01.04.1982
Efri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3476 í B-deild Alþingistíðinda. (3025)

255. mál, almenn hegningarlög

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. það um breytingu á almennum hegningarlögum og breytingu á sektarmörkum nokkurra laga, sem hér er lagt fyrir hv. Ed., fjallar um breytingar á sektarákvæðum almennra hegningarlaga, sem eru í 50. gr. laganna, og um breytingu á sektarákvæðum 52 annarra laga sem teljast til svonefndra sérrefsilaga.

1. gr. frv. fjallar um 50. gr. almennra hegningarlaga þar sem ákveðið er hámark sektar samkv. þeim lögum, og af því ákvæði ræðst einnig hámark sektar sem beita má samkv. öðrum lögum sem tiltaka ekki sérstakt sektarhámark. En annar meginþáttur þessa frv. er að fella brott út sérrefsilögum bundna krónutölu sekta. Hámark sektar samkv. 50. gr. er 300 þús. kr., en í frv. er lagt til að það verði hækkað í 1 millj. kr. Síðast var þessu ákvæði breytt með lögum nr. 34 frá 23. maí 1980 og er nú verið að færa mörkin upp vegna verðbólguáhrifa, bæði þeirra, sem þegar eru orðin, og eins með tilliti til þess, að ekki þurfi að breyta ákvæðum aftur þegar á næsta ári.

Í 2. -53. gr. frv. er fjallað um viðurlagaákvæði 52 laga sem hafa að geyma sektarákvæði þar sem ákveðin er krónutala sektarfjárhæðar. Öll þessi ákvæði eiga það sammerkt, að þessi sektarmörk eru orðin úrelt og í mörgum tilvikum hefur afleiðing þess orðið sú, að lögin hafa orðið óvirk. Hegningarlaganefnd hefur tekið saman tillögur um breytingar á refsiákvæðum þeirra laga, þar sem sektarmörk eru þannig bundin, og eru það 200 lög. Í stað þess að bera fram frv. til breytinga á öllum þeim lögum var valinn sá kostur að velja úr það sem að mati nefndarinnar og rn. var mest þörf á að breyta í fyrsta áfanga. Þessar tillögur voru kynntar öðrum rn. og varð samkomulag um að þessar brtt. væru fluttar af dómsmrh. í einu frv. í stað þess að flytja 53 frv.

Allar þessar breytingar eiga það sammerkt, eins og þegar er rakið, að niður eru felld ákvæði um tiltekin sektarmörk og lagt til að brot varði sektum, sem merkir þá að mat sektarupphæðar er lagt í hendur dómstóla innan marka ákvæðis 50. gr. almennra hegningarlaga. Þetta þýðir þó ekki að sektir þurfi almennt að hækka að raungildi, en að sjálfsögðu þýðir þetta að sektarákvæði verða virk þar sem þau eru óvirk nú.

Í einstaka tilvikum, svo sem í lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun, er lagt til að viðurlög verði þyngd og að auk sekta verði heimilt að beita varðhaldi eða fangelsi ef sakir eru miklar. Þá er rétt að vekja athygli á því, að lagt er til að sektir renni almennt í ríkissjóð, en í nokkrum tilvikum eiga þær nú að renna í sveitarsjóð. Eftir að löggæsla er nú alfarið rekin á kostnað ríkissjóðs þykir rétt að sektartekjur renni til ríkisins.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.