29.03.1982
Efri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3296 í B-deild Alþingistíðinda. (2923)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Tilefni þessarar brtt. er það, að okkur sýnist að freista þurfi þess að nýta þá möguleika sem unnt er til að hraða afgreiðslu í Hæstarétti, og það frv., sem fyrir liggur, lýtur í þá átt. Það er alkunna að þingleyfi Hæstaréttar mun vera þrír mánuðir, og þykir okkur flm. það fulllangt. Reyndar er það svo, að lögmönnum almennt þykir þetta þingleyfi allt of langt. Fæ ég ekki skilið að hæstaréttardómarar þurfi svo langt leyfi sem þar er tekið. Því leggjum við til að í framhaldi af ákvæði 11. gr. frv. komi svohljóðandi setning: „Þingleyfi skulu þó aldrei vera lengri en 6 vikur.“ Vonast ég til að hv. þdm. samþykki þessa brtt., enda er ljóst að verði hún samþykki jafngildir það starfi eins hæstaréttardómara ef miðað er við eitt mannár.