31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3434 í B-deild Alþingistíðinda. (3000)

243. mál, steinullarverksmiðja í Þorlákshöfn

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hæstv. forseti Sþ., Jón Helgason, hefur lokið máli sínu. Þar hefur hógvær og prúður séntilmaður gert grein fyrir röksemdum fyrir því, að ef steinullarverksmiðja á að rísa, þá skuli hún fremur rísa sunnan heiða en norðan. Allar voru þessar röksemdir réttar og sannar og skilmerkilega fluttar, en til hvers?

Sannleikurinn er sá, að allir tilburðir okkar til þess að koma réttum málstað áfram rétta leið með röksemdum eru líklega vonlausir. Ákvörðun hæstv. iðnrh. byggist ekki á röksemdum. Hún byggist á allt öðru. Tveir hæstv. ráðh. í ríkisstj., jafnvel þrír, hafa af mikilli ýtni — svo að maður nefni nú ekki orðið frekju hér á þessu friðsæla kvöldi — haft uppi mikla tilburði til þess að koma í sitt kjördæmi öllum sköpuðum hlutum með illu eða góðu, hvort sem þar er um virkjanir að ræða eða annað sem fjármagn þarf til. Sannleikurinn er nefnilega sá, að það er langt liðið frá því að þessi ákvörðun var í raun og veru tekin, svo langt, að hún var tekin áður en rannsóknir fóru fram. Rannsóknirnar og kannanirnar voru til þess að reyna að sýna fram á að það væri miklu minni mismunur á hagkvæmni þessara tveggja verksmiðja, annars vegar á Sauðárkróki og hins vegar í Þorlákshöfn, heldur en raun er á. Þær kostuðu langan tíma, gífurlegt flóð af pappír, þó kannske enn meir af peningum, skattpeningum borgaranna í þessu landi.

Fyrirtækin, sem takast á um þessa verksmiðju, hafa lagt í þetta samtals um 130–140 millj. gkr. til þess að sýna fram á að verksmiðja á þeirra stað væri hagkvæmari en á hinum. Steinullarfélagið á Sauðárkróki hefur líklega eytt 70 millj. gkr. í þessu skyni. Og hvað voru þeir svo að sanna allan tímann, öll þessi ár? Þeir voru að sanna það, að verksmiðja frá frönsku fyrirtæki, frá St. Gobain, væri það besta, það eina rétta. Hvernig fór svo eftir allt saman, þegar menn voru búnir að eyða öllum þessum árum og öllum þessum pappír og þaðan af meiri peningum til þess að sanna þetta? Verksmiðjan er ónothæf. Framleiðendur hennar taka ekki ábyrgð á henni nema orkan, sem til hennar þarf að brúka, verði olía að 9/10 hlutum. Þar var farið illa með mikla vinnu og mikla peninga. Á sama tíma, það var hliðarverkefni, reyndu þeir að sanna að sú tækni og sá verksmiðjubúnaður, sem Sunnlendingar börðust fyrir að koma upp í sinni verksmiðju frá sænskum aðilum og fleirum, Elkem og Jungers, væri vond, dýr og illbrúkanleg. Hvað vilja þeir núna? Þeir vilja einmitt fá þá verksmiðju sem þeir eru búnir að úthúða öll þessi ár. Það er ekki samræmi í þessu frekar en öðru í þessum málum.

Eitt er þó alveg ljóst, að þó að þessir aðilar hafi eytt miklum peningum höfum „við í iðnrn.“ eytt kannske enn þá meiri peningum í sama skyni — og ekkert gekk. Þar var ekki samræmi í hlutunum heldur, enda bjóst maður varla við því. Herra forseti. Það er raunalegt að þurfa að segja það en það er satt.

Hvað er það sem þarf til þess að framleiða steinull? Það þarf sand. Það er nú víðast hvar sandur. Þó er hann misjafnlega aðgengilegur. Við í Þorlákshöfn höfum sand til milljón ára framleiðslu a.m.k. og hefur það þó ekki verið mælt nákvæmlega. Við hófum ekki eytt peningum í að rannsaka það. Þar er einn mikill sandbingur sem hefur orðið mönnum til mikilla vandræða um langa hríð. Og það þarf ekki annað en gægjast út um dyrnar á þessari væntanlegu verksmiðju til þess að fylla þar allt af sandi eftir óskum með litlum tilkostnaði eða engum. Náttúran sjálf sér um þá lageringu alla saman. En á Sauðárkróki fá þeir sand úr Héraðsvötnum þegar lægst er í þeim. Þeir verða sem sagt að ná í þennan sand einu sinni á ári og geyma hann þess á milli. Ætli það kosti ekki eitthvað? Og ýmislegt í þessu kostar eitthvað. Sérfræðingarnir frá rn. reyndu eins og þeir gátu, með því að kaupa sér alltaf betri og betri landakort, að sanna að það væri styttra frá Sauðárkróki til Reykjavíkur heldur en frá Þorlákshöfn hérna yfir heiðina. Það tókst ekki og nú voru góð ráð dýr. Þeir settu Framkvæmdastofnunina í gang og byggðadeild, og þar fann forstöðumaðurinn bróður sinn í góðu embætti hér í bænum sem hafði ráð á skipum nokkrum sem eru ákaflega dýr og illa rekin á kostnað skattborgaranna í landinu. Það gerir hins vegar ekkert til. Það gerir ekkert til þó að það kosti miklu meiri peninga að gera þetta fyrir norðan. Það er algert aukaatriði. Hagkvæmni og allt þess konar er nú ekki ofarlega í huga þessara áður nefndu ráðherra. Það er aukaatriði. Það eru ekki þeir sjálfir sem borga, það er þjóðin sem borgar.

En Skipaútgerðin, það var þetta fyrirtæki, kom einu sinni enn með glanstilboð og bauðst til þess að flytja alla steinull ef verksmiðjan færi norður. Það má geta þess, að Skipaútgerð ríkisins þjónar ekki Suðurlandi. Þó borga Sunnlendingar í hana eins og aðrir. Hún bauðst til að flytja steinullina suður fyrir um það bil fimmtung af kostnaðarverði, fimmtung af töxtum: Það var rausnarlega boðið. Þetta sama fyrirtæki hefur að vísu áður komið með svona góð tilboð. Það var þegar ullarþvottastöðin á Akureyri var lögð niður. Þá var ein aðalástæðan til þess að af því gæti orðið, eins og vissir herramenn óskuðu eftir, tilboð frá Skipaútgerðinni um að flytja ullina bæði norður og suður fyrir lítið sem ekki neitt. Þeir gerðu áætlun um það og buðust til að taka fyrir þetta bara ákveðna peningaupphæð, langt undir öllum venjulegum kostnaði. Síðan hefur ullin að mestu leyti verið keyrð milli Akureyrar og Reykjavíkur og norður aftur. Hver skyldi borga bílunum? Skipaútgerð ríkisins? Skattborgararnir greiða.

Annað dæmi um þessa ágætu Skipaútgerð mætti nefna frá þeim dögum þegar Herjólfur fór að ganga milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur — gengur nú á ýmsu í rekstri þess skips. Þó hann sé myndarlegur og afli mikilla tekna, flytji 40–50 þús. farþega á ári, 10 þús. tonn af vörum og 10–20 þús. bíla, þá er það nú svo, að rekstur slíkra skipa er heldur óhagkvæmur og ríkið þarf að leggja fyrirtækinu til peninga árlega eins og öðrum sem eru í þessum bransa, en ekkert líkt þeim milljörðum öllum sem fara til Skipaútgerðar ríkisins. Hvað skyldi nú ríkisfyrirtækið hafa boðið? Það bauð nefnilega ýmsum vöruflutningamönnum, sem flytja vörur milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja, að flytja vörur með Ríkisskip þessa leið fyrir miklu minna gjald en Herjólfur bauð. Þarna var ríkisfyrirtækið komið í samkeppni með undirboði við Herjólf, sem veldur því að hann þarf auðvitað að fá aðeins meiri peninga frá ríkinu árlega í nóvember eða desember. Það gerir hins vegar ekkert til því að skattborgararnir greiða það. Það er nefnilega svo, að helmingurinn af allri fragt er fluttur á ríkisins kostnað með þessu fyrirtæki, og auðvitað er gott að fá svona glanstilboð frá Skipaútgerð ríkisins sem hefur svona traustan bakhjarl, þ.e. budduna hjá almenningi. Þessum herramönnum er ekki sárt um hana.

Já, við þurfum sand. En við þurfum líka skeljasand. Það eru þekkt skeljasandsmið hér í flóanum sem hefur verið gengið í nú í langan tíma. Þau eru örugg á sínum stað og gefa góðan afla þegar í er sótt. Það þarf líka skeljasand fyrir norðan. Hann mun vera þar til, en það hefur hins vegar ekki verið kannað, enda gerir það ekkert til því að það mundi efla Skipaútgerðina enn meira að fá að flytja skeljasandinn norður líka, að vísu á kostnað skattborgaranna einu sinni enn. En ég hef ekki áhyggjur af því.

Svo þurfum við rafmagn. Og það þarf líka rafmagn fyrir kísilmálmverksmiðjuna sem á að framleiða 5% af öllum kísilmálmi í veröldinni. Og hvar skyldi hún vera sett niður? Hún er auðvitað sett niður í því kjördæmi sem minnst rafmagn hefur í heimi. Ekkert kjördæmi í heimi hefur eins lítið rafmagn. Þangað liggur að vísu þessa dagana allvæn rafmagnssnúra, en þeir, sem þekkja lítið til rafmagns, þekkja betur til skorkvikinda, — þeir hafa aldrei hugsað út í að það kostar mikla peninga að keyra þennan rafstraum í gegnum þessa löngu mjóu linu hringinn í kringum landið. Það gerir hins vegar ekkert til því að kísilmálmverksmiðjan verður að fara á réttan stað.

Það var merkilegt með þessa staðarvalsnefnd sem tók þátt í að rannsaka málið með Sauðárkrók og Þorlákshöfn. Hún var líka fengin til þess, enda ágætir menn í henni, að velja einhvern stað á þessu landi, á mörg þúsund km vogskorinni strönd, þann stað einan sem kæmi til greina að taka við kísilverksmiðjunni. Og eftir langa og mikla leit fundu þeir Mjóeyri við Reyðarfjörð. Þar var hann. Þessir sérfræðingar rannsökuðu bara staðinn, en vissu ekkert að þar var rafmagnslaust.

En þessi verksmiðja, hvort sem hún verður syðra eða nyrðra, þarf rafmagn. Og hvaðan skyldi það koma? Eitt veit ég þó, að þetta rafmagn eins og annar rafstraumur í landinu rennur um hlaðið í Hveragerði. Skyldi þá ekki vera þar fullt af rafmagni? Ekki meira en svo, að það er ekki einu sinni hægt að reka þar frystikistu, hvað þá verksmiðju. Þar búa menn við spennu upp á 180 volt árið um kring og þegar illa stendur á enn þá minna. Allt rafmagnið hér er nefnilega flutt vestur yfir heiði án þess að ætlast sé til að menn geti einu sinni rafmagnað sjálfa sig í kjördæminu þar sem allt rafmagn landsins er framleitt. Það á að keyra 5–8 mw. í þessu skyni til Sauðárkróks, og ég er ekki í vafa um að tveir ágætir hv. þm. og jafnvel hæstv. ráðherrar eru tilbúnir að lofa fyrirtækinu spennistöð og raflínu. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um það.

Þessar röksemdir eins og aðrar eiga ekki greiðan aðgang að hinum gráu sellum í höfðinu á þessum mönnum, nema þær fari beint út aftur, því að þetta hefur verið ákveðið fyrir löngu. Rannsóknin var bara sýndarverk, „camouflage“ eins og þeir segja í útlöndum. Það átti að setja á þetta vísindablæ. Að þessu sinni ætla ég ekki að segja ykkur söguna af því, þegar ég fór með hæstv. forseta Sþ. í heimsókn til mesta vísindamanns í landinu sem tók þátt í þessari staðarvalsnefnd, en það er góð saga. Hana segjum við við síðari umr.

Það gat hvert mannsbarn meira að segja þau mannsbörn sem ekki kunnu að reikna, sagt sér það sjálft, að það hlýtur að vera og er alveg ljóst, að verksmiðju af þessu tagi er auðvitað best að hafa sem næst markaðnum. Steinull er einu sinni þannig vara. Hún er fyrirferðarmikil, dýr í flutningi, og það gefur auga leið að það er ekki af hagkvæmnisjónarmiðum sem þessari verksmiðju er ætlaður staður á Sauðárkróki. Það er eitthvað allt annað. Við vitum hvað það er. Ég er búinn að segja það. Þeir Ragnar og Pálmi, hæstv. ráðherrar, eru búnir að segja hæstv. iðnrh. að gera þetta. Hann er góður piltur og vel ættaður, enda náfrændi Jóns Helgasonar forseta Sþ. En það er svona, þegar gelt er lengi og hvasst að mönnum láta þeir um síðir undan. En á röksemdalegum grunni er þetta ekki byggt. Það má vera öllum ljóst.

Það er nefnilega svo, að þegar þetta plagg þeirra staðarvalsmanna er lesið, þá treysta menn sér ekki til þess að benda á neinn þátt, um hráefnisöflun, vinnslu, dreifingu eða sölu. sem er hagkvæmari fyrir verksmiðjuna fyrir norðan heldur en sunnan. Menn geta tekið hvern einstakan þátt, þótt ég nenni því ekki af því að ég veit að það er þýðingarlaust. Ég skoraði á þá hv. alþm. sem með lokuð augun hafa gengið til fylgis við þessa till., allt of marga framsóknarmenn, að koma þessu norður frá hæstv. ráðh. sem hlýddi sínum þingbræðrum.

Hver ætli hafi verið ein aðalröksemdin fyrir því, að þetta skyldi fara norður? Hún er sú, að það að flytja vörur fyrir svo sem ekki neitt frá Norðurlandi til Suðurlands mundi stórefla Skipaútgerð ríkisins. Að vísu þurftu þeir að fá tvö skip. En hvað kosta þau á milli vina, tvö skip? Nokkra milljarða stykkið. Annað eins fer nú í súginn í iðnaðarmálunum. Þeir þurftu líka að fá bætta hafnaraðstöðu og það eiga Sauðkræklingar inni, ekki hefur verið lagt það fjármagn þangað. En hver er hin röksemdin sem hægt er að finna úr þessu plaggi? Hver er hún? Það er sú röksemd, að það séu svo geysilega mörg önnur iðnaðartækifæri á Suðurlandi. Af hverju skyldu þau þá ekki vera notuð? Af hverju skyldu menn ekki hafa Suðurland í huga þegar þeir tala um þessar verksmiðjur allar? Hvað er fram undan í iðnaðarmálum? (Gripið fram í: Sykurverksmiðja.) Já, hver þorir að spá því, hvað hefur sést á blaði um það? Það á að stækka stóriðjuna og álverið, annað álver. Það vantar eitthvað meira í Grundartanga. Það er saltverksmiðja, magnesíumverksmiðja, kalíumklóratverksmiðja eða hvað. Það er trjákvoðuframleiðsla „og sá videre,“ eins og hv. þm. Páll Pétursson sagði í dag því að hann var nýkominn af Norðurlandaráðsfundi.

Hvað skyldi vera þessum verksmiðjum öllum sameiginlegt? Aðeins eitt, og það er að þeim er ekki ætlaður staður á Suðurlandi. Eftir sem áður þarf raforka Sunnlendinga að knýja allar þessar „fabrikkur“ þeirra áfram.

Eins og ég hef bent á áður hafa menn gert þá skyssu hér í þjóðfélaginu að setja samasemmerki á milli orkuframleiðandi fyrirtækja eða vatnsorkuvera og iðnaðarmöguleika. Þegar Blönduvirkjun var á hallelújastiginu og allir fögnuðu sem mest, áður en til vandræðanna kom milli þeirra Páls og Pálma, hv. þm., þá sögðu menn að Blönduvirkjun mundi verða lyftistöng undir iðnaðaruppbyggingu á Norðurlandi. Allir studdu þeir þetta, allur Framsfl. eins og hann lagði sig milli Horns og Langaness, og þeir fögnuðu mikið. Þegar var farið að tala um raforkuframleiðslufyrirtæki á Austurlandi og meira að segja áður en mönnum datt hún í hug, þá skyldi setja þar kísilverksmiðju, hvort sem hún hefði nokkurt rafmagn eða ekki. Það virðist talið gott að hafa þær á „lager,“ þessar verksmiðjur. En reynslan sýnir bara allt annað.

Við höfum á Suðurlandi svo gott sem öll raforkuver landsins sem einhver friður hefur verið um. Þar er engin iðnaðaruppbygging, alls engin, samasemmerkið er yfirstrikað. Það er ekkert samhengi í því og hefur ekki verið. Þessi síðari röksemd þeirra Sauðkræklinga um að Sunnlendingar eigi mikla aðra möguleika er blekking eins og annað. Menn hafa verið með alls kyns aðrar hugmyndir. Hér er búið að prenta eitt frv. um sykurverksmiðju sem hv. þm. Ingólfur Guðnason færði mér. Þetta er gamalt mál eins og önnur sem nefnd hafa verið, og öll þau mál, sem hafa verið sýnd ykkur Sunnlendingum eins og nokkurs konar dúsa að undanförnu í staðinn fyrir hina, þau hafa því miður hingað til verið dæmd úr leik vegna óhagkvæmni. Vonandi á það eftir að breytast. Ég vona sannarlega að við fáum iðnaðartækifæri á Suðurlandi sem eigi eftir að skila góðum árangri þjóðarbúinu í heild.

Hvað erum við að gera með því að setja upp svona verksmiðjur? Að efla atvinnu í landinu, auka framleiðsluna, stækka kökuna sem er til skipta. En hún stækkar ekki með því að setja upp tapfyrirtæki. Hún stækkar þeim mun meira og verður að þeim mun meiri búdrýgindum í íslensku þjóðarbúi sem fyrirtækin skila meiri arði. Öðruvísi fyrirtæki eigum við auðvitað ekki að setja upp. Það er nóg af hinum fyrir. Og þegar valinn er verri kosturinn í máli eins og þessu, þá eru menn vísvitandi að velja kost sem ekki gefur eins mikið í aðra hönd.

Mig varðar um þjóðarhag.

Mér dytti ekki í hug að leggja til að reist yrði verksmiðja af einhverju tagi á Suðurlandi sem væri með greinilegu tapi, ef það væri kostur á að setja hana niður einhvers staðar annars staðar hagkvæmari. Þetta er augljóst og hefur alltaf verið augljóst hverjum einasta manni sem hefur opin augun á annað borð, að það er hagkvæmara að hafa þessa verksmiðju syðra heldur en nyrðra.

En hver eru þau sjónarmið sem gætu komið þarna önnur til greina? Það er eins og hæstv. forseti Jón Helgason nefndi hér áðan, byggðasjónarmiðið gæti kannske komið þarna inn. Og mesti Norðlendingur í heimi, Bjarni Einarsson, formaður byggðadeildar í Framkvæmdastofnun, þó hann sé fæddur í Borgarfirðinum, talaði lengi um það, að frá byggðasjónarmiði væri þetta miklu heppilegra. Eitt stóð þá sérstaklega upp úr. Það var að ef verksmiðjan yrði sett á Sauðárkrók mundi hún — hvernig er það nú orðað á stofnanamálinu — þá mundi hún efla þjónustustarfsemi á staðnum meira fyrir norðan heldur en sunnan. Og af hverju? Það hef ég ekki skilið, enda er ómögulegt að sanna það. Við höfum ekki getað komið okkur upp eins öflugri þjónustustarfsemi á þessu svæði sem við erum að tala um að reisa þessa verksmiðju á fyrir sunnan. En ef við fáum ekkert í viðbót verðum við alltaf í sama farinu, þá eflist hún ekki. Þetta var nefnilega alveg gullið tækifæri til þess að efla ekki aðeins iðnaðinn á Suðurlandi, heldur einnig alla þjónustu þar í kring.

Það hefur verið minnst hér á fólksflótta á Suðurlandi. Á síðasta ári fjölgaði íbúum í Suðurlandskjördæmi um 19, í öllu kjördæminu. Vestmannaeyjar eru í þessu kjördæmi enn þá. Þar fjölgaði íbúum á þessu sama ári um 22, sem sagt meira en heildaraukningin var í öllu kjördæminu að Vestmannaeyjum meðtöldum. Það þýðir að það fækkaði í landi um 3. Samt fæddust þarna — sem betur fer og guð hefur lofað okkur — börn upp á 250 stykki eða svo. Allmargir kvöddu þennan táradal á árinu, samt ekki meira en svo að mismunurinn er einhvers staðar um 130, þ.e. 130 manns hafa farið burt úr kjördæminu vegna þess að þeir hafa ekki haft vinnu. Enn býr fólk á Selfossi sem þar er talið til heimilis en hefur enga vinnu. Fimmti hver maður á þeim stað verður að leita atvinnu annars staðar, út fyrir plássið, meira að segja í Reykjavík. Sama er í Hveragerði. Þar er varla hægt að setja upp eina einustu verslun. Þannig er nú ástandið í þessu blessaða kjördæmi okkar. Ekki getur það verið af þessum ástæðum sem menn hafa valið verksmiðjunni stað fyrir norðan.

Herra forseti. Hvílíkt eymdarlíf má ekki vera á Sauðárkróki ef trúa má því, að þessi verksmiðja þeirra fyrir norðan muni kippa þar öllu í lag? Það vill svo til að ég hef hér í vasanum hluta ræðu minnar, sem er lítill miði úr hinni voldugu Morgunblaðspressu, og hún er upplýsingar um Sauðárkrók. Því miður er dagsetningin horfin. En ég vil — með leyfi hæstv. forseta — fá að lesa úr henni nokkur orð. Það eru ekki vilhallir menn að sunnan sem hafa sett þennan texta saman og þaðan af síður sent hann til Moggans. Það eru Sauðkræklingar sjálfir sem hafa nuddað saman þessum texta og komið honum í pressuna. Og hann hljóðar á þessa leið, herra forseti:

„Sauðárkróki, 23. mars. Fyrir skömmu var afgreidd í bæjarstjórn Sauðárkróks fjárhagsáætlun kaupstaðarins fyrir árið 1982. Heildartekjur bæjarsjóðs eru áætlaðar rúmlega 21 millj. kr!“ — Það er fátt fólk þarna. — „Helstu tekjuliðir eru útsvör og aðstöðugjöld, rúmar 13 millj. kr., og fasteignagjöld um 3.5 millj. o.s.frv. Til framkvæmda á rekstraryfirliti eru rösklega 6 millj. kr., sem er 28.8% af heildartekjum bæjarins“ — og mundu margir vel við una. Og svo segir, herra forseti: „Stærstu útgjaldaliðir gjaldfærðrar fjárfestingar“ — allt er þetta á nútímamáli — „eru framkvæmdir við gatnagerð, bæði við nýbyggingar gatna í nýja Túnahverfinu, sem áætlað er að kosti 2.2 millj. kr. Þá er fyrirhugað að verja um 5 millj. kr. í varanlega gatnagerð á þessu ári.“ Og þá segir, herra forseti: „Er áætlað að ljúka að mestu malbikun á götum í „gamla bænum“ — og gamli bærinn er af einhverjum ástæðum í gæsalöppum þarna fyrir norðan — „á næsta sumri.“ Það er ekkert annað, það er verið að ljúka við malbikun á bænum í sumar. „Helstu útgjaldaliðir á eignfærðri fjárfestingu eru vegna nýs leikskóla sem risinn er af grunni í Hliðahverfi. Ráðgert er að opna aðra deild hans í maí n.k.“ Stutt á milli áfanganna. „Til nýja íþróttahússins, sem hafin var bygginga á á s.l. ári, er áætlað að verja um 1.5 millj. kr. Mikill áhugi er ríkjandi hér fyrir byggingu íþróttahússins, þar sem aðstæður hér til iðkunar eru óviðunandi. Skólanemendum hér hefur fjölgað stórlega á undanförnum árum, ekki síst eftir að fjölbrautaskólinn tók til starfa.“

Herra forseti. Ég má til að staldra hér við aðeins augnablik. „Skólanemendum hér hefur fjölgað stórlega.“ Ekki fækkar fólkinu þarna. Það hleypur ekki burt. Það er mikil gróska þarna, enda segir hérna: „ekki síst eftir að fjölbrautaskólinn tók til starfa.“ Skyldi hann ekki hafa kostað einhverja peninga? Í þennan fjölbrautaskóla hafa farið meiri peningar en í nokkurn annan skóla á landinu af því tagi til margra ára. Það er eina skólastofnunin, sem ég veit til, þar sem tillögur menntmrn. um fjárveitingar voru ekki skornar niður eins og alls staðar gerist. Þær voru þrefaldaðar. (Gripið fram í: Hver skyldi nú vera skýringin á þessu?) Hver situr á kassanum? spurði maðurinn. Ég er ekkert að tala um það. En þarna er greinilega um talsverðar framkvæmdir að ræða.

Herra forseti. Með leyfi ætla ég þá að lesa afganginn sem er lítilvægur að vísu, en hann er svona:

„Helstu rekstrarliðir bæjarsjóðs eru vegna félagsmála, tæpar 4 mill j. kr., menntamál 2.5 og vaxtakostnaður 2.4. Þess má geta, að hér á Sauðárkróki,“ segir síðan, „hafa verið miklar byggingarframkvæmdir á undanförnum árum.“ Það bendir til fólksfækkunar, eins og þið áttið ykkur á, hv. þm. „Um s.l. áramót voru 69 íbúðarhús í smíðum, 46 bilskúrar og 15 aðrar byggingar.“ Samdráttur í atvinnulífinu. Og svo segir, herra forseti: „Í janúar s.l. var úthlutað yfir 30 einbýlishúsalóðum í hinu nýja Túnahverfi sunnan sjúkrahússins. Þá er í byggingu heilsugæslustöð, sem vonir standa til að verði tekin í notkun á þessu ári, og hafin er bygging elli- og hjúkrunarheimilis í tengslum við sjúkrahúsið.“

Herra forseti. Þessi upptalning segir sitt. Í hverri einustu línu í þessari frétt frá Sauðárkróki eru nýjar framkvæmdir taldar upp. Þarna er sem sagt allt á fullri ferð sem betur fer. Það hefur allt lifnað vel við í Norðurlandskjördæmi vestra síðasta áratug, Framsóknaráratuginn okkar allra. Uppbygging í sjávarútvegi hefur hundraðfaldast á Sauðárkróki á 12 árum, á sama tíma og bátum hefur fækkað í Vestmannaeyjum um 40%. Það sýnir að þarna er síður en svo ástæða til þess að taka ákvörðun um ný fyrirtæki til þess að lyfta undir þennan stað. Þar er allt í blóma og góðu gengi.

Á Sauðárkróki vinnur næstum fjórði hver maður við iðnað nú þegar, fiskiðnaður ekki meðtalinn. Það er meira en víðast hvar annars staðar. Það er raunar alveg sama, herra forseti, hvert litið er í þessum efnum. Þau byggðasjónarmið, sem mæla með að þessi verksmiðja fari norður, eru engin, nákvæmlega engin og miklu minna en engin í raun og veru.

Það hefur, herra forseti, verið talað hér allmikið um það, að við á Suðurlandi viljum velja stóra verksmiðju, en þeir fyrir norðan litla. Þetta er nú sama verksmiðjan sem þarna er um að tala. Það er bara meiningin fyrir norðan að láta hana vinna minna á ári hverju, en Sunnlendingar hafa hins vegar stefnt í útflutning.

Ég vil benda á eina röksemd í viðbót sem síst er til þess fallin að vekja traust á niðurstöðu staðarvalsnefndar. Þeir segja — og hæstv. iðnrh. tekur það upp eftir þeim oft og mörgum sinnum og það munar áreiðanlega litlu að hann sé farinn að trúa því, hann er búinn að segja það svo oft sjálfur — að útflutningur sé útilokaður. Kannske er hann erfiður, en þeir segja að hann sé útilokaður. Á hvaða forsendum byggja menn svona staðhæfingar og niðurstöður? Þó við reiknum dæmi alveg rétt, þá verður útkoman alltaf vitlaus ef forsendurnar eru rangar. Þarna eru forsendurnar líka rangar, vegna þess að þegar talið er saman hversu mikið menn geta fengið í krónum fyrir þá framleiðslu af steinull sem flutt yrði til Evrópulanda, þá skulu menn miða við það og taka eftir því, að staðarvalsnefndin reiknaði með verði á Evrópugjaldeyri eins og það var í fyrrasumar. Hvernig var staða Evrópumyntar í fyrrasumar? Heyrðu menn ekki veinin hreinlega í öllum iðnrekendum í landinu hversu lágur þessi gjaldeyrir var og var hér um bil búinn að setja allan iðnað í landinu á hausinn? Niðurtalningin og verðbólgulækkunin kröfðust vissra fórna og mestra af því sem þurfti að selja til Evrópu, menn fengu svo lágt skráðan gjaldeyri til baka. Við þetta lágmarksgengi Evrópugjaldeyrisins eru útreikningar staðarvalsnefndar miðaðir. Og var það furða þó að þeir fengju ekki beint góða útkomu? Eigum við að miða okkar útreikninga í sambandi við afurðir, t.d. kísilmálmverksmiðju eða einhverra annarra verksmiðja, innlendrar framleiðslu til útflutnings, við þetta gengi? Eigum við að trúa því, að það standi svona til eilífðar? Eigum við að byggja allar okkar framtíðaráætlanir í þessu landi á því, að það verði stöðug kreppa og vaxandi í Evrópu? Ef við trúum því og ef við stefnum að því að horfa bara á þessar óþægilegu staðreyndir eins og þær eru núna, þá skulum við líka hætta að virkja. Þá skulum við ekkert vera að tala um kísilmálmverksmiðju þar og álverksmiðju á hinum staðnum. Það eru vonlaus fyrirtæki. Þau fyrirtæki, sem eru í þessu stússi núna í landinu, töpuðu stórfé á síðasta ári vegna þessarar kreppu, vegna þessa samdráttar sem er ógnvekjandi. Álverksmiðjan, sem er gróið fyrirtæki, tapaði yfir 200 millj., og Grundartangaverksmiðjan tapaði eitthvað um 80 millj. á síðasta ári. Það eru 8 milljarðar gkr. Það er geysimikið fé. Þessi röksemd heldur ekki. Ég trúi ekki að menn ætli að miða við það, að þessi staða verði svona til frambúðar.

Herra forseti. Ég ætlaði mér aldrei að segja margt að þessu sinni og þaðan af síður að taka langan tíma. Ekki vil ég tefja fyrir því, að þessi ágæta till. komist í nefnd, velviljaða nefnd væntanlega. Það er ágæt byrjun, þokkalegur formáli, að hafa svona klukkutíma í þetta, en rekja hlutina heldur betur þegar þar að kemur og fleiri eru viðstaddir.

Mér finnst það satt að segja, herra forseti, dálítið slæmt að upphaf umr. um slíkt nýtt iðnaðarverkefni, meðalstórt iðnaðarverkefni, eins og hæstv. iðnrh. hefur kallað það, skuli fara fram á næturfundi. Er ekki alvara á bak við þessa hugmynd? Er þetta bara eitthvað til að sýnast eða eitthvað til þess að vera að laumast með á kvöldin og nóttunni? Eigum við ekki að tala hér þegar allir heyra? Eru menn gersamlega búnir að tapa trúnni á að alþm. hlusti yfirleitt á rök? Af hverju? Er það vegna þess að menn haldi það, sumir nýir hv. þm. jafnvel að ríkisstj. ráði yfir þinginu og segi því fyrir verkum? Gerir hún það stundum? Koma menn að hætti einræðisherra með sínar hugmyndir og segja: Þetta skuluð þið samþykkja. — Ég veit ekki betur en stjórnarskrá lýðveldisins Íslands geri ráð fyrir að ríkisstj. sé framkvæmdastjóri Alþingis og komi í verk því sem Alþingi ákveður. Hið háa Alþingi má ekki setja niður og verða afgreiðslustofnun fyrir þrýstihópa eða ríkisstjórnina. Ríkisstj. er ekki yfir okkur, heldur þvert á móti. Og þess vegna eigum við ekki að taka þegjandi og hljóðalaust við skipun frá þessum virðulegu hæstv. ráðherrum. Ég hef ekki tilhneigingu til þess og mun ekki hafa. (SvH: Ekki einu sinni þessum?) Ég er ekkert að sortera þá úr, þetta eru allt bestu menn. En þeir mega vita það, að þeir eru ekki herrar yfir Alþingi. Hið háa Alþingi á að gefa þeim tóninn og setja lög fyrir landsbúa sem þeir síðan afgreiða eftir tillögum þingsins og samþykktum.

Þess vegna, herra forseti, og það skulu vera mín lokaorð að þessu sinni, trúi ég því ekki, að hæstv. ríkisstj., þótt ákafamikil sé á stundum eins og við höfum heyrt hér í dag og oft áður, láti sér sæma að taka ákvörðun um að þessi tiltekna verksmiðja, sem er nú kannske lítið brotabrot af öllu því sem við fáumst við, fari til Norðurlands. Það er ekki ríkisstjórnarinnar mál eftir að tillaga um annað hefur verið lögð fram í hinu háa Sþ. Það er ekki lengur hennar mál. Ríkisstj. ber skylda til þess að bíða þess, hver verður niðurstaða í atkvgr. í Sþ. Og á þeim tíma, sem líður frá þessari stundu þangað til sú afgreiðsla fer fram, skulum við allir reyna að pota hver í okkar horni að okkar málstað án hótana eða óeðlilegs þrýstings. Eðlilegur þrýstingur er nauðsynlegur.