31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3426 í B-deild Alþingistíðinda. (2996)

246. mál, viðauki við vegáætlun 1981--1984

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni að hér skuli vera komin fram till. til þál. um viðauka við vegáætlun fyrir árin 1981–1984. Þessi viðauki við vegáætlunina er í samræmi við afgreiðslu á vegáætlun á s.l. vori, þau fyrirheit sem þá voru gefin af samgrh. um að útvegað yrði sérstakt fjármagn til framkvæmdar við svokallaða Ó-vegi, þ.e. þessa sérlega hættulegu vegi sem svo hafa verið taldir, um Ólafsvíkurenni, Óshlíð og Ólafsfjarðarmúla. Ég ætla að fara örfáum orðum um þær hugmyndir sem fram hafa komið um vegagerð í Ólafsfjarðarmúla í umr. um þessa Ó-vegi.

Í grg. eða aths. með þessari þáltill. segir, með leyfi forseta:

„Við skiptingu fjárins er tekið tillit til þess, að mikil rannsóknar- og hönnunarvinna þarf að fara fram í Ólafsfjarðarmúla áður en framkvæmdir geta hafist þar. Er því einungis veitt fé til þeirra starfa, en á hinum stöðunum báðum yrði hafist handa um framkvæmdir á þessu ári.“

Það er þetta sem ég vil vekja sérstaklega athygli á, að í sambandi við Ólafsfjarðarmúla er aðeins verið að fjalla um tiltölulega lítið fjármagn, 0.1 millj., til að framkvæma rannsóknar- og hönnunarvinnu. Þær hugmyndir, sem helst hafa verið uppi hjá Vegagerð ríkisins varðandi Ólafsfjarðarmúla, eru jarðgöng. Hafa þar verið í athugun fimm valkostir sem hafa að vísu verið skoðaðir mismunandi ítarlega, og sá, sem einkum er nú rætt um, er kafli milli svokallaðrar Vogagjár og Kúhagagils. Lengd þessara jarðganga yrði 2.5 km og áætlaður kostnaður á verðlagi í ágúst 1981 er 80 millj. kr. Nú er ljóst að það hefur ekki verið haft ítarlegt samráð við heimamenn varðandi val á þeirri leið, sem áætlað er að fara, og ekki verið rætt við þm. Norðurl. e. um það sérstaklega. Við höfum hins vegar fylgst með þessu og vitum um þessar hugmyndir. Önnur göng, sem hefur verið nokkuð rætt um, eru á milli Kúhagagils, þessa sama staðar, og staðar sem kallaður er Mígandi. Þar á milli yrðu jarðgöngin 3.9 km og þar af leiðandi líka nokkuð miklu dýrari, áætlaður kostnaður á sama verðlagi, í ágúst 1981, 130 millj. kr. Ljóst er að þarna er um verulegan kostnaðarmismun að ræða. Hljóta menn að verða að athuga vel út í hvað er verið að leggja ef talið er ráðlegt að lagt sé í framkvæmdir sem eru svo kostnaðarmiklar. Þó vil ég taka það fram, að ég tel að þegar ráðist er í svo miklar framkvæmdir sem þarna eru hugsaðar hljótum við að stefna að því, að sú lausn, sem valin er, sé varanleg, það sé verið að ganga til þeirrar lausnar á þessu vandamáli, þessum hættulega vegi, að það sé varanleg og endanleg lausn.

Það kemur fram í greinargerðum, sem komið hafa frá Vegagerð ríkisins, að ef styttri jarðgöngin yrðu valin yrði jafnframt að gera ráð fyrir snjóflóðavörnum og þar á meðal vegþekjum á hættulegustu stöðunum utan jarðganganna. En þá ber þó einnig að hafa í huga, að ekki næst sambærilegt öryggi utan ganganna eins og inni í göngum við slíkar aðstæður sem eru þarna í Múlanum, þar sem mikil hætta er bæði á grjóthruni og snjóflóðum og aurskriðum.

Ef þessi lengri göng yrðu fyrir valinu yrðu þau m.a. dýrari fyrir það að gera verður ráð fyrir loftræstikerfi í svo löngum göngum sem þar yrði um að ræða. Mér hafa sagt kunnugir menn, heimamenn á Ólafsfirði, að fyllilega kæmi til athugunar að þeirra áliti einhver millileið þarna á milli. Lengri göngin liggja neðar í Múlanum og eru þar af leiðandi lengri, auk þess sem þau kosta líka nokkra vegagerð að gangamunnunum sitt hvorum megin. En ef valin yrði þarna millileið ofar í Múlanum yrði um að ræða styttri göng en þau sem ég hef rætt um, en nokkru lengri þó en hinn kosturinn. Með því telja staðkunnugir heimamenn að komist verði fram hjá erfiðustu köflunum á þessum vegi og þá kannske fundin lausn sem allir mundu geta sætt sig við.

Ég vil vekja athygli á þessu hér og nú. Ég tel að með þessari þáltill. og samþykkt hennar sé alls ekki verið að velja endanlega lausn á þeirri leið, sem þó er hugsuð hér varðandi Ólafsfjarðarmúla, þ.e. þessi 2.5 km löngu göng. Ég vil leggja áherslu á það. Hér er talað um að það eigi eftir að rannsaka þetta ítarlegar og leggja kostnað í hönnunarvinnu. Ég tel að með þessari samþykkt sé alls ekki gengið út frá því, hver kosturinn verður þarna endanlega valinn. Ég vildi láta það koma hér fram.