31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3394 í B-deild Alþingistíðinda. (2980)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Þar sem beint hefur verið til mín í þessari umr. nokkrum fsp. tel ég rétt að víkja að þeim nokkrum orðum og örfáum atriðum sem tengjast þessari umr.

Ég vil í fyrsta lagi lýsa afstöðu minni vegna ásakana um það, að með óeðlilegum hætti hafi verið staðið að samningagerð við fimm hreppsnefndir af sex sem í hlut eiga á virkjunarsvæði Blöndu. Ég hygg að þeir, sem að þeirri samningagerð stóðu með ríkinu, mundu ekki taka undir ásakanir þar að lútandi, og ég tel það með öllu ómaklegt í garð þeirra manna sem stóðu að því með virkjunaraðila og mér fyrir hönd ríkisstj„ með fyrirvara um samþykki hennar, að vera með aðfinnslur og aðdróttanir í því sambandi. Það hafði sem kunnugt var verið unnið að undirbúningi þessa máls í hálft annað ár og lögð mikil alúð við það og leitast við að taka tillit til fram kominna sjónarmiða, án þess þó að kollvarpa hugmyndum og óskum þeirra sem borið hafa Blönduvirkjun mjög fyrir brjósti, og láta reyna á hvort málamiðlun tækist. Það samkomulag, sem undirritað var 15. mars, var afrakstur af löngu starfi þar sem báðir aðilar, sem í hlut áttu, lögðu sig fram. Mér er hins vegar alveg ljóst að ekki eru allir ánægðir með þessa samningagerð, og það getur átt bæði við virkjunaraðila og aðila á heimavettvangi, eins og við þekkjum, og ég skil það mætavel. T.d. er alveg ljóst að þeir, sem bera fram rök landnýtingar og gróðurverndar einhliða, hljóta að sjá eftir því landi sem þarna tapast. Það tel ég ofur skiljanlegt. En við skulum jafnframt hafa í huga að landvernd þurfum við að ástunda í víðtækum skilningi þess orðs. Við þurfum að gæta þess, jafnhliða því sem við reynum að halda sem mestu til haga af gróðurríki landsins, að við ofnytjum það ekki og töpum því ekki út í hafsauga gróðurmoldinni, vegna þess að við höfum ekki enn snúið þeirri vörn í sókn sem við höfum staðið í í sambandi við eyðingu gróðurlendis í landinu um langt skeið, þó að viðleitni sé í þá átt. Og vegna ásakana um tillitsleysi við umhverfissjónarmið vil ég rifja það upp hér fyrir hv. þm., að á síðasta ári var stigið stærsta skref í sambandi við náttúruverndarmál í landinu þar sem komið var til móts við óskir Náttúrverndarráðs og náttúruverndarsamtaka um land allt um að friðlýsa það svæði sem þau mest hafa borið fyrir brjósti og skrifað efst á sinn lista af þeim svæðum sem orkuiðnaðurinn taldi sig þurfa að nýta. Þar á ég við Þjórsárver. Mér finnst það bera vott um mikla einsýni í málflutningi ef menn vilja horfa fram hjá þeirri staðreynd, að það hefur verið vaxandi skilningur á þessum sjónarmiðum almennt í landinu og hann hefur komið fram af hálfu þeirra sem um orkumál fjalla, m.a. og alveg sérstaklega með friðlýsingu Þjórsárvera á síðasta ári.

Ég ætla ekki — og það hefur ekki verið gert af þeim sem að þeirri gjörð stóðu og héldu um hagsmuni raforkuiðnaðarins — að rekja það í krónum og aurum eða telja upp ferkm. þess lands sem þannig er tekið til varðveislu, vonandi um aldur og ævi, mjög verðmætt svæði náttúrufarslega í okkar landi. En við þurfum að leita málamiðlunar í sambandi við umsvif mannsins í landinu þar sem reynt er að sætta sjónarmiðin. Viðleitni núv. ríkisstj. og þeirra, sem fengu það hlutverk fyrir hönd iðnrn. að fara með samningaumleitanir vegna Blönduvirkjunar, hefur tekið mið af þessu svo langt sem þeirra umboð náði. Og vegna þess að látið hefur verið að því liggja, að Rafmagnsveitur ríkisins, sem hafa haft forustu um þetta mál sem virkjunaraðili, hafi staðið að því með eitthvað lakari hætti en vænta mætti af óðrum, eins og t.d. Landsvirkjun ef hún hefði haldið á þessu máli, er ástæða til að rifja það upp, að í samninganefnd ríkisins í þessu máli og ráðgjafarnefnd rn. um þessa virkjunarframkvæmd og fleiri virkjunarframkvæmdir var og er stjórnarformaður Landsvirkjunar sem hefur staðið að þessu máli og verið jafnstiga, fylgt í því í einu og öllu öðrum sem þar hafa haldið á máli. Ég skil mætavel þegar raddir koma úr heimabyggðum sem harma að þarna skuli gengið á hagsmuni gróðurlendis, og ég veit að í hópi þeirra, sem að slíkum ályktunum hafa staðið á ákveðnum tíma undirbúnings máls, eru sumpart sömu aðilar og hafa síðan staðið að samningagerð, vegna þess að þeir hafa fundið að þeim hefur nokkuð áunnist. Þeirra sjónarmið hafa fengið nokkrar undirtektir í sambandi við gerð þess samkomulags sem fyrir liggur og liggur fyrir ríkisstj. til staðfestingar, ef á það verður fallist.

Ég hef látið það koma fram í þessari umr., að það hefur ekki verið settur neinn lokapunktur í sambandi við þessa virkjanaröðun að því leyti, að það ætti að ráðast í Blönduvirkjun á hverju sem gengi í heimabyggðum. Stefna ríkisstj. hefur verið að leita samkomulags um þetta mál, og hefur verið settur inn í þáltill. ríkisstj. varnagli um það, að ef ekki verði ráðist í þessa virkjun, þá er það sett fast og ákveðið í hvaða virkjun yrði næst ráðist, næstu vatnsaflsvirkjun, ef ekki yrði að ráði að ráðast í Blönduvirkjun sem þarna er í fremstu röð.

Ég vil víkja örfáum orðum að þeim fylgigögnum sem lögð voru fram hér á hv. Alþingi fyrir áramót, um svipað leyti og sú þáltill. sem hér er til umr., vegna þess að það hefur verið spurst fyrir um viss atriði þar að lútandi, sérstaklega að því er varðar greinargerð Landsvirkjunar. Ég tel að þessar greinargerðir séu mjög á einn veg í meginatriðum. Á hitt má þó benda og það er út af fyrir sig rétt, að Landsvirkjun tekur í sinni tillögugerð ekki eins ótvíræða afstöðu varðandi röðun virkjana og fram kemur í greinargerð Orkustofnunar og Rafmagnsveitna ríkisins. Landsvirkjun tekur hins vegar fram í sinni greinargerð, að hún telji að skynsamlegra sé að ráðast í Blönduvirkjun sem næstu vatnsaflsvirkjun. Það kemur þar fram en hún fer ekki lengra í tillögugerð sinni varðandi röðun og færir fram fyrir því sín sjónarmið sem ég tel ekki ástæðu til að rekja hér frekar vegna þess að þau liggja fyrir og menn geta dregið sínar ályktanir af þeim. Hún mælir hins vegar ekki gegn þeim sjónarmiðum sem fram eru borin í þessari þáltill. Hún hefur ekkert lagt fram sem hnekki þeim till. eða gangi gegn þeim till., eða þannig met ég ekki framlegð Landsvirkjunar til þessa máls.

Spurt hefur verið hvort svo megi líta á, að ábendingar í greinargerð Landsvirkjunar varðandi Búrfellsvirkjun II, sem svo hefur verið kölluð, bendi til þess, að Landsvirkjun sé að gera tillögu um að það verði næsta vatnsaflsvirkjunin í landskerfinu. Ég hef ekki skilið greinargerð eða málflutning talsmanna Landsvirkjunar í þá átt. Ég tel að þeirra ábendingar um næstu virkjun séu ótvíræðar í þeirra greinargerð. Hins vegar hafa verið að koma fram ný og breytt sjónarmið af hálfu Landsvirkjunar á síðustu mánuðum í sambandi við aðgerðir á Þjórsársvæðinu. Það segir okkur kannske nokkra sögu um það, að þó að mál virðist vera orðin nokkuð fastbundin og fastmótuð af hálfu virkjunaraðila geta sjónarmið verið að taka breytingum eftir því sem rannsóknum þokar fram. Þannig er greinilega komin af hálfu Landsvirkjunar fram aukin áhersla á Búrfellsvirkjun II fram yfir Sultartangavirkjun og í stað þess að fara í aflaukandi aðgerðir við Hrauneyjafossvirkjun og Sigölduvirkjun, eins og fram hafði komið á fyrri stigum og fram kom í greinargerð með frv. til l. um raforkuver.

Þessar áætlanir af hálfu Landsvirkjunar liggja hins vegar enn ekki þannig fyrir iðnrn. að við höfum talið rétt að taka þær upp með ákvarðandi hætti eða taka afstöðu til þeirra tillagna, en að sjálfsögðu mun verða á þær litið þegar þær liggja heildstætt fyrir, og þá ekki síst í því samhengi, hvort þarna sé verið að hverfa frá því að auka afl sigölduvirkjunar og Hrauneyjafossvirkjunar og koma upp auknu afli við Búrfell í staðinn, sem þýddi jafnframt nokkuð aukna orkuvinnslugetu. En um röðun slíkra framkvæmda eða samhengi við þær tillögur, sem fyrir liggja, verður ekkert sagt á þessu stigi mála, enda engar heimildir fengnar fyrir þeirri framkvæmd lagalega séð sem þarna er á dagskrá. Og vegna þess að hér í umr. hefur verið rætt um Sultartangavirkjun og á hana lögð áhersla af a.m.k. einum ræðumanni — og ég held fleiri, þá er einmitt vert að vekja athygli á þessari breyttu áherslu af hálfu Landsvirkjunar og því jafnframt, að rannsóknir við Sultartangavirkjun hafa ekki gengið hraðar og betur en svo, að þar er enn þá ákveðnum spurningum ósvarað, ákveðnum þáttum varðandi virkjunina. Ég er ekki að segja að þeir séu stórfelldir. Verkhönnun liggur fyrir, en staðið hafa yfir fram eftir síðasta sumri jarðfræðirannsóknir í sambandi við aðveituleið að stöðvarhúsi eða aflvélum þeirrar virkjunar. Er þar við nokkuð flókna jarðfræði að fást í Sandafelli þar sem jarðgöng hafa verið fyrirhuguð. Þetta tel ég rétt að fram komi vegna þess að menn eru að láta liggja að því, að undirbúningi og rannsóknum vegna þeirra virkjana, sem heimilda hefur verið aflað fyrir, væri mjög misjafnlega á veg komið, því verið haldið fram í þessari umr., áð Fljótsdalsvirkjun t.d. lægi þar eftir öðrum virkjunum. Það er ekki rétt staðhæfing. Þessar þrjár virkjanir mega teljast nokkuð jafnfætis hvað undirbúning og rannsóknir snertir.

Þá vil ég aðeins koma að því sem hér hefur fram komið, að vegna þess að ekki hefur verið tekin afstaða til röðunar virkjana hafi komið til verulegra tafa í sambandi við framkvæmdir og undirbúning vatnsaflsvirkjana. Þetta er ekki réttmætt. Það hefur verið unnið óslitið og með eðlilegum hraða að undirbúningi þeirra vatnsaflsvirkjana sem heimilda hefur verið aflað fyrir og hér er tillaga um hvernig ráðist verði í. Það er fyrst ef það dregst mikið úr þessu sem til alvarlegra tafa getur dregið í sambandi við undirbúning næstu vatnsaflsvirkjunar. Þetta er alveg nauðsynlegt að hv. þm. hafi í huga. Ég er ekki með þessu að bera af mér neinar ásakanir í sambandi við tillögugerð eða seinagang í málum. Ég tel þær ásakanir óréttmætar. En það verður hver og einn að dæma um það. Staðreynd er að þær hafa ekki orðið til þess að seinka undirbúningi og vinnu við þær vatnsaflsvirkjanir sem efst eru á blaði og fjallað er um í þessari þáltill.

Væntanlega vita allir hv. þm. að undirbúningur stórra og fjárfrekra mannvirkja gerist stig af stigi, og þó að verkhönnun þessara virkjana sé talið lokið eru margir rannsóknarþættir sem halda áfram á seinni undirbúningsstigum, samhliða gerð útboðsgagna viðkomandi virkjana, og þarf að verja til þess nokkru fjármagni. Mér finnst það alltaf dálítið einkennilegur málflutningur hér á hv. Alþingi þegar verið er að bera fram aðfinnslur við það, að reynt sé að vanda undirbúning fjárfrekra og þýðingarmikilla verkefna, og látið eins og það sé eitthvað nýtt fyrir hv. alþm. að það þurfi að setja saman skýrslur og greinargerðir áður en hægt sé að taka ákvarðanir. Ég held raunar að málflutningur af því tagi falli tiltölulega dauður og ómerkur hjá öllum þeim sem gaumgæfa þessi mál og hafa um flókin mál að fjalla, eins og hv. alþm. allir hafa, hver á sínum vettvangi og í sínum störfum.

Í sambandi við orkunýtingarmálin hefur því af ýmsum hv. ræðumönnum verið haldið fram, að ekki sé hægt að taka afstöðu til röðunar virkjunarframkvæmda vegna þess að það sé ekki búið að ganga frá orkumarkaðinum í hólf og gólf, hvernig eigi að nýta orku frá þeim virkjunum sem hér er gerð till. um. Ég furða mig nokkuð á þessum málflutningi. Það hlýtur að vera öllum augljóst, að ekki er skynsamlegt að fara hraðar í framkvæmdum en þannig að markaður og orkuframleiðsla haldist nokkurn veginn hönd í hönd, þó þannig að við séum öryggismegin í þeim efnum, að við teflum ekki á tæpt vað. Ég vil í því sambandi taka undir það sem fram kom í máli hv. 2. þm. Reykn., að við þurfum alltaf að hafa tilbúnar framkvæmdir til þess að geta hert á ef aðstæður breytast og bjóða að hægt sé að koma við aukinni framleiðslu í krafti okkar orku. Og það er raunar það sem verið er að gera með þeirri langtímastefnu sem hér er fram borin.

Ég held að það sé ekki á færi neins hér á Alþingi að segja fyrir um það, og væri óviturlegt að ætla að fara að slá því föstu, með hvaða hætti í einstökum atriðum við nýtum orku frá þeim þremur stóru orkuverum sem hér eru til umr. Þar hljótum við að haga hraðanum eftir því, sem markaður verður tryggður eða er fyrirsjáanlegur, og leitast við að stilla þetta saman. Mitt sjónarmið er það og ríkisstjórnarinnar í þessum efnum, að við Íslendingar eigum að hafa forustu í þeim málum, við undirbúning atvinnurekstrar í krafti okkar virkjana. Það hefur margoft verið endurtekið.

Það hefur verið rætt um að koma þurfi orkunni í verð. Ég tek sannarlega undir þau orð. Það þarf að koma orku í verð og það þarf að koma okkar orku í gott verð. Það þarf að tryggja það verð fyrir orkuna að það verði ekki íþyngjandi þáttur í okkar þjóðarbúskap. En viðhorfin eru að sjálfsögðu einfaldari í þeim efnum ef við höfum sjálfir tök á atvinnurekstrinum. Ef um viðskipti skyldra aðila er að ræða, ríkisins sem meirihlutaaðila í viðkomandi iðnfyrirtækjum og sem eiganda virkjananna, þá er það að sjálfsögðu heildarútkoman sem máli skiptir. En dæmið litur auðvitað talsvert öðruvísi út ef menn eru að fjalla um það út frá því sem nefnt hefur verið orkusölustefna, þ.e. að gera samninga fyrst og fremst við útlendinga um sölu á orku.

Inn í þessa umræðu hefur blandast umræða um álverið í Straumsvík, og það hefur verið undirstrikað hér af tveimur talsmönnum stjórnarandstöðunnar hvílík nauðsyn er að fá þar á leiðréttingu og fá þar hækkað raforkuverð. Ég vil alveg sérstaklega þakka fyrir þær áherslur sem fram hafa komið frá hv. talsmönnum stjórnarandstöðunnar, t.d. hv. 2. þm. Reykn. og hv. 6. þm. Reykv., í þessum efnum, og ég vænti þess, að við berum gæfu til að ná þarna fram breytingu. Það er einmitt samstaðan hér á löggjafarsamkomunni og samstaða í landinu um réttmætar kröfur sem ein getur tryggt okkur þann árangur sem við þurfum að ná í því stóra máli.

Herra forseti. Það eru aðeins fá atriði til viðbótar. Í síðustu ræðu, sem haldin var hér í gær, var beint til mín af hv. 11. landsk. þm. spurningu þess efnis, hvort samkomulag hafi tekist við heimamenn í Húnaþingi í sambandi við Blönduvirkjun. Ég vísa til þess samkomulags, sem fyrir liggur, og ég vísa til þeirra orða minna í ræðu hér í gær, að aðilar að þessu samkomulagi hafa ákveðið að bjóða sjötta sveitarfélaginu, sem hefur ekki gerst þar aðili, að verða þátttakandi í því, og láta á það reyna. Þetta verður að koma í ljós, þetta verður tíminn að leiða í ljós, hvort hægt er að skapa þannig víðtæka og fulla samstöðu allra sveitarfélaga á svæðinu til þessa máls á grundvelli þess samnings sem fyrir liggur. Ég heiti á alla hv. þm. að leitast við að koma þessu máli þannig fram að þokkalegur friður megi takast um það, því ef það verður ekki tel ég að verulegum hagsmunum sé stofnað í hættu. Ég tel að af þeim samningi, sem meiri hluti í fimm hreppsnefndum á Norðurlandi vestra hefur gerst aðili að, séu heimamenn fullsæmdir þó að þeir séu einnig þar á svæði sem telja að ekki hafi verið tekið það tillit til landnýtingarsjónarmiða sem þeir hefðu kosið. En eins og ég gat um er í þessari þáltill. sleginn varnagli varðandi það, að hverju skuli stefnt ef ekki tekst viðunandi samkomulag um Blönduvirkjun, þannig að skynsamlegt þyki að bestu manna yfirsýn, svo að ég noti tíðkanlegt orðalag, að ráðast þar í framkvæmdir. Ég vænti sem sagt að það megi takast og öldur megi lægja í þessu mjög viðkvæma og að mörgu leyti erfiða máli sem hefur lengi verið á dagskrá.

Hv. 4. þm. Vestf. beindi hér áðan til mín tveimur spurningum sérstaklega. Ég tel mig hafa svarað því sem lýtur að Landsvirkjun og hugmyndum hennar varðandi Búrfellsvirkjun II þannig að ekki þurfi þar við að bæta. Hv. þm. hinn sami spurði hvort orðalagið í greinargerð Landsvirkjunar um það, að tímasetning Blönduvirkjunar ráðist af markaðsaðstæðum, mundi þýða að Landsvirkjun sé ekki að leggja til að ráðist verði í Blönduvirkjun. Ég les það ekki út úr þessari greinargerð. Ég tel það skýrt fram dregið. (ÞK: Spurningin var hvort Landsvirkjun segði að það þyrfti að vera búið að ákveða stóriðjufyrirtæki.) Það hef ég ekki heldur, hv. þm., lesið út úr grg. Landsvirkjunar. Hitt er væntanlega öllum ljóst, að hraði þeirra virkjunarframkvæmda, sem hér er um rætt, hlýtur að fara eftir þróun markaðar og þeim viðhorfum sem menn hafa — bjartsýni eða svartsýni eftir atvikum — í sambandi við uppbyggingu markaðar fyrir raforkuna. En eins og fram kemur í grg. með þessari till., sem ríkisstj. ber hér fram, eru menn bjartsýnir á að okkar orkulindir geti í framtíðinni rennt stoðum undir fjölbreytni í okkar atvinnulífi, undir arðbæran atvinnurekstur, nýja þætti í okkar þjóðarbúskap, í formi orkufreks iðnaðar, þar sem við Íslendingar séum ráðandi og höfum tögl og hagldir. Sú er stefna ríkisstj„ að þeim undirbúningi er unnið og lögð einmitt sérstök áhersla á að hraða athugun mála varðandi orkunýtingarþáttinn. Það er beinlíms að því vikið í sjálfri þáltill.