31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3462 í B-deild Alþingistíðinda. (3006)

243. mál, steinullarverksmiðja í Þorlákshöfn

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Hv. flm. þessarar till. hafa þegar fært fram fullnægjandi rök fyrir staðsetningu steinullarverksmiðju í Þorlákshöfn eins og till. þessi gerir ráð fyrir. Sé ég ekki ástæðu til að endurtaka þá röksemdafærslu. Till. fer í nefnd þar sem ég á sæti, og þar gefst mér tækifæri til nánari umfjöllunar áður en hún kemur hér aftur til umr.

Margt mætti að vísu ræða í þessu sambandi og þá ekki síst hversu iðnrh. og ríkisstj. hafa klúðrað þessu máli sem og fleirum þessa dagana. Umr. í dag um virkjunarmálin og nú í kvöld um þetta mál benda til að ríkisstj. hafi ekki orðið þingmeirihluta í ýmsum málum sem illa hefur verið staðið að af hennar hálfu, og uppsker hún þannig eins og hún sáir.

Hv. þm. Páll Pétursson sagði áðan að Sunnlendingar hefðu seilst inn á verksvið ríkisstj. með þessum tillöguflutningi. Nú finnst honum gott að ríkisstj. leysi málið þegar hann á von á að Sauðárkrókur verði fyrir valinu.

En hvernig er með virkjunarmálin? Var að heyra á honum í dag hér á Alþingi að þau væru í góðum höndum hjá ráðherrunum Hjörleifi, Pálma og Ragnari ásamt fleirum? En þetta eru einmitt mennirnir sem berjast gegn Suðurlandi í steinullarmálinu og böðlast þar eins og í virkjunarmálunum. Í steinullarmálinu eru vinnubrögð þessara manna af hinu góða að dómi hv. þm. Páls Péturssonar, en í virkjunarmálunum af hinu vonda.

Ég vil aðeins að lokum vekja athygli á ákvæði til bráðabirgða í lögunum frá 25. maí s.l. um steinullarverksmiðju. Það hljóðar svo:

„Ekki er ríkisstj. heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélags samkvæmt 1. gr. né leggja fram fé ríkissjóðs sem hlutafé samkvæmt 1. tölul. 3. gr. né veita ríkisábyrgð eða taka lán samkvæmt 2. tölulið 3. gr. fyrr en tryggð hafa verið hlutafjárframlög annarra aðila fyrir 60% af hlutafé væntanlegs félags og aflað hefur verið öruggra viðskiptasambanda.“

Nú spyr ég: Telur ríkisstj., þrátt fyrir þetta ákvæði, að henni sé heimilt að lýsa yfir þátttöku sinni í steinullarverksmiðju á Sauðárkróki áður en fyrir liggi árangur hlutafjársöfnunar og aflað hafi verið öruggra viðskiptasambanda? Iðnrh. hlýtur að hafa kynnt sér þessi atriði hjá báðum aðilum á grundvelli laganna áður en hann tók sina ákvörðun og lagði fyrir ríkisstj. Ég leyfi mér að vænta skýrra svara við þessu.