01.04.1982
Neðri deild: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3510 í B-deild Alþingistíðinda. (3060)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja að ég er í grundvallaratriðum hlynntur þessu frv. til laga um Sinfóníuhljómsveit Íslands þó að ég telji ástæðu til að gera nokkrar athugasemdir við frv.

Ég vil minna á vegna orða hæstv. menntmrh. að þessi hljómsveit heitir Sinfóníuhljómsveit Íslands. Mér hefur oft þótt skorta talsvert á að hún stæði undir því nafni. Ég skal greina frá ástæðum þess.

Hljómsveitin hefur undanfarin misseri og ár verið bundin við Reykjavíkursvæðið. Hún hefur haldið að vetri til tónleika á hálfs mánaðar fresti sem sótt hafa að jafnaði um 1000 manns. Þannig má með nokkrum sanni segja að hljómsveitin gæti þess vegna borið nafnið Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur. Hljómsveitin hefur að vísu heyrst í Ríkisútvarpinu í útsendingum frá Háskólabíói, þar sem hún heldur sína tónleika. En það er nú einu sinni svo á tækniöld og framfaraöld, að þeir eru orðnir fáir sem setjast við útvarpið sitt til að hlusta á sinfóníutónleika. Það gera menn jafnan við hljómflutningstæki heima hjá sér, sem eru betur til þess fallin að koma á framfæri tónlist.

Í 2. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir, segir orðrétt, með leyfi forseta: „Starf Sinfóníuhljómsveitarinnar miði að því að auðga tónmenningu Íslendinga, efla áhuga og þekkingu á æðri tónlist og gefa landsmönnum kost á að njóta hennar, m.a. með tónleikahaldi sem víðast um landið og með tónlistarflutningi í útvarp.“ Mér hefði þótt hæfa að þessu frv. fylgdi yfirlit um tónleikaferðir Sinfóníuhljómsveitarinnar frá upphafi sveitarinnar, því að ég þykist vita að mjög hafi dregið úr tónleikahaldi sveitarinnar úti um land. Ég minnist þess frá árum ágæts framkvæmdastjóra sveitarinnar, Gunnars Guðmundssonar heitins, að þá fót sveitin mjög oft í tónleikaferðir út á landsbyggðina, en úr því hefur stórlega dregið og það harma ég mjög. Ég hefði talið að í frv. hefðu þurft að vera meiri kvaðir en þar koma fram um hvert væri hlutverk sveitarinnar. Að vísu segir í 10. gr., með leyfi forseta: „Sinfóníuhljómsveit Íslands skal árlega fara í tónleikaferðir um landið.“ Þetta gefur að vísu fastlega til kynna að sveitin eigi að ferðast um landið og hafa tónleika á einhverjum stöðum, — ekki er tekið fram hverjum, — en það er auðvitað húsakostur þorpa og bæja um landið sem takmarka það.

Þetta var fyrsta atriðið sem ég vildi koma á framfæri, að ég hef talið að sveitin væri um of bundin við stór-Reykjavíkursvæðið og stæði því varla undir nafni af þeim sökum. Mér er hins vegar alveg ljóst að það eru m.a. peningalegar ástæður sem liggja því til grundvallar, að sveitin hefur ekki farið oftar, en aðrar ástæður hljóta þó að vera fyrir hendi.

Þá vil ég aðeins koma að 3. gr. frv. þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta: „Að rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands standa eftirtaldir aðilar og greiða þeir rekstrarkostnað hennar í eftirgreindum hlutföllum: a) Ríkissjóður 56%. b) Ríkisútvarpið 25%. c) Borgarsjóður Reykjavíkur 18%. d) Bæjarsjóður Seltjarnarness 1%.“

Ég vil segja það hreint út, að ég hef ævinlega og ávallt verið algjörlega mótfallinn því, að Ríkisútvarpið tæki þennan þátt í rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Mér er fullljóst og ég veit af eigin reynslu hvaða baggi og byrði þessi greiðsla Ríkisútvarpsins til sveitarinnar hefur verið á undanförnum árum. Ég hefði talið að á öld frjáls útvarpsrekstrar og sjónvarpsrekstrar og móttöku á sjónvarpsefni hvaðanæva að úr heiminum veitti Ríkisútvarpinu ekkert af aurunum sínum til að standa upp í hárinu á þeim öflum sem vilja þenja út útvarp og sjónvarp í nafni frelsis og peningavalds. Ég er þess vegna mótfallinn því, að Ríkisútvarpið greiði þessi 25% til sveitarinnar. Það er sjálfsagt og eðlilegt að Ríkisútvarpið geri samninga við sveitina um flutning á tónlist sem sveitin flytur, en mér finnst ekki ná nokkurri átt að binda það slíkum fastmælum að Ríkisútvarpið, sem er fjárvana stofnun, haldi að 1/4 uppi Sinfóníuhljómsveit Íslands. Mér finnst að sá stórhugur hefði átt að fylgja, þegar menn eru að tala um Sinfóníuhljómsveit Íslands, að íslenska ríkið héldi uppi þessari hljómsveit og sæi henni fyrir fjármunum. Það væri öllu meiri reisn yfir því en þessari skiptingu sem hér er rætt um. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við að borgarsjóður Reykjavíkur greiði 18%, enda eru það Reykvíkingar að mjög stórum hluta sem njóta þessarar hljómsveitar. Að vísu skilst mér að allmargir Bandaríkjamenn, sem starfa á Keflavíkurflugvelli, sæki þessa tónleika og séu þar fastir gestir, en það er önnur saga.

Ég vil líka amast nokkuð við því, að í þessu frv. er ekki gerð nein tilraun til að binda Sinfóníuhljómsveit Íslands við að gegna uppeldishlutverki gagnvart börnum og unglingum. Þorkell Sigurbjörnsson gerði mjög merka tilraun fyrir nokkrum árum með að halda tónleika fyrir börn, útskýra tónverk, útskýra tónlistina sem sveitin flutti, og á því var mikill menningarbragur. Ég er sannfærður um að árangurinn af því starfi var mjög umtalsverður. Síðan þetta gerðist hefur ekkert verið gert til að nota sveitina til að kynna börnum og unglingum heim sinfóníunnar, heim hinnar æðri tónlistar, heldur hefur kannske meira borið á því, að sveitin hafi farið út í að flytja tónlist af léttara tagi til að laða að gesti. Er ekkert við því að segja ef henni tekst að fylla húsið þrisvar sinnum í staðinn fyrir einu sinni á venjulegum tónleikum. Ég hefði sem sagt talið — og beini þá orðum mínum til hæstv. menntmrh. — að í þessu frv. hefði þurft að fylgja einhver kvöð um uppeldishlutverk Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en það er engin tilraun gerð í frv. til að negla hljómsveitina fast við þá kvöð að sýna yngstu kynslóðinni í landinu þann sóma að kynna henni leyndardóma þeirrar tónlistar sem hljómsveitin flytur. Þetta þykir mér öllu lakast af því sem ég amast nú við í þessu annars ágæta frv.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um stækkun sveitarinnar sem er auðvitað kjarni þessa máls, að fjölga á stöðugildum í sveitinni upp í 65. Ég held að hver maður hljóti að gera sér grein fyrir því, að rekstur hljómsveitar af þessu tagi kostar óhemjumikla peninga. Það er hæstv. menntmrh. ábyggilega fullljóst. Það hefði kannski þurft að fjölga í sveitinni fyrir löngu, því að segja má að hún hafi aldrei verið eiginlega sinfóníuhljómsveit, fyrr en þá að hún verður það eftir að þetta frv. verður samþykkt. En það er annað atriði í sambandi við fjölgunina í sveitinni sem mér er einnig nokkur ami að. Mér hefur fundist á undanförnum árum, að þegar ráðnir hafa verið tónlistarmenn til sveifarinnar höfum við allt of oft þurft að leita út fyrir landsteinana. Í gamni er talað um útlendingahersveitina í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Menn tala fjálglega um að þessi sveit hafi gífurlegu uppeldishlutverki að gegna að ala upp tónlistarfólk, og það er alveg hárrétt. En það bregður svo skrýtilega við, að þegar sveitin þarf á fólki að halda verða stjórnendur hennar að leita út fyrir landsteina til að fá tónlistarmenn sem leika á þau hljóðfæri sem nauðsynleg eru í sveitina.

Þetta voru þau höfuðatriði sem ég vildi benda á. Ég tel sem sagt að það hafi skort mikið á að sveitin stæði undir nafni undanfarin ár, hún hafi ekki rækt hlutverk sitt við landsbyggðina. Ég held að allir landsbyggðarþingmenn viti að þetta er rétt. Hlustendahópur hennar hefur verið ákaflega takmarkaður og hann hefur takmarkast af því, að menn hafa ekki getað sótt þessa tónleika sem eru haldnir í Reykjavík. Því miður eru tónleikarnir kannske allt of lítið sóttir. Í 100 þús. manna borg er það ekki mikið að 1000 manns sæki slíka tónleika. Í öðru lagi hef ég mikið á móti því, að Ríkisútvarpinu sé gert að skyldu að greiða það fé til sveitarinnar sem það gerir. Og í þriðja lagi tel ég að í frv. hefði átt að vera ákvæði um það hlutverk sveitarinnar að halda tónleika fyrir börn og unglinga þannig að hún sinnti því uppeldishlutverki sem allir básúna og allir tala sem hæst um að hún gegni í íslensku tónlistarlífi almennt. Ég held að þetta sé tiltölulega rökrétt ályktun. Og úr því að er verið að taka það sérstaklega fram í 10. gr. frv., að sveitin fari í árlegar tónleikaferðir, hefði ég ekki séð því neitt til fyrirstöðu að sú kvöð væri sett á sveitina með lögum að hún héldi sérstaka tónleika fyrir börn og unglinga, skólatónleika eða hvaða nafni sem menn vildu nefna það.

Ég ætla ekki að fara út í önnur atriði, en ég hefði gjarnan kosið að það hefðu verið settar býsna miklar kvaðir á þessa sveit og þá menn sem í henni starfa. Ég gæti sagt ýmislegt um þau efni hér, en ætla ekki að lengja þessa umr. með því. En svo að tekin sé t.d. vinnuskylda þessara manna, þá held ég að það hafi pottur verið brotinn- og launamálin og fleira sem þarna kemur inn i,því að starfsmenn sveitarinnar eru yfirleitt tiltölulega vel launaðir miðað við opinbera starfsmenn og af þeim sökum m.a. er hægt að gera meiri kröfur til þeirra en gerðar hafa verið. Það verður í þessu máli að treysta hæstv. menntmrh. fyrir því, að með þessu verði fylgst.