31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3465 í B-deild Alþingistíðinda. (3008)

243. mál, steinullarverksmiðja í Þorlákshöfn

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Ég ætla að láta öðrum það hlutverk eftir að tímasetja hugmyndir manna um steinullarverksmiðju á Íslandi, enda er steinullarframleiðsla nokkuð gömul iðngrein og steinull þekkt einangrunarefni hér á landi. Það er þekkt í sögunni, að tveim eða fleiri hafa dottið í hug svipaðar hugmyndir á svipuðum tíma án þess að vita hverjir af öðrum, og tel ég að metingur um það atriði, hverjum íslenskum aðila datt fyrst eða fyrr í hug að grjótið í kringum okkur kynni að vera einhvers virði, sé algert aukaatriði þegar talað er um framleiðslu steinullar á Íslandi. Með þessu vísa ég á bug sem rökum í málefninu efni bréfs sem alþm. var sent með yfirskriftinni „Hvað vilja Sauðkræklingar vita um upphaf steinullarstarfsemi á Suðurlandi.“ Í þessu bréfi er getið margra ártala og atburða sem ég hef enga möguleika á að sannreyna hvort er rétt eða rangt, enda tímasetningar viðtala, funda eða annars, sem fram kemur í bréfinu sem undirritað er af herra Ölver Karlssyni, harla lítið innlegg í það mál sem hér er um rætt.

Ég hef ekki kynnt mér, hvenær menn á Suðurlandi fóru fyrst að hugsa um og tala um framleiðslu steinullar, og tel það einnig heldur lítið innlegg í umr. Ég mun ekki heldur saka neinn um fávísi eins og gert er í bréfinu. Ég mun ekki heldur saka neinn um að hafa blekkt einhvern, eins og getið er um í þessu ágæta bréfi. Aðalatriði í þessu máli er ekki sögulegs eðlis, heldur leiði ég hugann að nútímanum, uppbyggingu iðnaðar og fjölbreyttari atvinnutækifærum víðs vegar um landið. Í mínum huga er efst skynsamleg dreifing atvinnutækja um landið, en ekki hugsanir manna fyrir allt að 16 árum, eins og fyrir kemur í títt nefndu bréfi.

Fyrst þegar ég kom hingað sem þm. á hv. Alþingi veturinn 1979 varð ég var við áhuga manna á Sauðárkróki um stofnun steinullarverksmiðju þar, og var mér kynnt málið sem þm. kjördæmisins. Menn komust fljótlega að þeirri niðurstöðu, að útflutningur steinullar væri ekki arðvænlegur og bæri því að miða framleiðsluna aðallega við innlendan markað, þótt eitthvað yrði e.t.v. að flytja út meðan markaður væri að nást innanlands í samkeppni við innfluttar vörur markaður væri að nást innanlands í samkeppni við innfluttar vörur svipaðs eðlis, þ.e. ef um möguleika á útflutningi væri að ræða. Nokkru síðar bárust fréttir af því, að Jarðefnaiðnaður hf. á Suðurlandi hefði einnig áhuga á að reisa steinullarverksmiðju í Þorlákshöfn og þá miklu stærri verksmiðju, fyrst og fremst með útflutning í huga. Á undanförnum misserum hefur síðan verið allmikið deilt um hversu arðvænlegur útflutningur steinullar væri. Steinullarfélagið hf. hefur haldið því fram, að útflutningur steinullar væri ekki arðvænlegur, en Jarðefnaiðnaður hf. hefur haldið hinu gagnstæða fram og talið að stóra verksmiðju ætti að reisa og flytja út steinull til annarra landa. Nefndir hafa verið settar í málið, markaðskannanir gerðar, útreikningar gerðir og skýrslur gefnar út, ýmist að tilhlutan félaganna eða iðnrn.

Við hinir almennu þingmenn, e.t.v. með litla tækniþekkingu eða of litla þekkingu.á völundarhúsi markaðsins, verðum oftar en ekki að treysta á hlutlaust mat annarra og þá helst þeirra sem sérþekkingu hafa til að bera á hinum ýmsu sviðum, vegna þess að við eigum vart annars kost í ýmsum tilvikum. Síðasta skýrsla, sem ég hef séð um þessi mál, er frá 17. des. 1981 og er undirrituð af Herði Jónssyni og Vilhjálmi Lúðvíkssyni, og veit ég ekki annað en að þeir séu mjög virtir og vel metnir menn á sínu sviði. Þar sem ég þykist vita að hv. alþm. hafi þessa skýrslu undir höndum og hafi kynnt sér hana að nokkru ætla ég mér ekki að eyða tíma hv. alþm. með því að fara sérstaklega eða nákvæmlega út í þessa skýrslu, heldur benda á örfá atriði sem þar koma fram.

Fyrst vil ég benda á bls. 4 í skýrslunni, en þar koma fram nokkur atriði sem ég vil sérstaklega minnast á. Þar er talað um útflutning varmaeinangrunar til Bretlands, og í skýrslunni segir:

„Má í því sambandi benda á að verulegt offramboð er á óbrennanlegri einangrun (steinull og glerull) í Bretlandi, enda framleiðslugeta þar talin um 195 þús. tonn á ári, en markaðsstærðin rétt um 100 þús. tonn.“ Framleiðslumöguleikarnir í Bretlandi eru því rétt rúmlega hálfnýttir.

Síðar í skýrslunni, undir lið 4, segir enn fremur, með leyfi forseta: „Jarðefnaiðnaður leggur nú fram tvær rekstraráætlanir, annars vegar fyrir 6 þús. tonna verksmiðju og hins vegar fyrir 14 400 þús. tonna verksmiðju. Hefur Jarðefnaiðnaður lækkað áætlaða sölu sína á heimamarkaði verulega frá því sem var í fyrri tillögu til samræmis við markaðsáætlun Steinullarfélagsins sem við höfum metið raunhæfa“.

Enn fremur vil ég benda hv. þm. á að gefa gaum að arðsemitölum á bls. 5 og 6, en á bls. 5 segir m.a. undir lið 6: „Heildarniðurstaða okkar er sú, að lítil verksmiðja gefi besta arðsemi og öryggi að því er markaðsmál varðar. Hins vegar virðist stærri verksmiðja, sem miðuð er við framleiðslu fyrir erlendan markað í meira mæli, ekki bjóða upp á aukna arðsemi, en fjárfestingarkostnaður er 28.8% hærri.“ Þetta segir í þessari ágætu skýrslu.

Eins og fram kemur í lokaniðurstöðum fyrrnefndar skýrslu, sem ég hef leyft mér að lesa upp úr, segir í næstsíðustu málsgr. að arðsemimörk og byggðarleg rök mæli ekki afgerandi með öðrum staðnum frekar en hinum. Þetta geta menn lesið sér til um í skýrslunni, og ég ætla ekki að fara að tefja tímann að óþörfu með því að lesa meira upp úr henni.

Þá er spurningin: Hvað skal þá ráða staðarvali verksmiðjunnar? Eflaust kemur margt til greina þegar að þeirri ákvörðun kemur. Hæstv. ríkisstj. hefur komist að sinni niðurstöðu sem flm. þáltill. sem hér er til umr. hafa greinilega ekki sætt sig við, þó flestir liti svo á að hæstv. ríkisstj. hafi fulla lagaheimild til endanlegrar ákvörðunar um samstarfsaðila og þá staðsetningu um leið. Um hvað er þá deilt?

Ég gat þess hér fyrr, að skiptar skoðanir hefðu verið um stærð væntanlegrar verksmiðju og arðsemi útflutnings, en nú vil ég spyrja: Er það sanngirniskrafa flm. þessarar þáltill., að hvort sem þeirra áætlanir stæðust eða ekki skyldi verksmiðjan verða reist í Þorlákshöfn? Er það mat þeirra, að hvort sem þeir hefðu rétt eða rangt fyrir sér í sínum útreikningum skipti það ekki máli, þeir skyldu hafa vinninginn samt? Ef svo er verð ég víst að fara heim og lesa mér betur til í almennri siðfræði.

Ég vil spyrja flm. þessarar þáltill.: Eiga Sunnlendingar engra kosta völ nema þessarar einu tiltölulega litlu steinullarverksmiðju til atvinnuuppbyggingar í byggðarlaginu? Ég vil þá geta um að nokkur vikurútflutningur hefur verið um landshöfnina í Þorlákshöfn. Það hefur verið talað um blómaræktarver í Hveragerði. Á borðum okkar er frv. til l. um sykurverksmiðju með afkastavexti allt upp í 29.4%, sem á að staðsetjast í Hveragerði. Ég spyr: Hvað með stærsta mjólkurbú á Norðurlöndum? Hvað með auðugustu fiskimið landsins úti fyrir ströndinni? Það mætti lengur telja. Hvað með ferðamannamóttöku í hinum víðlendu og fögru sveitum héraðsins? Hvað með myndarlegt skólasetur á Laugarvatni, héraðsskóla, menntaskóla, húsmæðraskóla, íþróttakennaraskóla? Ég tel þetta allt nokkurs virði. Hvað með sunnlenska sölu á svokölluðum einingahúsum og framleiðslu þeirra, sem eru seld til annarra landsfjórðunga, m.a. til Norðurlands vestra? Ýmissa spurninga í sama dúr mætti spyrja.

Herra forseti. Mér er ljúft og skylt að viðurkenna að flm. þessarar þáltill. eru hluti af þjóðinni og eiga þar af leiðandi rétt á sínum skammti af þeirri svokölluðu köku sem þjóðin þarf að skipta á milli sín. En við á Norðurlandi v. erum líka hluti af þjóðinni og þurfum líka að fá af kökunni. E.t.v. væri auðveldasta leiðin til að allt gengi vel að við flyttum öll hingað suður og jafnvel suður í Þorlákshöfn. Það þyrfti örfáar blokkir handa okkur þar og þá gætu allir verið ánægðir og allt yrði svo ódýrt og viðráðanlegt. En það er ekki það sem við viljum, hvorki Sunnlendingar að flytja til Reykjavíkur né Norðlendingar að flytja suður á land. Þess vegna verðum við að temja okkur aðeins víðari sjóndeildarhring en þessi tillögugerð flm. ber vott um, þar sem er verið að taka þau völd frá ríkisstj„ sem við gáfum henni í fyrra, og eingöngu í tilgangi héraðapots.

Hv þm. Garðar Sigurðsson hélt hér langa og ágæta ræðu fyrr í kvöld og sagði þá m, a. að ráðh. væru framkvæmdastjórar Alþingis og ættu að gera vilja þess. Þar erum við hv. þm. Garðars Sigurðsson alveg sammála. Á vordögum í fyrra, nánar tiltekið 25. maí, gaf Alþingi — og ég vænti með atkv. hv. þm. Garðars Sigurðssonar — ríkisstj. heimild til að taka þátt í stofnun hlutafélags er reisi og reki steinullarverksmiðju. Það var auðvitað það sem ríkisstj. átti að gera. Hún átti að ákveða hvern aðila hún fengi til samstarfs við sig og hefja svo undirbúning og framkvæmd. En það er leiðindasvipur yfir því að Alþingi gefi ríkisstj. heimild eða fyrirmæli eitt árið og taki það svo til baka næsta ár.

Herra forseti. Þetta er orðinn langur fundur og langar umr., enda eðlilegt þar sem hér er um atvinnutækifæri að ræða sem báða landshluta vantar sárlega. Með tilliti til þess, að möguleikar í iðnaði í Skagafirði eru fábreyttari en á Suðurlandi er ég meðflm. að þeirri brtt. sem útbýtt var á borð okkar nú í kvöld á þskj. 568, en ég óska Sunnlendingum alls hins besta í atvinnumálum þeirra í framtíðinni.