30.03.1982
Sameinað þing: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3352 í B-deild Alþingistíðinda. (2969)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Páll Pétursson:

Herra forseti. Samkvæmt till. þeirri til þál., sem hér liggur fyrir til umr. um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu, segir í 2. lið tillgr. að Blönduvirkjun samkv. virkjunartilhögun I verði næsta meiri háttar vatnsaflsvirkjun á eftir Hrauneyjafossvirkjun, enda takist að ná um það samkomulagi við heimamenn. Hæstv. iðnrh. var að enda við að skýra frá því, að hann teldi að slíku samkomulagi hefði verið náð og það samkomulag, sem þarna var gert, verði, eins og hann orðaði það, stefnumarkandi. Ekki get ég óskað hæstv. iðnrh. til hamingju með þá stefnumörkun, og mér finnst óhjákvæmilegt að benda á það hér og nú, að þetta samkomulag hefur ekki náðst og er ekki í vændum ef málið er keyrt með þeim hætti sem gert hefur verið síðustu daga.

Það skiptir ekki öllu þó að hæstv. ráðh. hafi laumast til að skrifa undir eitthvað í ráðherrabústaðnum um daginn með nokkrum hreppsnefndarmönnum að norðan. Það er ákaflega slæmt að verða að fullyrða þetta vegna þess að þessa deilu verður að setja niður, en það þýðir ekkert annað en viðurkenna staðreyndir. Það er hörmulegt að þessi della skuli ekki hafa verið sett niður fyrir löngu, en það er alveg ótrúleg þráhyggja þeirra manna, sem óðastir hafa verið í að virk ja samkv. tilhögun 1, sem hefur komið í veg fyrir að nauðsynlegt samkomulag hafi náðst.

Rannsóknir við þessa virkjun hófust sumarið 1974. Frumhönnun var gerð 1975 og málið var fyrst kynnt heimamönnum í apríl 1975. Hugmyndir þær, sem kynntar voru um lónstæði við Reftjarnarbungu, hlutu strax neikvæð viðbrögð heimamanna, þó að sýslumaður Húnavatnssýslu og hópur manna á Blönduósi ásamt með ýmsum mönnum í Torfalækjarhreppi yrðu strax ákafir baráttumenn fyrir hugmyndinni. Sem dæmi um neikvæð viðbrögð þeirra, sem áttu land þetta, og til upprifjunar fyrir þá, sem nú eru undrandi hissa á því, að menn fyrir norðan láti heyra í sér, vil ég nefna t.d. ályktun sveitarfundar í Svínavatnshreppi frá 15. júní 1975, ályktun sveitarfundar í Seyluhreppi frá 14. júní 1975, einróma ályktun sveitarstjórna í Lýtingsstaða-, Seylu-, Bólstaðarhlíðar- og Akrahreppum frá 4. apríl 1977. Svona mætti lengi telja. Það hafa stöðugt verið gerðar samþykktir sem hafa hafnað þessari tilhögun, allt síðan 1975 og til þessa dags.

Núv. iðnrh. reyndi að finna lausnir á þessari deilu og setti nefnd í málið. Nefndin boðaði menn til fundar í fyrravetur og kynnti þar loksins hugmyndir að breyttri tilhögun lóns. Þeir, sem ekki höfðu getað fellt sig við tilhögun I með stíflu við Reftjarnarbungu, tóku strax vel í að athuga nánar hugmyndina með tilhögun II með stíflu við Sandárhöfða. Þá hefði mátt halda að lausn væri í sjónmáli, þar sem þeir, sem í andófi höfðu verið, voru allt í einu orðni fúsir til samninga. Með tilhögun II var hægt að byggja jafnstóra virkjun. Tilhögun II gat framleitt rafmagn á samkeppnishæfu verði við tilhögun I ef tillit er tekið til skaðabótakostnaðar, þar sem við tilhögun II færi 46% minna gróðurlendi undir lónið en við tilhögun I, þ.e. 5505 hektarar eftir tilhögun I, en ekki nema 2984 hektarar eftir tilhögun II. Þá kom í ljós að miðað við tilteknar framkvæmdir aðrar í miðlunarkerfinu, þ.e. svokallað grunnkerfi II, sem er núverandi kerfi við Hrauneyjafossvirkjun, 210 megawött, Sultartangastífla, stóra Kvíslaveitan, stækkun Þórisvatns í 1450 gígalítra, fjórðu vélar í Sigöldu og með fyrri áfanga Fljótsdalsvirkjunar með 543 gígalítra miðlun og 190 mw. afli, var hægt um alllanga framtíð að komast af með 220 gígalítra miðlun við Blöndu og þá var raforkukostnaður orðinn lægri frá Blöndu en samkv. tilhögun I. Þetta var auðvitað einsýnt að velja, enda líka hægt að stækka lónið síðar ef þurfa þætti, og leggja þá ekki í óþarfa fjárfestingu þar sem verður óþarflega mikið miðlunarrými þegar vatnsveitur á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og Fljótsdalsvirkjun og Blönduvirkjun eru komnar í gagnið. Hentugt er talið að hafa 30% miðlunarrými í kerfinu, þ.e. 30% af ársnotkuninni í geymslu þegar birgðir eru mestar. Þegar Eyjabakkalónið og 400 gígalítra lón við Blöndu væru komin í gagnið væru 200 gígalítrar í kerfinu sem ekki þyrfti á að halda og óskynsamlegt að kosta til þess að geyma.

Þá er rétt að benda á að samkv. 1. gr. b í samningsdrögunum er miðað við að reka virkjunina í upphafi með 220 gígalítra miðlunarrými. Hæstv. iðnrh. var reyndar að draga það í efa í ræðu sinni að þetta yrði gert. En hvers vegna var þá verið að setja þetta í samninginn? Hvers vegna var verið að setja þetta inn ef átti að svíkja það? Var verið að gera þetta til að „blöffa“ menn? Ekki trúi ég því. Jafnframt því sem hægt væri að vinna þarna með 220 gígalitrum var líka hægt að byrja á Blöndu. Því er einsýnt að byggja heldur 220 gígalítra miðlun við Sandárhöfða, sem allir geta vel við unað, en 220 gígalítra miðlun við Reftjarnarbungu, sem menn sættast ekki á. Það er hagkvæmara fjárhagslega að miðla við Sandárhöfða 200 gígalítrum en við Reftjarnarbungu þegar tekið er tillit til bóta.

Samkv. samningsdrögum skal virkjunaraðili kosta uppgræðslu 3000 hektara verði virkjað samkv. tilhögun l. Uppgræðslan miðast við að framkvæma árlega áburðargjöf sem þarf til að koma af stað gróðri, sem sé a.m.k. sambærilegur að beitargildi og varanleik við þann sem glatast, og viðhalda honum með áburðardreifingu. Í þeim bótaútreikningum, sem hæstv. iðnrh. kynnti í framsögu sinni, er þessi kostnaður stórlega vantalinn, svo hrapallega vantalinn að þar vantar upp á mestallan viðhaldskostnað. Um þennan kostnað eru uppi margar kenningar. Ég treysti best áliti Landgræðslunnar þar sem gert er ráð fyrir árlegri áburðargjöf um alla framtíð. Landgræðslan hefur af þessu langmesta reynslu og mesta þekkingu á málinu. Túnin hjá okkur niðri í byggðinni spretta ekki nema borið sé á þau á hverju ári. Þess vegna er sjálfsagt að reyna að spara þennan kostnað eins og unnt er. Með tilhögun II er hægt að komast af með helmingi minni uppgræðslu eða nálega það, og það jafnar orkukostnað frá virkjuninni, hvor leiðin sem er valin, og því sjálfsagt að kjósa heldur þá leið, sem hægt er að skapa allsherjar samkomulag um, heldur en þá leið sem hefur í för með sér stanslausan ófrið og e.t.v. óbotnandi málaferli.

Ég vek athygli á því, að ekki hefur verið samið við Bólstaðarhliðahrepp. Ég vek athygli á því, að meiri hluti íbúa í Svínavatnshreppi telur að hreppsnefndarmenn þeir, sem undirskrifuðu, hafi ekki haft umboð. Ég vek athygli á því, að enn er ósamið um öll veiðimál, enn er ósamið við eigendur heimalanda, sem fara undir vatn, og um stöðvarhús og skurði. Það er ósamið um vegi, rafleiðslur o.s.frv. Og það er rétt að vekja líka athygli á því, og það er kannske einn af kjarnapunktunum í málinu, að það er ekki verið að semja við rétta menn. Það er verið að semja við Rafmagnsveitur ríkisins sem virkjunaraðila. Auðvitað dettur engum í hug að Rafmagnsveitur ríkisins reisi þessa virkjun. Það væri ekkert vit. Það er miklu eðlilegra og sjálfsagt að Landsvirkjun reisi þessa virkjun. Auðvitað á að semja við það fyrirtæki sem kemur til með að reisa virkjunina og bera ábyrgð á mannvirkinu. En það er eftir öðru í þessu máli að semja við rangan aðila sem ekki kemur til með að bera ábyrgð á framkvæmd verksins. Ég ber það traust til ráðamanna Landsvirkjunar, að þeir kjósi heldur frið og samkomulag en ósamkomulag og endalaus málaferli, en það er meira en ég þori að segja um suma valdsmenn hjá RARIK.

Ég kemst ekki hjá því að rekja örlítið nánar raunasögu þessara samninga og hvernig RARIK-mönnum tókst að klúðra þeim.

Þegar jákvæð viðbrögð heimamanna við tilhögun II voru komin í ljós fyrir ári brá svo furðulega við, að legátar ráðherrans kipptu að sér hendinni og máttu enda tveir ónefndir ráðherrar ekki til þess hugsa að meira land bjargaðist en þeir hefðu verið tilbúnir að fórna. Þetta er hugsunargangur sem mér er raunar framandi. Þess vegna er þessi deila ekki leyst. Þess vegna eru skilyrði 2. málsl. ályktunarinnar ekki uppfyllt, þ.e. samkomulag hefur ekki náðst við heimamenn. Sendlar ráðh. hafa hnoðast á að reyna að telja menn á að fallast á tilhögun I og það hefur ekki gengið.

Ég mun ekki á þessu stigi rekja með hvaða hætti þrýstingi hefur verið beitt til að knýja fram samþykki einstakra manna. Það má vera að færi gefist á því síðar, og kann ég þó sjálfsagt ekki þá sögu alla, en ég kann töluvert af henni. Þrátt fyrir alla þessa fyrirhöfn og allan þennan djöfulgang, þar sem ekkert hefur verið til sparað og tilgangurinn hefur átt að helga meðalið, hefur ekki orðið samkomulag, fjarri því.

Í desember var búið að berja saman samningstexta og hann var borinn undir atkvæði í viðkomandi hreppum. Hreppsnefnd Blönduóshrepps samþykkti samninginn einróma. Hreppsnefnd Torfalækjarhrepps samþykkti með 4:1 atkv. Í Svínavatnshreppi var samningurinn felldur í almennri leynilegri atkvgr. Hreppsnefnd Bólstaðarhliðarhrepps hafnaði samningnum og almennur sveitarfundur lagði blessun sína yfir gerðir hreppsnefndarinnar. Í Seyluhreppi hafnaði sveitarfundur samningnum. Í Lýtingsstaðahreppi var enginn á mjög fjölmennum sveitarfundi sem treysti sér til að samþykkja samninginn óbreyttan. Þar voru menn hins vegar ekki sammála um hve harkalega ætti að neita. Í Lýtingsstaðahreppi undirrituðu 90 atkvæðisbærir íbúar svofellda yfirlýsingu:

„Við undirritaðir íbúar í Lýtingsstaðahreppi mótmælum því eindregið að Blanda verði virkjuð samkv. virkjunarleið I vegna mikillar gróðureyðingar og annarra neikvæðra umhverfisáhrifa er sú virkjunartilhögun hefur í för með sér. Hins vegar erum við hlynntir því, að reyndir verði samningar um að virkja Blöndu samkv. öðrum valkostum sem valda minni gróðurskemmdum.“

Þrátt fyrir þessi skýlausu úrslit var haldið áfram að keipa og enn fóru menn að nudda og skrúfa fyrir norðan. Þeir höfðu ekki erindi sem erfiði, en breyttu samningsdrögunum, samningstexta, með málalengingum, en ekki að merkingu. Þá loksins þraut menn langlundargeð og náttúruverndarsamtök voru stofnuð. Félagasöfnun er ekki lokið, en nú þegar hafa yfir 400 félagar undirritað svohljóðandi stefnuskrá:

„Undirrituð gerast hér með félagar í náttúruverndarsamtökum sem hafa það að markmiði að stuðla að náttúruvernd á vatnasvæði Blöndu og Héraðsvatna. Samtökin hyggjast ná markmiði sínu með því að: a) hafa vakandi auga á öllu, sem haft getur skaðleg áhrif á gróður og lífríki svæðisins, og vinna að því, að áhrif verði sem minnst, b) hafna virkjunartilhögun I við fyrirhugaða Blönduvirkjun.“

Stjórn félagsins og varastjórn ályktaði eftirfarandi: „Fundur haldinn að Varmahlíð hinn 14. febr. 1982 í Landverndarsamtökum vatnasvæða Blöndu og Héraðsvatna mótmælir harðlega þeirri sóun á landi og lífríki sem virkjunartilhögun I við Blöndu mundi hafa í för með sér. Félagið gerir þá kröfu, að þegar í stað verði fallið frá þeirri áætlun og fundinn samningsgrundvöllur um aðra virkjunarleið þar sem lónstæði yrði minnkað svo sem frekast er unnt. Samtökin benda á lausn með stíflu við Sandárhöfða. Fundurinn bendir einnig á, svo sem málþóf undanfarandi ára sýnir, að aldrei getur náðst samkomulag við heimamenn um virkjunarleið l. Með skírskotun til landgræðslu- og landverndaráætlunar, sem hæstv. landbrh. Pálmi Jónsson hefur mælt fyrir á Alþingi nýlega, og annarrar um meðferð gróðurlendis og landnýtingu, sem hv. alþm. Davíð Aðalsteinsson er flm. að ásamt fleirum, væntum við eindregið að hæstv. ríkisstjórn og Alþingi sýni vilja í verki og geri nýja úttekt á virkjunarleiðum við Blöndu þar sem fullt tillit yrði tekið til landverndarsjónarmiða.“

Þá efndi félagið til fundar og að honum loknum sendi það frá sér svofellda fréttatilkynningu sem ég mun lesa, með leyfi forseta. Fréttatilkynningin er send 18. febr. 1982:

„Í gærkvöldi, miðvikudaginn 17. febr., var haldinn í félagsheimilinu í Árgerði í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði almennur félagsfundur í Landverndarsamtökum vatnasvæða Blöndu og Héraðsvatna. Þar fluttu ávarp þeir Bjarni Guðleifsson formaður SUN, Ólafur Dýrmundsson landnýtingarráðunautur Búnaðarfélags Íslands og Stefán Sigfússon fulltrúi landgræðslustjóra ríkisins. Einnig mættu á fundinn þrír fulltrúar RARIK, þ. á m. framkvæmdastjórinn Kristján Jónsson. Fundinn sóttu um 160 manns og þar ríkti mikill einhugur um að hafna þeirri tilhögun við virkjun Blöndu er nú er stefnt að og kölluð hefur verið leið l. Eftirfarandi ályktun var samþykkt með atkv. allra fundamanna:

„Ályktun: Almennur félagsfundur í Landverndarsamtökum vatnasvæða Blöndu og Héraðsvatna, haldinn í Árgarði 17. febr. 1982, mótmælir harðlega þeirri eyðingu gróðurlendis sem virkjunarleið I við Blöndu hefur í för með sér. Jafnframt mótmælir fundurinn þeim vinnubrögðum sem höfð hafa verið í frammi við samningsgerðina, þ.e. að knýja á um einhliða lausn er samræmist ekki landverndarsjónarmiðum. Fundurinn krefst þess, að reyndir verði samningar um að virkja Blöndu samkv. öðrum valkostum, sem taka fullt tillit til landverndarsjónarmiða, og bendir jafnframt á að það sé eina leiðin til þess að sæmilegur friður verði um virkjunina.“

Búnaðarsamband Skagfirðinga lét málið til sín taka. Ályktun frá fundi stjórnar og ráðunauta Búnaðarsambands Skagfirðinga:

„Fundur stjórnar og ráðunauta Búnaðarsambands Skagfirðinga, haldinn að Varmahlíð 23. jan. 1982, lýsir þeirri eindregnu afstöðu sinni, að við hönnun og framkvæmd virkjana, svo sem Blönduvirkjunar, beri jafnan að leggja megináherslu á að sem minnst landsspjöll og gróðureyðing eigi sér stað og verja veri verulegum fjármunum því til varnar. Hagkvæmniútreikningar einir sér verði ekki látnir ráða útslitum við endanlega tilhögun virkjana. Því bendir fundurinn á tilhögun II á sem æskilegustu leiðina að virkjun Blöndu.“

Undir þetta setja nöfn sín Sigurður Sigurðsson á Brúnastöðum, Þórarinn Magnússon, Einar E. Gíslason, Sigurjón Sigurbergsson, Árni Bjarnason, Þórarinn Sólmundsson og Egill Bjarnason.

Búnaðarþing lét að sjálfsögðu málið til sín taka og samþykkti svohljóðandi ályktun:

„Búnaðarþing lýsir þeirri eindregnu afstöðu sinni, að við hönnun og framkvæmd virkjana og aðra meiri háttar mannvirkjagerð, sem óhjákvæmileg er, beri jafnan að leggja áherslu á að sem minnst landsspjöll og gróðureyðing eigi sér stað og verja beri verulegum fjármunum því til varnar. Einhliða hagkvæmniútreikningar á virkjunarkostnaði verði ekki látnir ráða úrslitum við tilhögun virkjana á kostnað gróðurlendis og annars lífríkis. Þingið leggur áherslu á að fyllsta tillit verði tekið til framangreindra sjónarmiða við alla samningagerð og framkvæmd er varðar nýtingu og orkuvinnslu fallvatna á Íslandi. Búnaðarþing felur stjórn Búnaðarfélags Íslands að beita sér fyrir því, að skipuð verði samstarfsnefnd Búnaðarfélags Íslands, Stéttarsambands bænda, Landgræðslu ríkisins og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, er verði falið að fylgjast með þeim verkefnum á sviði orkumála, sem eru til umræðu á hverjum tíma, og leita eftir að sjónarmið landverndar og landnýtingar og almenn hagsmunasjónarmið bænda, svo sem grunnverðmæti lands, verði virt strax á rannsóknar- og undirbúningsstigi framkvæmdanna.“

— Þetta var ályktun Búnaðarþings og henni fylgdi svohljóðandi greinargerð:

„Ályktun þessi felur í sér viljayfirlýsingu Búnaðarþings um að aukið tillit verði tekið til landverndar- og landnýtingarsjónarmiða strax á frumstigi væntanlegrar mannvirkjagerðar, svo sem virkjana. Framkvæmd þessara mála hefur eigi verið svo góð sem skyldi. Árekstrar og deilur hafa jafnvel orðið harkalegar, svo sem við Laxá og Blöndu. Árekstra má alla rekja til þess, að mál eru ekki rædd og kynnt fyrr en undirbúningur og hönnun verkefna eru langt komin eða svo til lokið. Þá er af skiljanlegum ástæðum erfiðara að fá framkvæmdaaðila til þess að fallast á breytingar eða ábendingar sem auðvelt eða auðveldara hefði verið að ná fram á frumstigi hönnunar. Því er lagt til að skipuð verði samstarfsnefnd þeirra aðila, sem ályktunin getur, og hafi það verkefni að fylgjast með gangi mála og koma sjónarmiðum á framfæri í tíma. Hér er um brýnt og viðamikið verkefni að ræða. Í bréfi eða skýrslu frá Verkfræðistofu Helga Sigvaldasonar, dags, 9. 4. 1981, kemur m.a. fram að miðað við fullnýtingu vatnsorku í landinu, ca. 28 terawattstundir, þarf um það bil að tólffalda miðlanir í takt við fullnýtingu á vatnsafli í landinu. Hætt er við að megnið af bestu og fegurstu gróðurvinjum á hálendinu hyrfi smátt og smátt undir miðlunarlón ef einhliða peningasjónarmið virkjunaraðila yrðu látin ráða. Þá fjármuni, sem verja þyrfti til landverndar við þessar framkvæmdir, mætti lita á sem viðbót við þjóðargjöfina.“

Það ætti sem sagt að vera lýðum ljóst, að ekki ríkir einhugur um tilhögun I, þvert á móti. Það er þýðingarlaust að hamra stöðugt á henni. Það er ekki sáttaleið og um hana verður ekki friður. Þrír af hreppsnefndarmönnum í Svínavatnshreppi fundu sig þrátt fyrir allt til þess knúna að ganga gegn niðurstöðum almennrar leynilegrar atkvgr. og samþykktu samninginn, en þá höfðu tveir hreppsnefndarmannanna gengið af fundi og annar þeirra var oddvitinn. Þegar í stað undirritaði talsverður meiri hluti kjósenda í Svínavatnshreppi eftirfarandi yfirlýsingu:

„Við undirrituð, íbúar Svínavatnshrepps, mótmælum hér með samþykki meiri hluta hreppsnefndar frá 13. febr. 1982 á samningi um Blönduvirkjun og teljum siðleysi að virða ekki niðurstöðu þeirrar atkvgr. sem þessir sömu hreppsnefndarmenn fluttu tillögu um að færi fram í hreppnum og viðhöfð var hinn 13. desember s.l. Við mótmælum því, að tilvitnuð samþykktar hreppsnefndar verði talin bindandi fyrir íbúa þessarar sveitar.“

Þrátt fyrir þessa ótvíræðu yfirlýsingu meiri hluta kosningabærra íbúa í Svínavatnshreppi létu áðurgreindir þrír hreppsnefndarmenn hafa sig til þess að laumast til Reykjavíkur og skrifa nöfnin sín á blað með hæstv. iðnrh. Vinnubrögðin við undirritun þessa voru með þeim ódæmum að ég þekki engin þvílík dæmi um stjórnvaldsathöfn. Fulltrúar landverndarsamtaka Blöndu- og Héraðsvatnasvæðisins höfðu óskað viðtals við hæstv. iðnrh. til að kynna honum viðhorf samtakanna til málsins og gera honum grein fyrir að ekki væri um neina sátt við heimamenn að ræða. Hæstv. ráðh. hét að veita þeim viðtal á miðvikudegi, en kallaði af mikilli skyndingu hóp manna til Reykjavíkur á mánudegi. Hann þorði ekki að bíða komu landverndarmannanna og hafði efnt til skriftaræfingar í ráðherrabústaðnum. Meiri hluti bænda í Svínavatnshreppi viðurkennir ekki rétt meiri hluta hreppsnefndar til þessara gerninga. Auðkúluheiði var keypt af ríkinu á sínum tíma og borguð af bændunum sjálfum, hverjum og einum, og er því eign þeirra, eins og jarðirnar, en ekki eign hreppsins. Auk þess ber að geta þess, að í vor eru hreppsnefndarkosningar og eðlilegra væri að bíða þeirra.

Hreppsnefnd Bólstaðarhliðarhrepps hefur staðfastlega neitað, og ég á von á að hún haldi áfram að neita samningaviðræðum um tilhögun l. Ég bið menn að athuga að eignarnámshugmyndum verður ekki heldur tekið þegjandi þar í sveit.

Fulltrúar Landverndarsamtaka Blöndu og Héraðsvatna komu til Reykjavíkur, þrátt fyrir að iðnrh. þyrði ekki að bíða komu þeirra, og gerðu skilmerkilega grein fyrir viðhorfi landverndarfólks. Ég þarf ekki að fjölyrða um þeirra ferð. Hún er mönnum í fersku minni ef þeir hafa fylgst með blöðum og útvarpi. Þeim tókst að opna augu margra, enda hafa þeir réttmætan málstað.

Stjórn Sambands náttúruverndarfélaga ályktaði um málið í fyrri viku og lýsir furðu sinni á þeirri afstöðu stjórnvalda að ljá ekki máls á samningum um minnkun miðlunarlóns, þar sem flest skynsamleg rök virðast hníga að því, að það sé hægt án þess að skerða verulega afköst virkjunarinnar.

Landvernd hefur ítrekað umsögn sína um Blönduvirkjun, þar sem virkjunarkostur I er ekki talinn heppilegur vegna landskemmda. Leggur Landvernd áherslu á að kanna hvort ekki sé mögulegt að virkja Blöndu með öðrum hætti en þeim að skemma stór svæði gróðurlendis.

Þá tók Náttúruverndarráð málið upp, og vegna þess að hæstv. iðnrh. var hér með ritskýringar á umsögn Náttúruverndarráðs um virkjun Blöndu neyðist ég til að óska leyfis forseta til að lesa upp úr henni. Þetta er löng og ítarleg umsögn og byrjar með því að þeir endurtaka umsögn frá 16.3. 1978, þar sem þeir höfðu sett fram ýmsa fyrirvara um hvað þyrfti að gera áður en til virkjunar kæmi. M.a. bentu þeir á hættu af jarðvegsfoki úr lónstæðinu sem gæti valdið uppblæstri, hættu sem stafað gæti af löngum veituskurði, sem lítil reynsla er af hérlendis, bent var á að kanna þyrfti hugsanleg veðurfarsáhrif lónsins og bent var á að athuga þyrfti hver áhrif kynnu að verða af auknu vetrarrennsli og hugsanlegum nýstíflum og flóðum neðan til í Blöndu. Því miður var ekki orðið við þessu. Það var kákað í sumum þessara þátta og búnar til skýrslur sem ekki eru trúverðugar. En síðan segir, með leyfi forseta:

„Síðan Náttúruverndarráð gaf framangreinda umsögn hafa verið gerðar áætlanir um nokkra aðra virkjunarkosti við Blöndu og þeir verið kynntir ráðinu, m.a. á fundi þess 24. ágúst 1981, þar sem mættur var Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóri. Náttúruverndarráð hefur hins vegar ekki gefið um þá umsögn, enda ekki verið formlega eftir því leitað. Þó er ljóst að verulegur munur er á þessum virkjunarkostum hvað varðar áhrif þeirra á gróður og lífríki og með tilliti til annarra sjónarmiða sem fram voru sett í umsögn ráðsins frá 1978. Ráðinu er ljóst, — og nú bið ég hæstv. iðnrh. að taka eftir, — „að mikill munur er á þeim virkjunarkostum sem mest hafa verið ræddir, þ.e. virkjunarkostum I og II. Með kosti I fer verulega meira land undir vatn heldur en ef kostur II yrði valinn. Þá er ljóst samkv. upplýsingum, sem nú liggja fyrir um miðlunarþörf landskerfisins, að stærra lónið, kostur I við Blöndu, mundi ekki draga úr þörf fyrir miðlunarlón annars staðar, svo sem eins og við Fljótsdalsvirkjun. Meiri landfórn við Blönduvirkjun mundi því ekki leiða til þess, að hægt yrði að þyrma öðru verðmætu landi eða náttúruverðmætum, svo sem á Eyjabökkum. Í þessu sambandi bendir ráðið á að mikill hluti hins stóra lóns, kostur I, mundi verða grunnur og þar myndast miklar fjörur fyrri hluta sumars. Því minna sem lónstæðið er, því meiri verður hættan sem kann að stafa af foki úr lóninu og jarðvegseyðingu út frá því, sbr. umsögn ráðsins frá 1978. Fyrir liggur að kostur I er talinn um 90 millj. ódýrari en kostur II með sama miðlunarrými. Hins vegar telur ráðið þann kostnaðarsamanburð ófullnægjandi þar sem komið hafa fram mismunandi tölur um það, hve mikið kynni að sparast í landbótum ef sá kostur yrði valinn sem hefur í för með sér minna lón og minni náttúruspjöll. Náttúrverndarráð telur brýnt að kannað verði af þar til bærum aðilum“, — ég endurtek: af þar til bærum aðilum, — „hve mikið kynni að sparast í ræktunarkostnaði og viðhaldi ræktunar, kostnaði við girðingar og viðhald þeirra svo og í kostnaði við vegi og brýr og fleira ef kostur II yrði valinn. Fyrr en þetta hefur verið gert er ekki hægt að bera kostina saman á raunhæfan hátt og því óráðlegt að dómi ráðsins að binda sig við einn virkjunarkost frekar en annan. Ráðið leyfir sér í þessu sambandi að minna á samþykkt Náttúruverndarþings 1981, þar sem segir m.a.:

„Þingið harmar hins vegar ef nauðsynlegt verður að leggja víðáttumikil gróðurlendi undir vatn og virkjanir. Telur þingið að virkjunaraðilum beri skylda til að græða upp jafnmikið land og hverfur undir vatn. Með tilvísun til framanritaðs beinir Náttúruverndarráð þeim tilmælum til iðnrh., að mál þessi verði könnuð betur með tilliti til náttúruverndar- og landverndarsjónarmiða áður en endanleg ákvörðun verður tekin um virkjunartilhögun, og er það von ráðsins að til þeirra reynist svigrúm bæði innan ramma þess samnings, sem gerður hefur verið milli virkjunaraðila og fulltrúa hreppa í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, svo og þeirra tímamarka sem sett hafa verið um upphaf og lok virkjunarframkvæmda.“ “

Svo segir hæstv. iðnrh. að engin ný atriði í málinu hafi komið fram upp á síðkastið, engin ný efnisleg viðhorf. Hæstv. iðnrh. situr ekki lengur í Náttúruverndarráði. Það er ömurlegt að horfa á hæstv. iðnrh. og fyrrum náttúruverndarmann gangast fyrir þeim verkum sem hann hefur látið hafa sig til á þessum síðustu og verstu dögum.

Ef við gefum okkur að kostnaður við tilhögun 1, þar sem virkjunarmannvirki séu innifalin, sé 1000 millj., sem er að vísu tala frá því einhvern tíma í fyrrasumar, og síðan til viðbótar nýræktarkostnaður upp á 32 millj. kr., en þessi upphæð orðin 1 milljarður 32 millj. Árlegur kostnaður af slíkum stofnkostnaði, miðað við 40 ára endingu og 3% raunvexti af fjármagni, verður með annuitetsreglu 44 millj. 646 þús. Kostnaður við tilhögun II með sams konar stofnkostnaði, og þá á ég við 400 gígalítra lón í báðum tilfellum og nákvæmlega sömu vélar og sams konar skurði, nema nýræktin er helmingi minni vegna þess að helmingi minna sykki, hefur verið skotið á að væri 90 millj. kr., aukakostnaður við stíflugerð við Sandárhöfða. Þá yrði kostnaður kominn upp í 1106 millj. og það gerir með sams konar annuitetsreglu og 3% raunvöxtum 47 millj. 848 þús. eða að 3 millj. 202 þús. kr. dýrara á ári er að reka tilhögun II. Tökum hins vegar með í dæmið sparnaðinn af ræktunarkostnaðinum. Árlegan ræktunarkostnað telja Búnaðarfélag Íslands og Landgræðslan vera 2 millj. 400 þús. kr. minni við tilhögun II. Mismunurinn, sem þá er verið að deila um, er ekki orðinn nema 802 þús. á ári eða 1.8%.

Staða málsins er sem sagt sú, að öll náttúruverndar- og landverndarsamtök landsins eru á einu máli um að reyna að forðast kost I. Og staða málsins er líka sú, að samkomulagi hefur ekki verið náð við heimamenn. Ég hef þreytt hv. þdm. með því að lesa upp ályktanir því til sönnunar, en taldi rétt að þær geymdust upp á seinni tíma í opinberum gögnum Alþingistíðinda.

Fyrir norðan hafa þeir Blöndungar farið hamförum og nokkrir hreppsnefndarmenn hafa breytt fyrri afstöðu, sumir þeirra að mínum dómi mjög óvænt, og skrifað nöfnin sín, en mjög stór hópur fólks sættir sig alls ekki við þessa tilhögun og mun ekki láta nauðga henni upp á sig vegna þess að það telur ólíðandi að þannig sé farið með landið okkar. Þarna er áformað að sökkva 56 ferkm af grónu landi í uppistöðulónið. Á Íslandi hefur verið unnið að uppgræðslu og gróðurvernd fyrir þjóðargjöfina sælu. Síðan 1974 hafa verið friðaðir og hafin uppgræðsla á 84.2 ferkm. Þarna á að taka til baka 56 ferkm, sem eru algrónir og miklu traustara gróðurlendi, og helmingnum af því á að fórna að óþörfu bara til þess að örfáir menn þurfi ekki að slá af stórmennsku sinni og geti notið þeirrar ánægju að láta það fólk, sem ekki er þeim sammála, kenna á valdi sínu.

Ég tel að það sé rétt að fram komi skýrt á þessum vettvangi, að a.m.k. 400 fulltíða menn af þeim, sem málið snertir nánast, geti ekki hugsað sér framkvæmdina með þeim hætti sem sífellt er verið að hamra á, og þess vegna er ekki samkomulag. Þess ber auðvitað að geta, að miklu stærri hópur kjósenda fyrir norðan og margir reyndar í fjarlægum byggðarlögum vill endilega fá virkjun, er tilbúinn að heimta að öllu sé til kostað að virkjunin rísi strax, líka því að virkjað verði eftir tilhögun l. Ég hef ekki fjölyrt um þau félagslegu áhrif sem það mun hafa ef nú verður látið kné fylgja kviði og áfram þjösnast með ofríki á þessu fólki og skoðanir þess, lífsviðhorf og siðferðiskennd fótum troðin. Þeir menn, sem fyrir því standa, taka á sig mikla ábyrgð, meiri ábyrgð en þeir fái risið undir til lengdar.

Þá er einnig því við að bæta, að þeir menn, sem eyða gróðri og lífríki gersamlega að þarflausu á 25 ferkm á Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiðum taka á sig mikla sök og það er sök sem ekki fyrnist. Það, sem nú á að gera, er að ráðgjafar iðnrh. slaki til og hætti að berja höfðinu við steininn. Við verðum að viðurkenna staðreyndir, viðurkenna að þetta fólk fyrir norðan á líka sinn rétt. Ég er fullviss að með góðra manna hjálp er hægt að ná á nokkrum dögum samkomulagi um tilhögun virkjunar sem allir geta sæmilega við unað og framleiðir ekki dýrara rafmagn né að marki minna en ef virkjað væri eftir nú fyrirliggjandi áætlun. En til þess þarf náttúrlega að hafa frið fyrir þeim mönnum sem einkum hafa reynt að herða þennan hnút.

Ég tel sjálfsagt að ljúka rannsóknum við Sandárhöfða í sumar. Þær vantar og þess vegna eru áætlunartölur um kostnaðarsamanburð ekki nægilega nákvæmar. En því miður tókst sumum ráðherrunum að koma í veg fyrir að þær yrðu gerðar í fyrrasumar. Hæstv. iðnrh. er ekki í þeirri sök.

Ég legg áherslu á að ég tel rétt að virkja Blöndu næst svo framarlega sem menn fallast á að gera það eftir tilhögun sem samkomulag næst um. Það er óverulegur kostnaðarmunur og samkv. samningsdrögunum, sem undirrituð hafa verið, hefur RARIK viðurkennt að unnt er að komast af með 220 gígalítra miðlun. Fljótsdalsvirkjun mun innan skamms einnig rísa og þessar tvær virkjanir vinna saman og skila okkur öruggu og ódýru rafmagni í framtíðinni. Framkvæmdunum þarf ekki að seinka þó að stíflu sé breytt, þar sem jafnhliða rannsóknum er hægt að halda áfram við vegagerð sem þegar er hafin. Nú heiti ég á alla góða menn hér á þingi að stuðla að því, áð menn nái góðum friði og farsælli framkvæmd. Og svo skulum við leysa málið á þessum grundvelli.