01.04.1982
Neðri deild: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3502 í B-deild Alþingistíðinda. (3048)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hæstv. félmrh. Ég gerði áðan að umræðuefni Tryggingastofnun og fjárvöntun hennar og þær upplýsingar sem fyrir lágu við fjárlagaafgreiðslu í vetur. Jafnframt sagðist ég ekki skilja á hvern hátt ætti að skera niður á níu mánuðum 20 millj. frá þeirri stöðu sem var hjá Tryggingastofnuninni við afgreiðslu fjárlaga. Mér finnst svar hæstv. ráðh. við þessari spurningu eiginlega vera svar við ræðu hv. 6. landsk. þm. Svarið er í raun og veru það, að 20 millj. eru settar á blað, að það skuli niðurskurðurinn verða, en hins vegar sé allt annað eftir, allt sé í lausu lofti hvernig að þessu verði staðið. Menn tala um að það sé 1% af heildarútgjöldum Tryggingastofnunar ríkisins. En það eru ekki eftir nema níu mánuðir svo að þetta er orðið 11/4% núna, því að þrír mánuðir eru flognir frá okkur. Og vafalaust verður nokkur tími liðinn þangað til þeirri athugun, sem ráðh. gat um, er lokið. En ef við lítum á hvað mörg prósent af heildarútgjöldum Tryggingastofnunar eru föst — og meira að segja ekki föst, heldur fylgja verðlaginu — þá eru það örfá prósent sem hægt er að tala um í þessu sambandi sem rekstrarkostnað, því að lífeyristryggingarnar eru fastar og eiga að fylgja verðlagsþróuninni, eins og hæstv. ráðh. veit gjörla um, og sjúkratryggingarnar fylgja að verulegu leyti einnig verðlagsþróuninni. Þetta eru yfir 90% af útgjöldum Tryggingastofnunarinnar. Hér verður ekki um að ræða lækkun hvað það snertir, heldur mikla hækkun í takt við verðbreytingar í þeirri miklu verðbólgu sem þjóðin býr við. Það er sjáanlegt að hvað þennan lið snertir er meira um að ræða að festa einhverjar niðurskurðartölur á blað, en það fylgir ekkert meira. Það er sjáanlegt að þessi niðurskurðaráform eru öll í lausu lofti hjá ríkisstj. eins og allt annað.