30.03.1982
Sameinað þing: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3336 í B-deild Alþingistíðinda. (2957)

361. mál, tollafgreiðslugjald á aðföng til iðnaðar

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég tel að hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson ætti ekki að trúa sögusögnum eins og þeim sem hann var að lýsa í svarræðu sinni. Það er alveg ljóst að fullyrðingar af því tagi, sem hann bar fyrir sig, eru fjarstæðukenndar.

Það er líka alveg ljóst að í lögunum kemur skýrt fram hvernig á að leggja toll á aðföng til iðnaðar. Ég er undrandi á því, að hv. fyrirspyrjandi skuli ekki hafa kynnt sér lögin betur en svo, að hann telur að þm. hafi staðið í einhverri ákveðinni meiningu, allt annarri en segir alveg skýrt og klárt í lögunum. Það stendur alveg skýrt og klárt í lögunum, að aðföng til iðnaðar skuli ekki fá á sig 1% gjald, en hins vegar skuli þau fá á sig þetta sérstaka krónutölugjald, þetta stendur eins skýrt og nokkuð getur verið í þessum lögum. Ég veit ekki hversu margir þm. hafa lesið þessi lög eða frv. áður en þeir samþykktu það, en þeir, sem það gerðu, áttu að vita hvað þeir voru að gera.