs og vesturs. Ég er sannfærður um að allir, sem eitthvað hafa kynnt sér aðstæður fólks í landinu, sjái að vitaskuld þarf engin utanaðkomandi áhrif til þess að fólkið rísi upp og myndi hreyfingar gegn ríkjandi öflum. Kúgunin hefur verið svo gegndarlaus. Þegar þjóðir Mið-Ameríku rísa upp gegn stjórnarherrunum er það vegna ástandsins sjálfs. Þar þarf enga „inspirasjon“ frá kommúnistum eða Sovétríkjunum. Það sýnir sig líka að fyrir hvern liðsmann þjóðfrelsishreyfingarinnar, sem fellur eða felldur er, bætast tíu nýir í hópinn. Það má segja að þessi ógnarstjórn, sem er í EI Salvador, vinni þannig gegn sjálfri sér. Virt bandarísk blöð viðurkenna þetta og svo hitt, að baráttuvilji stjórnarhermanna fari sífellt þverrandi. En ef ríkisstjórn Ronalds Reagans heldur áfram stefnu sinni getur vel verið að henni takist að hrekja þetta fólk í faðm kommúnismans. Það má ekki gerast.

Þjóðfrelsishreyfingin FDR leggur áherslu á samningaleiðina. Hún er reiðubúin að taka þátt í breiðri ríkisstjórn með þátttöku Duartes og jafnvel hluta hersins, svo framarlega sem haldnar yrðu kosningar sex mánuðum síðar. FDR hefur líka samið stefnuskrá sem m.a. tekur til utanríkismála. Það má geta þess, að í henni er sérstaklega tekið fram að leggja verði áherslu á gott samband við Bandaríkin.

Það er enginn vafi á að lausnin á þessu máli er í rauninni í höndum Bandaríkjastjórnar. Það er afstaða hennar og afskipti sem ráða úrslitum. Fleiri og fleiri Bandaríkjamenn sjá þetta og sjá að stefnir í óefni. T.d. hafa yfir 100 bandarískir þingmenn hvatt ríkisstjórn Ronalds Reagans til að fara samningaleiðina. Það er mikilvægt að allir, og þá við líka, leggist á eitt um að beita sér af alefli fyrir samningaleiðinni og gegn þeirri stefnu sem nú er uppi af hálfu ríkisstjórnar Ronalds Reagans.

Herra forseti. Þegar málefni EI Salvador komu til umr. hér í þinginu í byrjun febrúar vegna fsp. minnar um afstöðu ríkisstj. til stjórnvalda og atburða þar í landi lýsti hæstv. utanrrh. Ólafur Jóhannesson stjórn Duartes sem hreinni ógnarstjórn. Hæstv. utanrrh. sagði að ástandið í landinu væri hörmulegt, þar sem auðæfi liggi á fárra manna höndum, en allur almenningur búi við sárustu neyð. Hann sagði enn fremur: Núv. ríkisstjórn í EI Salvador hefur gefið loforð um úrbætur, en hægt virðist ætla að miða að hrinda þeim í framkvæmd. Ég vil svo sannarlega taka undir þessi orð hæstv. utanrrh. og ég tel rökrétt framhald þeirra vera að samþykkja þá þáltill. sem ég mæli hér fyrir, enda vænti ég góðrar samvinnu við hæstv. utanrrh. um framgang málsins.

Við þessar umr. í febrúarmánuði benti hæstv. utanrrh. einnig á áskoranir Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um að ríkisstjórnir heims sendu ekki vopn til EI Salvador. Það verður að teljast sjálfsagt að minnt sé á þessar áskoranir Sameinuðu þjóðanna, samtaka allra þjóða heims, sem hæstv. utanrrh. gerði að umtalsefni, eins og gert er í þeirri þáltill. sem ég mæli hér fyrir. Ég skil hæstv. utanrrh. svo, að hann hafi með þessum orðum verið að taka undir þau sjónarmið sem við Alþfl.-menn höfum borið fram í þessu máli. Ég leyfi mér að vænta þess, að allir þingmenn geti tekið undir þessi sjónarmið og samþykkt þá till. sem hér er flutt. Hinu þjóðfélagslega misrétti í El Salvador er viðhaldið með ógnarstjórn, og hún situr við völd vegna stuðnings og aðstoðar frá ríkisstjórn Ronalds Reagans, bæði í fjárhagslegum og hernaðarlegum skilningi.

Sumar ríkisstjórnir hafa gengið lengra í stuðningi sínum við stjórnarandstöðuna í EI Salvador en þessi till. gerir ráð fyrir. Ég hefði gjarnan kosið að stuðningur okkar Íslendinga gæti gengið lengra í þá átt og í átt við skoðun okkar Alþfl.-manna og verið t.a.m. í sama formi og yfirlýsing utanrrh. Mexíkó og Frakklands. En með tilliti til ýmissa sjónarmiða, sem ég hef orðið var við hér á landi, taldi ég rétt að velja það orðalag á þáltill., sem valið hefur verið, til þess að sem víðtækust samstaða geti tekist um þessa till. um viljayfirlýsingu Íslendinga.

Herra forseti. Við Alþfl.-menn höfum ítrekað lýst samstöðu og samúð með hinum almenna borgara í þessu stríðshrjáða landi. Við teljum að rödd Íslands út á við skipti máli. Við teljum að sú rödd eigi að tala máli alþýðunnar í EI Salvador. Því leggjum við til að því sjónarmiði verði komið á framfæri við Bandaríkjastjórn, að hún hætti öllum hernaðarstuðningi við ógnarstjórnina í EI Salvador. Ef hernaðarstuðningnum verði hætt verður ríkisstjórnin í El Salvador að koma til móts við vilja þjóðarinnar. Þessi till., sem ég mæli hér fyrir, er flutt til að leggja okkar lóð á vogarskálina svo að einmitt þetta megi verða og til að stuðlað verði eftir mætti að pólitískri lausn á þeim hörmungum sem þarna dynja yfir.

Herra forseti. Ég legg til að þessari till. verði vísað til hæstv. utanrmn. að lokinni þessari umr.