30.03.1982
Sameinað þing: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3335 í B-deild Alþingistíðinda. (2956)

361. mál, tollafgreiðslugjald á aðföng til iðnaðar

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans. Hann sagði að að því er snertir tollafgreiðslugjald á aðföng til iðnaðar væri fylgt ákvæðum laganna. Það getur vel verið að hægt sé að teygja þau reglugerðarákvæði, sem hér um ræðir, undir lagaákvæðin eins og þau eru. En ég held engu að síður að hér sé um að ræða töluvert stærra mál en hæstv. fjmrh. vill vera láta. A.m.k. hafa samtök iðnaðarins tekið þetta mál sérstaklega upp og telja að hér sé um að ræða verulega skattlagningu á aðföng til iðnaðar, bæði hráefni og ýmsar vélar og varahluti sem notað er í iðnaði hér á landi, og það svo mikið í sumum tilvikum að 1% launaskattslækkunin hverfi að miklu eða jafnvel öllu leyti í sumum tegundum fyrirtækja vegna þessa tollafgreiðslugjalds sem fyrirtækin þurfi að greiða. Ég hygg því að þó að hæstv. fjmrh. vildi gera lítið úr þessu sé hér um töluvert meira mál að ræða. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að þessi þáttur reglugerðarinnar um tollafgreiðslugjald sé tekinn til sérstakrar endurskoðunar í ráðuneytinu. Ég hygg að þegar þm. voru að samþykkja lögin um tollafgreiðslugjald hér á sínum tíma hafi menn ekki reiknað með að ýmis aðföng, bæði hráefni, vélar, varahlutir og fleira, yrðu álagningarstofn tollafgreiðslugjalds.