31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3409 í B-deild Alþingistíðinda. (2983)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umr. og meta það meira að mál þetta kæmist til nefndar. En eftir þá ræðu, sem hv. þm. Páll Pétursson hefur flutt hér í dag í tvennu lagi, sé ég mér ekki fært annað en að gera örfáar athugasemdir.

Öllum er að sjálfsögðu kunnugt um að þessi hv. þm., 1. þm. Norðurl. v., hefur verið andvígur Blönduvirkjun frá öndverðu og barist gegn henni. Hann hefur að vísu nú hörfað í það að segjast vilja samþykkja virkjunarkost II og er það að sjálfsögðu nokkur framför. Andstaða þessa hv. þm. við þetta mál er öllum kunn. Hann sækir mál sitt af kappi og stundum með stóryrðum, stærri orðum en hv. alþm. leyfa sér yfirleitt að láta sér um munn fara.

Ég hefði ekki séð ástæðu til að fjalla um ræðu þessa hv. þm. sem hann flutti hér í gær, enda þótt þar væru að mörgu leyti veilur í málflutningi og margar missagnir, en þegar hann hefur ræðu sína í dag veitist hann að fjarstöddum mönnum með þeim hætti sem ég get ekki látið fram hjá fara án þess að gera athugasemdir við.

Hv. þm. vekur athygli á því, að dreift hefur verið til Alþingis og fjölmiðla greinargerð frá samninganefnd virkjunaraðila um Blönduvirkjun. Hv. þm. Páll Pétursson hefur þau orð um þetta plagg, að í því séu fjölmargar blekkingar og áróður og að þetta muni búið út af einhverjum mönnum hjá Rafmagnsveitum ríkisins og að hann sé ýmsu vanur frá þeirri stofnun. Látum vera að hann hefði getað tengt það við mig, að bera á mig blekkingar og áróður. Ég er hér til andsvara sem formaður stjórnar þessarar stofnunar. En vitaskuld er það ekki ég sem hef staðið að samningu þessa fréttapistils, heldur sú samninganefnd ríkisins sem hér á hlut að máli. Í þessari samninganefnd eiga sæti Jóhannes Nordal, Kristján Jónsson, Jakob Björnsson, Tryggvi Sigurbjarnarson, Guð jón Guðmundsson og Sigurður Eymundsson. Ég tel það viðurhlutamikið að bera á þessa menn að þeir láti fara frá sér plagg til fjölmiðla og Alþingis sem feli í sér blekkingar og áróður. Það kom vitaskuld greinilega fram í máli hv. þm., að hann átti við að hér væri um vísvitandi blekkingar og vísvitandi áróður að tefla.

Nú er ekki þar með öll sagan sögð. Þessi fréttatilkynning byggist á útreikningum frá öðrum stofnunum, frá öðrum fyrirtækjum en hér eiga hlut að máli, og frá undirmönnum þeirra forustumanna í raforkumálum sem átt hafa og eiga sæti í samninganefnd ríkisins. Hv. þm. lét sér t.a.m. um munn fara að útreikningar varðandi bótakostnað stæðust ekki með nokkru móti og einhverjir menn hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefðu búið þetta til, fundið þetta út.

Þeir menn, sem lögðu hönd að því verki að yfirfara og reikna út nú síðast bótakostnað vegna uppgræðslu, bæði stofnkostnað og viðhaldskostnað, voru dr. Björn Sigurbjörnsson forstjóri RALA, dr. Ólafur Guðmundsson deildarstjóri hjá RALA, Ingvi Þorsteinsson deildarstjóri hjá RALA, og í fullu samráði við Landgræðslu ríkisins, landgræðslustjóra. Hv. þm. hefur gefið hér í skyn hvað eftir annað, að það séu mikil skil á milli þeirra manna sem starfað hafa að málinu hjá Rannsóknarstofnun landbúnaðarins annars vegar og Landgræðslu ríkisins hins vegar. En þau skil voru ekki merkjanleg í þessum útreikningum.

Hv. þm. rangfærði — og getur verið að hann hafi tekið rangt eftir í þessum útreikningum — að miðað væri við það að áburðargjöf skyldi verða þriðja hvert ár á viðhaldstíma gróðurlenda, en hið rétta er að reiknað er með áburðargjöf annað hvert ár. Þá er reiknað með að bera 375 kg á hektara, sem er 25% meira en venja er í slíkum tilvikum, og er sagt að það sé gert vegna sveiflna í árferði. Ég ætla ekki að fara út í tölur í þessu sambandi, þetta liggur fyrir. En ég vildi vekja athygli á því, að í mörgum greinum er hér verið að bera á fjarstadda forustumenn, sem trausts njóta hjá þjóðinni, falsanir, blekkingar eða áróður. Ég tel þetta ekki viðeigandi jafnvel þó menn vilji sækja mál sitt fast hér á hv. Alþingi og berjast allharkalega fyrir sínum sjónarmiðum, sem hverjum og einum er að sjálfsögðu leyfilegt.

En þetta mál nær vitaskuld enn þá lengra í áburði um blekkingar og áróður. Hér var talað um að rangfærðir væru útreikningar á virkjunarkostum. Að því verki að bera saman kostnað við virkjunarkosti og ýmsan marktækan samanburð hvað hann snertir hafa starfað fyrst og fremst Orkustofnun undir forustu Jakobs Björnssonar og Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens. Einnig hefur Landsvirkjun komið þar við sögu, svo sem greina má í grg. þeirrar þáltill. sem hér liggur fyrir. Þeir útreikningar, sem finna má m.a. í þessu plaggi, eru á ábyrgð þessara aðila, og ég ítreka að ég tel ekki viðeigandi að telja alla þessa starfsmenn raforkuiðnaðarins, forustumenn í raforkumálum og forustumenn stofnana landbúnaðarins áróðursmenn sem fari með blekkingar. Það er ekki viðeigandi.

Hv. þm. gerir tíðum samanburð á virkjunartilhögun I og virkjunartilhögun II. Hann sagði í upphafi ræðu sinnar í dag að það væri ítrekuð viðleitni af hálfu þeirra aðila, sem ég hef hér greint og standa að baki þeim útreikningum sem þessi fréttatilkynning byggir á, — ítrekuð viðleitni til þess að sverta virkjunarkost II. Þegar hv. þm ber þessa tvo virkjunarkosti saman virðist mér, ef eitthvað er hægt að ráða í hans málflutning, að hann beri saman virkjunarkost I með 400 gígalítra lóni og virkjunarkost II kannske stundum með 220 gígalítra lóni, kannske stundum með 160 gígalítra lóni. Hann komst að þeirri niðurstöðu í dag að ef farið væri í virkjunarkost II væri það land, sem tapaðist einhvers staðar nálægt 29 km2. Ef á það er lítið, hvernig þetta kemur út samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja — og ég tel hvorki blekkingar né áróður — þá er það land, sem fer undir miðlunarlón við virkjunarkost í við Reftjarnarbungu með 400 gígalítra lóni, 56.6 km-. Ef farið er í virkjunarkost II við Sandárhöfða með 400 gígalítra lóni fara undir vatn 44.3 km2. Mismunurinn er rúmir 12 km2, en alls ekki eins og fram hefur komið í máli hv. þm. Páls Péturssonar þar sem hann talar um að bjarga megi um helmingi landsins, sem fer undir vatn, með því að fara í kost II. Ef talið hefði verið fært af sérfræðingum orkumála að virkja Blöndu nú með 220 gígalítra lóni eru þessar tölur þannig að við Reftjarnarbungu færu undir vatn 40.3 km2 en við Sandárhöfða 35 km2. Hér skakkar því mjög miklu og ég hygg að einhverjum kynni að detta í hug áróður eða blekkingar þegar tiltekinn hv. þm. talar á þann veg sem hann hefur gert í mörgum efnum, m.a. í því að bera saman virkjunarkosti með ósambærilegu móti, þannig að virkjunarkostur I er ævinlega hafður með 400 gígalítra lóni en virkjunarkostur II með miklum mun minna, sennilega einhvers staðar fyrir neðan 200 gígalítra lóm, ef á að vera hægt að fá þær tölur til að koma heim og saman.

Þetta vildi ég láta koma fram varðandi þann samanburð og þær aðdróttanir, sem fram komu í upphafi ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v. hér í dag, og ítreka að ég mótmæli því og raunar harma það, að einn hv. þm. leyfir sér úr þessum ræðustól að bera á fjölda forustumanna, sem ekki eiga þess kost að svara hér fyrir sig, blekkingar og áróður, að þessir menn, forustumenn stofnana í raforkuiðnaði, starfsmenn verkfræðiskrifstofa, forustumenn stofnana í landbúnaði, þeir láti gögn frá sér fara á grundvelli blekkinga og áróðurs. Ég met það svo að enginn hv. þm. léti sér til hugar koma að halda svo á sínu máli fyrr en í nauðir væri rekið og rökin þrotin.

Hv. þm. skopaðist að því, að við breytingu á veituleið samkv. tölul. 7 í þessari fréttatilkynningu væri verið að bjarga, eins og hann orðaði það, landi fyrir 36 kindur fyrir 8 millj. kr. Nú ætti að vera það samræmi í málflutningi hv. þm., að hann fagnaði því að takist að forða landi frá því að lenda undir vatn, eins og hann orðaði það, að bjarga landi sem þyldi beit fyrir 36 kindur. En þó að þetta sé gott og blessað og styðji auðvitað fremur en hitt þessa breytingu, þá er þetta ekkert aðalatriði málsins og raunar ekki á það litið þegar ákvörðun var tekin um að gera þessa breytingu.

Meginmálið er það, sem kemur raunar fram í texta, að við þá breytingu, sem gerð er að færa veituleiðina lítið eitt austar, vex svigrum fyrir meginþunga fjársafnsins sem kemur af heiðinni vestan veituleiðarinnar. Það vex svigrum á færu landi, en þar vestar er nokkuð mikið mýrlendi og fenjasvæði þannig að talið var af kunnugum mönnum, og ég er þar sjálfur nokkuð kunnugur, að þetta hefði verulegt gildi. Þetta var auðvitað sjálfsagt að gera með tilliti til þess, að í frumgögnum þessa máls er frá því greint, að með því að færa veituleiðina eins og hér hefur verið ákveðið sé mögulegt að virkja fallið á milli Austara-Friðmundarvatns og inntakslóns og sagt að líklegt megi telja að það verði gert síðar. Þegar við stöndum frammi fyrir því, að líklegt sé að slík breyting verði gerð síðar til að virkja fallið, þá er vitaskuld sjálfsagt að fara þessa leið þegar í upphafi og forðast þannig rask og óþörf landspjöll, um leið og það hagræði fylgir sem ég hef áður getið um varðandi rekstrarleið afréttarpenings.

Það þarf þess vegna ekki að vera að skopast að þessu atriði, ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta var eðlileg og sjálfsögð lagfæring á þessari veituleið. Og raunar man ég að á kynningarfundi um þetta mál fyrir meira en ári í Húnaveri minntist ég þegar á breytingu í þessa átt. Mér þykir vænt um að allir urðu sammála um að sjálfsagt væri að gera þessa breytingu.

Hv. þm. Páll Pétursson hóf mál sitt í seinni hluta ræðu sinnar með því að segja að aðferðir hefðu verið ljótar við samningagerð, það hefði verið beitt miklum þrýstingi, skuldugum bændum hefði verið hótað, bankafyrirgreiðsla hefði ráðist af því, hvernig úrslit yrðu í Blöndumálinu, grunur léki á að leiguliðum á ríkisjörðum hefði verið tilkynnt hvernig þeir ættu að haga sér. Hér eru aðdróttanir sem mér koma jafnvel enn meira á óvart en hinar fyrri. Og þessar aðdróttanir verða skráðar í þingskjöl, Alþingistíðindi. Ég hlýt að mótmæla því, að einhverjum óeðlilegum þrýstingi, hvað þá viðbrögðum af þessu tagi, hafi verið beitt í þessu máli. Það er a.m.k. mér gersamlega ókunnugt um. Og ég trúi því ekki, að þeir menn, sem starfað hafa á vegum ríkisins að samningagerð og unnið hafa að því að ná þessu máli saman, hafi nokkru sinni látið sér til hugar koma að beita slíkum aðferðum. Vitaskuld er það rétt, sem fram kom í máli hv. þm., að kapp var lagt á að ná samningum. Það var auðvitað farið í það að leita samninga til þess að ná þeim. Það tókst að ná þessum samningum, og þegar það hafði tekist luku þeir menn, sem að því stóðu af beggja hálfu, upp einum rómi um að að samningum hefði verið unnið af lipurð, af þrautseigju, af drengskap og af vilja til þess að ná samningum þannig að aðilar mættu sæmilega við una. Sá dómur var annar en sá sem við heyrðum úr þessum ræðustól áðan. Ég hlýt einnig að harma það, að þetta sama kom fram hjá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, þótt það væri með kurteislegum orðum flutt að sjálfsögðu. Ég dreg mjög í efa að sá hv. og ágæti þm. sé því mjög kunnugur, hvernig að þessum málum hefur verið staðið. Sjálfsagt hefur í einstökum tilvikum mátt betur gera, en ég hlýt að harma það, að hann virðist standa í þeirri trú, að það hafi verið gert, eins og hann orðaði, með hótunum og ögrunum.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um það öðru leyti en því, að ég beini því til hv. alþm., hvort líklegt sé að meiri hluti hreppsnefndarmanna í fimm hreppum hafi skrifað undir samninga undir hótunum og ögrunum. Þá leggja þeir menn, sem þannig hugsa, annað mat á þá menn, sem eru í forustusveit sveitarfélaga í mínu kjördæmi, heldur en ég geri. Að hér sé samningur Pálma Jónssonar við nokkra kjósendur sína á Norðurlandi vestra, það er auðvitað hrein fjarstæða, en vel þætti mér svo ef svo væri. Vel þætti mér ef þeir ágætu menn, sem stutt hafa að þessu máli úr heimahéraði og styðja þessa samninga í mínu kjördæmi, væru kjósendur mínir, hver og einn einasti. Það þætti mér vel. En ég læt mér ekki til hugar koma að svo sé. Álitamál kann að vera hvort hv. þm. Páll Pétursson vill halda því fram, að allir þeir, sem eru á móti þessum samningum, séu hans kjósendur, og þá a.m.k. það, hvort þeir, sem eru með samningunum, geti alls ekki hugsað sér að kjósa hann eða þá sem hann er fulltrúi fyrir. Sleppum því, en svona innskot sýna auðvitað með mörgu öðru að það eru ekki röksemdir, heldur sleggjudómar og fáránlegar yfirlýsingar sem hafa orðið bardagaaðferðir þessa hv. þm.

Ég skal ekki hafa miklu fleiri orð um þetta mál. Ég vil aðeins segja það varðandi ályktanir sem hafa komið frá ýmsum náttúruverndarsamtökum, frá Búnaðarþingi, frá félagssamtökum bænda o.s.frv., að vitaskuld er það með eðlilegum hætti að aðilar af þessu tagi og raunar Íslendingar allir vilji spara land eftir því sem frekast er unnt. Sumar þessar ályktanir eru vitaskuld þannig úr garði gerðar að þær eru fram settar með það sjónarmið í huga að verja land, eins og kallað er, og jafnvel það sjónarmið án tillits til annarra þátta málsins getur allt verið með eðlilegum hætti. En málið er víðtækara. Hér er um mikla fjármuni að tefla, gífurlega hagsmuni þjóðfélagsins í heild. Við gerum það ekki með glöðu geði, bændur, að láta land, en við hljótum að meta það, hvort ekki sé réttlætanlegt að fórna landi þegar gífurlega miklir hagsmunir þjóðarinnar í heild eru í húfi — og svo er í þessu máli.

Ég skal ekki fara út í mikinn samanburð á þessari landstærð frekar, en sá kostnaðarmunur, sem talinn er vera á kosti I og II — og þá vitaskuld miðað við 400 gígalítra lón í báðum tilvikum — er eftir að reiknaðar hafa verið allar bætur, uppgræðsla og viðhald gróðurs á endingartíma virkjunarinnar, — hann er talinn nema 85 millj. kr. Landið, sem þarna er um að tefla, er 12,3 ferkm. Ferkílómetrinn af þessu landi mundi því kosta 7 millj. nýkr. ef horfið væri að því að fara í dýrari kostinn.

Ég man eftir því, að fyrir rúmum tveimur árum var selt verulegt land hér á höfuðborgarsvæðinu. Ferkílómetrinn í því landi var nákvæmlega helmingi ódýrari, kostaði 3.5 millj. nýkr. Það eru talsverðar fjárhæðir sem verið er að tala um, og það þýðir ekki að láta svo hér á hv. Alþingi að fjármagn skipti ekki máli. Það er tilgangslaust.

Ég vil aðeins bæta því við sem raunar kom fram hjá hæstv. iðnrh., að sumir þeirra manna, sem staðið hafa að ályktunum sem einhverjir kunna að meta gegn þeim virkjunarkosti sem ráðið er að fara í, virkjunarkosti 1, þeir hafa verið meðal mestu forvígismanna heimamanna við þessa samningagerð. Til að mynda var hér í gær lesin ályktun frá Búnaðarsambandi Skagafjarðar. Formaður stjórnar Búnaðarsambands Skagafjarðar var annar aðalsamninganefndarmaður síns sveitarfélags, Lýtingsstaðahrepps, og tók þátt í undirskrift samninga. Og það er vitaskuld vegna þess að þótt eðlilegt geti verið og jafnvel sjálfsagt að álykta um mál út frá einu sjónarmiði, að verja land eftir því sem kostur er, þá sjá menn þegar þeir eru komnir í þá aðstöðu að þurfa að taka á sig ábyrgð á öllum þáttum málsins og meta það frá öllum hliðum, að það getur verið réttlætanlegt og nauðsynlegt að láta af hendi land til þess að ná miklum hagsmunum eigin byggðarlaga og þjóðarinnar í heild. Það hygg ég að hafi verið sjónarmið t.a.m. þessa manns, og svo er einnig um sjónarmið fjölmargra fleiri.

Ég ætla ekki að ræða það hér, að látið er að því liggja af hv. þm. — sem ég hef hér talað nokkuð til og hefur gripið til orða og röksemda sem ekki eru sæmandi hér á hv. Alþingi — að eftirmál kunni að verða um þetta efni. Ég hlýt að lýsa trausti mínu á þeim íbúum í þeim byggðarlögum, sem hér eiga hlut að máli, sem um þetta eiga að fjalla, að skynsemi ráði, en ekki kapp sem byggist á einhverjum ókennilegum orsökum og ekki verður metið öðruvísi en svo að það hafi gengið of langt. Þess vegna mælist ég til þess, og vænti þess að allir, sem hlut eiga að máli, leggi sitt lið til þess, að þær framkvæmdir, sem hafnar verða á grundvelli þess samnings sem gerður hefur verið og með þeim frávikum sem unnt kann að vera að gera á grundvelli ákvæða samningsins, um samráðsnefnd og önnur slík ákvæði, þeir leggist á eitt við að greiða fyrir því, að þetta mál megi ganga farsællega fram.