31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3463 í B-deild Alþingistíðinda. (3007)

243. mál, steinullarverksmiðja í Þorlákshöfn

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð hv. þm. Garðars Sigurðssonar, að vissulega er það ókostur að umr. um þetta mál skuli fara fram á þessum tíma sólarhrings. Það finnst mér ekki gott.

Í lögunum, sem samþykki voru á Alþingi 25. maí 1981, um steinullarverksmiðju, segir í 1. gr.: „Ríkisstj. er heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélags, er reisi og reki steinullarverksmiðju, og að leggja fram í því skyni allt að 40% af hlutafé þess, enda verði hlutafé félagsins minnst 30% af stofnkostnaði verksmiðjunnar.“

Af þessu tel ég að þessi þáltill. á þskj. 472 sé óþörf og það sé ríkisstjórnarinnar að velja sér samstarfsaðila eftir að athuganir á framlögðum gögnum hafa farið fram.

Ég ætla ekki hér og nú að eyða löngum tíma í umr. þó vissulega megi margt segja um þetta mál.

Allt frá árinu 1975 hef ég fylgst með þróun og framvindu undirbúnings að stofnsetningu steinullarverksmiðju á Sauðárkróki. Þar hafa menn reynt að feta sig áfram skref fyrir skref að ákveðnu marki sem nú sýnist sem betur fer í sjónmáli. Þar hefur verið lagt meginkapp á að vanda allan tæknilegan og viðskiptalegan undirbúning fyrirtækisins. M.a. hafa nákvæmar rannsóknir farið fram á fyrirhuguðu námusvæði með aðstoð Iðntæknistofnunar og Norrænu eldfjallastöðvarinnar. Þessar rannsóknir voru gerðar til að ganga úr skugga um stöðugleika í samsetningu hráefnis. Einnig hafa bræðsluprófanir efnisins verði gerðar erlendis. Niðurstöður þessara rannsókna hafa verið í alla staði mjög jákvæðar.

Með bréfi til steinullarnefndar iðnrn. í ársbyrjun 1980 tilkynnir Steinullarfélagið hf. þá niðurstöðu sína, að það hyggist stefna að minni verksmiðju sem miði fyrst og fremst við innanlandsmarkað. Aftur á móti hefur Jarðefnaiðnaður hf. lagt allt kapp á verksmiðju, er miði að útflutningi í miklum mæli, talið fásinnu að ræða um þá verksmiðjuhugmynd, sem Steinullarfélagið hf. hefur verið með í sínum áætlunum, og barist gegn þeirri hugmynd í a.m.k. tvö ár. Nú hafa þeir hins vegar fallið frá hugmynd sinni um útflutning að þeirri verksmiðjustærð sem Steinullarfélagið á Sauðárkróki hefur barist fyrir. lítilli verksmiðju.

Þegar frv. til l. um steinullarverksmiðju var hér til umr. fyrir um ári sagði iðnrh. m.a. með leyfi herra forseta: „Ég tel ekki óeðlilegt að þeim aðila, sem hyggst byggja á útflutningi, gefist kostur á að láta reyna á markaðsöflun og teljist hún nægilega trygg að mati stjórnvalda verði notaðar heimildir til ríkisþátttöku í slíku fyrirtæki að því marki sem nauðsynlegt er talið innan ramma lagaheimilda.“

Þar með var ljóst að ef Jarðefnaiðnaði hf. tækist að styðja áætlanir sínar með haldbærum rökum mundi iðnrh. gera tillögu um staðsetningu steinullarverksmiðju með um 15 þús. tonna afkastagetu í Þorlákshöfn. Þetta hefur Jarðefnaiðnaði hf. ekki tekist og því gera hv. þm. nú tillögu um byggingu á litilli verksmiðju í þá átt sem Steinullarfélagið var með í sínum áætlunum.

Um það hefur verið rætt af þeim jarðefnaiðnaðarmönnum, að sú framleiðsluaðferð, sem Steinullarfélagið var með í athugun, hafi ekki gefið nægilega góða raun. Þar er átt við St. Gobain aðferðina. Staðreynd þessa máls er sú, að Steinullarfélagið hefur frá upphafi málsins verið í sambandi bæði við Elkem og Jungers um vélbúnað og einnig hefur verið rætt við fleiri fyrirtæki, sjálfsagt ein átta að tölu. Reynt hefur verið að kanna til hlítar hæfni, verð, afkastagetu og fjölbreytni framleiðslunnar. Þetta hefur verið gert og reynt að meta. En það vona ég að öllum sé ljóst er um þetta mál fjalla, að það er ekki undirbúningsfélagsins að taka ákvörðun um vélbúnað. Það á rétt kjörin stjórn þess fyrirtækis, er stofnað verður, að gera.

Í skýrslu steinullarnefndar iðnrn. um staðsetningu og hagkvæmni steinullarverksmiðju segir m.a. í kaflanum um staðarval, með leyfi forseta:

„Svæðisbundin atvinnuáhrif eru talsvert sterkari á Sauðárkróki en í Þorlákshöfn. Að því leyti eru áhrif verksmiðjunnar á byggðaþróun sterkari þar.“ Og áfram er haldið: „Áhrif verksmiðjunnar á flutningakerfi landsins eru hagstæðari á Sauðárkróki en í Þorlákshöfn“. Og enn: „Þar sem bæði Suðurland og Norðurland vestra og reyndar fleiri landshlutar þurfa nauðsynlega á þeirri atvinnuaukningu að halda, sem felst í byggingu verksmiðju slíkrar sem hér um ræðir, gæti ákvörðun um staðarval ráðist af því, í hvorum landshlutanum er auðveldara að finna annan kost jafngóðan innan svipaðs tíma til að leysa það vandamál sem við blasir.

Ég fagna þeim hugmyndum sem nú eru uppi til aukinnar atvinnuuppbyggingar á Suðurlandi, svo sem um sykurverksmiðju, ylræktarver, stálverksmiðju og um ýmiss konar framleiðslu úr vikri. Hugsanlegir eru atvinnumöguleikar á Suðurlandi í tengslum við sjóefnavinnslu á Reykjanesi, svo ég nefni ekki stærri atvinnukosti sem mér skilst að sumir menn séu nú að tala um.

Þessu ber vissulega að fagna. Þetta eru atvinnukostir sem hver um sig er töluvert stærri og raunar sumir miklu stærri en steinullarverksmiðja og koma því til með að veita fleirum atvinnu og styrkja mjög atvinnulíf á Suðurlandi.

Það er sjálfsagt öllum ljóst varðandi það fyrirtæki, sem hér er um rætt, að fast hefur verið sótt að fá það staðsett bæði á Sauðárkróki og í Þorlákshöfn. Hafa menn bent m.a. á einhæft atvinnulíf þessara kjördæma máli sínu til stuðnings.

Herra forseti. Mín lokaorð verða því þessi. Steinullarfélagið á Sauðárkróki hefur unnið að undirbúningi að stofnsetningu verksmiðju er miði starfsemi sína við innanlandsmarkað. Jarðefnaiðnaður hf. hefur aftur á móti unnið að undirbúningi að stórri verksmiðju er miði að útflutningi. Niðurstaða þeirrar nefndar, er að þessu máli hefur unnið á vegum iðnrn., er að sá kostur, er Steinullarfélagið hefur unnið að, sé besti kosturinn. Ef hins vegar stærri verksmiðjan hefði verið talin skárri kostur hefði Steinullarfélagið örugglega tapað í þessu máli. Út frá þessum forsendum er því eðlilegra að staðsetja verksmiðjuna á Sauðárkróki. Hvað aðra atvinnuuppbyggingu varðar á þessum svæðum er ljóst að atvinnukostir á Suðurlandi eru margvíslegir, eins og ég hef bent á. Hins vegar verður því miður að segja um Norðurland vestra að þar er ekki um marga kosti að ræða og engir í sjónmáll nema steinullarframleiðsla sem byggi framleiðslu sína á basalti sem gnægð er af við Skagafjörð. Það eru vandfundin atvinnufyrirtæki í iðnaði sem er rekstrarlega hagstætt að reisa og reka utan stór-Reykjavíkursvæðisins. Hér hefur þó tekist að finna slíkan atvinnukost. Því vænti ég þess, að afgreiðsla þessa máls verði á þann hátt sem hæstv. iðnrh. hefur lagt til í ríkisstj. eftir mjög ítarlega skoðun á málinu.