04.11.1981
Efri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að ég hef óskað eftir að taka til máls utan dagskrár, er sú, að undanfarna daga hefur ekki átt sér stað kennsla í öldungadeild Fjölbrautaskóla Suðurnesja, reyndar er svo komið einnig á Akranesi, og er það mjög bagalegt fyrir þá nemendur sem þar eru vegna þess að nú er langt komið á önn og fyrirséð er að ef svo heldur áfram sem verið hefur verði nemendur fyrir miklu tjóni, missi mjög úr tíma, og það sem verra er, horfur eru á að ef ekki leysist úr þeim deilumálum, sem eiga sér stað milli kennara og fjmrn. um launagreiðslur, verði varla unnt að halda uppi öldungadeild á Suðurnesjum og annars staðar á landinu, en mér skilst að fleiri öldungadeildir séu þannig komnar að kennarar vilji ekki kenna þar fyrir þau laun sem þeim eru boðin.

Mér er tjáð að þegar Fjölbrautaskóli Suðurnesja tók til starfa hafi verið viðurkennt af hendi launadeildar fjmrn. með bréfi, sem var dags. 13. mars 1979, að kennarar við öldungardeildarskóla þar, þ. e. Fjölbrautaskólann á Suðurnesjum, fengju sömu launagreiðslur og eru í Menntaskólanum við Hamrahlið, en þær launagreiðslur eru þannig, að kennarar við öldungadeild fá 1.6% af mánaðarlaunum á tíma. Var svo um nokkurn tíma, en síðan mun rn. hafa einhliða sagt upp þessu samkomulagi og í framhaldi af því lækkað laun þessara manna niður í 1.2%. Þetta hefur eðlilegt vakið mikla gremju hjá kennurum, þar sem þeir vita að áfram er greitt samkv. fyrra samkomulagi Í Menntaskólanum við Hamrahlið. Þeir vilja ekki una þessu og hafa reyndar stöðvað vinnu, gerðu það í gær og fyrradag og einhvern daginn þar áður. Þeir hafa óskað eftir viðræðum við launadeildina eða fulltrúa fjmrn., en þeir fengu það hrokafulla svar, að launadeildin gæti ekki talað við þá fyrr en 12. nóv. n. k., sem þeir töldu allsendis óviðunandi því ástæðulaust væri að sætta sig við launalækkun.

Því er ekki að neita, að nemendur í öldungadeildinni hafa haft af þessu þungar áhyggjur. Fyrir nokkrum dögum sendu þeir út bréf þar sem þeir gerðu grein fyrir sinni hlið málsins. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„a) Náist ekki samkomulag með deiluaðilum ónýtist nám og vinna nemenda á haustönn 1981.

b) Ríkissjóður greiðir kennsluna einungis að 1/3, sveitarfélög á Suðurnesjum greiða 1/3 og nemendur 1/3. Á þessari önn hafa nemendur í öldungadeild greitt námsgjöld sín. Óeðlilegt er að fulltrúar ríkisvaldsins semji einir við kennarasamtökin um launakjör. Fulltrúar sveitarfélaga og nemenda ættu að eiga fulltrúa í samninganefndinni.

c) Óraunhæft er að krefjast þess, að allir nemendur, sem nám stunda í öldungadeild, stefni að stúdentsprófi vegna þess að

1) unnt á að vera að stefna að námslokum á tveggja ára námsbrautum,

2) margir sækja nám í öldungadeild til endurmenntunar fyrir vinnumarkaðinn,

3) menntun er markmið í sjálfu sér og kemur þjóðfélaginu til góða.

d) Óraunhæft er að jafnmarga nemendur þurfi í hvern áfanga á landsbyggðinni og í Reykjavík vegna mismunandi íbúatölu.“

Ráðuneytið mun hafa borið því við, að það yrði að vera ákveðinn fjöldi nemenda á þessum stöðum til þess að þessi laun yrðu greidd. Svo mun vera í Hamrahlíð, að það skiptir ekki máli hvort það eru margir eða fáir í önn eða á námsbraut. Þessi laun eru greidd.

Þetta var það sem nemendafélagið sendi frá sér, en nemendurnir segja í framhaldi af þessu:

„Vegna þess ástands, sem ríkir í öldungadeildum fjölbrautaskólanna, viljum við í Fjölbrautaskóla Suðurnesja taka fram eftirfarandi:

Við teljum að verið sé að skerða verulega möguleika fullorðinna á aukinni menntun verði ekki hægt að starfrækja öldungadeildina áfram. Við viljum mótmæla því, að öldungadeildir úti á landsbyggðinni svari ekki kostnaði og þar með að fólki sé mismunað eftir búsetu hvað varðar menntunarmöguleika. Við teljum að þær aðgerðir, sem leiða til þess að kennarar sjá sér ekki fært að halda áfram kennslu, séu vítaverðar. Við styðjum kennara Fjölbrautaskóla Suðurnesja af alhug í fyrirhuguðu verkfalli verði ekki hjá svo róttækum aðgerðum komist.“

Þetta lýsir vissulega áhyggjum þess fólks sem þarna er að afla sér fullorðinsfræðslu. En það, sem lýtur að fjmrn., er hvernig verður unnið úr þessu máli, hvort hægt verður að leysa það og hvort ekki er eðlilegt — og ég álít að það sé eðlilegt — að það séu sömu launakjör úti á landsbyggðinni og eru hér í Reykjavík. Ég skil ekki hvernig stendur á því, að rn. tekur sér fyrir hendur að lækka laun kennara einhliða. Eftir því sem ég best veit um samskipti aðila vinumarkaðarins er það ríkjandi hefð að síðast gildir samningar gilda þar til aðrir eru gerðir, en ekki farið svo að sem þarna á sér stað. Ég undrast líka hvernig stendur á því, að ríkið beitir sér alfarið fyrir þessu. Nú er það svo, að það greiðir aðeins 1/3 af kennslulaunum, en sveitarfélög og nemendur greiða 2/3 og hafa ekkert verið spurð um hvernig ráðskast er með þetta.

Ég vona að það náist samkomulag um þetta. Ég legg áherslu á, að ég tel óeðlilegt að svona sé farið að, og skora á fjmrh. að beita sér fyrir því, að kennarar, sem kenna við öldungadeildir annars staðar en í Reykjavík, þ. e. í Hamrahlíð, njóti sömu réttinda og sömu launakjara og aðrir.

Þetta á sér ekki aðeins stað varðandi fjölbrautaskólana. Þetta á sér einnig stað varðandi t. d. Iðnskólann hér í Reykjavík. Þar eru greidd hærri laun en greidd eru kennurum sem kenna suður í Keflavík við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Er skemmst að minnast þess, að það þurfti að leita til tveggja kennara frá Iðnskólanum í Reykjavík eftir starfi, en þeir hættu strax störfum er þeir sáu að það var greitt minna fyrir sömu vinnu þar en í Iðnskólanum í Reykjavík.

Ég vil spyrja fjmrh. að því, hvar þetta mál sé á vegi statt, hvernig standi á því, að rn. tekur sér einhliða fyrir hendur að lækka launin við kennarana, og hvort ekki sé eðlilegt að það séu fleiri en rn. sem hafi með það að gera hvernig farið er með þessar launagreiðslur.