04.11.1981
Efri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

Umræður utan dagskrár

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þessi mál almennt á því þrönga sviði sem nú er verið að ræða þau hér, þ. e. hvað snertir launa- og kjaramál kennara og deilur við ráðuneyti um þau. Vissulega er ástæða til að vænta þess, að þær deilur leysist sem fyrst þannig að það fólk, sem þarna á hlut að máli, verði ekki fyrir frekari óþægindum en þegar et orðið af þessari deilu. En ég vildi aðeins koma hér upp til að vekja athygli á því, að þetta mál er þess eðlis, að það sýnir okkur enn einu sinni hve brýn nauðsyn er orðin að lögfesta sem allra fyrst ný lög um framhaldsskóla og taka þar inn í bæði endurmenntunarþáttinn og fullorðinsfræðsluþáttinn. Eftir að slík heildarlöggjöf hefði komist á varðandi kennsluskipun, varðandi kostnaðarskiptingu, varðandi fjármögnun í heild og í raun hver þau atriði sem snerta kennslu af þessu tagi, fyrirkomulag hennar, mundum við ekki standa andspænis neinum þeim vandamálum, sem við erum með í þessu einangraða tilfelli, þó að vitanlega kæmu launa- og kjaramál almennt inn í þau mál eins og í öllum tilfellum. Ég held þess vegna að það sé full ástæða til þess, einmitt í tengslum við þetta mál og þær deilur sem þar hafa orðið, að leggja enn einu sinni áherslu á hvað mikil nauðsyn er orðin á að við fáum ný framhaldsskólalög og inn í þau lög verði tekin, að svo miklu leyti sem unnt er, fullorðinsfræðsluþátturinn og endurmenntunarþátturinn.

Ég veit að það er verið að vinna að þessu máli á þann hátt að báðir þessir þættir komi þar inn í, og ég held að mál af þessu tagi muni e. t. v. aldrei leysast til fulls eða til frambúðar nema sú löggjöf komist á og það sem fyrst. Það hlýtur þá að leiða af sjálfu sér, að öll mismunun, sem hér hefur verið talað um, eftir því hvar skóli er, hvers eðlis hann er og annað því um líkt, hlyti eðlilega að hverfa úr sögunni og það skipulag, sem þá kæmist á varðandi fullorðinsfræðsluna t. d., sem hér er sérstaklega verið að tala um, hlyti þá yfir alla að ganga, sem sinntu þessum nauðsynlegu þáttum í okkar fræðslukerfi, eftir eðli og umfangi þess starfs sem fram færi á hverjum stað og í hverjum skóla.