01.04.1982
Neðri deild: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3504 í B-deild Alþingistíðinda. (3051)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Vegna ummæla hæstv. fjmrh. vil ég benda á að það var ákveðin krafa gerð hér í dag af nm. úr Sjálfstfl. og Alþfl. um að málið kæmi til athugunar í nefnd að fengnum upplýsingum og framlögðum niðurskurðartillögum ríkisstj. Það hafði enginn fyrir því einu sinni að svara því, hvorki játandi og því síður neitandi. Því er hér um óvenjuleg vinnubrögð að ræða.

Hinu vil ég vekja athygli á, vegna þess sem hæstv. fjmrh. sagði, að þó að samþykki hafi verið við 2. umr. heimild til niðurskurðar á fjárlögum eru það ekki orðin lög, það verða ekki lög fyrr en frv. hefur fengið fullkomna afgreiðslu í báðum þingdeildum. Meira að segja þótt frv. til lánsfjárlaga verði samþykkt við 3. umr. er það ekki orðið að lögum og ekki niðurskurðurinn heldur, ekki fyrr en Ed. er búin að fjalla um málið, vegna þess að frv. tók breytingum í þessari hv. þingdeild.

Á þessu taldi ég rétt að vekja athygli og gera athugasemd við þessi ummæli hæstv. ráðh. Þingmenn hafa ekki enn fengið að sjá þennan niðurskurð nema nm. í fjvn., sem fengu hann um hádegið í dag. Ég fékk þetta afhent nákvæmlega kortér fyrir tvö í dag frá formanni fjh.- og viðskn. Nd. og getur hver séð sjálfan sig í því, hvað hann getur kynnt sér slíkt mál vel á jafnskömmum tíma.