31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3399 í B-deild Alþingistíðinda. (2981)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það hefur ýmislegt komið fram í þessari umr. sem vert væri að taka til nánari umfjöllunar, en áður en ég byrja á því ætla ég að fara nokkrum orðum um hreint aldeilis ótrúlegan póst sem ég fann í hólfinu mínu núna um hádegið. Þetta var með kveðjum frá Rafmagnsveitum ríkisins og var tilkynning til fjölmiðla frá samninganefnd virkjunaraðila um Blönduvirkjun. Ég er ekki óvanur að sjá blekkingar eða áróður með stimpli Rafmagnsveitna ríkisins, og ég er ekki heldur óvanur að sjá tilskrif frá Kristjáni Jónssyni rafmagnsveitustjóra. Þetta er þriðja sendingin sem hefur komið í hólfin okkar á örfáum dögum. Þessi söngur er oftast sá sami, og sumt af honum er eiginlega svo fáfengilegt að það er varla að taki því að vera að fjalla um hann, en ég held ég megi þó til að verja í það nokkrum mínútum.

Þessi áróður hefur í seinni tíð beinst að því að reyna að sverta hugmyndina um tilhögun II, og það hefur ekki verið lítið lagt undir ef eitthvað mætti finna til að sverta hana. Það hefur verið farið þar með gersamlega staðlausa stafi og er gert enn og aftur í þessu plaggi. Mjög villandi kostnaðarsamanburður er dreginn upp. Raunar ber að viðurkenna að það er erfitt að gera nákvæman kostnaðarsamanburð varðandi miðlun við Sandárhöfða vegna þess að ekki hafa farið fram fullnægjandi boranir við Sandárhöfða og það er mikið mein, en það er vegna þess að sumir ráðh. lögðust gegn því, að það yrði gert á s.l. sumri. Ef þetta lægi fyrir væru menn með miklu vissari tölur í höndunum, en þegar af þeirri ástæðu að það tókst að stöðva að farið yrði í þessar boranir er þetta allt saman lausara í reipunum og tölurnar ekki eins nákvæmar.

Í plaggi Rafmagnsveitnanna er fráleitur útreikningur varðandi bótakostnað. Það hefur iðulega komið fram að þessi uppræktunarkostnaður stenst ekki með nokkru móti. Þarna er gert ráð fyrir að borið sé á þriðja hvert ár, fyrst sé borið á á hverju ári, en síðan borið á þriðja hvert ár. Landgræðslan tekur þetta ekki í mál. Það eru einhverjir menn hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins sem tilkynna þetta, en Landgræðslan fellst ekki á það. Ég er með í höndum nýtt bréf frá Landgræðslunni, nýja útreikninga frá Landgræðslunni, um kostnað af þessu, þar sem kemur glögglega fram að hún telur árlegan áburðarkostnað, miðað við verðið í fyrra, 1595 kr. á hvern einasta hektara. Það þarf sem sagt að bera á þarna á hverju ári. Annað í þessu sambandi líka, sem á milli ber, er að það land, sem þarna er gert ráð fyrir að rækta, er ofan við 500 m yfir sjávarmál að verulegum hluta vegna þess að land í 400 m hæð er ekki til á þessu svæði. Þar af leiðandi er þetta allt saman enn þá ótraustara og óvissara. Það er miklu dýrara að standa við þennan samning en reynt er að láta í veðri vaka. Ég ætla að leyfa mér að lesa á bls. 3 dæmi um þennan áróður, sem ég talaði um, og þær blekkingar, sem b'eitt er í þessu máli. Það er b-liður 6. greinar í lesinu. Þar segir svo:

„Á Eyvindarstaðaheiði fer meira land undir vatn með tilhögun II en við tilhögun l. Þótt verulegt land sparist á Auðkúluheiði við 220 gígalítra miðlun stækkaði það landsvæði, sem fer undir vatn austan Blöndu, úr 13.5 ferkm. í 18.2 ferkm. eða um 4.7 ferkm. og við 400 gígalítra miðlun um 7.2 ferkm. í 20.7 ferkm. einnig austan Blöndu. Ekkert liggur fyrir um að auðveldara væri að ná samkomulagi við eigendur Eyvindarstaðaheiðar með slíkri aukningu á því landi sem þarna færi undir vatn.“

Þetta er ekki rétt. Við eigum ekki að tala um ferkm. í þessu sambandi. Það, sem máli skiptir, er hvaða land er gróið og hávaða land er ekki gróið. Við skulum tala um algróna hektara. Það vill svo vel til að Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur lagt á það mat, hvað er algróið á þessu svæði. Kemur í ljós að við valkost í austan og vestan Blöndu er að glatast algróið land upp á 5505 hektara, en við tilhögun II glatast ekki nema 2984 hektarar og er þó nóg. Þarna ber á milli 46% eða rúma 2500 hektara. Það er alveg út í hött að reikna grjótið jafnverðmætt og graslendið. Með því að hafa stíflu við Sandárhöfða nýtast undir miðlunarlón áreyrar og sandar við ána, sem ekki eru raunhæf í þessum samanburði. Reyndar fer nokkuð af góðu landi líka við tilhögun II, en það er ekki neitt miðað við það sem fargast ef hin aðferðin er viðhöfð.

Hér er sagt frá í þessu lesi, á bls. 3 í 7. lið, að sú breyting á veituleið, sem um hefur samist og felst í því að gera veituskurð úr Austara-Friðmundarvatni beint í inntakslón í Eldjárnsstaðaflá í stað þess að veita vatni um Fiskilækjarflá og Gilsvatn, sé til þess gerð að auðvelda rekstrarleið búfjár á Auðkúluheiði og hlífa Gilsvatni. Auk þess verði með þessari aðgerð möguleiki til að virkja fallið milli Austara-Friðmundarvatns og inntakslónsins og sé viðbótarkostnaður metinn á um 8 millj. kr. Þeir byrjuðu á að meta þennan kostnað á 18 millj. kr., en þeir eru lagnir að reikna hjá Rafmagnsveitunum og geta fengið út flest af því sem þeim dettur í hug, sýnist manni. Nú er þetta komið niður í 8 millj. kr.

Það er rétt að vekja athygli á því, að mörgum heimamönnum kom mjög spánskt fyrir sjónir hvaða akkur væri eiginlega í því að færa þennan skurð. Hann liggur að vísu ekkert óhaganlegar þar sem hann er fyrirhugaður núna. En hin leiðin var ekki miklu óhaganlegri. Maður gerir þá ráð fyrir að í Fiskilækjarflá hefði verið grafinn skurður, og þá hefði veituleiðin legið í gegnum Gilsvatn. Það er talað um að hlífa Gilsvatni þarna, en nú er fyrirhugað að stífla innrennslið í Gilsvatn eða taka af svonefndan Fiskilæk, sem frá fornu hefur legið á milli Austara-Friðmundarvatns og Gilsvatns. Þá breytist auðvitað Gilsvatn með því og verður ekki neitt í nánd það sama vatn, og einnig má reikna með að í það síist jökulvatn og þá fer að verða lítil hlífðin.

Heimamenn sáu ekki alveg, hvað væri fengið með því að færa skurðinn, og óskuðu eftir að fá útreiknað hvort þarna sparaðist beit fyrir kindur með þessu. Ingvi Þorsteinsson hjá Rannsóknastofnun landsbúnaðarins sló á það máli og fann út að þessi 8 millj. kostnaður sparaði hvorki meira né minna en beit fyrir 36 kindur. Svo er verið að tala um að við landverndarmenn séum með dýrar kröfur um breytingar á tilhögun, en þarna var allt í einu hægt að henda út um gluggann 8 millj.

Þessa peninga mætti sem hægast nota á betri og markvissari hátt. Í þessum samningi er nefnilega verið að bruðla með opinbera fjármuni. Það er ágætt að hv. alþm. geri sér grein fyrir því.

Hér bar á góma um daginn, frétti ég að var, — ég var að vísu ekki viðstaddur þá umr., ég var á þingi Norðurlandaráðs, — einkennilega ráðstöfun á spennistöð í Varmahlið í Skagafirði og rafmagnslinu þar, sem tveir ráðh. höfðu afhent bréflega á spennandi sveitarfundi norður í Varmahlíð.

Það má nefna ýmis fleiri dæmi ég ætla ekki að gera það í þessari umr. að svo komnu máli — um glannalega meðferð fjármuna, en gaman hefði ég af að vita ef ráðh. gætu svarað því, hver væri orðinn heildarkostnaðurinn við þessa samningagerð. Á ég þá ekki við bótakostnað framtíðarinnar, heldur hvað útlagt hefur verið til að koma samningum á, í flugferðum, þyrluferðum, ökuferðum, mannakaupi, hótelreikningum o.s.frv. Ég er ansi hræddur um að það sé að verða dálagleg summa, og gott væri að fá það upplýst.

Hæstv. iðnrh. leggur á það ríka áherslu í þessum umr. og kom inn á það í gær m.a., að breytingar á miðlunarlóni eða tilhögun virkjunar mundu hafa í för með sér að Blanda gæti ekki orðið næsta virkjun landsmanna. Þetta er auðvitað hin mesta firra. Hv. þm. Egill Jónsson benti á í ágætri ræðu sinni í gær hvílíkur hótanablær er á þessu. Það er verið að reyna að knýja menn til að samþykkja tilhögun, sem þeir mundu annars ekki fallast á, með því að annars fengju þeir ekki virkjunina. Það er nefnilega alveg sama hvernig þetta er reiknað, eftir hvorri tilhöguninni sem er, Blanda er alltaf langhagkvæmust. Hún er miklu hagkvæmari en Fljótsdalsvirkjun hvernig sem reiknað er og hvernig sem farið er að við tilhögun, miklu hagkvæmari en Sultartangi og með hverri tilhögun sem er talsvert hagkvæmari en Fljótsdalsvirkjun. Þetta er atriði sem vel má hafa í huga. Það er líka nógur tími til rannsókna, til að gera þær rannsóknir sem á vantar að hægt sé að ákvarða formlega aðra virkjunarleið en þessa númer eitt, vegna þess að í sumar verður að sjálfsögðu ekki unnið nema við undirbúningsframkvæmdir og við vegagerð. Þessi stífla í Blöndu kemur ekki inn fyrr en á síðari stigum verksins, og þar af leiðir að það er ekkert nema fyrirsláttur að ekki sé hægt tímans vegna og ekki svigrúm tímans vegna til að vinna þetta verk. Það þarf að bora við Sandárhöfða einhverjar holur og það tekur ekki mjög langan tíma. Síðan þarf að vinna úr þeim niðurstöðum sem þannig fást. En ef þær boranir bæru jákvæðan árangur, ef menn rækjust ekki á eitthvað óvænt, er hægt að ljúka þeim á einu sumri. Í versta tilfelli fengju menn ekki nóga heppilegan stað í fyrstu atrennu og þá gæti þetta dregist yfir á annað sumar, segja mér fróðir menn. Ég skal ekki meta líkurnar á því, en þessi stífla verður hvorki byggð í sumar né næsta sumar svo að þetta er ekkert nema fyrirsláttur.

Nú sé ég, herra forseti, að nú er kominn sá tími sem ég boðaði þingflokksfund. Ég hef enn ekki lokið ræðu minni. (Forseti: Ég vil þá biðja þm. að fresta henni.) Ég á nokkuð eftir og mun að sjálfsögðu fúslega verða við því að fresta máli mínu. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni, þegar ég gerði hlé á henni fyrir þingflokksfundi, að ég ætlaði að fara nokkrum orðum um aðfarirnar við þessa samningagerð, og ég get ekki annað sagt en ég tel að þær hafi verið ljótar. Það hefur verið beitt miklum þrýstingi og iðulega óeðlilegum þrýstingi — ekki bara af hálfu þeirra manna sem settir voru til þess af hinu opinbera að koma samningi á, heldur einnig af áhugamönnum og kappsmönnum úr liði þeirra Blöndunga. Einstakir hreppsnefndarmenn hafa verið hundeltir. Skuldugum bændum hefur verið hótað. Bankafyrirgreiðsla hefur verið tengd úrslitum í Blöndumálinu. Meira að segja leikur grunur á að leiguliðar hins opinbera hafi verið látnir skilja hvernig þeir eigi að haga sér. Fréttaflutningur af þessum málum öllum hefur verið með mjög áróðurskenndum blæ oft og tíðum — að vísu á báða bóga, en þó held ég að þeir, sem samninga vildu hvað sem það kostaði, hafi haft ansi mikið yfirhöndina. Fundargerðir hafa ekki verið færðar jafnóðum, ekki lesnar upp í fundarlok, heldur hafa þær verið færðar eftir á og sendar fundarmönnum heim til sín síðar. Þar hefur verið oft og tíðum dregið sérstaklega fram það sem virkjunaraðilar vildu heyra fremur en það sem þeir ekki vildu heyra.

Ég get nefnt dæmi um fund sem landverndarmenn héldu með samninganefnd norður í Varmahlið í vetur. Þetta var töluverður fundur þar sem landverndarmenn komu sjónarmiðum sínum á framfæri við samninganefnd og töldu að með því næðu þeir í gegnum fundargerð eyrum ráðherranefndar og þeirra manna sem áttu að taka ákvörðun í málinu. Þeir áttu þarna langan fund og gerðu grein fyrir máli sínu, og þeir þóttu viðræðugóðir, samninganefndarmennirnir. Þessa fundar var hvergi getið utan í annarri fundargerð frá hreppsnefnd Svínavatnshrepps. Þar sögðu samninganefndarmenn ferðasöguna og hvað þeir hefðu gert undanfarna daga, og þá sögðu þeir eitthvað á þá leið, að þeir hefðu átt fund með náttúruverndarmönnum í Seyluhreppi og leiðrétt margs konar misskilning, eins og þeir sögðu. Annað var ekki sagt frá því.

Það hefur verið reynt að þegja yfir þeirri andstöðu sem alla tíð hefur verið fyrir hendi. Það hefur verið reynt að dylja hana fyrir samfélaginu og hafa þannig áhrif á ákvarðanatöku hér syðra og á almenningsálitið í landinu. Það kann að vera að landverndarmenn hefðu átt að láta fara meira fyrir sér á einhverjum stigum málsins. En þeir eru ekki hávaðamenn og almenningur þarna fyrir norðan trúði því ekki, að til þess arna kynni að reka sem nú hefur komið á daginn.

Það væri eðlilegt að fara nokkrum orðum um lögfræðihlið málanna. Hvernig skyldi lögformlegur réttur bænda fyrir norðan hafa verið tryggður? Jú, virkjunaraðili tók að sér að greiða lögfræðiaðstoðina og bauð fram duglega og fræga lögfræðinga til þess arna. Fyrrv. alþm. Björn á Löngumýri dró í efa að þetta væri skynsamlegt fyrirkomulag. Að vísu tók hann fram að hann væri ekki að áfellast þessa sérstöku lögfræðinga, en sín reynsla af lögfræðingum væri sú, að þeir ynnu fyrir þann sem greiddi þeim launin, og vitnaði í þetta gamla máltæki: Sá á hund sem elur. — Þetta voru góðir lögfræðingar. Ég held að það hafi verið ómaklegt hjá Birni að láta í það skína að þeir hafi ekki viljað gæta sæmilega réttar bænda fyrir norðan, en þeir vildu fyrst og fremst drífa á samkomulag og fá þetta mál út úr heiminum. Þetta eru duglegir menn og hafa sjálfsagt ekki nennt að vera að standa í þessu þrasi mjög lengi, enda dálítil hætta á að það hefði spillt fyrir þeim heimilislífi og starfsskilyrðum hér fyrir sunnan. Það vildi nefnilega svo skemmtilega til, að aðallögfræðingur norðanmanna, Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur fyrir Auðkúluheiði, rekur lögfræðiskrifstofu með lögfræðingi virkjunaraðila, Hirti Torfasyni, þannig að ef þeir hefðu farið að akneytast eitthvað hvor í öðrum þarna fyrir norðan, þá hefði það getað haft óheppileg áhrif yfir skrifborðið hérna fyrir sunnan. Þetta er mannlegur þáttur og skiljanlegur. Ég er ekki að segja að þeir hafi ekki viljað að okkar réttur væri tryggður. En númer eitt hjá þessum mönnum öllum var að koma á samkomulagi og láta ekki stranda samkomulagið.

Það hefur verið lögð mikil vinna í að egna hreppana hvern gegn öðrum og reynt að ala á tortryggni manna austan Blöndu gegn Auðkúluheiðarmönnum, leiða þeim fyrir sjónir að Auðkúluheiðarmenn mundu hafa meiri hag af breytingum á lónstæði en Eyvindarstaðaheiðarmenn. Þetta er ljót saga. Meira að segja lét hæstv. landbrh. sér um munn fara langan lestur á fjórðungsþingi á Húsavík í haust þar sem hann var að reyna að leiða Eyvindarstaðaheiðarmönnum fyrir sjónir hvað þeir mundu fara illa út úr því ef breytt yrði um tilhögun. Þarna er deila fyrir hendi og er ekkert óeðlilegt að svo sé, því að þetta er mikið mái. Það er um stórt að deila. Það er verið að della um hvern rétt lífið í sjálfu sér eigi. Þarna á að sökkva 5505 hekturum af algrónu landi. Ég bið menn að hugleiða: Þetta eru 0.24% af öllu gróðurlendi Íslands. Þetta er á annan hektara af hverri einustu bújörð á Íslandi. Það er eins og skák, sem væri eitthvað meira en 100 m á kant, væri tekin af hverri einustu bújörð á Íslandi. Þetta er miklu stærra land en grætt hefur verið upp fyrir þjóðargjöfina og með miklu traustari og náttúrlegri gróðri.

Það er auðvitað ekki hægt að komast af án rafmagns, og það væri fásinna að ætla sér að ekki þyrfti e.t.v. að fórna einhvern tíma og einhvers staðar grónu landi. Það getur verið ill nauðsyn og það erum við reiðubúnir að gera. En við viljum láta spara það gróna land sem sökkt er. Það vill svo til að það er óþarfi að sökkva nær helmingnum af þessu landi. Það er hægt að fá jafngóða virkjun og spara samt nærri helminginn af þessu landi. 2500 hektara er leikur einn að spara. Það reiknaði einhver töluglöggur alþm. út hérna í gær, að ef sá kostnaðarmunur, sem RARIK-menn hafa verið að tala um, væri raunhæfur og ef farið væri eftir virkjunartilhögun II og hann kæmi fram í rafmagnsverði til fjölskyldna í landinu, þá mundi hver fjölskylda í landinu verða að greiða 5.50 kr. meira á ári fyrir rafmagn. Það mættu kallast björgunarlaun á þessum 2500 hekturum.

Hæstv. iðnrh. talaði um að það hefði verið lögð alúð við þessa samningagerð og það hefði verið tekið mikið tillit til náttúruverndar og umhverfismála. Ég get ekki tekið undir það. Ný þjóðargjöf getur ekki skapað þetta land eða annað jafngott. Það er hlálegt, eins og ég minntist á í gær, að hæstv. iðnrh., sem einu sinni var talsmaður Náttúruverndarráðs, ákaflega langorður talsmaður Náttúruverndarráðs, skuli verða til þess að gera þetta. Það er von að hann tali um Þjórsárver. Það er von að hæstv. iðnrh. veki athygli á að Þjórsárverum hafi verið bjargað, og það er gott svo langt sem það nær. En það verður enginn „stikkfrí“ á því svo að hann megi gera allt sitt líf allra handa hervirki bara fyrir að hann hafi komið á björgun Þjórsárvera.

Það, sem ber á milli þessara tveggja tilhagana, er jafnstórt land og allt byggingarsvæði Reykjavíkur, eins og öll Reykjavíkurbyggð. Reykjavíkurborg stendur á 25 ferkm.

Ég læt útrætt um þetta miðlunarlón. En það er hægt að gera fleiri breytingar á tilhögun. Það er hægt að færa inntakslón virkjunarinnar. Það er hægt að hafa á öðrum stað, í svokölluðu Austara-Friðmundarvatni, og með því að færa stöðvarhús. Þetta er hugmynd sem mundi spara nokkra ferkm. af ágætu landi sem liggja nærri byggð og eru mjög hagkvæmt beitiland. Til þess arna, það skal viðurkennt, þarf miklar rannsóknir og þá yrði að færa stöðvarhús. Það kostar náttúrlega talsvert miklar rannsóknir, en þetta væri einn möguleikinn til að gera þetta aðgengilegra.

Það er reyndar ekki sjálfgefið í svona rannsóknum að menn hitti strax á æskilegasta kostinn. Menn þurfa að prófa sig áfram og leita að bestu lausninni. Landsvirkjun breytir sínum áætlunum. Við urðum varir við það í umr. fyrr í dag, að áætlanir Landsvirkjunar eru meira að segja breytingum undirorpnar, og hefur þó Landsvirkjun tvímælalaust yfir að ráða bestu og færustu og vönustu vatnsvirkjunarverkfræðingum landsins. Stórisannleikur frá því í fyrra um næstu skref í orkuöflun á Landsvirkjunarsvæðinu er allt í einu orðinn vafasamur nú á vordögum. Nú eru menn farnir að tala um aðra röð framkvæmda og breytta frá því sem verið var að tala um þegar heimildarlögin voru til umr. í fyrra.

Þennan Blöndusamning á auðvitað að gera við Landsvirkjun vegna þess að Landsvirkjun kemur til með að reisa mannvirkið og bera ábyrgð á því og lifa með fólkinu og eiga viðskipti við fólkið þarna fyrir norðan til frambúðar, og það munar ekkert litlu fyrir virkjunaraðila að hafa frið við heimamenn. Það hefur komið fram í umr. áður og á það benti hæstv. iðnrh. fyrr í dag, að stjórnarformaður Landsvirkjunar var einn af mörgum mönnum í þessari samninganefnd og hann var einn af mörgum ráðgjöfum ráðh. En hann hafði ekki sína húskarla í rannsóknum þarna fyrir norðan og hann hafði ekki sína aðstoðarmenn frá Landsvirkjun með sér í þessum samningum. Það voru Rafmagnsveitur ríkisins sem höfðu forustu um samningagerðina.

Það er dálítið sérstætt með stjórnarform Rafmagnsveitna ríkisins. Ég er ekki alveg viss um að allir hafi tekið eftir því, að þær lúta ákaflega tiginni stjórn. Einn af ráðh. í ríkisstj. er stjórnarformaður í Rafmagnsveitum ríkisins. Hæstv. landbrh. er stjórnarformaður Rafmagnsveitna ríkisins. Ég held að það sé sem betur fer nokkuð fágætt að ráðherrar séu jafnframt stjórnarformenn í mjög umsvifamiklum ríkisstofnunum. (FrS: Bráðabirgðaríkisstjórn.) Það kann að vera að þetta sé bráðabirgðaríkisstjórn, en einhvern veginn held ég að hefði tekist að finna mann til að taka við stjórnarforustu hjá RARIK þegar þjóðfélagið þurfti á starfskröftum hæstv. landbrh. að halda í landbrh.-stóli. Þetta er nefnilega, þegar grannt er skoðað, samningur Pálma Jónssonar, hæstv. landbrh., við nokkra kjósendur í Norðurlandskjördæmi vestra. Það er þá ekki á góðu von, enda er þessi samningur að flestu leyti dæmi um hvernig samningur eigi ekki að vera.

Í fjöldamörgum atriðum er hann ákaflega óljós. T.d. er ekki slegið föstu hvort miðlunin verði 400 gígalítrar eða 200 gígalítrar. Það er varnagli fyrir 200 gígalitrum með alveg kostulegu orðalagi sem ég ætla ekki að tefja fundinn með því að fara að lesa upp. Ég er ekki með samninginn í höndum, en ef einhver hv. þm. vildi færa mér hann væri ég tilbúinn að benda á það. (Gripið fram í.) Nei, þessi er gamall. Þessi samningur gefur bændum ekki sæmilegar bætur eða neinar tryggingar. Aftur á móti er hann ákaflega dýr fyrir almenning í landinu, langtum dýrari en ástæða er til. Í honum morar af greinum sem eru alveg óþarfar. Þarna eru taldir upp vegir, girðingar og brýr í belg og biðu. Sumt af þessu er þarft, en sumt kemur þessu máli ekkert við. (Gripið fram í.) Já, það kann að vera, hv. þm., að styrjaldir kosti alltaf eitthvað.

Hér hef ég fengið í hendur samning þennan. Nú ætla ég að lesa fyrir ykkur b-liðinn úr 1. gr., með leyfi forseta:

„Við gangsetningu Blönduvirkjunar mun virkjunaraðili viðhafa þá aðferð að auka vatnsmagn í miðlunarlóninu þannig að vatnshæð sé í upphafi miðuð við 220 gígalítra miðlunarrými og fari ekki hærra fyrr en nauðsynlegt er vegna miðlunarþarfar í landskerfinu. Skal samráðsnefnd samkv. 2. gr. fylgjast með aðgerðum í þessu efni og er heimilt að skjóta ágreiningi um þær til ráðh. Í samræmi við f-lið hér á eftir verða botnlokur og/eða lokubúnaður miðaðar við að gera þetta kleift. Meðan vatnsborð er lægra mun virkjunaraðili nota tímann til að kanna, hvort aðstæður séu til að bjarga gróðurlendi undan vatni umfram það sem áætlað var, og ber að leggja á það sérstaka áherslu.

c. Virkjunaraðili gerir í janúarmánuði ár hvert rekstraráætlun fyrir virkjunina þar sem fram komi áætluð orkuvinnsla á miðlunarstað. Þegar miðlunarrými í landskerfinu er orðið svo mikið að ekki sé nauðsynlegt að fylla öll miðlunarlón skal, eftir því sem við verður komið, takmarka vatnssöfnun í Blöndulóni í því skyni að bjarga gróðurlendi undan vatni til lengri tíma.“

Það litur eiginlega svo út að þeir ætli að hafa þarna um einhver ár, meðan verið er að byggja Fljótsdalsvirkjun, allt á kafi, en síðan eigi að tappa af-og búast menn þá við að fá eitthvert stararengi þarna undan leirnum? Ég veit ekki til hvers menn eru að setja svona kúnstir í samning.

Síðan kemur í d-lið: „Við endanlega gerð miðlunarlónsins skal tekið sérstakt tillit til allra möguleika á landvernd á Galtarársvæðinu, og ber að hafa í huga menningarsögulegt gildi þess að forðast þar óþarfa landspjöll. Skal það jafnframt gilda um vinnutilhögun á Galtarársvæðinu meðan á virkjunarframkvæmdum stendur.“ –Ég held að það sé nokkuð sama hvernig þeir andskotast á því sem fer í kaf. — „Haft verði samráð við þjóðminjavörð um framkvæmd ofangreindra atriða.“ (Gripið fram í: Landsbókavörð.) Nei, það er ekkert minnst á landsbókavörð. Nú kemur rúsínan í pylsuendanum: „Í framhaldi þess mun virkjunaraðili kanna hvort unnt sé að loka fyrir Langaflóa, þannig að hann fari ekki undir lónið, og þá leiða burt það vatn sem við það mundi í hann safnast. Mun virkjunaraðili gera þessa ráðstöfun ef niðurstaða hans verður sú, að hún sé framkvæmanleg án verulegs kostnaðarauka.“

Ég get fullyrt það hér og nú, að þessi aðgerð er ekki framkvæmanleg án verulegs kostnaðarauka. Þetta skal ég sanna með því, að vatnið úr Langaflóa rennur til Galtarár og til þess að vatnið renni þarna þarf það að fara niður í móti. Ef ætti hins vegar að leiða það burt þarf það að fara upp í móti. Það fullyrði ég meira að segja stjórnarformaður Rafmagnsveitna ríkisins getur ekki látið vatnið gera án verulegs kostnaðarauka. (Gripið fram í: Dæla því.) Það kann að vera að hann komist upp á lag með að dæla,en af því held ég að hljóti að vera nokkur kostnaður.

Svona er þetta, það er nærri sama hvar gripið er niður í þessum samningi. Þetta er allt á þessa bók lært. Inn í hann eru komin mörg atriði sem ákaflega litlu máli skipta, og það er vegna þess að einhvers staðar í öllu þessu umtali, því að þetta eru orðnir langir og margir fundir, hefur verið minnst á: Jú, gott að hafa brú á þessum læk, skrifaðu brú. - Og svo hefur verið skrifuð brú. Safnast þegar saman kemur. En ærnar okkar eru ekkert of góðar að vaða margar þessar ár og þær taka það ekki nærri sér og getur meira að segja verið heldur hagur að því að hafa lækina til að standa fyrir þeim svo að þær hlaupi ekki heim ef það gerir él á sumrin.

Þessum samningi hefur verið böðlað á með óeðlilegum hætti. Okkur hefur verið sýnd fádæma stífni og þvermóðska. Það hefur verið beitt þrýstingi langt umfram það sem sæmilegt er. Svo er hæstv. iðnrh. að tala um að hann vonist nú til að öldur fari að lægja þarna fyrir norðan. En ég get fullvissað hann um að það er alveg borin von ef haldið verður áfram á þessari braut því að öll þessi vinnubrögð hafa miðað að því að klúðra málinu og herða hnútinn.

Ég er alveg inni á að Blöndu eigi að virkja næst, en til þess að svo megi verða verður að laga þessa tilhögun því að annars fæst ekki friður um málið. Það verður að koma á samkomulagi sem menn geti sæmilega við unað. Þá getum við reist skynsamlega virkjun þarna, örugga og hagkvæma. Það má ekki böðlast á fólki til að taka af því eignir þess, sem ekki eru falar, taka af því land til eyðileggingar. Ég tek það fram, að við værum a.m.k. ekki að sjá neitt viðlíka mikið eftir þessu landi ef við ættum að láta það af hendi til einhverra annarra nota. Ef við t.d. þyrftum að hjálpa nágrönnum okkar Vatnsdælingum um beitiland mundum við ekki sjá nærri eins mikið eftir landinu. Við mundum taka því góðmótlega. Við mundum lofa þeim að beita á þetta land og jafnvel selja þeim það ef til kæmi. En það er allt annað að eyðileggja land í eitt skipti fyrir öll. Það verður ekki aftur tekið og á því er meira en stigsmunur.

Fólkið þarna sér ekki nauðsynina. Það sér ekki þá þjóðarnauðsyn að taka allt. Það sér nauðsyn þess að taka nokkuð, en ekki nauðsyn þess að taka allt, enda logar allt í deilum. Málaferli eru á næsta leiti ef svona verður áfram haldið. Ég trúi því ekki, að hv. alþm. skilji ekki þetta mál. Það eru að vísu nokkrir sem ég veit að skilja það ekki, en ég trúi því ekki, að það sé þingmeirihluti fyrir svona aðferðum.