04.11.1981
Efri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, 3. landsk. þm., Karli Steinari Guðnasyni, að átök um launamál vegna kennslu í öldungadeildum fjölbrautaskóla og menntaskóla hafa orðið seinustu vikur og mánuði og afleiðingin hefur orðið sú, að truflun hefur orðið á starfsemi nokkurra skóla. Það er líka rétt hjá hv. þm., að þetta er afar bagalegt fyrir nemendur sem missa af þessari ástæðu úr tíma og verða fyrir stórfelldum óþægindum vegna þessa. En það er nú svo, að sjaldan veldur einn þá tveir deila. Ég er ansi hræddur um að ég neyðist til að gera nokkrar athugasemdir við þá lýsingu sem hv. þm. gaf á þessari deilu, því að sú lýsing var nokkuð einhliða og málum nokkuð blandað í allri atvikalýsingu.

Uppruni þessa máls er sá, að þegar öldungadeild var sett upp við Menntaskólann við Hamrahlíð var talið óhjákvæmilegt að greiða sérstaka launauppbót vegna kennslu við hana. Launauppbótin var fyrst og fremst rökstudd með þrenns konar rökum: Í fyrsta lagi væri þarna um að ræða allfjölmennar bekkjardeildir, oft mjög fjölmennar, langtum fjölmennari en í venjulegu skólastarfi. Í öðru lagi væri yfirferð yfir námsefni töluvert miklu hraðari en gengur og gerist í almennum fjölbrauta- og menntaskólum, jafnvel í mjög mörgum tilvikum tvöfaldur námshraði. Í þriðja lagi færi kennslustarfið fram á mjög óþægilegum vinnutíma, þ. e. að kvöldinu. Vegna þessa fengu kennarar við öldungadeildina 60% hærri laun fyrir hvern unninn vinnutíma.

Þegar svo öldungadeildir eru teknar upp við marga aðra skóla verður fljótlega ljóst að aðstæður eru ekki með nákvæmlega sama hætti við hinar nýju öldungadeildir sem teknar eru upp. Í mjög mörgum tilvikum er alls ekki um að ræða sérlega fjölmennar deildir, jafnvel mjög fámennar deildir, allt niður í fimm eða sjö manns, sem er auðvitað allt önnur aðstaða en upphaflega var fyrir hendi, þegar það gátu kannske verið 30, 40 manns í bekk. Í öðru lagi var í vissum tilvikum um að ræða námsefni sem var þess eðlis, að ekki var hægt að halda uppi tvöföldum hraða. Það eru t. d. takmörk fyrir því, hvað hægt er að kenna vélritun með miklum hraða, svo að nefnt sé eitt dæmi, og það eru ólíkar aðstæður miðað við að verið sé að kenna ensku eða stærðfræði þar sem kennarinn þarf að búa sig meira og lengur undir ef kennslu- og námshraði er sérstaklega mikill. Af þessum ástæðum þótti einsýnt að taka yrði samninga við öldungadeildarkennara til endurskoðunar og þá taka tillit til aðstæðna hverju sinni. Menn sáu ekki ástæðu til þess að það væri verið að greiða þetta mikla álag, 60% hærri laun, ef ekki væri um neinar sérstakar aðstæður að ræða. Vissulega er í öllum tilvikum um að ræða óþægilegan vinnutíma og sjálfsagt að taka tillit til þess, en alls ekki alltaf um að ræða fjölmennar deildir eða tvöfaldan hraða.

Gildandi samningar við öldungadeildarkennara féllu úr gildi þegar samningum ríkisstarfsmanna við ríkið var sagt upp á árinu 1979. Síðan hafa engir nýir samningar verið gerðir. Það hefur ekki tekist að semja um þetta mál að nýju. Það var skilið eftir í stóru samningunum á s. l. ári þar sem þessi atriði eins og mörg önnur atriði voru ekki fullfrágengin, og síðan hefur gengið illa að ná samkomulagi um þetta mál þrátt fyrir mjög margar tilraunir til að ná endum saman. M. a. voru samningaviðræður í fullum gangi á s. l. vori og fram á sumar. Þá stóðu menn upp frá fundi um þetta mál í þeirri trú að fullt samkomulag hefði tekist milli fulltrúa kennara annars vegar og ríkisins hins vegar, en svo þegar á reyndi voru kennarar ekki reiðubúnir að staðfesta þau drög að samkomulagi, sem þá höfðu legið fyrir, og höfðu þá svo margar athugasemdir við þau drög að gera að ekki var hægt að líta svo á að neitt samkomulag væri fyrir hendi.

Þegar kennsla hófst að nýju í haust var farið að gera ítrekaðar tilraunir til að ná endum saman í þessum efnum. Það fóru fram talsvert miklar samningatilraunir um málið nú fyrir skemmstu. Þá lauk fundi um þetta mál á þann hátt, að menn stóðu upp, bæði fulltrúar kennara og fulltrúar fjmrn., í þeirri trú að samningar hefðu tekist. Var ekki annað vitað en að full samstaða væri um að ganga nú frá málinu, en enn fór eins og í fyrra sinnið, að kennarar felldu þau samkomulagsdrög sem fyrir lágu. Það er því alls ekki hægt að halda því fram að fjmrn. hafi farið fram í þessu máli af einhverjum einstæðum hrokagikkshætti. Það hefur mjög ítrekað gert tilraunir til að semja um þetta mál, en því miður hafa samningar ekki tekist.

Ég hef heyrt þessar röksemdir áður, að það sé ekki annað en sjálfsagt mál að öldungadeildarkennarar við fjölbrautarskóla utan Reykjavíkur njóti sömu kjara og þeir sem kenna við öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlið. Það er eins og menn ímyndi sér að það hafi staðið til að hafa tvenns konar kjör í þessum efnum. Það var ekki hægt að skilja hv. þm. áðan öðruvísi en að hann tryði þessu og honum hefði verið sagt að það hefði staðið til að hafa tvenns konar kjör. En ég vil upplýsa það hér, að það hefur aldrei staðið til af hálfu fjmrn. Það hefur aðeins staðið til að gera einn samning um þetta mál og láta það sama gilda um alla kennara við allar öldungadeildir, hvort heldur er í Reykjavík eða annars staðar.

Það er líka misskilningur, sem kom fram hjá hv. þm., að það hafi staðið til að borga kennurum við öldungadeildir á Suðurnesjum 20% álag á meðan kennarar í Hamrahlíðarskólanum, sem starfa við öldungadeildir, fá 60% álag. Það var að sjálfsögðu ætlunin að þeir kennarar við öldungadeildir á Suðurnesjum, sem kenna við þessar sérstöku aðstæður sem ég nefndi áðan, þ. e. að um er að ræða fjölmennar deildir, tvöfaldan hraða og óþægilegan vinnutíma, fengju nákvæmlega sama álag og þeir menn aðrir fá sem hafa kennt við öldungadeildir, m. a. við öldungadeildina í Hamrahlíð. Þessi lága prósentutala, sem á tímabili var talað um, átti einungis við þann örlitla hóp sem svona stendur ekki á fyrir.

Hv. þm. spurði hvort ekki væri hægt að líta svo á að greiða ætti samkv. gildandi kjarasamningum þar til nýtt samkomulag hefði tekist. Í þessu sambandi er rétt að vekja á því athygli, að þeir samningar, sem voru gerðir á sínum tíma við öldungadeildir, voru að efni til miðaðir við þá starfsemi, sem fram fór í Menntaskólanum við Hamrahlíð, og að formi til náðu þeir einungis til þess skóla og með síðari breytingum einnig til öldungadeildar við Menntaskólann á Akureyri, enda forsendur þar svipaðar og í Menntaskólanum við Hamrahlið. Þessir samningar eru að áliti launadeildar fjmrn. aldrei í gildi um öldungadeildarkennslu í öðrum skólum, sumpart vegna þess að kennslan er ekki í samræmi við forsendur samningsins og í sumum skólanna, t. d. Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Fjölbrautaskóla Akraness, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Fjölbrautaskóla Sauðárkróks, hófst starfsemi öldungadeildanna eftir að samningunum hafði verið sagt upp. Samningar þessir hafa því aldrei verið í gildi í öðrum skólum en Menntaskólanum við Hamrahlíð. og Menntaskólanum á Akureyri. Í yfirstandandi deilu er því ekki um að ræða að greitt verði eftir þessum samningum, sem fallnir eru úr gildi, nema í þeim tveimur skólum sem þeir giltu um. Þetta hefur verið gert í Menntaskólanum við Hamrahlíð og verður gert í Menntaskólanum á Akureyri. Í öðrum skólum eru einu samningarnir, ef á að líta á hvaða samningar eru í gildi, hinir almennu sérkjarasamningar við kennarafélögin. Þeir gera ráð fyrir að þessi kennsla sé greidd með nákvæmlega sama hætti og önnur kennsla, ekki með neinu sérstöku álagi.

Ég vil svo endurtaka það sem ég hef þegar sagt, að samningatilraunir hafa verið gerðar endurtekið á liðnum vikum og mánuðum til að ná endum saman í þessari deilu. Það virðist ákaflega lítið hafa á vantað til þess að endar næðu saman í þessari deilu, en þó hefur vantað herslumuninn. Forustumenn kennarasamtakanna og fulltrúar fjmrn. voru sammála um það í seinustu viku að gera yrði í þessari viku enn frekari tilraunir til að ná endum saman í þessari deilu. Í þessari viku er fyrirhugað að efna til fundar um málið. Þess var farið á leit við kennarasamtökin og kennarana í öldungadeildunum að þeir frestuðu öllum aðgerðum sínum þar til samningaumræður hefðu farið fram. Það hefur gerst í öllum skólunum nema tveimur, þ. e. á Suðurnesjum og á Akranesi, þar sem mér skilst að kennsla hafi fallið niður. Þetta er auðvitað ákaflega bagalegt. En ég endurtek það sem ég sagði hér í upphafi, að sjaldan veldur einn þá tveir deila, og ég held að rök fjmrn. fyrir því, að ekki sé í öllum tilvikum eðlilegt að greiða þessa kennslu með 60% álagi, séu nokkuð gild.