25.03.1982
Sameinað þing: 69. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3285 í B-deild Alþingistíðinda. (2909)

201. mál, málefni El Salvador

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem fram hefur komið í máli hv. 8. landsk. þm., Guðrúnar Helgadóttur, sem hefur gert grein fyrir okkar afstöðu til þessarar till. Ég kvaddi mér aðallega hljóðs til að vekja athygli á tilteknum staðreyndum sem er ákaflega fróðlegt fyrir þingheim að skoða og hugleiða.

Fyrir nokkrum vikum var gerð samþykkt á hv. Alþingi um ástandið í Póllandi. Sú samþykki var gerð með öllum atkvæðum þm. úr öllum flokkum og hér var hvert sæti skipað í þessum virðulega sal. Nú gerist það, að fjallað er um mál sem snertir hagsmuni Bandaríkjastjórnar — þeirrar stjórnar sem ber m.a. ábyrgð á hersetunni á Íslandi. Þá eru innan við tíu menn í salnum mestallan tímann sem fjallað er um málið. Þeir menn, sem mest töluðu á þeim tíma um Póllandsmálið og iðulega blanda sér í umr. um utanríkismál hér á hv. Alþingi, sjást ekki hér í dag. Einn þeirra las langan heimastíl áðan og hljóp svo úr salnum. Aðrir hafa ekki komið hér við. Hv. þm. Framsfl., flokks hæstv. utanrrh., hafa ekki verið hér — aðrir en þeir sem hafa skyldum að gegna eins og hæstv. forseti. Hér hafa talast við í dag annars vegar flm. þeirrar till., sem hér er um að ræða, hv. þm. Alþfl., og þm. Alþb. Aðrir virðast ekki telja ástæðu til að fjalla sérstaklega um þetta mál og gefa því sérstaklega gaum og skiptast á skoðunum um það. Ég kalla það ekki að skiptast á skoðunum þegar menn standa í ræðustól hálftíma til klukkutíma og lesa heimastílinn sinn og hlaupa svo í burtu.

Ég tel að í máli hv. þm. Péturs Sigurðssonar hafi komið fram mjög svipaður tónn og ævinlega kom fram hér á Alþingi Íslendinga fyrir 15 árum eða svo þegar rætt var um styrjöldina í Víetnam. Það kom þá ekki fyrir að þm. úr öðrum flokkum en helst Alþb. gengju fram fyrir skjöldu til að lýsa stuðningi við frelsishreyfingu alþýðunnar í Víetnam og við bráðabirgðabyltingarstjórnina í Víetnam og krefðust viðurkenningar á henni. Þá kom fram hjá þm. Sjálfstfl. sama áhugaleysið, sama fyrirlitningin á lýðbaráttu fátækrar alþýðu í þessum löndum vegna þess að hún er að berjast við þau stjórnvöld sem eru íhaldinu á Íslandi þóknanleg, þ.e. stjórnina í Washington. Þetta mætti verða landsmönnum öllum nokkurt umhugsunarefni um þessar mundir þegar umræður um hersetuna og herstöðina hér á Íslandi eru talsvert miklar sem betur fer og menn skiptast á skoðunum og það kemur fram hvar skilur á milli í afstöðunni til þessa stóra máls, sem er stórt og þýðingarmikið þjóðfrelsismál Íslendinga og verður meðan herinn situr í þessu landi.

Ég gat ekki skilið hv. þm. Pétur Sigurðsson öðruvísi en sem svo, að hann væri andvígur till. hv. þm. Kjartans Jóhannssonar og annarra þm. Alþfl. Ég ætla ekki að fara yfir þau rök sem hann taldi sig tína til. Ég get þó nefnt eitt. Hv. þm. ræddi um málið þannig að í rauninni væri þetta mjög fjarri okkur og væri mjög langt í burtu. EI Salvador er geysilega langt í burtu frá okkur hérna upp við heimskautsbaug, feikilega langt í burtu, og við eigum ekki að vera að gera um það miklar ályktanir hér af því að það er svona langt í burtu. Hv. þm. upplýsti ekki hvaða fjarlægðarmælikvarða ætti að leggja á mannréttindamál í heiminum yfirleitt, hversu skammt frá mannréttindabrot ættu að vera til þess að hann teldi sæmandi að Alþingi Íslendinga gerði um þau ályktanir. Hins vegar er þetta mál ekki lengra í burtu en svo, að þessa dagana hef ég haft fregnir af því, að þrír menn, sem tóku þátt í frelsisbaráttu alþýðunnar í Guatemala, höfðu áhuga á að komast hingað til Íslands — svo langt í burtu — til að flýja undan ógnarstjórninni sem þar er um að ræða. Tveir þessara manna standa nú uppi. Sá þriðji hefur verið drepinn af stjórnvöldum í því landi. Þessi mál eru m. ö. o. ekki lengra frá okkur en svo, að þegar fólk í þessum löndum fréttir af því, að til er eyland langt norður á hnettinum sem hugsanlega tekur sæmilega á móti flóttafólki, þá lætur það sér detta í hug að koma hingað til lands. Þó er misjafnt hvernig tekið hefur verið á móti förumönnum í þessu landi. Þarf ekki annað en að nefna unglingspilt sem þvældist hingað og olli hér miklu írafári í pólitík um tíma fyrir liðlega einu ári og hét Patrick Gervasoni, en ég veit ekki betur en að sé nú staddur í heimalandi sínu við velþóknun þarlendra stjórnvalda sem nýlega hafa tekið þar við völdum.

Það er talað um í skýrslu hæstv, utanrrh„ bæði nú og á síðasta þingi, hvaða rök það eru sem Ameríkumenn beita fyrir afstöðu sinni í þessum efnum. Í skýrslu utanrrh. á Alþingi síðast segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Bandaríkjamenn telja hagsmunum sínum í Suður-Ameríku stefnt í voða með stuðningi Sovétmanna og ýmissa fylgiríkja þeirra við kommúníska uppreisnarmenn í landinu og því sé þeim einn kostur nauðugur, sá að styrkja stjórnvöld í EI Salvador og senda þeim hernaðarráðgjafa.“ — Vissulega segir hæstv. utanrrh. í skýrslu sinni til Alþingis á s.l. ári í framhaldi af þessu: Ég vil ekki að svo komnu máli fella neinn dóm í þessum deilum, enda er það ekki aðalatriðið.“ En því miður kemur ekki fram í skýrslu hæstv. utanrrh. í fyrra né heldur í þeirri skýrslu, sem nú liggur fyrir, hver eru rök þeirrar kúguðu alþýðu sem berst þarna gegn ofurefli liðs í EI Salvador.

Í skýrslunni, sem hefur verið útbýtt á Alþingi nú, þskj. 447, er einnig minnst á þessi mál og þar er vitnað í afstöðu Bandaríkjastjórnar, en rök hinna koma ekki fram. Hinsvegar er í báðum þessum skýrslum, því miður, alið á þeirri kommúnistahræðslu sem ætluð er af Bandaríkjastjórn til að réttlæta framkomu hennar í El Salvador. Í skýrslunni á þskj. 447 segir svo, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 5:

„Aðeins með auknu jafnræði, aukinni almennri menntun og efnahagslegri uppbyggingu verður hægt að stuðla að lýðræðisþróun og forða því að sterkir öfgahópar steypi þessum ríkjum út í alræðisvald kommúnismans.“

Vegna orðanna í þessari skýrslu og vegna þeirra ummæla sem hér hafa fallið hjá hv. þm. Pétri Sigurðssyni er brýn nauðsyn að Alþingi Íslendinga geri ályktun í þessu máli.

Ég væri tilbúinn til þess fyrir mitt leyti að samþykkja till. þm. Alþfl. eins og hún liggur fyrir hér. Ég væri einnig reiðubúinn að kanna til hlítar hvort ekki er unnt að lýsa yfir beinum stuðningi hér á Alþingi við alþýðusamtökin í EI Salvador og lýsa yfir viðurkenningu á þeim sem fulltrúum þess lands með svipuðum hætti og komið hefur fram í afstöðu ríkisstjórna Frakklands og Mexíkó. Ég tel að það sé nauðsynlegt, m.a. vegna þeirra ummæla sem ég var hér að vitna til í skýrslu utanrrh., að Alþingi segi sína skoðun á málinu, og ég tel nauðsynlegt að það gerist á þessu þingi. Við hljótum að ganga eftir því að þessi till. verði afgreidd í utanrmn.

Því er haldið fram, að okkar hlutur í þessum efnum geti ekki verið stór vegna þess að hér sé um að ræða smáþjóð langt í burtu, eins og hv. þm. Pétur Sigurðsson reyndar orðaði. Ég tel að þessar úrtöluraddir um afstöðu Íslendinga og þýðingu hennar eigi engan veginn rétt á sér. Það hefur komið í ljós aftur og aftur á undanförnum áratugum að þar sem Íslendingar beita sér fyrir málum á alþjóðavettvangi hefur það vakið athygli og jafnvel ýtt af stað alþjóðlegri þróun sem ekki einu sinni stórveldin hafa getað ráðið við. Ég nefni landhelgismálin í þessu sambandi. Ég tel að rödd Íslands skipti máli einnig í sambandi við EI Salvador. Hún skiptir máli vegna þess að hér er um að ræða sjálfstæða, fullvalda þjóð hún skiptir máli vegna þess að hér er um að ræða eina af aðildarþjóðum Atlantshafsbandalagsins og hún skiptir máli vegna þess að hér talar þjóð sem hefur bandarískan her.

Ég vil ljúka máli mínu, herra forseti, með því að þakka hv. þm. Alþfl., Kjartani Jóhannssyni, formanni þess flokks, fyrir að hafa frumkvæði að tillöguflutningi þessum, og ég vænti þess, að Alþingi sýni hug sinn til till. með jákvæðari hætti en komið hefur fram í því kæruleysi sem birtist í auðum stólum þessa salar í dag.