01.04.1982
Neðri deild: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3499 í B-deild Alþingistíðinda. (3046)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það má segja að uppákoman innan hæstv. ríkisstj. hafi birst í mörgum útgáfum hér, sérstaklega undanfarnar vikur. Ekki þarf að rifja upp ummæli hæstv. utanrrh. í garð hæstv. iðnrh. eða ýmsar athugasemdir hæstv. utanrrh. við vinnubrögð og framferði hæstv. félmrh. Öllum er í fersku minni hvað hv. þm. Páll Pétursson fjallkóngur þeirra framsóknarmanna eins og hann er kallaður, hafði um hæstv. landbrh. og raunar hæstv. fjmrh. líka að segja hér í gær. Þarna eru nú komnir nokkrir hæstv. ráðherrar sem hafa verið í sviðsljósinu nokkrar undanfarnar vikur, og allt í þeim dúr að mönnum hefur þótt það vera óeðlileg vinnubrögð, óeðlileg afskipti þessara hæstv. ráðherra af tilteknum málum.

Það er augljóst að hæstv. núv. fjmrh. ætlar ekki að vera eftirbátur þessara. Nú er hann líklega einn íslenskra fjmrh. sem gerir margítrekaðar tilraunir til þess að sannfæra hv. alþm. um að það séu ekki fjárlögin sem eigi að gilda hér, eins og frá þeim var gengið, heldur sé það fyrst og fremst frv. til fjárlaga fyrir árið 1982 og þá raunar grg. með því fjárlagafrv. Hann hefur hér margítrekað komið upp og reynt að telja þingheimi trú um þetta. Meira að segja hefur honum verið svo brátt, að hann hefur ruðst hér inn í umr. með óeðlilegum hætti, en ruglast þó svo í rýminu að hann hefur ekki fundið það í fjárlagafrv. sínu sem hann ætlaði þó að vitna til. Svo mikill hefur flumbruhátturinn verið í að reyna að telja hv. alþm. trú um þetta.

Það skal vissulega viðurkennt, að það deiluefni, sem hefur verið milli mín og hæstv. fjmrh., er lítilvægt. Það er ekki stórt atriði. En eigi að síður er það þess eðlis, að það er nauðsynlegt að hið rétta komi í ljós. Og mér sýnist á öllu að ekki muni eiga við hæstv. fjmrh. hin fleygu orð: Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Ef hæstv. ráðh. hagar sér í þessum litlu málum með þessum hætti, þá er við hinu nákvæmlega sama að búast í hinum stærri málum. (Gripið fram í.) Hvað segir hv. þm.? Þetta voru ekki mín orð. Ég heyri að hv. þm. Árni Gunnarsson er ekki vel heima í kristindómnum. Hann mætti lesa betur ef hann heldur að þetta séu orð eftir mér höfð. Það er megn misskilningur. En auðvitað eru menn misjafnlega heima í þeim fræðum eins og öðru.

Hæstv. fjmrh. kom hér upp s.l. mánudag og sagði að ég væri með rakalaus ósannindi þegar ég lýsti yfir að það væru ekki í fjárlögum yfirstandandi árs heimildir til handa Skipaútgerð ríkisins til þess að kaupa skip. Ég held að það sé nauðsynlegt að gera enn eina tilraunina til að koma hæstv. fjmrh. niður á jörðina þannig að ljóst verði í hans huga hvað hér er um að ræða.

Í fjárlagafrv., á bls. 230. þar sem fjallað er um strandferðir sem augljóslega heyra undir Skipaútgerð ríkisins, segir, með leyfi forseta: „Til fjárfestingar hjá fyrirtækinu er fyrirhuguð 40 millj. kr. lántaka til endurnýjunar skipastóls fyrirtækisins, sbr. grg. um lánahreyfingar.“ Og í þessari grg. um lánahreyfingar segir, með leyfi forseta: „Á árinu 1982 er áformað að afla heimildar til lántöku alls að fjárhæð 40 millj. kr. til endurnýjunar skipastóls fyrirtækisins. Fjárhæðin er við það miðuð að lánsfé áranna 1981 og 1982 renni til smíði sem svarar eins skips og kaupa á öðru.“ Þetta stendur orðrétt í fjárlagafrv., þ.e. í þeim hluta fjárlagafrv. sem heitir B-hluti og mér heyrðist að hæstv. fjmrh. væri fyrst og fremst að sverja af sér í umr. s.l. mánudag, að í raun og veru kæmi honum ekkert við. Það væri aðallega A-hlutinn sem hann ætti um að fjalla, en ekki hinn. Þetta var sem sagt í grg. fjárlagafrv. fyrir árið 1982. En þessu hafnaði fjvn. Menn verða að gera sér grein fyrir að fjárlagafrv. er allt annað en samþykki fjárlög. Hæstv. fjmrh. ætti t.d. að spyrja flokksbróður sinn, hv. þm. Geir Gunnarsson, formann fjvn., með hvaða hætti þetta var afgreitt. Það stendur raunar í fjárlögunum, en hæstv. fjmrh. virðist ekki komast í skilning um hvað þar er um að ræða. Fjvn. hafnaði sem sagt þessu, að sett yrði inn í fjárlög heimild til annars en lántöku vegna smíði eins skips.

Ég las fyrir hæstv. ráðh. upp úr fjárlögunum síðast á bls. 135, það er liður 39: „að veita ríkisábyrgð fyrir láni sem áformað er að taka vegna byggingar skips fyrir Skipaútgerð ríkisins.“ Þetta er endanleg afgreiðsla fjvn. og Alþingis á þessu máli. Það er því um tómt mál að tala hjá hæstv. fjmrh., hversu oft sem hann kemur hér í ræðustól, hann er búinn að koma nokkrum sinnum, — hversu oft sem hann kemur aftur er um tómt mál að tala hjá honum annað en viðurkenna þessa staðreynd, að það eru fjárlögin sem gilda en ekki það sem stóð í fjárlagafrv., því að endanleg afgreiðsla Alþingis hefur farið fram á fjárlögunum.

Ég vísa enn á bug öllum stóryrðum hæstv. fjmrh. í minn garð, að ég fari með rakalaus ósannindi. Hæstv. fjmrh. og hv. þm. Halldór Ásgrímsson, formaður fjh.- og viðskn., hafa báðir sagt ósatt í þessu máli. Það eru ekki aðrar heimildir til í fjárlögum en það sem hér er vitnað til, hvað svo sem hæstv. fjmrh. eða ríkisstj. hefði viljað fá inn í fjárlögin, það er annað mál. Svona var málið afgreitt.

Aðeins örfá orð um annað í þessum umr. Fjárveitinganefndarmenn fengu afhent um hádegisbil í dag plögg um lækkun ríkisútgjalda frá hagsýslustofnun. Þetta kom fram eftir ósk nm. í fjvn., hefði raunar átt að vera komið fram löngu fyrr. En á þeim tíma, sem menn hafa haft til að skoða það áður en þessi umr. fer fram, er auðvitað alveg augljóst áð ekki var hægt að gera sér grein fyrir neinu í málinu. Því hefur verið haldið fram hér áður og ég tek undir það, að það eru auðvitað ótæk vinnubrögð að fjvn. og alþingismönnum öllum sé ekki gerð grein fyrir þeim niðurskurði, sem hér er verið að tala um, og með hvaða hætti menn ætli sér að framkvæma slíkan niðurskurð.

Hv. 1. þm. Vestf. vék hér t.d. áðan að atriði í sambandi við Tryggingastofnun ríkisins og það hefur verið margspurt um það hér. Hæstv. heilbr.- og trmrh. virðist ekki heyra þær spurningar. Að minnsta kosti koma svörin ekki. Það hefur verið margspurt um það, hvort hæstv. heilbr.- og trmrh. vilji ekki gera þingheimi grein fyrir því, hvernig á að framkvæma niðurskurð upp á 20 millj. hjá Tryggingastofnun ríkisins það sem eftir er ársins. Einhvern tíma hefði þessi hæstv. ráðh. og málglaði þm. gengið fram í því að krefja ráðh. sagna um tiltölulega miklu minna atriði en hér er um að ræða að því er varðar ríkisfjármálin. (Gripið fram í.) Það má raunar segja um fleiri, hæstv. fjmrh. virðist ætla að endast illa líka. En ég ítreka spurningu til hæstv. heilbr.- og trmrh.: Er vonlaust að fá um það skýrslu hér eða svör frá hæstv. ráðh., hvernig á að framkvæma niðurskurð hjá Tryggingastofnun ríkisins um 20 millj. kr. það sem eftir er ársins án þess að það komi niður á þjónustu þessarar stofnunar? Það má vel vera að þetta sé hægt, en mér leikur hugur á að vita með hvaða hætti er hægt að gera það. Ítrekaðri spurningu til hæstv. trmrh. er hér komið á framfæri.

Það er svo eitt út af fyrir sig, niðurskurður á fjárveitingum í fjárlögum. Menn geta komið með á blaði svo að segja allar tölur þar um, en síðan bara veitt aukafjárveitingar til þess að brúa bilið aftur. Og það er það sem hefur gerst. Á undangengnum árum hafa aukafjárveitingar stóraukist. Þær hafa stóraukist svo að það er í raun og veru búið að setja við hliðina á hinum formlegu fjárlögum, sem Alþingi afgreiðir, önnur fjárlög með aukafjárveitingum eftir því sem hæstv. ráðh. dettur í hug. Ég efast um að það þýði nokkuð fyrir hv. þm. Matthías Á. Mathiesen að neita því að það hafi einnig gerst í hans fjmrh.-tíð. Líklega hefur það ekki verið eins slæmt og nú, en það skyldi þó ekki vera að það hafi gerst. (Gripið fram í.) Stórlega minnkað núna. Augljóslega hefur það gerst. En þetta er sem sagt hægðarleikur einn, að setja tölur á blað um niðurskurð á fjárveitingum í fjárlögum, en bæta það svo bara upp með aukafjárveitingum annars staðar. Það er það sem hæstv. fjmrh. hefur í raun og veru gert á undangengnum árum. Um það var rætt við afgreiðslu fjárlaga á s.l. hausti og sýnt fram á með tölum og rökum hverjar þessar aukafjárveitingar í heild hafa verið. Og það voru ótrúlega stórar fjárhæðir sem þar var um að ræða. Það segir í raun og veru ekkert þó að þm. fái hér í hendur þetta plagg með tölum um fyrirhugaðan niðurskurð. Það getur eigi að síður í lok ársins verið búið að veita aukafjárveitingar upp á hærri fjárhæð en hér er verið að tala um að skera niður. Með þeim hætti heldur þenslan í efnahagslífinu að sjálfsögðu áfram, og ríkið heldur áfram að taka stærri hluta til sín en kannske eðlilegt væri.

Ég tek undir þá kröfu, að það er auðvitað æskilegast allra hluta vegna, það var a.m.k. talið æskilegast þegar hæstv. núv. fjmrh. var í stjórnarandstöðu, þá krafðist hann þess, að fjvn. væri höfð með í ráðum varðandi niðurskurð á ríkisútgjöldum, þó hann vilji ekki hafa sömu afstöðu nú. En það er auðvitað langsamlega eðlilegast allra hluta vegna, til þess að sem bestur árangur náist í því starfi, að hafa stjórnarandstöðuna með í ráðum, gera hana samábyrga, ég tala nú ekki um þegar hún býðst til þess. En því boði virðist hæstv. núv. ráðherrar ekki vilja taka, en lemja hausnum við steininn og segja: Þetta gerum við án þess að öðrum komi það við.

Það er auðvitað alveg rétt, sem báðir hv. Matthíasarnir, hv. þm. Matthías Bjarnason og hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, gerðu hér að umræðuefni. Auðvitað ætti að gefa tóm til þess að bera þessa hluti saman.Það er ósköp eðlileg krafa af hálfu stjórnarandstöðunnar, áður en málið er endanlega afgreitt hér í deildinni, að hún fái tóm til að bera þessa nýju skýrslu um niðurskurð á ríkisútgjöldum saman við þau áform, sem áður hafa verið uppi. Ég sé ekki að hæstv. fjmrh. eða hæstv. ríkisstj. geti með neinum rökum neitað slíkri beiðni, svo eðlileg og sjálfsögð sem hún er. Það er sýndarmennska, hrein og bein sýndarmennska að mínu viti að afhenda fjvn. þetta um hádegi í dag og ætta síðan að afgreiða málið núna síðdegis. Það er gjörsamlega vonlaust að menn hafi getað gert sér nokkra heildarmynd af því eða borið saman það, sem er í dag, og það, sem á að vera samkvæmt þeim till. sem ríkisstj. leggur nú fram um niðurskurð á ríkisútgjöldum. Þess vegna er það eðlileg krafa og ég tek undir hana að auðvitað á að gefa þm. tóm til að athuga málið betur.