29.03.1982
Efri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3307 í B-deild Alþingistíðinda. (2934)

37. mál, söluskattur

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef undirritað meirihlutanál. með fyrirvara, — nál. sem mælir með því, að frv. verði samþykkt. Fyrirvarinn er á þessa lund:

„Ljóst er að söluskattskerfið hefur gengið sér til húðar. Hin mörgu undantekningarákvæði og hin háa skattprósenta gera virkt eftirlit og góð skil mjög torveld og auka á tilhneigingu til og hættu á undandrætti. Uppsöfnunaráhrif skattsins hafa slæm áhrif á atvinnulífið í landinu og rýra samkeppnisstöðu margra atvinnugreina gagnvart innflutningi. Þess vegna hefur Alþfl. borið fram tillögur um að virðisaukaskattur komi í stað söluskatts. Með hverju árinu sem líður verður æ brýnna að gera þá breytingu að taka upp almennan virðisaukaskatt eða ígildi hans í stað þess söluskattskerfis sem nú er, enda munu ekki nást góð skil á skattheimtu með öðrum hætti.

Með tilvísun til þessa ítreka ég nauðsyn kerfisbreytingar, en fellst á samþykkt þessa frv. sem bráðabirgðaaðgerðar, sem geti e.t.v. eitthvað bætt skil og eftirlit meðan ekki hafa verið gerðar þær kerfisbreytingar sem Alþfl. leggur höfuðáherslu á.“

Herra forseti. Við þennan fyrirvara er engu að bæta. Í honum felst að við látum gott heita og mælum með því að þetta frv. verði samþykkt í þeirri von að það muni eitthvað bæta skil skattsins. En trú okkar stendur til þess, að kerfinu í heild verði breytt. Það er í raun með trausti á það sem við föllumst á þessa breytingu sem bráðabirgðaaðgerð.