30.03.1982
Sameinað þing: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3361 í B-deild Alþingistíðinda. (2970)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér liggur fyrir og er fram borin af hæstv. iðnrh., hefur verið alllengi á dagskrá í Sþ., var reyndar lögð fram fyrir áramót, og umr. um hana sniglast hér áfram hægt og rólega án þess að maður finni fyrir verulegri áherslu af hálfu hæstv. ráðh. á því, að hún verði afgreidd. Það er e.t.v. skiljanlegt þegar þessi þáltill. er skoðuð, eins og ég mun nánar víkja að á eftir.

Hæstv. iðnrh. minntist á það í ræðu sinni áðan, að hv. 4. þm. Vestf., sem flutti ítarlega ræðu þegar þetta mál kom til umr. hér fyrir nokkru, hefði rætt almennt um orkumálin og orkunýtingarmál í tengslum við þessa þáltill. Það er mjög eðlilegt, að það sé gert, og undan því þarf enginn að kveinka sér, svo nátengd sem þessi mál öll eru, eins og fram hefur komið í þeim ítarlegu umr. sem fram hafa farið um orkumál, t.d. á s.l. vori. Það hefur verið flutt hörð gagnrýni á hæstv. iðnrh. og hæstv. ríkisstj. fyrir aðgerðaleysi í þessum málum og fyrir kák í öllum undirbúningi, og ég held að sú gagnrýni sé fullkomlega á rökum reist.

Á s.l. vori var flutt hér frv. um raforkuver, sem var allt mjög óljóst og óákveðið og fól ekki í sér neinar endanlegar ákvarðanir, enda fékk þetta frv. harða gagnrýni. Beindist sú gagnrýni einkum að eftirtöldum atriðum. Í fyrsta lagi lá sá mikilvægi þáttur, sem snýr að orkunýtingunni, alveg eftir. Það er öllum vitað, að stórvirkjanir kalla á fastmótaða stefnu varðandi orkufrekan iðnað, en sú stefna er ekki til hjá hæstv. ríkisstj. Í öðru lagi var ekki tekið af skarið varðandi næstu virkjun. Hvert árið líður á fætur öðru án þess að ákvörðun sé tekin, og þessar tafir eru nú farnar að hamla verulega uppbyggingu okkar vatnsaflsvirkjana og þeim stórfelldu möguleikum til nýsköpunar atvinnuveganna sem þeim fylgja. Hæstv. iðnrh. gaf mjög skýlausa yfirlýsingu um það, þegar þetta var til umr. á s.l. vori, að ákvörðun yrði tekin á haustþingi. Nú er langt liðið á þingtímann og enn bólar ekki á raunverulegum ákvörðunum, eins og ég mun nánar koma að hér á eftir.

Eftir allan þennan tíma, eftir það tæpa ár sem liðið er síðan frv. um raforkuver var samþykkt hér á Alþingi, hefði mátt ætla að nú væri komið að endapunktinum, að nú væri unnt að taka langþráða ákvörðun um næstu virkjun og hvernig nýta ætti orku úr henni, og jafnframt væri unnt að marka ákveðna stefnu um áframhaldandi uppbyggingu raforkuvera til aldamóta og nýtt stórátak til eflingar atvinnulífi landsmanna. En hvað skeður? Enn einu sinni fáum við tillögu frá hæstv. iðnrh. og hæstv. ríkisstj. sem er í algerum véfréttastíl og segir í rauninni ekkert ákveðið um það, hvað næst skuli gera. Eins og tillagan litur nú út og miðað við allar aðstæður er hún ekki ákvörðunarhæf hér á hv. Alþingi. Því valda mörg atriði og ég skal víkja að nokkrum þeirra.

Þm. hafa fengið í hendur ítarlegar skýrslur frá Landsvirkjun, Orkustofnun og Rafmagnsveitum ríkisins. Þær skýrslur eru lagðar fram samkv. fyrirmælum í lögum um raforkuver frá s.l. vori, þar sem segir að áður en tillögur um nýjar vatnsaflsvirkjanir og virkjunaráfanga, þ. á m. um framkvæmdaröð, séu lagðar fyrir Alþingi til samþykktar skuli liggja fyrir greinargerðir frá ofangreindum aðilum um þjóðhagslega hagkvæmni virkjunarleiða og þýðingu þeirra fyrir raforkukerfi landsins. Í öllum þessum skýrslum kemur fram að grundvöllur ákvörðunar um framkvæmdaröð er ákvörðun um nýtingu orkunnar. Þetta má víða sjá í skýrslunum og ég vil nefna um það nokkur dæmi.

Skýrsla Landsvirkjunar frá því í nóv. 1981 um raforkuöflun í samtengdu landskerfi í framhaldi af Hrauneyjafossvirkjun drepur á þetta atriði á allnokkrum stöðum. Á bls. 1 í inngangi segir m.a., með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hefur kappsamlega verið unnið að því á vegum Landsvirkjunar, Rafmagnsveitna ríkisins og Orkustofnunar að rannsaka orkulindir landsins og gera áætlanir um virkjanir sem geti orðið grundvöllur ákvarðanatöku um næstu áfanga í orkuöflun. Rannsóknirnar og hönnun, sem framkvæmdar hafa verið með aðstoð ráðunauta, eru það vel á veg komnar, að aldrei fyrr hefur verið um svo marga virkjunarkosti að ræða á því stigi rannsókna að taka mætti ákvarðanir um framkvæmd þeirra, án þess að mjög verulega óvissa ríki um tæknilega áhættu og stofnkostnað. Á hinn bóginn er enn óljóst hvernig orkumarkaður þróast á komandi árum, vegna þess að ekki er vitað á þessu stigi hvenær og í hve ríkum mæli verður ráðist í nýjan orkufrekan iðnað sem flestir virðast sammála um að koma skuli. Meðan sú óvissa ríkir í þessum efnum sem raun ber vitni er ekki hægt að meta raunverulegan fjárhagslegan grundvöll fyrir áframhaldandi uppbyggingu orkuöflunarkerfisins nema að takmörkuðu leyti.“

Þetta segir í þessum kafla í skýrslu Landsvirkjunar, og síðar í þessum sama kafla, á bls. 5 í skýrslunni, segir m.a. með leyfi forseta, eftir að raktar hafa verið hugmyndir iðnrn. um orkufrekan iðnað:

„Líklegt verður að teljast að fjárhagslega hagkvæmast hljóti að vera að stækka þau stóriðjufyrirtæki sem þegar eru komin á fót, þ.e. álverið í Straumsvík og járnblendiverksmiðjuna. Um það hefur þó ekkert verið ákveðið, en nokkrar viðræður hafa átt sér stað um hvort tveggja á undanförnum árum.

Ekki er unnt sem stendur að slá neinu föstu um tímasetningar þeirra stóriðjukosta, sem að ofan eru taldir, né heldur um arðsemi þeirra. Augljóst er að styttri tíma ætti að taka að öðru jöfnu að semja um áðurnefndar stækkunarframkvæmdir iðjuveranna en að koma á fót nýjum stóriðnaði. Reynslan hefur sýnt að það getur tekið allmörg ár að undirbúa ákvarðanir um nýjan orkufrekan iðnað, og síðan bætist framkvæmdatíminn við. Óraunhæft virðist því vera að reikna með að hægt sé að koma nýju stóriðjufyrirtæki í rekstur fyrr en í fyrsta lagi um og upp úr miðjum þessum áratug. Af ýmsum ástæðum er því í kafla III gert ráð fyrir að næstu aðgerðir í uppbyggingu orkufreks iðnaðar verði stækkun járnblendiverksmiðjunnar, sem komi í rekstur þegar árið 1983, en síðan sigli í kjölfarið framkvæmdir við ofangreinda nýiðnaðarkosti eða jafngildi þeirra í orkuþörfum. Er reiknað með því að þeir komi í rekstur um og eftir miðjan áratuginn eftir því sem orkuframboðssvigrúmið leyfir.“

Síðar í þessum sama kafla á bls. 9 segir enn fremur með leyfi forseta: „Þegar á heildina er litið, með þeim orkuverðs- og raunvaxtaforsendum sem að framan er reiknað með, virðist samt að það sé mun hagkvæmara fyrir Landsvirkjun að byggja orkuvinnslukerfið upp með aukinni orkusölu til stóriðju, eins og gert er ráð fyrir í áður tilvitnuðum lögum, heldur en byggja það upp fyrir almenningsveitur eingöngu. Ef gert er ráð fyrir að með aukinni orkusölu til núverandi stóriðjuvera fáist einnig veruleg leiðrétting á núgildandi orkuverði er ljóst að það skerpir enn á ofangreindri niðurstöðu.

Ef reiknað er með hraðri uppbyggingu og litið til næstu 10–20 ára sýna nákvæmari athuganir að skuldastaða fyrirtækisins og eiginfjármögnunargeta verði viðunandi með áðurgreindum orkuverðsforsendum. Sé gert ráð fyrir því, að leiðrétting fáist á núverandi orkuverði til stóriðju, batnar staðan enn sem því nemur. Hér er þá reiknað með að rekstrarerfiðleikár næstu ára, sem skapast hafa vegna samansafnaðs rekstrarhalla undanfarinna ára, auk þess vanda sem hugsanleg yfirtaka Landsvirkjunar á byggðalínum kann að valda, verði leystir á viðunandi hátt.

Eins og að framan er greint virðist helsta niðurstaða ofangreindra athugana benda til þess, að hagkvæmt sé að stefna á harða uppbyggingu orkuöflunarkerfisins, ef hagstæður markaður fæst. Einnig bendir flest til þess, að Blönduvirkjun sé hagkvæmasti stórvirkjunarkosturinn sem nú er völ á.

Markaðsþróun gæti þó hugsanlega orðið svo ör, að hagkvæmt þætti að nýta það orkuframboðssvigrúm, sem skapast með Hrauneyjafossvirkjun, til þess að auka verulega orkusölu til stóriðju á tímabilinu fram til þess að Blönduvirkjun gæti tekið til starfa, þ.e. á árinu 1987. Þetta væri unnt með því að skjóta Sultartangavirkjun eða stækkun Búrfellsstöðvar fram fyrir Blöndu. Athuganir á hvort þetta sé viðráðanlegt benda til að svo sé.“

Það kemur sem sagt glöggt fram í þessum tilvitnuðu köflum, að orkumarkaðurinn, orkunýtingin er svo nátengd ákvörðun um næstu stórvirkjun og næstu stórvirkjanir að það verður ekki skilið hvort frá öðru. Þetta kemur víða fram og ég vil enn vitna í skýrslu Landsvirkjunar. Þar segir í yfirliti og niðurstöðum í tölul. 2 og 3:

„Þegar á heildina er litið benda athuganir Landsvirkjunar til þess að Blönduvirkjun (Tilhögun I) sé hagkvæmasti virkjunarkosturinn sem næsta stórvirkjun fyrir landskerfið. Ræður þar fyrst og fremst lægri framleiðslukostnaður auk góðrar staðsetningar í landskerfinu. Gert er ráð fyrir að hún geti hafið orkuframleiðslu í fyrsta lagi árið 1987, en tímasetning hennar að öðru leyti hlýtur að ráðast af markaðsaðstæðum.

Aðrir virkjunarkostir, sem nefndir eru í tilvitnuðum lögum, þ.e. Fljótsdals-, Sultartanga- og Villinganesvirkjanir, virðast auk stækkunar Búrfellsvirkjunar vera hagkvæmir frá tæknilegu og fjárhagslegu sjónarmiði. Röðun þessara virkjana og tímasetning lengra fram í tímann í framhaldi af aðgerðum á Þjórsársvæðinu og Blönduvirkjun er hins vegar fyrst og fremst háð uppbyggingu markaðarins og staðsetningu nýrrar stóriðju. Fyrr en fyrir liggja ákveðnar forsendur um stærð og hagkvæmni aukins iðnaðarmarkaðar er varla hægt að gera marktækan samanburð á því, hver þessara virkjana ætti að koma næst á eftir Blönduvirkjun. Má þá einnig minna á að frekari virkjunarrannsóknir hafa ætíð í för með sér einhverjar breytingar á virkjunartilhögun og endurmat á kostnaði.“

Þetta eru tilvitnanir í greinargerð Landsvirkjunar um þetta efni, sem sýna mjög glögglega hversu ákvarðanir um uppbyggingu markaðarins eru nátengdar ákvörðun um næstu virkjanir. Greinargerð Orkustofnunar, sem við fengum í hendur nú í tengslum við þetta mál, heitir „Vinnsla og flutningur raforku til aldamóta, samanburður virkjunarleiða, 4. hefti, áhrif aukins orkufreks iðnaðar.“ Hér er um að ræða framhald af skýrslu sem þm. fengu í hendur á s.l. vori. Í þessari skýrslu eru reiknaðar út nokkrar leiðir varðandi orkufrekan iðnað. Í skýrslunni frá því í vor voru tekin tvö tilvik, í fyrsta lagi orkuþörf almenna markaðarins án stóriðju, en í öðru lagi nýr orkufrekur iðnaður, er kæmi í þremur 50 mw. áföngum, sem yrði allur á einum stað, en þrír möguleikar kannaðir varðandi staðsetningu, þ.e. Grundartangi, Eyjafjörður og Reyðarfjörður.

Reiknaðar voru út fjórar mismunandi leiðir varðandi virkjanaröð til aldamóta. Að gefnum þessum forsendum var meginniðurstaða athugunar sú, að virkjunarleiðin Blanda — Sultartangi — Fljótsdalur — Stórisjór og Búrfell II væri hagstæðust í öllum tilvikum nema einu, sem sagt því að orkufrekur iðnaður risi upp á Reyðarfirði, en þá var hagkvæmast að byrja á Fljótsdalsvirkjun.

Nýja skýrslan felur í sér niðurstöðu framhaldsrannsókna. Í þeirri rannsókn er gengið út frá sex mismunandi iðnaðarstefnum. Þá voru niðurstöður þær, að virkjunarröðin Blanda — Fljótsdalur — Sultartangi er hagkvæmust í öllum tilvikum sem fela í sér aukna stóriðju frá því sem nú er. Aðeins í því tilviki, sem engin stóriðja kemur, er virkjunarleiðin Blanda — Sultartangi — Fljótsdalur ívið hagkvæmari samkv. þeirri skýrslu. Þetta hef ég rakið hér til að sýna hversu mikið grundvallaratriði iðnaðarstefnan er og ákvarðanir í stóriðjumálum þegar kveða skal á um nýjar virkjanir og ákveða röð þeirra. Niðurstöður um hagkvæmustu röðun eru mjög mismunandi eftir því hvernig, hvar og hvenær stóriðjan er reiknuð inn í dæmið. Til enn frekari áréttingar því, hversu hér er um mikið grundvallaratriði að ræða, vil ég vitna í erindi dr. Jóhannesar Nordals, stjórnarformanns Landsvirkjunar, á aðalfundi Sambands ísl. rafveitna í júní í sumar, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Kem ég þá að síðasta þætti þessa erindis, þar sem ég mun ræða stuttlega um þróun raforkumarkaðarins og tímasetningu virkjunarframkvæmda. Í umræðum þeim, sem farið hafa fram um orkumál að undanförnu, hefur komið fram gífurlegur áhugi á því, að sem fyrst verði ráðist í nýja stórvirkjun og jafnvel verði byggðar fleiri virkjanir samtímis á næsta áratug. Flestum ætti hins vegar að vera ljóst að bygging nýrra orkuvera er algerlega háð því, hver þróun orkumarkaðarins verður. Vatnsorkuver eru sérstaklega fjármagnsfrekar framkvæmdir, og það er því dýrt spaug að byggja orkuver sem engan markað hefur. Rétt tímasetning raforkuframkvæmda með tilliti til markaðsþróunar er því ein mikilvægasta forsenda hagkvæmrar orkuframleiðslu. Hins vegar er áætlunargerð á þessu sviði alls ekki auðveld þar sem taka þarf ákvarðanir um stærri virkjunarframkvæmdir 5–6 árum áður en framleiðsla getur hafist. Óvissa um markaðsþróun hlýtur því ætíð að vera mikil á svo löngu tímabili.“

Ég hleyp hér yfir nokkra kafla í þessu erindi, en síðar segir:

„Ljóst er að ákvarðanataka í stóriðjumálum krefst mikils undirbúnings og engu verður slegið föstu um hagkvæmni slíkra framkvæmda fyrr en að öllum undirbúningi loknum. Að vísu má gera ráð fyrir að hægt væri á einu til einu og hálfu ári að komast að raun um það, hvað menn telja hagkvæmt og æskilegt að stækka þau stóriðjuver, sem fyrir eru í landinu, þ.e. álbræðsluna í Straumsvík eða járnblendiverksmiðjuna við Grundartanga.

Aðdragandinn að byggingu algerlega nýrrar verksmiðju, t.d. álbræðslu eða kísilmálmbræðslu á Norðurlandi eða Austurlandi, hlýtur hins vegar að taka miklu lengri tíma, jafnvel þrjú ár eða lengur. Þetta bendir því eindregið til þess, að varla sé raunhæft að taka ákvörðun um næstu stórvirkjun á þessu eða næsta ári nema unnt verði á þeim tíma að ákveða stækkun annaðhvort Grundartangaverksmiðjunnar eða álbræðslunnar í Straumsvík. Satt að segja benda þær áætlanir, sem fram koma, til þess, að nægileg raforka geti verið fyrir hendi til að stækka Grundartangaverksmiðjuna um einn ofn jafnvel þó að ný virkjun komi ekki fyrr en undir lok þessa áratugar.

Allt ber þetta að sama brunni. Næg orka á að verða fyrir hendi a.m.k. næsta áratuginn frá þeim orkuverum, sem þegar eru fyrir eða í byggingu, til þess að mæta almennri raforkueftirspurn í landinu. Ákvarðanir um nýjar virkjanir er því varla réttlætanlegt að taka fyrr en traustar áætlanir liggja fyrir um nýjan orkufrekan iðnað.“

Hér lýkur tilvitnun í þetta erindi dr. Jóhannesar Nordals, en þessi ummæli voru viðhöfð fyrir um 10 mánuðum.

Allt það, sem hér hefur verið rifjað upp, styður þá skoðun, að þessi þáltill. sé ekki ályktunarhæf. Það vantar grundvöllinn, það vantar marktæka alvöruáætlun um uppbyggingu orkufreks iðnaðar, og þau orð, sem eru í 4. tölul. þessarar þáltill. um orkufrekan iðnað, eru að sjálfsögðu ekkert annað en orðin tóm. Að baki þeirra liggur ekkert raunhæft, ekkert sem hægt er að byggja á.

Forsvarsmenn hæstv. ríkisstj. miklast af þeim orkunýtingarkostum sem þeir telja að séu fyrir hendi. Hæstv. iðnrh. hefur rifjað þá upp og hefur gert það oft og með mjög svipuðum orðum frá ári til árs, hverjir þessir kostir séu. En ákaflega hægt miðar áfram í átt til raunveruleikans í þeim efnum. Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson ræddi þetta líka í ræðu sinni í þeirri umr. sem fram fór hér á dögunum, og það er fróðlegt að bera saman ræðu sem hann flutti um sama efni fyrir um ári. sú ræða, sem hann flutti nú, var ótrúlega lík þeirri ræðu sem hann flutti þá. Þar eru taldar upp hugrenningar orkustefnunefndar hæstv. ríkisstj., en heldur miðar.okkur þá aftur á bak í þeim efnum en áfram. Þá á ég við að nú hefur verið frestað ákvörðunum um stækkun Grundartangaverksmiðjunnar og allt er í óvissu um hvað gerast muni varðandi álverið í Straumsvík.

Stöðugt eru hæstv. iðnrh. og aðrir forsvarsmenn ríkisstj. að skýra okkur hér á hv. Alþingi frá viðræðum við alls konar erlenda aðila sem hafa áhuga og hinu og þessu varðandi orkufrekan iðnað á Íslandi. Í þessu sambandi koma mér í hug orð hæstv. viðskrh. hér á dögunum — og ég held að hæstv. iðnrh. geti haft þau nokkuð sér til varnaðar — þegar hann var að lýsa öllum þeim erlendu umboðsmönnum, sölumönnum og ráðgjöfum sem hingað koma í stríðum straumum til að koma á viðskiptum með olíu. Hæstv. viðskrh. hafði ekki mikla trú á slíkri sölustarfsemi. Sama er raunverulega að gerast í stóriðjumálunum. Hingað er stöðugur straumur erlendra umboðsmanna ráðgjafarfyrirtækja og sölumanna sem eru að bjóða þjónustu sína, vilja koma á viðskiptum, selja tækniþekkingu, selja markaðsþekkingu og bjóða gull og græna skóga varðandi orku. Þetta eru endalausar viðræður, en ekkert raunhæft gerist nema nýjar skýrslur sem byggðar eru á sandi að miklu leyti. Þetta er að miklu leyti friðþægingarstörf af hálfu hæstv. ríkisstj. og fylgismanna hennar í þessu efni. En hvað kemur svo út úr þessu öllu saman?

Nú er boðað frv. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Hæstv. iðnrh. og reyndar hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson voru mjög glaðir og ánægðir yfir því. Þeir meta þetta greinilega sem tákn stórhugar og framtakssemi sem vert sé að þakka. Við höfum séð slík frv. frá hv. iðnrh. áður. Í fyrravor voru lögð fram þrjú frv.: um steinullarverksmiðju, um saltverksmiðju og um stálbræðslu. Það lá geysilega mikið á. Allt var sett á annan endann til að reyna að koma þessum frv. í gegn rétt fyrir þinglok því að nú átti aldeilis að láta hendur standa fram úr ermum. Mörg orð voru höfð um stórhug og framtakssemi, en lítið hefur gerst í þessum málum síðan þá. Ég held að kjörorð hæstv. iðnrh. og reyndar hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar, sem talaði um þetta á sínum tíma í þessari umr., gæti verið: „Frumvarp er friðþæging“ — því hér er ekki um annað en friðþægingarstarf að ræða.

Ég hef lesið þessar skýrslur um kísilmálmverksmiðjuna. Mig brestur að vísu tækniþekkingu í mörgum greinum til að meta það til fulls, en að mínu mati eru þetta faglega samdar skrifborðsskýrslur. Þar vantar allt sem raunverulega skiptir máli. Það eru engir raunhæfir samningar um eitt eða neitt og ekki gerð grein fyrir hvernig þetta geti orðið, hvaða vöru við höfum að selja, á hvaða verði, hvenær. Það er talað um 1975, sem ég held að sé algerlega óraunhæft. Hver á að eiga verksmiðjuna? Allt eru þetta óljós og óákveðin atriði sem enginn hefur enn þá tekið ákvörðun um. En í þessu efni er boðað frv. Og auðvitað bíðum við spenntir eftir að sjá hvernig það verður úr garði gert. En ekki virðist grundvöllurinn mjög traustur sem þarna er verið að byggja á.

Það er ágætt að geta talað og skrifað eins og hæstv. iðnrh. getur hæglega gert. En það eru þó framkvæmdirnar og árangur þeirra, sem á endanum sker úr í þessum málum.

En það eru fleiri atriði sem koma til greina þegar meta skal þessa þáltill. Því er slegið föstu að Blönduvirkjun verði næsta meiri háttar virkjun, enda takist að ná um það samkomulagi við heimamenn, eins og segir í þessari till. Rétt er í þessu sambandi fyrst að huga nokkuð að tímasetningu virkjananna. Hvar stöndum við að því leyti? Þegar hæstv. iðnrh. lagði frv. um raforkuver fram á Alþingi s.l. vetur sagði hann að stefnt væri að því að önnur hvor virkjunin, Blanda eða Fljótsdalsvirkjun, gæti hafið rekstur á árunum 1986–1987. Þessi þáltill. ber það með sér, að hæstv. iðnrh. telji nauðsynlegt að næsta virkjun komi í gagnið í síðasta lagi 1987, sbr. lokaorðin í tölul. 6 í till. til þál., þar sem segir að verði ekki ráðist í Blönduvirkjun nú komi Fljótsdalsvirkjun í hennar stað sem næsta meiri háttar vatnsaflsvirkjun fyrir landskerfið, enda geti hún hafið orkuframleiðslu fyrir árslok 1987.

En hvar stendur Blanda að þessu leyti? Hvenær er hægt að byrja á Blönduvirkjun t.d.? Og hvenær er þá hægt að ljúka henni? Hver mánuður líður án þess að hægt sé að taka ákvörðun. Það er alveg ljóst að ekki verður byrjað á þessu ári. Útboðslýsingar miðað við virkjunartilhögun I, sem talað er um, eru ekki tilbúnar og samangaumleitanir hafa gengið svona og svona þó að búið sé að undirrita samning við fimm hreppa, eins og hér hefur verið lýst í þessum umr. Það vantar enn samning við einn hrepp, Bólstaðarhliðarhrepp, og hæstv. ríkisstj. stendur frammi fyrir hugsanlegu eignarnámi í því sambandi. Hún hefur ekki kveðið upp úr um hvað gera skuli, en ljóst er að hver sem niðurstaðan verður í þessu efni, þá tekur þetta allt tíma. Allir samningar við einstaka bændur og einstaka landeigendur eru ógerðir og það kæmi mér ekki á óvart að raunhæf áætlun um gangsetningu Blönduvirkjunar væri í fyrsta lagi árið 1988.

Ég vil hins vegar fullyrða það, að illa hefur verið staðið að samningaumleitunum við heimamenn varðandi Blönduvirkjun. Reyndar hefur hv. þm. Páll Pétursson kallað þetta raunasögu, þessa samninga og hún er það að vissu leyti. Bæði var farið of seint af stað með þessa samninga og hæstv. iðnrh. hefur sýnt það í þessu máli, að hann er ekki góður samningamaður. Það hefur verið allt of mikill hofmóður og allt of mikill hroki í hæstv. iðnrh. varðandi þetta mál. Hann setti fram samningsdrög í sept. 1981 og lýsti þeim sem eins konar úrslitakostum. Menn fundu strax að þetta hleypti illu blóði í heimamenn. Menn vildu ekki láta bjóða sér slíkt. Og þegar í ljós kom að samningsdrögin voru ekki samþykkt lýsti hæstv. iðnrh. yfir í sjónvarpi að réttast væri að tala ekkert meira við þessa menn. Þetta kom fram í sjónvarpsþætti þar sem hann var ásamt hæstv. landbrh., og það fór ekkert á milli mála, að þarna var það hrokinn sem réð ferðinni, þó að síðan hafi aðrir greinilega tekið völdin af hæstv. ráðh. því að farið var að höndla meir og reynt að tala áfram við heimamenn þarna fyrir norðan. Þessi hofmóður hefur ekki reynst vel. Sannast sagna er þetta ótrúlega líkt aðferðum sem hæstv. iðnrh. hefur beitt í samningum við ýmsa aðra aðila sem hann stendur í samningum við. Að ögra og ógna virðist vera aðalaðferð hæstv. iðnrh., hvort sem hann er að tala við Alusuisse-menn eða menn fyrir norðan eða þá sem eiga að bora í Helguvík. Allt þetta, öll þessi framkoma í slíkum mikilvægum samningum hefur leitt til þess, að þeir fara allir í hnút og allt stendur fast.

Hæstv. iðnrh. hefur haft með höndum nú um alllangan tíma mikilvæga samninga fyrir hönd Íslands og Íslendinga í tveimur málum sem skipta landsmenn mjög miklu. Úrslit í báðum þessum málum eru gífurlega mikilvæg fyrir okkur Íslendinga. Annað málið ræður úrslitum um það, hvort hér á landi verður næst byggð virkjun sem að flestra dómi er sú hagkvæmasta sem völ er á. Í hinu málinu ráðast úrslit um það, hvort rafmagnsverð til Alusuisse eða ÍSALS verði hækkað til samræmis við orkuverð annars staðar eins og allir eru sammála um að nauðsynlegt sé að vinna að. En báðir þessir samningar eru í strandi. Það er engin tilviljun, því að hæstv. ráðh. hefur notað svipaðar aðferðir í báðum þessum tilvikum. Hann hefur ekki reynst góður samningamaður fyrir okkar hönd í mikilvægum málum, og það er eindregin skoðun mín, að því fyrr sem aðrir taka við þessum málum, því fyrr sem aðrir reyna að taka til við þessa samningsgerð, því betra.

Ég vil aðeins varðandi tímasetningu Fljótsdalsvirkjunar láta þá skoðun í ljós, að ég tel að það verði mjög erfitt að hugsa sér að Fljótsdalsvirkjun geti komist í gagnið fyrr en í fyrsta lagi 1988, jafnvel ekki fyrr en 1989–1990. Þar eru enn á ferðinni ýmis tæknileg vandamál sem ég skal ekki fara að rek ja hér. Menn óttast t.d. ísvandamál í þeim 25 km langa skurði sem byggja á, og þeir, sem sérstaka ferð fóru til þess að kynna sér slíka skurði fyrr í vetur, hafa lagt til að rannsakað sé rennsli í slíkum skurði í módeli. Allt getur þetta að sjálfsögðu lengt undirbúningstímann því að nauðsynlegt er að tryggja sem best öryggi, að slíkur undirbúningur sé allur sem vandaðastur.

Till. hæstv. iðnrh., sem hann nú leggur hér á borð fyrir okkur, er því í raun till. um næstu virkjun, hvort sem það er Blönduvirkjun eða Fljótsdalsvirkjun, í fyrsta lagi 1988. Og því lengur sem dregst að taka ákvörðun um nýja virkjun, því lengur sem dregst að fá nýja virkjun í gagnið, því minni líkur eru á því, að hægt sé að bæta nokkuð við orkufrekan iðnað áður en ný virkjun tekur til starfa, ef ekki á að setja almenna markaðinn í hættu.

Ég óttast það og er reyndar orðinn fullviss um það, að vegna þess, hve langt verður í það að ný virkjun tekur til starfa vegna óhæfilegs dráttar á ákvörðunum, vegna þess hve illa hefur verið haldið á þessum málum, þá séum við nú í þeirri hættu að vera búnir að sitja af okkur tækifæri til að auka frekar orkufrekan iðnað hér á landi fyrr en ný virkjun er tekin til starfa, hvort sem það er kísilmálmverksmiðja eða stækkun á Grundartanga eða hvaða aðgerðir sem menn vilja fara út í í þessum efnum.

Það þarf því greinilega mjög rækilega að fara ofan í allar tímasetningar varðandi þessa þáltill. Sú nefnd, sem fær þetta til athugunar, þarf að sjálfsögðu að ræða mjög ítarlega við þá sérfræðinga sem þarna koma helst til greina. En eins og till. er úr garði gerð nú af hálfu hæstv. ráðh. er ljóst að Alþingi getur ekki samþykkt hana.

Ég vil aðeins í þessu sambandi minna á hugmyndir þær sem fram koma í greinargerð Landsvirkjunar sem þm. fengu í hendur varðandi Búrfellsvirkjun II. Í kaflanum um yfirlit og niðurstöður segir svo í tölul. 1:

„Hagkvæmast virðist tvímælalaust vera að næstu aðgerðir í raforkuöflun landsmanna verði stíflugerð við Sultartanga, vatnaveitur til Þórisvatns (Kvíslaveita) og stækkun Þórisvatnsmiðlunar. Þessar aðgerðir bæta ódýrustu orku sem völ er á við orkuframleiðslu hins samtengda landskerfis, auk þess sem þær auka mjög rekstraröryggi á Þjórsársvæðinu. Jafnframt bjóða þessar aðgerðir upp á sveigjanlegan framkvæmdahraða til aðlögunar markaðsþróun á hverjum tíma. Samhliða þessum aðgerðum eða í beinu framhaldi af þeim er nauðsynlegt að auka uppsett afl á Þjórsársvæðinu. Hér virðist stækkun Búrfellsvirkjunar vera mun hagkvæmari kostur en stækkun Sigöldu- og Hrauneyjafossvirkjana, eins og tilvitnuð lög gera ráð fyrir. Kemur hér einkum til að stækkun Búrfellsvirkjunar bætir aflmisvægið, sem nú ríkir milli þessara virkjana, og gefur auk þess aukna orkuvinnslugetu sem út af fyrir sig getur réttlætt þá fjárfestingu sem til þarf. Þess má og geta, að stækkun Búrfellsvirkjunar kostar mjög ámóta upphæð og stækkanir Sigöldu- og Hrauneyjafossvirkjana, sem ekki skila aukinni orkuvinnslu inn á hið samtengda landskerfi. Landsvirkjun leggur því eindregið til að aflað verði lagaheimildar fyrir stækkun Búrfellsvirkjunar að afli allt að 140 mw.“

Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. hver viðbrögð hans séu við þessari tillögu, hvort búast megi við því, að farið verði eftir þessari tillögu Landsvirkjunar og aflað lagaheimildar fyrir stækkun Búrfellsvirkjunar þannig að möguleiki sé á því, ef nauðsyn krefur, að skjóta þeirri virkjun inn á milli þeirra annarra stóru virkjana sem við erum að tala um, til þess að vera betur í stakk búnir til að takast á við aukin verkefni í orkufrekum iðnaði.

Í þessum umr. hefur mönnum orðið tíðrætt um stefnu í orku- og stóriðjumálum. Það er mjög eðlilegt, svo nátengd sem sú stefna er því sem hér er á dagskrá. Stefna Sjálfstfl. er mjög skýr í þeim efnum. Formaður Sjálfstfl., hv. 1. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, gerði grein fyrir henni í framsögu fyrir þáltill. um hagnýtingu orkulinda til stóriðju sem óafgreidd er, en ég vil þó sérstaklega að gefnu tilefni ítreka hana hér í þessum umr. Í ályktun síðasta Landsfundar Sjálfstfl. segir m.a.:

„Nú er þörf stórhuga framkvæmda í orkumálum og blasa við aðkallandi verkefni við stórvirkjanir á Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi. Jafnframt þarf að hyggja að byggingu virkjana á Vesturlandi og Vestfjörðum með tilliti til rekstraröryggis orkukerfisins. Slík stórhuga virkjunaráform eru forsenda þess, að landið allt verði áfram byggt. Það aðgerðaleysi, sem ríkt hefur á þessu sviði, stefnir lífskjörum þjóðarinnar í framtíðinni í voða.

Sjálfstfl. telur að næsta stórátak þjóðarinnar í atvinnumálum eigi að vera að byggja upp stóriðju sem geti beint og óbeint staðið undir atvinnu a.m.k. helmings þess fjölda fólks sem bætist við á vinnumarkaðinn á næstu tveimur áratugum. Í þessu skyni verði unnið að því að koma á fót 3–4 nýjum stóriðjuverum, einu á Suðurlandi,einu á Austurlandi og 1–2 á Norðurlandi. Auk þess verði stóriðjuverin í Straumsvík og á Grundartanga stækkuð sem fyrst. Síðan munu fylgja á eftir nýjar virkjanir af svipaðri stærð til að tryggja hægkvæmustu rekstrareiningar stóriðjuveranna. Þegar þessu marki hefur verið náð verður um það bil helmingur af hagkvæmasta vatnsafli landsins beislaður.

Við iðjuverin má ætla að yfir 3000 manns gætu fengið vinnu fyrir næstu aldamót og svipaður fjöldi við uppbyggingu þeirra og við virkjunarframkvæmdir, eða samtals um 6000 manns. Jafnframt mundi þessi undirstöðustarfsemi auka atvinnu á öðrum sviðum efnahagslífsins um a.m.k. 9000 mannár, þannig að af þessu gæti leitt beint og óbeint a.m.k. 15 þús. ný störf hér á landi af um 25 þús. manna áætlaðri fjölgun á vinnumarkaði á þessu tímabili. Framkvæmdahraði miðast fyrst og fremst við atvinnuþörf þjóðarinnar og byggðaáætlanir.

Með þessu vill Sjálfstfl. hefja nýja sókn í virkjunarmálum og beita sér fyrir uppbyggingu stóriðjuvera sem geti orðið vaxtarbroddur atvinnuuppbyggingar um land allt.“ Þessi stefna er mjög glögg og er að sjálfsögðu í mikilli andstöðu við þá stefnu hiks og vandræða sem ríkisstj. fylgir. Í þessu sambandi er og rétt að rifja upp stefnu Sjálfstfl. varðandi eignaraðild og forræði Íslendinga yfir slíkum verksmiðjum. Það tel ég nauðsynlegt að rifja hér upp vegna þess að bæði hv. þm. Guðmundur Þórarinsson og hæstv. iðnrh. hafa mjög rangtúlkað þá stefnu í ræðum sínum í þessum umr. Þeim verður tíðrætt um það, sem þeir kalla „orkusölustefnu“, og tala um „hálfnýlendu erlendra stórfyrirtækja“, eins og ég held að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hafi nefnt það. En stefna Sjálfstfl. í þessum efnum hefur bæði birst í reynd og í ályklunum flokksins á landsfundum hans. Í ályktun landsfundar 1979 segir t.d. að stefnt verði að skipulagningu raforkuvinnslu og orkufreks iðnaðar með forgöngu ríkisins, en með aukinni þátttöku einkaaðila í iðnaði. Gengið verði til samstarfs við erlenda aðila eftir því sem hagkvæmt er á hverjum tíma, en stefnt að virkari þátttöku innlendra aðila. Þetta var mjög glögg stefna þegar á árinu 1979, að stefna að virkari þátttöku innlendra aðila. Og í ályktun landsfundar flokksins 1981, þ.e. á s.l. hausti, segir:

„Sjálfstfl. telur að ákvarðanir um eignaraðild íslendinga að iðjuverum svo og samstarfssamningar um önnur atriði eigi að ráðast af eðli hvers máls fyrir sig og aðstæðum á hverjum tíma. Af hans hálfu koma því til greina margvíslegir kostir að þessu leyti.“

Í reynd hefur Sjálfstfl. beitt sér fyrir margvíslegu formi í þessum efnum. Álverið í Straumsvík er alfarið í eigu útlendinga. Járnblendiverksmiðjan er að meiri hluta í eigu Íslendinga svo og kísilgúrverksmiðjan við Mývatn, þannig að Sjálfstfl. hefur eiginlega leikið allan skalann í þessu efni eftir aðstæðum og atvikum hverju sinni. Og þannig á það að vera. Við eigum ekki að vera með neina vanmetakennd, svo að ég noti orð hæstv. iðnrh. í þessum efnum, en ég vil nota þau í annarri merkingu en hann. Við hljótum að þurfa að vera raunsæ í þessum efnum, og við sjáum það nú, þegar við áttum okkur á niðursveiflunni í málmiðnaðinum í heiminum, er við sjáum bæði hvernig ástandið er hjá álverum víða um heim og hjá okkar eigin álveri og í verksmiðjum eins og járnblendiverksmiðjunni, að það er nauðsynlegt að dreifa þessari áhættu. Áhættan við rekstur slíkra fyrirtækja er svo gífurleg að það er nauðsynlegt að dreifa henni. Við eigum þess vegna óhikað að ganga til samninga og samstarfs við erlenda aðila um eignaraðild að slíkum fyrirtækjum því að það er fyrst og fremst til þess að dreifa hinni miklu áhættu sem við gerum það. Við náum ýmsum gróða í gegnum sölu á raforku, sölu á margvíslegri þjónustu hér innanlands, en við viljum dreifa þessari gífurlegu áhættu til þess að sitja ekki uppi með hana einir. Sannleikurinn er sá, að við værum ekki öfundsverðir af því, Íslendingar, að sitja nú uppi með tapið hjá álverinu á sama hátt og við sitjum nú uppi með tapið af járnblendiverksmiðjunni. Hæstv. iðnrh. hefur sagt að von sé á einhverjum frv. í þeim efnum, til þess að bjarga við eða treysta fjárhag þess fyrirtækis. Við eigum því auðvitað kinnroðalaust á fullum jafnréttisgrundvelli að ganga til samstarfs við erlenda aðila um þá þætti slíkrar starfsemi sem við teljum nauðsynlega til þess bæði að dreifa áhættunni og til þess að okkar hagnaður á hverjum tíma verði sem mestur.