30.03.1982
Sameinað þing: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3332 í B-deild Alþingistíðinda. (2951)

369. mál, fiskikort

Fyrirspyrjandi (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti.

Á þskj. 455 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til sjútvrh. um útgáfu fiskikorta, en hinn 15. mars 1977 var samþykkt svohljóðandi ályktun á hinu háa Alþingi um útgáfu fiskikorta, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþing ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að nú þegar verði hafinn undirbúningur að útgáfu sérstakra fiskikorta með Lóran-C staðarlínum í og öðrum þeim upplýsingum, sem að gagni mega koma við fiskveiðar.

Við undirbúning fjárlaga fyrir næsta ár verði tekið tillit til þess kostnaðar, sem útgáfa slíkra korta hefur í för með sér.“

Mér er kunnugt um að nokkur fiskikort hafa verið unnin. Það eru kort með lóranlínum um ástand sjávarbotns og eru það kort af hafsvæðum út af Reykjanesi og Vestfjörðum. Á hinn bóginn virðist sem þessi kortagerð hafi dregist úr hömlu, en skilningur á notagildi þeirra hefur farið mjög vaxandi og þekkja sjómenn best til þess. Ég sé þess vegna ástæðu til þess, eins og hér liggur fyrir, að bera þessa fsp. fram til að fá nákvæmari útlistun á stöðu málsins hjá hæstv. sjútvrh.