31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3459 í B-deild Alþingistíðinda. (3005)

243. mál, steinullarverksmiðja í Þorlákshöfn

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Nú var flutt vond ræða í þessu máli sem væri náttúrlega ástæða til að taka alvarlega til athugunar, þegar algjörlega er snúið við sannleikanum og talið að Sauðkræklingar hafi alla tíð haft frumkvæði um þetta mál. (Gripið fram í.) Ef þetta er sannleikurinn í málinu, þá kann ég ekki að lesa, þá hlýt ég að hafa lesið aftur á bak sem ég vona að ekki hafi gerst.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði að það þýddi ekki að vera að veifa gömlum plöggum og gömlum fundargerðum, þó að einu sinni hafi verið rætt um þetta efni, þá hafi menn verið að hugsa um allt aðra hluti þangað til þeir komu auga á steinullarverksmiðjuna. Það er náttúrlega mjög auðvelt að sanna með því að vitna í fundargerðir hvernig málin þróuðust, og ef hann ætlar að halda því fram, að við höfum verið að braska með vikurútflutning áður en við tókum til við að athuga byggingu steinullarverksmiðju, þá fer hann villur vegar, því að það er rétt núna síðustu árin sem Jarðefnaiðnaður hefur verið að fást við útflutning á vikri.

Ég skal ekki ræða þennan þátt miklu meira. Ég sé ekki að það hafi neina þýðingu. Þegar haldið er fram svona firru, rakalausri firru, þá verður hún ekki kveðin niður nema með einu móti, bara með því eina móti að þm. sjái í gegnum þær blekkingar, sem svona eru bornar fram og lagðar á borðið, og greiði atkv. um tillöguna að þeirri athugun lokinni eftir sinni sannfæringu og ekki öðru.

Við skulum í þessu efni ekki viðhafa sömu vinnubrögðin og hæstv. iðnrh. sagðist hafa haft þegar hann tók ákvörðun um að gera tillögu um að verksmiðjan færi til Sauðárkróks. Hann segir að sú ákvörðun sé ekki byggð á efnislegum rökum. Hún er aðeins pólitísk ákvörðun. Svona eigum við ekki að vinna þegar við erum að fást við málefni sem þetta. Ég treysti því, að alþingismenn hafi á því sama mat og ég, en ekki sama mat og hæstv. iðnrh., því að það er hættulegt þegar menn ganga fram hjá efnislegum rökum sem þegar hafa verið lögð fram. (Iðnrh.: Efnislegum mismun.) Efnislegum rökum. Við sjáum hvað kemur út af spólunni.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði líka að hann hefði séð áætlanir hjá Steinullarfélaginu fyrir norðan um að því hefði dottið í hug að vera með útflutning á steinull og sér hefði litist illa á þá útreikninga og þær áætlanir. Þó er það svo, að heiðursmennirnir Vilhjálmur Lúðvíksson og Hörður Jónsson, sem hafa rannsakað þetta mál mest á vegum hæstv. iðnrh., halda því fram, að það geri allan reksturinn öruggari og vænlegri að styðjast við útflutning. Það er sagt hér svo að óyggjandi er.

Hér segir með leyfi hæstv. forseta: „Stærri verksmiðjan er þó ekki óraunhæf að því er arðsemi varðar, en að teknu tilliti til erfiðari rekstrarskilyrða fyrir stóra verksmiðju með litla nýtingu á afkastagetu er að okkar mati rétt að velja minni verksmiðjuna, en hagnýta útflutningsmöguleika eftir föngum.“

Þetta segja þessir háttvirtu menn 18. mars 1982. Kannske hefur þetta komið í hendur hæstv. ráðh. eftir að hann tók þessa pólitísku ákvörðun. Hann hefur þess vegnagengið fram hjá efnislegum rökum. En þetta er eitt af því sem ég get kallað ákveðin efnisleg rök sem mæla með því, að verksmiðjan sé byggð í Þorlákshöfn en ekki á Sauðárkróki.

Mér þykir líka rétt að kynna hér lítils háttar hugleiðingar sem sérfræðingur á þessu sviði hefur leyft mér að hafa afnot af, — sérfræðingur sem hefur unnið heilmikið við slíkar athuganir í ríkiskerfinu og eru þess vegna þessar aðstæður mjög vel kunnar. Ég vildi kynna hér það sem hann hefur um þetta mál að segja.

Hann telur að ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til tveggja þátta, sem þó eru mikilvægir ef litið er til langs tíma, í þeirri athugun sem gerð hefur verið af hálfu steinullarnefndarinnar, þeirra Vilhjálms og Harðar. Það eru þeir þróunarmöguleikar, sem steinullarverksmiðjan gæti gefið, og nauðsyn þess, að íslensk fyrirtæki reyni eftir mætti að selja vörur sínar á erlendum mörkuðum vegna vöruvöndunar og vöruþróunar sem af því leiðir. Staðsetning steinullarverksmiðju í Þorlákshöfn gæti verið fyrsta skrefið til þess að mynda staðbundna þekkingu á einangrunar- og byggingarvörum sem þarf ef nýta á þau jarðefni sem finnast á Suðurlandi. Nálægð Þorlákshafnar við aðalmarkaðinn í landinu fyrir ýmiss konar framleiðslu til byggingariðnaðar eykur líkurnar á því, að slík þróun eigi sér stað og langþráður draumur um léttar byggingareiningar og lækkandi byggingarkostnað geti orðið að veruleika. Þetta er annar þátturinn sem þessi sérfræðingur telur að mæli sérstaklega með því að setja verksmiðjuna upp í Þorlákshöfn.

Hinn þátturinn er sá, að við höfum bitra reynslu af mörgum fyrirtækjum sem í krafti fjarlægðar eða annarrar verndunar leyfa sér að gera að engu vöruvöndun og vöruþróun og eru síðan styrkt með almannafé til að standast samkeppni við innflutta vöru.

Ef væntanleg steinullarverksmiðja eygir einhverja möguleika á því að flytja út steinull ætti að gera henni það eins auðvelt og kostur er. Hörð samkeppni á erlendum mörkuðum ýtir undir framleiðendur að fylgjast vel með vöruþróun keppinauta og vanda gæði vöru sinnar sem mest. Þessi andvari kæmi innlendum neytendum til góða og verksmiðjan mundi halda sinni upphaflegu samkeppnisstöðu innanlands.

Ákvörðun um að staðsetja steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki gerir að engu þá möguleika sem hér hafa verið upp taldir. Staðarval, sem býður upp á minni arðsemi, eykur líkurnar á því, að stjórnendur verksmiðjunnar leiti til hins opinbera um stuðning í einhverri mynd sem endanlega verður borgaður af almenningi.

Ég kynni þessi tvö atriði hér af því að ég tel að þau séu mjög mikilvæg þegar lagt er út í nýjan iðnað. Það er ekki vænlegt að leggja út í iðnað sem eingöngu byggir á innanlandsmarkaði og er í harðri samkeppni við framleiðslu erlendra fyrirtækja sem hafa þróaða markaði og eru búin um langan aldur að þróa sína vöru og vanda hana. Við verðum að búa við einhvers konar vernd ef þessi litlu fyrirtæki eiga ekki að standa höllum fæti, og þau kynnast því ekki hvernig þarf að ganga til verks til þess að þóknast vandlátum neytendum og halda vöru sinni í þeim gæðaflokki sem þarf til þess að hún sé útgengileg. Þetta eru áreiðanlega þeir þættir sem hafa mikla þýðingu þegar við veljum á milli stærðar, sem getur stuðst við útflutning, og stærðar, sem getur það ekki.

Það hefur verið rætt um það, að ekki mætti hugsa til þess að byggja á útflutningi nema örugg vissa væri fyrir hendi um að hægt væri að selja framleiðsluna. Það er sem ég sjái að hægt væri að segja við íslenska útvegsmenn: Þið skuluð ekki veiða fisk sem þið verðið að setja upp í skreið, því það er ómögulegt að segja vegna markaðsörðugleika hvenær hægt er að selja skreiðina. Nei, ég held að eina vörn okkar til þess að halda uppi öflugum vinnuafköstum og vinnulaunum í landinu sé að þora að leggja í útflutningsiðnað þó það hafi einhverja áhættu í för með sér, þora að brjóta upp á verki sem hefur í sér fólgna möguleika til þess að lyfta kjörum okkar nokkru hærra.

Ég veit ekki hvort ástæða er til að ég hafi þessi orð mín öllu fleiri. En þó verð ég að lokum að koma að því sem ég ýjaði að í byrjun máls míns, og það er það frumkvæði sem Sunnlendingar hafa haft í þessu efni. Ég ætla ekki að rekja þá sögu náið, en ég veit að hægt er að leiða að því. vitni hvenær sem er, að stöðug vinna að þessu verkefni hefur átt sér stað allar götur síðan Jarðefnaiðnaður hf. var stofnaður 1974. Mér er fullkunnugt um að á þeim tíma var ekki farið að huga að steinullarverksmiðju á Sauðárkróki. Þess vegna verð ég að segja að mér ofbauð þegar ég heyrði í morgunvöku 23. febr. í vetur viðtal við bæjarstjórann á Sauðárkróki, Þorstein Þorsteinsson, að verið var að spyrja hann út úr um steinullarverksmiðjuna og hann endar mál sitt á þessum vel völdu orðum: „Við völdum þetta verkefni til að vinna að fyrir mörgum árum og erum búnir að ljúka þeirri vinnu núna, þannig að við teljum ekkert eðlilegt í því, að það verði farið að rjúka með þetta eitthvað annað.“ Hvað er verið að rjúka með eitthvað annað en á Sauðárkrók? Verksmiðjuuppbyggingu, framleiðsluaðferð sem við höfum verið að gera áætlanir um sem Sauðkrækingar vilja nú fá. Þeir urðu að falla frá því sem þeir hafa verið að basla við allan þennan tíma, þessa frönsku verksmiðju, eru svo með stór orð og yfirlætisleg um það frumkvæði sem þeir þykjast hafa haft. Það er ekki að furða þó manni hitni í hamsi við að heyra svona oflátungsorðbragð.

Ég vil svo að lokum aðeins segja það, að ég veit ekki til að það finnist bókað nokkurs staðar hjá Jarðefnaiðnaði hf. að farið hafi verið fram á að fá fjárhagslega aðstoð ríkisins til að koma þessu máli í höfn. Hitt er annað mál, að það var á sínum tíma leitað eftir tæknilegri aðstoð, sem var fúslega veitt, og ber að þakka það.

Ég verð að segja að ég harma það nú að við skyldum ekki, þegar þeirri tæknilegu aðstoð lauk, ríða á vaðið og efna til byggingar verksmiðjunnar þá strax. Nú er komið á þriðja ár síðan þessari tæknilegu vinnu var lokið. Þá værum við betur á vegi staddir en núna, eftir allan þennan velting á milli ráðuneyta í tvö til þrjú ár.

Það vakti athygli mína fyrir nokkrum dögum, þegar viðtal var við bæjarstjórann á Sauðárkróki um verksmiðjuna og hann spurður um framgang málsins, þá var svar hans að síðustu þetta ef ég man rétt: „Það er alger forsenda fyrir byggingu verksmiðjunnar á sauðárkróki að hlutdeild ríkisins komi til“.

Ég held að ég endi orð mín á að segja þetta: Ég vona að þeim verði það að góðu, en það er einnig von mín að við þurfum ekki að lúta að því.