30.03.1982
Sameinað þing: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3371 í B-deild Alþingistíðinda. (2971)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Um þá þáltill., sem hér liggur fyrir, má segja: „Fjöllin tóku jóðsótt og fæddist lítil mús.“ Þegar frv. um raforkuver var samþykki á s.l. vori var því breytt mikið í meðförum þingsins. Þessar breytingar voru gerðar sökum þess að í sinni upphaflegu mynd var frv. nánast bara vangaveltur um virkjunarkosti og enn þá lauslegri vangaveltur um orkunýtingarkosti. Raunverulega lá þá ekkert þannig fyrir að unnt væri að hefja framkvæmdir, nema við aðgerðir á Þjórsársvæðinu og Sultartangavirkjun, sem ætlunin var þá og virðist enn vera hjá sumum að fresta aftur fyrir allt annað, þótt það muni ekki takast. Á það vil ég leggja áherslu.

Ætlast var til að sá tími, sem liði uns Alþingi tæki ákvörðun um virkjanaröð, yrði notaður til að ganga frá undirbúningi bæði að virkjunum og nýtingu orkunnar. Þetta hefur að nokkru leyti verið gert að því er varðar virkjanirnar, en nýting orkunnar virðist enn svífa í lausu lofti. Þau mál eru öll á vangaveltustiginu þrátt fyrir ótölulegan fjölda svokallaðra starfshópa, stóran stafla af skýrslum og óendanlegt málæði. Sú þáltill., sem hér liggur fyrir, er því hvorki fugl né fiskur ef ekki liggur eitthvað ákveðið fyrir um nýtingu orkunnar, auk þess sem virkjanaröð er skökk. Til þess að reyna að sníða af henni verstu vankantana um virkjanaröð höfum við hv. þm. Guðmundur Karlsson lagt fram brtt. sem hér liggja fyrir og ég mun nú gera nánari grein fyrir.

1. brtt. er við 1. liðinn. Lagt er til að liðurinn orðist svo: „Samhliða næstu meiri háttar vatnsaflsvirkjun verði unnið að orkuöflunarframkvæmdum á Þjórsá —Tungnaársvæðinu og í framhaldi af því stækkun þeirra stöðva sem fyrir eru eftir þörfum til þess að ná sem mestri orkuvinnslugetu.“

Í upphaflegu till. er gert ráð fyrir að takmarka orkuöflunina á Þjórsár — Tungnaársvæðinu við 750 gwst. Það er auðvitað hrein firra að setja einhver slík takmörk. Þessum staðhæfingum til áréttingar vil ég vitna í skýrslu Landsvirkjunar til ríkisstj. frá 14. des. 1981, sem ber heitið „Orkuöflunarleiðir í samtengdu landskerfi í framhaldi af Hrauneyjafossvirkjun.“ Þar eru niðurstöður m.a.:

„Hagkvæmast virðist tvímælalaust vera að næstu aðgerðir í raforkuöflun landsmanna verði stíflugerð við Sultartanga, vatnaveitur til Þórisvatns (Kvíslaveita) og stækkun Þórisvatnsmiðlunar. Þessar aðgerðir bæta ódýrustu orku, sem völ er á, við orkuframleiðslu hins samtengda landskerfis, auk þess sem þær auka mjög rekstraröryggi á Þjórsársvæðinu. Jafnframt bjóða þessar aðgerðir upp á sveigjanlegan framkvæmdahraða til aðlögunar markaðsþróun á hverjum tíma. Samhliða þessum aðgerðum eða í beinu framhaldi af þeim er nauðsynlegt að auka uppsett afl á Þjórsársvæðinu. Hér virðist stækkun Búrfellsvirkjunar vera mun hagkvæmari kostur en stækkun Sigöldu- og Hrauneyjafossvirkjana eins og tilvitnuð lög gera ráð fyrir. Kemur hér einkum til að stækkun Búrfellsvirkjunar bætir aflmisvægið, sem nú ríkir milli þessara virkjana, og gefur auk þess aukna orkuvinnslugetu sem út af fyrir sig getur réttlætt þá fjárfestingu sem til þarf. Þess má og geta, að stækkun Búrfellsvirkjunar kostar mjög ámóta upphæð og stækkanir Sigöldu og Hrauneyjafossvirkjana, sem ekki skila aukinni orkuvinnslu inn á hið samtengda landskerfi. Landsvirkjun leggur því eindregið til að aflað verði lagaheimilda fyrir stækkun Búrfellsvirkjunar að afli allt að 140 mw.“

Eins og hér kemur fram telur Landsvirkjun að aðgerðir á Þjórsársvæðinu bæti ódýrustu orku, sem völ er á, við hið samtengda landskerfi. Það væru því hrein afglöp að takmarka þá orkuöflun. Og enn fremur segir Landsvirkjun:

„Á núverandi orkuveitusvæði Landsvirkjunar er Sultartangavirkjun fullundirbúin og rannsóknir á stækkun Búrfellsvirkjunar langt komnar. Í þessar virkjanir væri hægt að ráðast með litlum fyrirvara, en tímasetning næstu framkvæmda á Þjórsársvæðinu eftir áðurnefndar aðgerðir þar hlýtur að ráðast af því, hve ört markaður fyrir iðnað okkar vex á næstu árum og hvar hann yrði staðsettur. Einnig er á það að benda, að á Þjórsársvæðinu er fjöldi hagkvæmra virkjunarkosta sem eftir er að hagnýta, og má því reikna með áframhaldandi framkvæmdum þar næstu áratugi. Augljós hagkvæmni er í því fólgin, að þessar framkvæmdir séu sem samfelldastar, þannig að sú aðstaða, sem smám saman hefur verið að myndast þar, nýtist sem best.“

Hér leggur Landsvirkjun áherslu á hagkvæmni þess að órofið framhald verði á framkvæmdum á Þjórsársvæðinu.

Þá er það brtt. við 2. lið. Lagt er til að 2. liður orðist svo: „Eftir því sem orkunýting gefur tilefni til verði næstu meiri háttar vatnsaflsvirkjanir á eftir Hrauneyjafossvirkjun Blönduvirkjun samkv. virkjunarkosti I og samhliða henni Sultartangavirkjun.“

Nú er vinna hafin við byggingu stíflu Sultartangavirkjunar og að hætta við þá virkjun í miðjum klíðum væri hreinn molbúaháttur. Auðvitað á að vinna samfellt að framkvæmdum þar uns virkjuninni er lokið, samfara Blönduvirkjun.

Þá er það brtt. við 3. lið. Lagt er til að liðurinn orðist svo. „Unnið verði áfram að rannsóknum og hönnun Fljótsdalsvirkjunar. Framkvæmdir við hana verði hafnar svo fljótt sem hagkvæmt þykir.“

Vitað er að rannsókn og hönnun Fljótsdalsvirkjunar er skemmra á veg komin en hinna tveggja og þar eru á ferðinni ýmis tæknileg vandamál, þannig að eðlilegt er að hún rísi á eftir hinum virkjununum, þó að e.t.v. verði ráðist í hana að einhverju leyti samhliða þeim ef orkunýtingin gefur tilefni til.

4. brtt. er við 6. lið, að hann falli niður, en hann er svohljóðandi í þáltill.:

„Verði ekki ráðist í Blönduvirkjun nú komi Fljótsdalsvirkjun i hennar stað sem næsta meiri háttar vatnsaflsvirkjun fyrir landskerfið, enda geti hún hafið orkuframleiðslu fyrir árslok 1987.“

Sem sagt er lagt til að þessi liður falli niður. Um þennan lið þarf ekki að hafa mörg orð. Þrátt fyrir það að sumir formælendur Fljótsdalsvirkjunar hafi bæði leynt og ljóst reynt að koma í veg fyrir byggingu Blönduvirkjunar — og nú síðast með því að setja alvarlegan hnút á málið — verður því ekki trúað að óreyndu, að heimamenn láti hafa sig lengur að leiksoppi, heldur verði málin leyst á farsælan hátt sem allir geti við unað. Verði þessi liður felldur út falla þær aðgerðir um sjálfar sig sem unnendur Fljótsdalsvirkjunar hafa haft í frammi til að setja fótinn fyrir Blönduvirkjun.

Ekki má gleyma því, að allar þessar hugmyndir um byggingu virkjana eru algerlega háðar því, hvort einhver markaður verður fyrir orkuna eða ekki. Skýrslubunkar á borðum ráðh. nota ekki orku. Reisa þarf alvöruiðjuver í þessu skyni. Virkjanir án orkunotenda eru eins og virkjanir án orku, og þjóðin hefur ekki ráð á öðru Kröfluævintýri. Hér þarf því að gera stórátak í iðnaðarmálum ef við eigum að nýta okkur orku fallvatnanna í stað þess að halda áfram að láta hana renna óbeislaða til sjávar.