01.04.1982
Neðri deild: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3517 í B-deild Alþingistíðinda. (3063)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að ræða þetta mál, enda menningarmál og varla við hæfi að ég eyði tíma hv. deildar í að ræða það sem ég tel mig ekki hafa nægilegt vit á.

Mig undrar svolítið að hæstv. ráðh. skyldi segja áðan að hann mundi ekki tefja umr., en þoldi svo ekki við að hlusta á nema tvo óbreytta áður en hann fór aftur í stólinn. Mér finnst einhvern veginn að fagráðh. og sérfræðingar í slíkum greinum eigi að leyfa hinum óbreyttu og vankunnandi að koma með sínar kvartanir og spurningar til þess að öðlast meiri reynslu og þekkingu, þeir fengju að spyrja ráðh. um sem flest vegna vankunnáttu í þessum efnum.

Ég skildi ekki nógu vel það sem hæstv. ráðh. sagði nú síðast, þar sem hann sagði að það væri enginn greiði við málið að koma með brtt. Hvað þýðir þetta? Þýðir það að það sé yfirleitt málum til baga að hv. þm. leyfi sér að koma með uppástungur um annað en stjfrv. leggja til? Þýðir það um leið að við værum að drepa málið? Það stendur þannig á með þetta mál um Sinfóníuhljómsveitina, að það hefur venjulegast verið alveg á síðasta snúningi. Mér hefði fundist að við hefðum átt að gefa okkur tíma til að ræða þetta í haust og gefa okkur góðan tíma í það þá þannig að það þyrfti ekki að vera nein hætta á því, alls engin hætta á að þetta mál stöðvaðist því að vafalaust sumt af þessu mikilvægt fyrir hljómsveitina. Ég trúi því, að svo sé þó að ég viti það ekki. En það er slæmt að draga slíkar umr. svo lengi að varla sé óhætt að stynja upp öðrum hugmyndum en þarna koma fram.

Hæstv. ráðh. sagði líka að við skyldum gera það sem er raunhæft, en ekki það sem kynni að vera eðlilegt og rökrétt. Ég ætla ekki að útlista þetta. Það segir sig sjálft hvers konar hugsanagangur þetta er.

Ég get lýst því yfir strax að ég mun ekki flytja brtt. við þetta frv., þó að ég hefi sannarlega ýmislegt við það að athuga. Ég mun hins vegar leggja það til, nefni það strax við hæstv. ráðh., eins og oft er gert þó lög séu samþykki, að þessi mál séu ekki núna frágenginn endanlega þannig að menn séu búnir að finna það eina rétta í þessum efnum. Það er ákaflega hættulegt að finna sannleikann yfirleitt, en verst í menningarmálum og listum. Við megum ekki slá því föstu að einhver ein líst sé best og réttust. Ein aðferð getur heldur aldrei gengið til eilífðar. Við verðum ævinlega að leita nýrra og betri leiða til þess að listin verði sem mest lifandi, að ég tali nú ekki um tónlist.

1. gr. frv. segir sannarlega mikinn sannleika því að þar stendur, ef við sleppum tveimur orðum úr einni setningunni: „heimili hennar er í Reykjavík.“ Það er vissulega sannmæli. Þetta er víst lögfræðilegt orðalag: heimili hennar og varnarþing. Ég kann ekkert í þeim efnum. En hún á heima í Reykjavík, hún spilar í Reykjavík og það er hlustað á hana í Reykjavík og hvergi annars staðar. Sannleikurinn er sá: 20 sinnum eða svo koma hér saman 800 manns að meðaltali og hlusta á tónlist þessarar hljómsveitar og það kostar 11/2 milljarð gkr. Ég er út af fyrir sig ekki að sjá eftir því, en það er 1% íbúa Reykjavíkur og 112% þjóðarinnar. Áhuginn er ekki meiri en þetta, því miður.

Ég held að sá tónlistaráhugi, sem er í landinu, sé ekkert frekar Sinfóníuhljómsveit Íslands að þakka en öðrum, en ég leyfi mér að fullyrða að hinn litli tónleikaáhugi sé starfsháttum Sinfóníuhljómsveitar að kenna. Því held ég fram. Ég mundi sjálfur alls ekki reka hljómsveitina með þessum hætti, ef ég réði, og þaðan af síður velja verkefni eins og hún hefur gert oft og tíðum. Það stendur í frv.: Starf Sinfóníuhljómsveitarinnar miði að því að auðga tónmenningu Íslendinga og efla áhuga og þekkingu á æðri tónlist og gefa landsmönnum kost á að njóta hennar starfs. Ég er ekki viss um að hljómsveitin hafi sinnt þessu hlutverki, ef grun um það og mér finnst það, að stjórn hljómsveitarinnar sé nú með þeim hætti að starfsemi hennar auðgi ekki tónmenningu og auki alls ekki áhuga. Ég tel það mjög mikilvægan þátt í starfsemi þessarar hljómsveitar að hún hagi sinni vinnu þannig, að sem flestir vilji koma og hlusta á músíkina. Til þess þarf hún að velja sér verkefni við hæfi þess hlustendahóps sem hún spilar fyrir. Ég er t.d. í miklum vafa um að sum verk, sem t.d. voru leikin á þessu starfsári hljómsveitarinnar, hafi orðið eða verði til að efla áhuga þess fólks sem ekki er vant að hlusta á þess konar tónlist, það þurfi að grípa til allt annarra ráða. Ég vil halda því fram, að það sé stöðnun í hljómsveitinni, því miður. (Gripið fram í: Hvað hefur þú hlustað á marga tónleika?) Það þarf að vera miklu meira líf í þessari starfsemi. Það þurfa að vera menn í þessu með mikið hugmyndaflug og mikinn áhuga, ekki fyrst og fremst til að spila kannske eitt og eitt tónverk sérstaklega vel, heldur til að breiða tónlistina út. Það er mikið sáluhjálparatriði fyrir fólk að hlusta á tónlist, ekki síst góða, og langhelst ef það er kostur á að fara á góða tónleika þar sem það getur horft og hlustað á lifandi músík.

Það var einn hv. þm. sem greip fram í, herra forseti. ræðu mína og vildi fiska eftir því, hversu marga tónleika ég hefði hlustað á. Ég fer ekki á sinfóníutónleika hér í Reykjavík. Ég fer að vísu öðru hvoru í leikhús. Ég fór þangað fyrir 10 árum. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Þessar ungu konur þarna óska mikið eftir viðtali við mig, svo ég verð víst að fara að stytta mál mitt. Það skiptir út af fyrir sig ekki máli hversu oft ég fer á tónleika eða ekki. Hins vegar fylgist ég dálítið með þessu, veit hvað er að ske, og ég hef fagnað ýmsu sem þessi hljómsveit hefur flutt. Mér fannst t.d. ákaflega skemmtilegt þegar ég heyrði að konsertmeistarinn í Málmey, Íslendingur, kom til Íslands og lék hér einleik í fiðlukonsert Mendelsohns, C-moll konsertinum. Það er ljúf músík og rómantísk, lætur vel í eyrum og hvetur fólk til að hlusta á aðra tónlist þó að sá konsert sé á þessu ári 138 ára gamall. Hann var leikinn fyrst 1844, þegar höfundurinn var 35 ára gamall, enda fæddur 1809, en hafði þá tekið við stjórn Gewandthaus konsertanna í Leipzig. En það er ekki aðalatriðið. Á sama hátt finnst mér það ekki vera tilefni til þess að fólk flykkist til að hlusta á hljómsveitina þegar hún, svona lítil eins og hún er sögð vera, leikur hljómsveitarverk sem að vísu er eftir landa stjórnandans því hann er ekki íslenskur. Hann mun heita Jean-Piérre Javquillat, eitthvað þvílíkt, og mun vera hálffranskur. Þeir fluttu þarna verk sem erfiðleikar eru í útlöndum stundum að flytja eftir kröfum höfundarins. Symphonie fantastique heitir þetta verk og krefst a.m.k. tvöfaldrar stærðar af sinfóníuhljómsveit. Það er varla við hæfi hljómsveitar, sem gæti áreiðanlega spilað mikið af rómantískri og síklassískri músík með þessum starfskröftum, að fara að glíma við þess konar verk og ekki til þess fallið að hvetja menn til að venja sig á að hlusta á slíka tónlist.

Herra forseti. Ég mun fara að stytta mál mitt vegna framíkalla. Ég þyrfti að hafa hér dálítið innskot, en það er kannske ekki þess virði að komi slík innskot. Það er einmitt að mínum dómi eitt höfuðatriðið í þessum efnum, að á meðan við reynum að ala fólk upp í að hlusta á eitthvað annað en 10 vinsælustu lögin hverju sinni þurfti hljómsveitin að haga sér alveg sérstaklega með tilliti til þess. Að vísu fellur þetta ekki öllum í geð og kannske allra síst þeim sem lengst eru komnir, eins og þeir sem kölluðu fram í hér og kunna þetta allt saman mjög vel, en fyrir þá, sem eru komnir stutt á leið, held ég að þetta sé nauðsynlegt, og ég get einmitt talað fyrir þá.

Hæstv. ráðh. sagði áðan að talið um útlendingana í hljómsveitinni bæri vott um andúð á útlendingum. Ég vil alveg mótmæla því fyrir hönd hv. þm. Árna Gunnarssonar að hann hafi nokkuð verið að víkja að því. En auðvitað eigum við að skipa þessa hljómsveit Íslendingum að svo miklu leyti sem mögulegt er því þetta er þó Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ef okkur vantar fólk til starfa sem við höfum ekki hér heima er auðvitað alveg sjálfsagt að njóta starfskrafta erlendra listamanna sem koma oft með nýtt blóð inn í tónlistina og hafa gert. Hér eru mjög margir ágætir erlendir listamenn sem hafa komið hingað og lyft íslenskri tónlist upp á annað plan. Þar eru margir mætir menn, bæði látnir og lifandi, sem eiga þar hlut að máli. En alveg í andstöðu við þetta sjónarmið hæstv. ráðh. stendur í 2. gr. að leggja beri sérstaka áherslu á flutning og kynningu íslenskrar tónlistar. Ekki er ég að draga úr því, að fólk fái að heyra íslenska tónlist, og sjálfsagt verður að spila eftir þá höfunda sem eru að setja saman músík hér á Íslandi. Ef tónlistin er nú einu sinni alþjóðleg og þetta orðalag, íslensk tónlist, fer illa í eyrum mér. Tónlistin er abstrakt list ef nokkur abstrakt list er til og hún getur eiginlega aldrei orðið íslensk eða ensk, þó að vissu leyti sé ýmis tónlist byggð á þjóðlögum og þjóðsöngvum og þjóðlegum stefjum ævagömlum og margir meistarar hafi notað sér það.

Þá komum við næst að hinum veraldlegu efnum, peningamálum og prósentureikningi, sem eru alveg nauðsynleg í hverri ræðu, og þá sjáum við í 3. gr. að eftirtaldir aðilar greiða rekstrarkostnað hennar. Nú er ég ekki vel að mér í hagfræðilegum hugtökum, en þetta munu vera þeir aurar sem hljómsveitin þarf að fá til þess að geta borgað kaup og eitthvað af því tagi. Hverjir eiga þá að borga? Það er ríkissjóður sem borgar 56%, Ríkisútvarpið 25% — samtals 81% fyrir ríkið í raun og veru og er ekkert að því. Þá kemur: borgarsjóður Reykjavíkur 18% og bæjarsjóður Seltjarnarness 1%. Nú er það svo, að áður en maður lærir margföldunartöfluna lærir maður að leggja saman. Geri maður það í þessu tilfelli kemur út 100%. Þarna er sem sagt allur kostnaðurinn kominn í prósentur eða er það ekki? Svo kemur einhvern tíman seinna að Sinfóníuhljómsveitin skuli kappkosta að afla sjálfstæðra tekna af tónleikahaldi svo að sem mest af útgjöldum hljómsveitarinnar fáist greitt af slíkum tekjum hennar. Mér skilst að útgjöld hljómsveitarinnar séu líka rekstrarkostnaður, ef ég skil rétt, og er þá rekstrarkostnaðurinn yfir 100% eða var eitthvað oftalið? (Gripið fram í: 112%) Þetta er ekki beint í rökrænu samhengi, enda þá alveg í stíl við margt annað sem við höfum verið með hér að undanförnu og gerir heldur ekkert til. Ég vil aðeins benda á að þarna virðist mér vera pínulítil skekkja í þessu reikningsdæmi. Það er út af fyrir sig ekki mjög flókið því að þessar tekjur hljómsveitarinnar hljóta að vera fyrir aðgangseyri, og það er ekki mikill aðgangseyrir sem getur komið inn fyrir svo fáa tónleika fyrir svo fátt fólk. Þó að „menningarelítan“ á höfuðborgarsvæðinu borgi tuttugu og þrisvar sinnum fyrir að koma þarna og hlusta á músíkina segir það auðvitað ákaflega lítið upp í hálfan annan milljarð gamalla króna eða hvað það nú er. En mér finnst samt, þó lítið sé, að þetta eigi að teljast með þeim tekjum sem þarf til að greiða rekstrarkostnað hljómsveitarinnar.

Ég mun óska eftir því, að sú nefnd, sem fær málið til meðferðar, gefi þessar upplýsingar, en það verði ekki til að tefja málið, hæstv. ráðh., ég mun ekki verða til þess, aðeins að við fáum upplýsingar um hversu mikið neytendur greiða fyrir tónlistina og hversu mikið hlutfall það er af heildarkostnaði. Eigum við þá að segja sem svo að við förum að velta fyrir okkur hvað er sanngjarnt að sá, sem nýtur listarinnar, greiði mikinn hluta af kostnaði. Á það að vera 10% eða 20% eða eins og hjá leikhúsunum allt að 40% eða á það að vera minna? Það hefur verið eitthvað ár að hlusta á hana, enda auðheyrt, — að menn að aðgöngumiðar kosti þarna, — ég hef ekki farið í 30 og eitthvað ár að hlusta á þetta, enda auðheyrt, — að menn séu látnir borga allt of lítið fyrir þetta. Maður hefur heyrt marga tala um að þetta sé ódýrt. Auðvitað á þetta ekki að vera svo dýrt að menn geti ekki farið að horfa á eða hlusta, en það á að greiða sanngjarnt verð fyrir. Þeir, sem halda því fram að það eigi ekki að vera hærra, meta greinilega listina litið, a.m.k. til fjár. Ég held að það sé rangt mat. Flest almennileg list er dýr, en hún þarf alls ekki að vera mjög dýr. Í þessu tilfelli er ég alls ekki að leggja til að fólk þurfi að snara út miklum upphæðum. En það er mikil upplifun að hlusta á lifandi tónlist, sérstaklega ef hún er vel flutt, og kemur víst fyrir hjá þessari hljómsveit eins og hjá öðrum. Ég spyr vegna þess að það gæti farið svo að einhverjir hefðu þá hugmynd í framtíðinni að fast hlutfall af rekstrarkostnaði yrði greitt með aðgangseyri og öðrum tekjum hljómsveitarinnar. Þetta kostar auðvitað mikið, en það kostar líklega enn meira að láta sig vanta það.

Herra forseti. Það væri svo sem hægt að láta hér koma amen eftir efninu, en óneitanlega langar mig að minnast aðeins á örfá atriði sem ég heyrði menn vera að tala um.

Ég þekki það ekki og mér er alveg sama hver stjórnar þessu, en það er mjög mikið atriði að þeir, sem eru ráðnir þarna í föst störf, ég er alls ekki að dylgja um að þessir menn ástundi vinnusvik eða neitt af því tagi, hafi þá alla vega nóg að gera, að þeir nýti allan sinn vinnutíma í þágu tónlistarinnar. Ég skildi ekki hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur þegar hún sagði að það væri ekki hægt að æfa tónlist á venjulegum vinnutíma. Ég held að það sé alveg sama hvað klukkan er þegar menn eru að dunda við það, ég þekki það ekki, en það er kannske ekki hægt að gera þetta nema á nóttunni. Mér er alveg óskiljanlegt af hverju er ekki hægt að gera þetta í björtu. En þessa starfskrafta á að nýta, þó það sé óviðurkvæmilegt að brúka slíkt orð yfir störf fólks, og eðlilegt er að þeir vinni þann tíma sem ríkið greiðir þeim fyrir þeirra störf.

Þá dettur mér í hug hvort ekki sé hægt að hafa tónleika fleiri. Ég trúi því ekki, að með skynsamlegum vinnubrögðum sé ekki hægt að hafa þessa tónleika miklu fleiri. Finnst mörgum ekki einkennilegt ef þeir líta á Morgunblaðið — ég tek það nú af því að það er stærsta og þykkast og flytur okkur mikið af auglýsingum — að það eru heilar síður fullar af því sem er að ske í borginni. Það eru kvikmyndasýningar og leikhús í öllum áttum. Alls konar leikhús hafa sprottið upp. Ég þekki ekki nöfnin á þeim og langar ekkert til að kynnast þeim, en ég veit nógu mikið til þess að vita að þar er alltaf meira og minna fullt hús — nema í Þjóðleikhúsinu auðvitað — árið um kring eða allan veturinn. Á einu og sömu sýninguna fara þúsundir og tugir þúsunda manna, jafnvel hundruð þúsunda. Alltaf sama leikritið, sjáið þið. Það er sama og ein efnisskrá hljómsveitarinnar. Það er heilmikil vinna að æfa upp 3–4 verk, sem leikin eru á tónleikum, ekkert síðri vinna en að æfa einhverja leikritavitleysu. Tónlistarmenn eru að vísu það vel menntaðir hér og flinkir að þeir þurfa auðvitað ekki eins langan tíma og að æfa fyrir leikrit. En mér alveg ofbýður sú sóun að það skuli ekki vera hægt að spila efnisskrána nema einu sinni eftir allt þetta starf. Það, sem okkur vantar, er að efla áhugann af miklum krafti til að fá fólk til að koma a.m.k. þrisvar sinnum á eina efnisskrá. Ég er alveg sáróánægður með það, að ég hef hvergi orðið var við að menn hafi reynt í raun og veru að lyfta þessu. Þar þarf elju til og áhuga. En því miður, eins og ég sagði áðan, finnst mér að hljómsveitin sé stöðnuð. Hún er föst í sama farinu. Það má aldrei gerast í listrænum efnum.

Herra forseti. Um þetta er auðvitað hægt að segja margt fleira en þetta. Ég hef aðeins minnst á kjarna þess sem ég áleit skipta mestu varðandi þessa hljómsveit, en að ég hef einhvern tíma áður sagt nokkur orð um þetta hér. Mér var raunar legið á hálsi fyrir það af sumum félögum mínum að ég hefði stöðvað framgang frv. á sínum tíma, en þannig var í það skipti að það átti að afgreiða 3. umr. á einum klukkutíma eða svo síðasta dag þingsins, rétt áður en forseti lýðveldisins kom hér til að slíta þinginu. Það voru auðvitað alveg ósæmileg vinnubrögð. Enginn mátti í rauninni segja neitt. Núna höfum við tímann fyrir okkur, og ég vona að enginn verði til að stöðva þetta, þó ég sjái satt að segja ekki nauðsyn þess að hafa endilega 65 menn eða fleiri í hljómsveitinni. Það er gífurlega mikið af tónlist, sem hefur verið samin í heiminum, gífurlega mikið magn, og líklega mesti parturinn saminn fyrir miklu minni hljómsveitir en þessa. Fyrstu menn, sem sömdu eitthvað af sinfóníum t.d., afkastamenn, miklir sinfóníuhöfundar sömdu þannig. Haydn samdi á annað hundrað sinfóníur og Mozart samdi tæplega 50. Þær eru allar sniðnar fyrir miklu minni hljómsveitir en þessa. Auðvitað er gott að hafa tiltækan þennan starfskraft, eins og það heitir núna, og tónninn verður sjálfsagt fyllri ef við höfum fleira fólk, en það er ekki kjarni málsins.

Ég held að þessi löggjöf skipti ekki miklu til eða frá í því sem raunverulega kemur tónlistinni við. En mér finnst ekki óeðlilegt og raunar rétt, að það sé löggjöf til um hljómsveitina, og mun auðvitað ekki verða til þess að tefja fyrir því, enda búinn að segja nóg.