30.03.1982
Sameinað þing: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3378 í B-deild Alþingistíðinda. (2974)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það má nú segja að hér á Alþingi fari þennan daginn á vissan hátt fram framhaldsumr. sem hófst fyrir einu ári og fjallaði þá um frv. til l. um ný orkuver, eins og það var og er nefnt. Í þeirri löggjöf var m.a. kveðið á um að það mál skyldi koma fyrir Alþingi aftur og þá á þeim grundvelli, að um það yrði tekin ákvörðun með hvaða hætti þeim framkvæmdum, sem þar var sérstaklega getið, yrði raðað, hver framkvæmdaröðin yrði. Menn minnast þess kannske að hæstv. iðnrh. lagði á það áherslu á s.l. hausti og í upphafi þessa vetrar og lét ganga út um það sinn boðskap, að umr. um till., sem hér er núna fjallað um, og afgreiðslu yrði lokið fyrir jólaleyfi alþm. Þessu svipar sannarlega til ýmissa verka frá s.l. vetri, því það var ætíð verið að tímasetja hin ýmsu verkefni hæstv. iðnrh. við hátíðir og frídaga alþm., en sú varð hins vegar raunin, að allt stóð í hnút fram á síðustu daga Alþingis, þar á meðal frv. um ný orkuver. Hér sannast það, að sú saga, sem hefur átt sér stað einu sinni, getur gjarnan endurtekið sig öðru sinni. Það er í rauninni verið að endurtaka umr. frá því í fyrravor og sáralítið miðar í þessum efnum, eins og ég mun síðar víkja að.

Þessi vinnubrögð eiga sér að sjálfsögðu ýmsar skýringar og þá kannske sérstaklega þær, að það hefur verið einkenni á starfsferli núv. ríkisstj. að henni hefur ekki lánast að taka ákvarðanir sem hafa þýtt einhvern sérstakan árangur, nema með því baksi sem allir alþm. hafa orðið vitni að. Menn hafa gjarnan vitnað til þess, að í þessum efnum gangi hæstv. iðnrh. alveg sérstaklega illa að koma sínum málum áfram. En ég fæ ekki séð að hans hlutur í þessum efnum sé miklu verri en annarra ráðh., og mætti rifja upp ýmislegt í þeim efnum og þá alveg sérstaklega á þeim sviðum sem snerta atvinnumálin í þessu landi. Á ég þá alveg sérstaklega við hvernig hefur gengið í embættisferli hæstv. sjútvrh., formanns Framsfl., að ótöldu því, hvernig málum í íslenskum landbúnaði er komið þessa dagana. Er í rauninni skemmst að minnast þeirra umræðna, sem fóru fram á síðasta Búnaðarþingi um landbúnaðarmál, og innihaldsins í þeim tillögum og þeim ályktunum, sem þaðan hafa borist og m.a. hefur verið dreift til þingflokkanna og í hinar ýmsu starfsnefndir hér á Alþingi. Þessu má ekki gleyma þegar sérstaklega er rætt um þátt hæstv. iðnrh. Þetta er sá sjúkdómur, þetta eru þær starfsaðferðir, sem einkenna störf núv. hæstv. ríkisstj. Ég er ekki reiðubúinn að dæma hvort hlutur hæstv. iðnrh. er miklu verri en hinna ráðh. þegar það hendir að einhverjar ákvarðanir á annað borð þurfi að taka. Í rauninni verður þetta sérstaka mál, erfiðleikar í því einmitt raktir til úrræðaleysis og stefnuleysis núv. hæstv. ríkisstj., og vera má að viss og stór þáttur einmitt í sambandi við þetta mál gefi ákveðna skýringu á tilurð núv. hæstv. ríkisstj.

Það hefur verið margsinnis látið berast út frá hæstv. iðnrh„ og raunar hygg ég að svo hafi einnig verið þegar aðrir ráðh. hafa minnst á orkumál, að röðun framkvæmda, röðun virkjana, ætti að fara eftir því hvað niðurstöður hagkvæmniútreikningar á hverjum virkjunarkosti fyrir sig segðu til um. Nú er það þannig, að auðvitað er hægt að meta þetta á marga vegu og það er umdeilanlegt. En menn höfðu alltaf einhvern pata af því, að með vissum reikningskúnstum væri hægt að hafa Blönduvirkjun efsta, og þess vegna hefur ríkisstj. bundið sig í það að nota einfalda hagkvæmniútreikninga þannig að verð á hverja afleiningu varðandi áætlun hverrar virkjunar fyrir sig yrði látið mæla þessa stærð og raða framkvæmdum.

Eins og ég sagði áðan er hægt að meta hagkvæmnina á miklu fleiri vegu en þennan, m.a. þann, hvað hver virkjun um sig skapar mikið afl í þessu landi, hvað hún útrýmir miklu af innfluttri orku og hvernig hún auðveldar okkur þannig að nýta þann auð sem við eigum í fallvötnum landsins. Ef við vildum líta á málið með þessum hætti hefði Fljótsdalsvirkjun að sjálfsögðu verið langsamlega efst á blaði. Það er ekki nokkur vafi á að ef væri tekið tillit til þjóðhagslegs gildis þessara virkjanakosta á þessum grundvelli væri ekkert áhorfsmál hvað væri þar efst á blaði. En þetta passar ekki við Blöndu, þetta passar ekki norður í Húnaþingi og þetta passar ekki við þá lífsnauðsynlegu niðurstöðu sem ríkisstj. verður að fá með illu eða góðu, að Blönduvirkjun verði sett efst. Hafi menn einhvern tíma verið í vafa um þetta getur mönnum tæpast dulist það lengur, miðað við þau vinnubrögð sem hafa verið höfð í frammi, því að ef um eitthvert samkomulag er að ræða norður í Húnaþingi, eitthvert samkomulag um virkjun Blöndu, er það þvingað fram með illu eða góðu. Þar með hafa menn séð hvað legið hefur mikið á í þeim efnum.

Ég hygg að hv. þm. sé varla ljóst að allt það, sem verið er að deila um í sambandi við Blönduvirkjun, er nú til staðar varðandi Fljótsdalsvirkjun. Allt samkomulag, bæði við hagsmunaaðila og við náttúruverndaraðila, liggur þar fyrir. Ég efa að öllum hv. alþm. sé þetta ljóst. Samt sem áður er stofnað til stórátaka og mikilla deilna og þær raunar framkallaðar af ríkisstj.

Nú liggur fyrir í grg. með þeirri till., sem hér er til umræðu, umsögn þeirra þriggja stofnana sem iðnrn. óskaði eftir umsögnum frá, þ.e. Rafmagnsveitna ríkisins, Orkustofnunar og Landsvirkjunar, og ég segi það alveg hreint út hér, að ég legg ekki ýkjamikið upp úr umsögn þessara stofnana hverrar um sig. Rafmagnsveitum ríkisins hefur verið falið af hendi iðnrh. og eigin stjórnar að koma á samkomulagi um að koma á virkjun norður í Húnaþingi. Ég minni á að formaður stjórnar Rafmagnsveitnanna er enginn annar er núv. hæstv. landbrh., og mér dettur ekki í hug að hann hafi beitt áhrifum sínum í þá veru að kalla eftir þeim útreikningum sem ríkisstj. og þá sérstaklega honum sjálfum pössuðu í þessum efnum. Ég minni á hvað hæstv. iðnrh. hefur haft í frammi gagnvart Orkustofnun og hvert húsbóndavald hann telur sig hafa yfir þeirri stofnun. Ekki þarf að fara langt til að minna á atburði sem sanna það. Mér dettur ekki í hug annað en hæstv. iðnrh. hafi notað sína aðstöðu þar eins og annars staðar til að kalla fram það sjónarmið sem honum hentaði í þessum efnum. Og þá kem ég að þriðju stofnuninni, sem er sjálfstæðust að þessu leyti, þ.e. Landsvirkjun. Hennar umsögn er alls ekki tvímælalaus í þessum efnum, síður en svo. Hún er m.a. í algeru samræmi við það sem hefur komið fram hjá nálega hverjum einasta ræðumanni við þessa umr., að hagkvæmni þessara virkjana ráðist af því, hvort markaður er fyrir orkuna og hvar hann er. Ég vek alveg sérstaklega athygli á þessu. Ég vek alveg sérstaklega athygli á því hér á Alþingi, hvað þetta verk allt er ósannfærandi. Ákvörðunin hefur verið tekin af hæstv. ríkisstj., en síðan hafa menn verið að leita eftir rökum fyrir því að geta fundið þeirri ákvörðun stað. Hér hefur verið um hreinan látbragðsleik að ræða af hendi hæstv. ríkisstj. og m.a. af þeirri ástæðu hefur hún nú kallað yfir sig ósamkomulag í þessu máli. Það þarf ekki að vera veikleikamerki þó að menn greini á um leiðir, síður en svo. En það er vissulega mikið veikleikamerki þegar þvingaðir eru fram samningar með sama hætti og hefur verið gert varðandi Blönduvirkjun.

Nú hefur hæstv. iðnrh. haft um það orð í þessum umr., að í till. okkar sjálfstæðismanna frá því í fyrra hafi ekki komið fram nein stefna um röðun virkjana. Munurinn á okkar till. og till. ríkisstj. er m.a. sá, að við höfum fellt okkur við og talið eðlilegt að röðun og verkhraði færi eftir þeim verkefnum sem hverri og einni virkjun um sig væri falið. Við höfum viljað lita á þessi mál öll í heild. Það liggur t.d. fyrir, eins og kom fram fyrr í þessari umr. hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., að í tillögugerð ríkisstj. og áætlunum er í rauninni gert ráð fyrir stærri miðlunarlónum en þörf er fyrir. Það má líka færa að því rök, að vatnsafl Blöndu væri svo að segja fullnýtt þótt einungis væri um rennslisvirkjun að ræða — ég tala ekki um ef miðlunin væri miklu minni en kostur I gerir ráð fyrir. Þetta er þó bundið því, að þetta afl sé geymt annars staðar, en það er einmitt stærsti kostur Fljótsdalsvirkjunar hversu miklu afli hún miðlar.

Ef menn fengjust nú til þess að lita á þessi mál í heild væri hægt að reisa miklu minni miðlun norður við Blöndu, en nýta miðlunarmöguleika austur í Fljótsdal.

En af hverju er þetta þá ekki gert? Það passar ekki inn í reikningsdæmið hjá núv. hæstv. ríkisstj. Ef þessi aðferð er höfð er ekki hægt að einfalda málið með sama hætti og ríkisstj. er nauðsynlegt þegar taka á ákvarðanir um virkjanaröð. Við þessar aðstæður mundi virkjunarkostnaður við Blöndu á pappírnum hækka og þar af leiðandi, ef farið væri einvörðungu eftir hagkvæmnisútreikningum miðað við hverja afleiðingu væri hún ekki orðin lengur efst í röð. Ef menn vildu hins vegar lita á þessi mál í emni heild sem samfellt verkefni kæmi dæmið allt öðruvísi út og þjóðhagslega gæti þetta gengið upp jafnvel. Ef myndarlega væri unnið gæti þetta skapað okkur miklu meiri möguleika á sviði orkuframleiðslu og orkunýtingar. Það liggur ekkert fyrir um það, eins og málin standa núna, hve mikla þörf við höfum á miðlunarlóni norður við Blöndu. Ástæðan er sú, að það er ekki búið að gera nemar áætlanir um það og ekkert farið að vinna að því að koma orkunni í verð. Ég sá að hæstv. iðnrh. blikkaði mig þegar ég mælti þessi síðustu orð og þykir mér það raunar ekkert undrunarefni, jafnhlýir og góðir þræðir og liggja nú á milli þm. Austfirðinga og þá ekki síst mín og hæstv. iðnrh. En svo einkennilega vill til, að í skýrslu og greinargerð, sem hæstv. iðnrh. hefur sett nafnið sitt undir, er hægt að finna alveg nákvæmlega sömu stefnu. Það er að vísu hægt að finna þar flest, en hér segir svo. með leyfi hæstv. forseta, efst á bls. 7, um lið 3 í grg. fyrir till. hæstv. ráðh.:

„Hér er kveðið á um að Fljótsdalsvirkjun og Sultartangavirkjun verði næstu meiriháttar vatnsaflsvirkjanir á eftir Blönduvirkjun.“ Og nú bið ég hæstv. iðnrh. að fylgjast vel með: „Hraði við þessar virkjunarframkvæmdir sem og þær, sem á undan koma, mun öðru fremur ráðast af þróun markaðar.“ Finnst mönnum ekki skrýtið að hæstv. iðnrh. skuli segja það eftir allar sínar ræður hér, að hraði þeirra fari nú eftir þróun raforkumarkaðarins? En svo kemur þetta gullvæga: „En ákveðið er að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun og Blönduvirkjun skarist og einnig að unnið verði að framkvæmdum við Sultartangavirkjun samhliða Fljótsdalsvirkjun, eftir því sem orkunýting gefur tilefni til.“

Það eina, sem er ákveðið, er að þessi margumtalaða skörun eigi sér stað, skörun og aftur skörun, skörun á milli Blöndu og Fljótsdals og skörun á milli Fljótsdals og Sigöldu.

Ef lesið er aðeins lengra og þessari umsögn um 3. lið er lokið kunna menn enn einu sinni að verða undrandi. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ef gert er ráð fyrir að raforkusala til orkufreks iðnaðar og vegna sparnaðar á innfluttu eldsneyti rösklega tvöfaldist á næstu tiu árum frá því sem nú er má þannig reikna með að Fljótsdalsvirkjun komist í gagnið um 1990 og Sultartangavirkjun litlu síðar.“ — Ef gert er ráð fyrir þessu eða hinu getur dæmið gengið upp. Þannig er nú fótáslátturinn í þessari tillögugerð.

Nú er kannske vert að vekja athygli á því sem kom fram í ræðu hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar þar sem hann var að tala um líkar ræður frá því sem þær hefðu verið fyrir einu ári. Það er ekkert mjög einkennilegt að líkar ræður séu fluttar um svipaðan texta. Þegar verið er að leita að ákvörðunum, leita að einhverju áþreifanlegu í þessum tillöguflutningi, kemur það fram, eins og ég sagði í upphafi, að hér er um framhaldsumræðu og þenkingar að ræða. Í grg. fyrir frv. til l. um orkuver, sem samþykkt var í fyrra, segir m.a. að hraðað verði verkhönnun við Blönduvirkjun. Hvað á nú að gera, hæstv. iðnrh.? Það á að ljúka rannsóknum í staðinn fyrir að áður átti að hraða þeim. Lokið verði rannsóknum vegna Fljótsdalsvirkjunar og hafin verkhönnun hennar. Hvað á að gera núna í Fljótsdal? Það er talað um að það eigi að ljúka verkhönnun á næsta ári. Hafnar verði tilraunir með uppgræðslu og gróðurbætur á virkjunarsvæði Blöndu í samráði við sérfræðinga og heimamenn og ráðist verði í vegagerð á virkjunarsvæðunum. Hverju gerir samkomulagið svonefnda við bændur í Húnaþingi ráð fyrir? Á ekki að bíða eftir ýmsum ákvörðunum þar til þessar eða aðrar slíkar tilraunir liggja fyrir? Í lokin sagði fyrir einu ári að samhliða þessu verði leitast við að ná sem fyrst samningum við hagsmunaaðila vegna Blönduvirkjunar. Er þessu lokið? Eru þessir samningar til? Þarf ekki að vinna þetta verk? Ég bið ykkur, hv. alþm., að fara yfir þetta kver, till. til þál. um virkjunarframkvæmdir, og finna einhverjar áþreifanlegar ákvarðanir sem ná lengra en þetta og skýra þetta mál.

Það er þó kannske vert að leita sérstaklega eftir svari hjá hæstv. iðnrh. varðandi 2. lið till., og nú ætla ég að biðja hæstv. iðnrh. að taka vel eftir og helst vildi ég að hann skrifaði upp orð mín svo að það lægi alveg fyrir, hver spurningin væri, og þá líka yrði alveg skýrt hver yrðu svörin. 2. liðurinn hljóðar þannig:

„Blönduvirkjun, samkvæmt virkjunartilhögun I, verði næsta meiri háttar vatnsaflsvirkjun á eftir Hrauneyjafossvirkjun, enda takist að ná um það samkomulagi við heimamenn.“ Ég endurtek, herra forseti: enda takist að ná um það samkomulagi við heimamenn.

Hvað felst í þessu? Er fullnægjandi að það sé hægt að þröngva fram samkomulagi við sumar hreppnefndir og jafnvel þótt fyrir liggi að einungis sé um mjög nauman meiri hluta að ræða innan hverrar hreppsnefndar fyrir sig? Hvað felst í þessu orðalagi, að það eigi að ná samkomulagi við heimamenn? Það er engin tilviljun, það getur ekki verið tilviljun, að hér er ekki talað um að það eigi að ná samkomulagi við sveitarstjórnir í viðkomandi byggðarlagi. Hér er alveg óumdeilanlega átt við að það þurfi að ná slíku samkomulagi að ekki hljótist af deilur og ófriður í héraði. Þess vegna verður hæstv. ráðh. að sjálfsögðu að segja alveg skýrt til um það, hvaða skilning hann leggur í þessi orð. T.d. eins og það, hvort hæstv. iðnrh. og ríkisstj. duga þeir samningar eða samningsdrög sem búið er að gera norður við Blöndu. Dugar hæstv. ríkisstj. það til þess að ráðast í virkjun Blöndu?

Í framhaldi af þessu vil ég líka fá skýr svör varðandi 6. lið till., en með leyfi hæstv. forseta er hann á þennan veg: „Verði ekki ráðist í Blönduvirkjun nú komi Fljótsdalsvirkjun í hennar stað sem næsta meiri háttar vatnsaflsvirkjun fyrir landskerfið, enda geti hún hafið orkuframleiðslu fyrir árslok 1987.“ — Eru þá aðstæður norður í Húnaþingi orðnar þær, að það sé sjálfgefið að fara í Fljótsdalsvirkjun? Hvernig þarf samkomulagið að verða? Hvað þarf að gerast til þess að hægt sé að hefja framkvæmdir við Blöndu til þess að hún geti orðið númer eitt? Hvernig ætlar hæstv. ríkisstj. að skilja við þetta mál hér á Alþingi? Ætlar hún að skilja við það með nákvæmlega sama hætti og fyrir einu ári, að hafa valdið hjá sjálfri sér þótt hún hafi lofað því og gefið um það fyrirheit að Alþingi ætti að ráða þessu máli til lykta?

Það gleður mig að ég sé að hæstv. iðnrh. er farinn að skrifa. Ég efa ekki að ég fái svör. En hér er að sjálfsögðu þungamiðja málsins vegna þess, sem öllum mönnum er ljóst, að það hefur verið ætlun ríkisstj. með hæstv. iðnrh. í broddi fylkingar að hafa Blöndu efsta á blaði í sambandi við virkjunarframkvæmdirnar og að þessar hagkvæmnirannsóknir, eins og reyndar hefur hér verið bent á, eins og þær eru með ýmsum hætti ófullkomnar, eru settar á svið til þess að ríkisstj. fái einhverja ástæðu til að taka ákvörðun. En fram hjá hinu verður að sjálfsögðu ekki gengið og þar eru það ekki neinir reiknimeistarar, þar eru það ekki neinar verkfræðiskrifstofur eða skýrslugerð sem geta ráðið, — það verður ekki komist fram hjá því að segja það alveg skýrt hér á Alþingi, hvað er átt með samkomulaginu við heimamenn og hvað þurfi að vera til staðar til þess að ríkisstj. meti málið þannig að samkomulagi hafi verið náð við heimamenn. Þetta er þungamiðja málsins og þetta er það sem snýr að Alþingi, m.a. vegna þess að það er ekki ágreiningur um Blönduvirkjun ef samkomulag við héraðsmenn er til staðar. Jafnmikill stuðningsmaður Fljótsdalsvirkjunar og ég er í virkjunarmálum liggur það fyrir, að ég hef flutt till. með öðrum þm. Sjálfstfl. þar sem fallist er á að virkjað verði norður í Húnaþingi þegar samkomulag er til staðar. Ég sé nóg ráð til að ná fram myndarlegum áformum í orkumálum á Austurlandi þótt það verði ekki með þeim hætti að það verði efnt til bræðravíga í öðrum landshluta. Það er ekki með þeim hætti sem sjálfstæðismenn vilja ná fram sínum málum í sambandi við orkumál.

Í tillöguflutningi okkar fyrir virkjun í Fljótsdal hafa verið fengin rök með því að það yrði unnið að því að fá markað fyrir þá orku. Það er kannske skýrasti munurinn á vinnubrögðum og áformum okkar sjálfstæðismanna og núv. hæstv. iðnrh., að hann er e.t.v. að leitast við að ná fram virkjunarkosti á Austurlandi eða einhverjum orkukosti með því að notfæra sér og kalla fram ágreining í húnvetnskum byggðum, alveg gagnstætt því sem við teljum að sé forsenda virkjunar þar, og með sama hætti á hugsanlega að nota þetta umhverfi til að koma fram orkuáformum á Austurlandi í stað þess að við leggjum á það áherslu að það verði gert með þeim hætti að skapa markað fyrir orkuna. Fyrir þessari stefnu eru til ályktanir og samþykktir frá sveitarfélögunum við Reyðarfjörð, frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, sem öll sveitarfélögin eiga aðild að, og meira segja frá Alþýðusambandi Austurlands. En hæstv. iðnrh. hefur talið sér þann kostinn betri að standa í styrjöld við ýmsa þá aðila, sem að þessu máli standa, til að gera þessa stefnu tortryggilega og í rauninni að hindra framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun með því að koma í veg fyrir að myndarlega verði staðið að því að taka til við að undirbúa orkufrekan iðnað í þessu landi. Ef það hefði verið gert hefðu öll þessi mál verið margfalt léttari í meðförum — og það sem skiptir þó allra mestu máli, það hefði þó miðað verulega í þá átt að bæta kjör þessarar þjóðar.