30.03.1982
Sameinað þing: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3329 í B-deild Alþingistíðinda. (2947)

366. mál, atvinnumál á Suðurnesjum

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að spyrja forsrh. eftirtalinna spurninga:

„1. Hvenær og hvernig hyggst ríkisstj. framkvæma það ákvæði í stjórnarsáttmálanum er segir að undirbúið verði öflugt átak í atvinnumálum á Suðurnesjum?

2. Hver er árangur af starfi nefndar þeirrar er skipuð var 24. júní s.l. í þessu skyni?“

Það eru að vísu áhöld um hvort eðlilegt er að spyrja forsrh. um atvinnumál á Suðurnesjum, því að þegar þeir settu saman þann stjórnarsáttmála sem núv. ríkisstj. starfar eftir hafa þeir ekki vitað betur eða verið betur að sér um mannlíf á Suðurnesjum en svo að þeir flokkuðu atvinnumál þar um slóðir sem utanríkismál. Í einum kafla stjórnarsáttmálans, er nefnist utanríkismál, segir: „Undirbúið verði öflugt átak til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum.“ Ekki hefur enn bólað á neinu hvað varðar framkvæmd þessa ágæta fyrirheits og eru Suðurnesjamenn því vissulega áhyggjufullir hvað varðar atvinnumálin.

Sú var tíðin, að atvinna var næg á Suðurnesjum. Fiskveiðar og fiskvinnsla stóð í blóma. Þar var vaxtarbroddur útgerðar á Íslandi. Nú er svo komið að hvert fyrirtækið af öðru hættir rekstri og atvinna minnkar. Fyrir nokkrum árum voru starfrækt ellefu frystihús í Keflavík, en nú eru þau aðeins þrjú og er atvinna þar stopul, enda ekki starfrækt með fullum afköstum. Þá má geta þess, að eitt helsta fyrirtæki þar um slóðir, Fiskiðjan, hefur nú verið lagt niður og tapar þar fjöldi manns atvinnu, menn sem hafa haft þar góðar tekjur. Verst hefur þó ástandið verið í vetur og fjöldi atvinnulausra aldrei verið meiri.

Ég hef undir höndum nýtt yfirlit frá Vinnumiðluninni í Keflavík. Þar kemur fram að allan febrúarmánuð s.l. voru 132 menn atvinnulausir. Tekið skal fram að afli var svipaður í febrúarmánuði nú og í fyrra. Í fyrra, þ.e. árið 1981, voru 57 skráðir atvinnulausir í febrúar, en árið 1980 voru aðeins 16 skráðir atvinnulausir. Þessar tölur sýna að sífellt sígur á ógæfuhliðina. Fyrir nokkrum árum hefðu fáir trúað því, að í febrúarmánuði, þegar vertíð er í fullum gangi, skyldu á annað hundrað manns ganga atvinnulausir í Keflavík. Skylt er að geta þess, að nú þessa dagana hefur aðeins rofað til, en síðasta föstudag greiddu verkalýðsfélögin 75 manns atvinnuleysisbætur. Atvinna í öðrum byggðarlögum á Suðurnesjum hefur verið ágæt nú um hávertíðina, hvað sem verður. Vandinn virðist mestur í Keflavík.

Það er mikil nauðsyn að gera öflugt átak í atvinnumálum á Suðurnesjum. En til þess þarf vilja, framkvæmdir og fjármagn. Íbúar syðra hafa að mestum hluta lifað af vinnslu sjávarafla. Aftur á móti hafa ókunnugir oft í huga að á Suðurnesjum lifi menn á varnarliðsvinnu eingöngu, þar sé ekkert annað fyrir hendi. Svo er auðvitað ekki og svo má aldrei verða. Á þessu svæði verður að tryggja fólki fulla atvinnu, eins og annars staðar á landinu.

Það ástand, sem nú ríkir, má ekki vera til frambúðar, enda óþolandi. Óttast ég að þegar vertíð lýkur verði ástandið mjög alvarlegt. Við þeim vanda verður að bregðast af raunsæi. Ég vona að ráðh. boði framkvæmdir eða efndir á umræddu fyrirheiti í stjórnarsáttmálanum í svari því er hann gefur hér á eftir.