29.03.1982
Efri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3304 í B-deild Alþingistíðinda. (2932)

37. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr., var flutt fyrr í vetur sem stjfrv. Fjh.- og viðskn. þessarar deildar hefur fjallað ítarlega um það og fengið til viðræðu við sig um efni þess bæði fulltrúa fjmrn. og skattrannsóknarstjóra, sem átti sæti í nefnd sem vann að gerð þessa frv., og enn fremur fulltrúa frá Kaupmannasamtökum Íslands og Sambandi ísl. samvinnufélaga.

Það er ljóst, að framkvæmd og innheimta söluskatts er á ýmsum sviðum mjög erfið. Nauðsynlegt hefur verið talið að gera ýmsar endurbætur á þeirri framkvæmd til að tryggja í senn að innheimta söluskatts verði með raunhæfari hætti og meira jafnrétti ríki meðal aðila sem söluskatt eiga að greiða, einstökum aðilum verði ekki gert kleift að skjóta sér undan söluskatti, eins og nú er því miður raun á, heldur verði framkvæmdin á þann veg að jafnt verði látið yfir alla aðila ganga.

Það hefur verið töluvert til umræðu hér á undanförnum árum að taka upp virðisaukaskatt líkt og gert hefur verið í ýmsum nágrannalöndum okkar. Þó er ljóst að innleiðsla virðisaukaskatts hér á landi yrði mjög flókin í framkvæmd og vafasamt að hún mundi í fyrsta áfanga skila betri innheimtu en raunhæft kerfi söluskatts. Hægt er þó að rökstyðja virðisaukaskattinn frá ýmsum öðrum sjónarmiðum og þá fyrst sérstaklega ýmsu í fari atvinnuveganna í landinu. En meðan við búum við söluskatt á grundvelli þeirra laga, sem í gildi eru, er nauðsynlegt að tryggja að innheimta hans sé með sem ákjósanlegustum og öruggustum hætti.

Það frv., sem hér til umr., var unnið af nefnd sem að mestu leyti var skipuð sérfróðum aðilum sem langa reynslu hafa af framkvæmd söluskattslaganna og hafa haft það verksvið að tryggja að innheimtan yrði örugg og réttmæt. Þær breytingar, sem hér eru lagðar til að gerðar verði á lögum um söluskatt, eru byggðar á tillögum þessarar nefndar. Það er hins vegar ljóst, að ýmsir aðilar, sem annast innheimtu söluskattsins, aðilar í verslun og viðskiptum, telja það fyrirkomulag, sem hér hefur verið tíðkað, á ýmsan hátt gallað og vilja gera á því breytingar og jafnvel ekki styðja sumar þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frv., þótt greinilegt hafi verið að nokkur munur var á áliti þeirra aðila úr verslunarlífi og viðskiptum sem við leituðum til, án þess að ég reki það nánar hér.

Eftir þessa ítarlegu umfjöllun í nefndinni var það niðurstaða meiri hl. n. að leggja til að frv. yrði samþykkt óbreytt í trausti þess, að á grundvelli þess yrði tryggð öruggari innheimta söluskatts en verið hefur til þessa og þar með aukið réttlæti í okkar þjóðfélagi.

Einn nm., Kjartan Jóhannsson, skrifar undir nál. meiri hl. með fyrirvara, sem hann mun sjálfsagt gera grein fyrir hér á eftir, en minni hl. n., Eyjólfur Konráð Jónsson og Lárus Jónsson, skilar séráliti sem að sjálfsögðu verður gerð hér grein fyrir einnig.

Það er von mín, herra forseti, að þetta frv. verði afgreitt frá Ed. í þá veru, sem meiri hl. n. leggur til, að það verði samþykkt óbreytt.