04.11.1981
Efri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það var vissulega rík ástæða til að vekja máls á þessu vandamáli utan dagskrár í þessari hv. deild í dag þar sem kennsla liggur nú niðri við öldungadeildir á tveimur stöðum, annars vegar á Suðurnesjum og hins vegar á Akranesi.

Það hefur komið mætavel í ljós á undanförnum árum, hversu brýn þörf er fyrir þá starfsemi sem hér er um að ræða. Aðsókn að öldungadeildunum hefur verið meiri en menn óraði fyrir í fyrstu. Þarna hefur fjölmörgum gefist tækifæri til endurmenntunar, til að halda áfram því námi sem þeir einhvern tíma og einhverra hluta vegna urðu frá að hverfa.

Eins og fram hefur komið hér greiða nemendur sjálfir þriðjung af þessari kennslu, sveitarfélag þriðjung og fjmrn. þriðjung. Ég legg á það þunga áherslu, að ég tel fjmrn. skylt að greiða fyrir framgangi þessa máls, lausn á þessari deilu, í ríkari mæli en gert hefur verið.

Það kom fram áðan í máli hv. 3. landsk. þm., Karls Steinars Guðnasonar, að næst væri ætlaður fundur í þessu máli 12. nóv., launadeildin hefði ekki haft tíma til að ræða þetta mál fyrr. Það verður auðvitað að gerast fyrr vegna þess, að eins og fram hefur komið hér, að mjög hröð yfirferð er í þessum deildum, helmingi hraðari en í venjulegu námi í framhaldsskólunum í langflestum tilvikum. Það er auðvitað það fyrst og fremst, sem gerir að verkum að kennarar hafa talið sig þurfa að fá fyrir þetta nokkru hærri laun en venjulega kennslu, svo og það, að þessi kennsla á sér stað á þeim vinnutíma sem venja er í þessu þjóðfélagi að greiða hærri laun fyrir, þ. e. á kvöldin. Hæstv. fjmrh. nefndi að það væri erfitt að kenna vélritun með tvöfalt hraðari yfirferð en í venjulegum skólum og er það sjálfsagt rétt. En það er undantekningin. Hitt gildir um langflestar þeirra námsgreina sem kenndar eru í öldungadeildunum.

Ég hygg, eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér um gang þessa máls og um deiluna, að ef farið hefði verið eftir Hamrahlíðarsamningunum við alla skólana hefði aldrei komið til þessarar deilu. Þess vegna sé ég ekki annað en það eigi að reyna að þvinga kennara utan Reykjavíkur til að taka lægri laun fyrir sína vinnu við öldungadeildirnar en kennarar við Hamrahlíðarskólann fá. Slíkt er auðvitað óviðunandi. Þótt hæstv. fjmrh. segði áðan að það væri alls ekki meiningin fæ ég ekki annað séð, vegna þess að ef Hamrahlíðarsamningarnir hefðu verið látnir gilda í Keflavík og á Akranesi hygg ég að þar hefði aldrei komið til neinnar deilu.

Ég vil sem sagt hvetja til þess, að hæstv. fjmrh. beiti sér fyrir því, að þessi deila verði leyst hið allra fyrsta þannig að það fólk, sem stundar nám í öldungadeildunum, verði ekki fyrir töfum. Þetta er fólk sem flest vinnur fulla vinnu með þessu námi, bætir þessu námi ofan á venjulegan vinnudag. Það er e. t. v. enn þá brýnna fyrir þetta fólk, að kennsla haldist ótrufluð, en venjulega nemendur í framhaldsskólunum og fjölbrautaskólunum sem hafa það helst fyrir stafni þessa dagana að mótmæla því, að mætingarskylda skuli vera ákveðin, á þeim forsendum að vilja fá hana lækkaða þannig að þeir þurfi, að manni skilst, ekki að mæta í skólann nema rúmlega annan hvern dag. Gagnvart því fólki sem stundar nám í öldungadeildunum horfir þetta allt öðruvísi við og þar tel ég að fjmrn. hafi brýnar skyldur og verði að leysa þessa deilu hið allra fyrsta.