29.03.1982
Efri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3294 í B-deild Alþingistíðinda. (2920)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Þessar umr, hafa staðið alllengi yfir, það er langt síðan 2. umr. um þetta frv. hófst hér í deildinni, en það voru einkum tvö atriði í ræðu hv. 11. þm. Reykv. sem mig langaði að gera sérstaklega aths. við. Annars fjallaði hann allmikið um störf allshn. og vildi ekki taka frásagnir af því, sem þar hefði gerst, eftir þeim upplýsingum sem þar hafa komið fram, eins gildar og ef einhverjir pappírar væru lagðir fram frá mönnum utan þings. Ég geri ráð fyrir að formaður allshn. muni ræða um þá hlið málsins. En ég rakti í framsöguræðu þær upplýsingar sem okkur voru gefnar í þeim viðræðum sem áttu sér stað í allshn., og ég tel að þær séu jafngildar og þó við hefðum lagt fram einhverjar skriflegar upplýsingar frá aðilum utan þings.

Ég vil sérstaklega minnast á það atriði, að ég skýrði frá því í minni framsöguræðu, að það hefði borist listi um þau mál sem hæstaréttardómarar hefðu unnið að á vegum dómsmrn. Þar skar sig mjög úr einn dómari, Ármann Snævarr, hvað það voru mörg mál sem hann vann að. Ég gat þess þá jafnframt, að hann mundi hafa fengið leyfi frá störfum til að vinna að þessu. Hv. 11. þm. Reykv. fannst undarlegt að hann skyldi fá leyfi á sama tíma sem kvartað væri undan því að hægt gengi með afgreiðslu mála frá Hæstarétti. Leyfi það, sem hér um ræðir, fékk Ármann Snævarr á tímabilinu okt.-des. 1980, þ.e. fyrir meira en ári, og þá var annar maður settur í hans stað á meðan þannig að það átti ekki að draga úr vinnu hjá Hæstarétti.

Í öðru lagi spurði hv. 11. þm. Reykv. að því, hvort við hefðum kannað hvort hæstaréttardómarar hefðu verið sammála um frv. sem hér liggur fyrir. Þá vil ég skýra frá því, að á fund nefndarinnar kom Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómari, sem hefur verið formaður réttarfarsnefndar, og hann sagðist vera sammála um þá tímabundnu ráðningu hæstaréttardómara sem frv. gerir ráð fyrir. Það var ekki um það atriði sem hann var ekki á sömu skoðun og aðrir hæstaréttardómarar.