02.04.1982
Efri deild: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3531 í B-deild Alþingistíðinda. (3074)

28. mál, almannatryggingar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.og trn. hefur haft til umfjöllunar alllengi 28. mál, frv. hv. Alþfl.-manna um sjúkraflutninga og óhjákvæmilegan ferðakostnað samlagslækna. Þetta frv. var lagt hér fram og mælt fyrir því fyrir áramót. Ég vil nú, áður en ég geri grein fyrir störfum heilbr.- og trn. varðandi umfjöllun þessa máls, minna á það, að líklega stóðu fulltrúar flestra stjórnmálaflokkanna upp hér við umr., þegar mælt var fyrir frv., og lýstu stuðningi við það að vissu leyti, enda þótt engin loforð væru að sjálfsögðu gefin um að það yrði samþykkt óbreytt.

Eins og ég gat um áðan var löng umræða í nefndinni um þetta frv. Við reyndum, eftir því sem okkur þóttu tök á, að leita upplýsinga m.a. um kostnað sem hugsanlega mundi leiða af samþykkt frv. Hins vegar situr eftir mjög mikið mál að því er varðar þetta allt saman þ.e. skipulag sjúkraflutninganna. Þau mál eru raunar algjörlega óleyst eftir sem áður. Gert var ráð fyrir í frv. að þessi kostnaður, þ.e. bæði ferðakostnaður samlagslæknanna og flutningskostnaður sjúklinga, yrði greiddur að fullu.

Nefndinni þótti ekki fært að ganga svo langt. Niðurstöður eru birtar í brtt. og ég held að það sé gleggst að ég lesi upp með leyfi forseta þær till. sem nefndin hefur fram að færa og eru birtar á þskj. 570.

Nefndin leggur til að stafliður h í 43. gr. orðist svo, með leyfi forseta:

„Óhjákvæmilegan ferðakostnað samlagslæknis til þeirra samlagssjúklinga, sem ekki eru ferðafærir sökum sjúkdóms síns, ef um lengri vegalengd er 10 km er að ræða á landi eða nota verður skip eða flugvélar við flutninga.“

Eins og þetta var áður í almannatryggingalögunum var gert ráð fyrir að ferðakostnaður þessi yrði greiddur að hálfu ef læknir notaði eigið farartæki, ella að ¾ hlutum. Sú breyting, sem hér hefur verið tíunduð, gerir ráð fyrir að allt verði greitt fram yfir 10 km vegalengd.

Samkv. brtt. nefndarinnar er gert ráð fyrir að stafliður i orðist þannig:

„Óhjákvæmilegan flutningskostnað sjúks manns í sjúkrahús innanlands, ef um lengri vegalengd en 10 km er að ræða á landi eða ef nota verður skip eða flugvélar við flutningana, enda sé flutningsþörf svo bráð og heilsu hins sjúka svo varið, að hann verði ekki fluttur eftir venjulegum farþegaflutningsleiðum. Sjúkraflutningur innanbæjar greiðist því ekki og frá kostnaði við sjúkrabifreið dregst kostnaður vegna fyrstu 10 km og frá kostnaði við skip eða flugvélar dragast 500 kr. Sömu reglur skulu gilda um flutning sjúks manns úr sjúkrahúsi í heimahús, enda verði hann ekki fluttur eftir venjulegum farþegaflutningsleiðum. Flutningskostnaður milli sjúkrahúsa greiðist að fullu af því sjúkrahúsi sem sendir sjúkling, nema um sé að ræða flutning milli sjúkrahúsa í sama sveitarfélagi og heilsu sjúklings sé þannig varið, að hann geti notað venjulegar farþegaflutningsleiðir.

Sé fylgd nauðsynleg greiðist fargjald fylgdarmanns og að 14 ef um áætlunarferð er að ræða.“ Meginbreytingarnar eru sem sagt þær, að tekið er til greiðslu úr almannasjóðum að mestu leyti þar sem flutningur er fram yfir 10 km vegalengd. Allt að 10 km greiða almannatryggingarnar eða almannasjóðir ekki.

Ég gat um það áðan og vil endurtaka það, að okkur þótti ekki fært á þessu stigi að ganga lengra. Að dómi okkar nm. er tekinn þarna sár broddur af þeim kostnaði sem hefur lent með miklum þyngslum á örfáa einstaklinga í landinu. Þetta er niðurstaða sem við getum sætt okkur við. Ég gat um það áðan, að skipulag sjúkraflutninganna þyrfti að taka til rækilegrar endurskoðunar. Það er von mín að svo verði gert. Ekki síst í ljósi þess þótti okkur eðlilegt að ganga ekki lengra í þessum efnum að svo stöddu.

Þessar breytingar hafa óhjákvæmilega í för með sér kostnað fyrir almannasjóði. Við fengum aðstoð frá Jóni Sæmundssyni í heilbr.- og trmrn. til þess að gera grófa áætlun um hverjar tölur þetta kynnu að verða. Samkv. staflið h hefði kostnaðaraukning orðið 255 þús.kr. hefði þessi breyting verið í gildi á liðnu ári, samkv. staflið í flug- og landflutningar 285 þús. og flutningar milli sjúkrahúsa 150 þús. eða samtals 690 þús. kr. Á verðlagi þessa árs hefði þessi kostnaður orðið allt árið um 920 þús. kr. Að gefnu tilefni vil ég taka fram að þessi kostnaðaráætlun hlýtur að vera mjög gróf. Það er erfitt að finna þetta nákvæmlega út, en ég hygg að þær tölur, sem hér eru tíundaðar, séu ekki mjög fjarri sannleikanum.

Nefndin leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef kynnt hér.