29.03.1982
Efri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3295 í B-deild Alþingistíðinda. (2921)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það gerist nú, eins og hér hefur komið fram, nokkuð sundurslitin umr. um þetta mál, og það hefur satt best að segja dregist meira á langinn að afgreiða það héðan úr þessari hv. deild en e.t.v. væri æskilegt.

Ástæðan til þess, að ég kveð mér hér hljóðs að nýju við þessa umr., eru einkum ummæli sem féllu í ræðu sem hv. 11. þm. Reykv. flutti hér fyrir allnokkru, og hefur raunar verið vikið að einu þeirra atriða nú þegar af hv. 3. þm. Suðurl.

Í ræðu hv. 11. þm. Reykv. kom fram, að ég tel, nokkur gagnrýni á störf allshn. að þessu máli. M.a. gagnrýndi hann að nefndin skyldi ekki hafa óskað eftir skriflegri greinargerð frá Lögmannafélaginu um málið, en látið nægja að ræða við stjórnarmenn á fundi, eins og hann — með leyfi forseta — tók til orða í þessum ræðustól. Ég held að þetta frv. hafi fengið þá umfjöllun í allshn. sem eðlilegt er. Það hefur fengið mjög ítarlega umfjöllun, og vil ég í stuttu máli gera grein fyrir því, hvernig nefndin hefur fjallað um þetta frv.

Strax á 3. fundi nefndarinnar, 24. nóv. s.l., kom Steingrímur Gautur Kristjánsson á fund hennar og gaf henni margvíslegar upplýsingar, en hann var einn þeirra virtu og mikilsmetnu lögfræðinga sem hv. 11. þm. Reykv. hefur orðið tíðvitnað til í þessum ræðustól, og ekki skal ég draga úr því.

Á 4. fundi nefndarinnar, hinn 1. des., kom forseti Hæstaréttar á fund nefndarinnar og gaf sömuleiðis margháttaðar upplýsingar, m.a. þær, að nú biðu afgreiðslu í Hæstarétti 121 einkamál og 21 opinber mál sem væru tilbúin til flutnings.

8. des., á 5. fundi nefndarinnar, mættu fulltrúar Lögmannafélags Íslands, a.m.k. 5 fulltrúar, ef ég man rétt, sem gáfu nefndinni mjög ítarlegar upplýsingar og lýsti skoðunum sínum munnlega við nefndina. Það hefur verið gagnrýnt, að ekki skuli hafa af okkur hálfu verið óskað eftir skriflegri greinargerð, en þess var hreinlega ekki talin þörf og talið ástæðulaust. Nú er það svo auðvitað, að menn geta ekki átt sæti í öllum nefndum. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur valið þann kost eða hans þingflokkur að hann sé ekki fulltrúi flokksins í allshn. Hann hefði þá átt betri kost á að fylgjast með þessu. En það komu ekki fram neinar beiðnir í nefndinni um að þetta yrði skriflegt, og auðvitað hljóta munnlegar skýrslur af þessu tagi að vera nákvæmlega jafngildar og skriflegar samkv. íslenskum réttarvenjum.

Á fundi nefndarinnar 8. des. mætti einnig forseti lagadeildar Háskóla Íslands og að beiðni nefndarinnar var honum falið að semja stutta greinargerð um valkosti í þessu efni, sem þegar hefur verið gert grein fyrir, og þeir valkostir voru síðan ræddir á 7. fundi nefndarinnar 2. febr.

Á 8. fundi nefndarinnar 9. febr., mætti Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómari, formaður réttarfarsnefndar, eins og áður hefur verið vikið að.

Á 9. fundi nefndarinnar, þar sem um þessi mál var fjallað, mætti hæstv. dómsmrh. Friðjón Þórðarson og gaf nefndinni upplýsingar.

Á 10. fundi nefndarinnar, þar sem um þessi mál var fjallað, hinn 25. febr., var lagt fram skriflegt svar dómsmrn. varðandi ýmis störf hæstaréttardómara sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafði beðið um.

Ég sé því ekki að unnt sé að halda því fram með neinni sanngirni, að að afgreiðslu þessa máls eða athugun hafi ekki verið unnið í allshn. með þeim hætti sem eðlilegt hlýtur að teljast.

Ég skal ekki gera sérstaklega að umtalsefni mörg önnur atriði úr ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar um þessi mál, utan það eitt, að í ræðu, sem sá hv. þm. flutti í þessari hv. deild hinn 8. mars s.l., hélt hann því margsinnis fram, að nokkur ákvæði hæstaréttarfrv. brytu í bága við stjórnarskrá. Enn fremur kom það fram í máli hans við það tækifæri, að í greinargerð nokkurra lögmanna, sem hér hefur oftlega verið vitnað til, komi fram sú skoðun þeirra, að ákveðin ákvæði frv. til l. um Hæstarétt séu andstæð stjórnarskrá. Sé hins vegar greinargerð þessara ágætu manna lesin, sú greinargerð sem þeir sendu öllum alþm., kemur hvergi fram, það er hvergi fullyrt, að þetta sé andstætt stjórnarskránni. Þar segir, með leyfi forseta: „Kynni slíkt tilvik að vera talið andstætt 61. gr. stjórnarskrár“. — Kynni að vera talið. Annars staðar hér segir, með leyfi forseta: „Verði umrætt frv. um dómara til bráðabirgða að lögum er stigið varhugavert skref í sögu íslenskrar dómaskipunar: a) Því kann að verða haldið fram, að hér sé um að ræða brot á 61. gr. stjórnarskrár.“ — Síðan segir í b-lið: „Jafnvel þótt menn treysti sér ekki til að fullyrða að umrætt bráðabirgðaákvæði fari berlega í bága við stjórnarskrá má vekja athygli á því, að hér er stigið nýtt skref“ o.s.frv.

Það er sem sagt ekki rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, að í greinargerð þessara ágætu lögfræðinga og fræðimanna sé þetta fullyrt berum orðum. Það er hvergi gert. Þetta tel ég nauðsynlegt að leiðrétta og hvet svo til þess, að við rekum af okkur slyðruorðið með afgreiðslu þessa frv. hér. Við það hafa verið fluttar brtt. Meginatriði málsins er að það takist að greiða þannig úr, flýta störfum í Hæstarétti þannig, að menn verði ekki að una þeirri óvissu sem fylgir því að þurfa að bíða árum saman eftir að fá úrslit deiluefna hjá þessum æðsta dómstól landsins. Meginatriðið er auðvitað að auka réttaröryggi og flýta því, að menn geti fengið skorið úr sínum deilumálum, því að satt best að segja er núverandi ástandi og sá hali mála, sem Hæstiréttur nú dregur á eftir sér ár frá ári, auðvitað gersamlega óviðunandi.